• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Jul

Stuðningsyfirlýsing við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur samþykkt ályktun þar sem lýst er yfir afdráttarlausum stuðningi við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í þeirri skelfilegu kjaradeilu sem þeir eiga í þessa daganna við Launanefnd sveitarfélaga. 

Í ályktunni kemur t.d fram eftirfarandi: "Stjórn VLFA  lýsir einnig yfir gríðarlegum vonbrigðum með það skilningsleysi sem Launanefnd sveitarfélaga sýnir Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í þessari deilu. 

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn gegna afar veigamiklum störfum er varða öryggi, líf og heilsu landsmanna og eru þessir aðilar að starfa við mjög erfiðar og jafnvel hættulegar aðstæður á degi hverjum.

Á þeirri forsendu krefst stjórn Verkalýðsfélags Akraness þess að Launanefnd sveitarfélaga komi verulega til móts við kröfur Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og gangi frá nýjum kjarasamningi tafarlaust".

Hægt að lesa stuðningsyfirlýsinguna í heild sinni með því að smella á meira.

 

Ályktun

 

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness  lýsir yfir afdráttarlausum  stuðningi við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í þeirri skelfilegu kjaradeilu sem þeir standa í um þessar mundir við Launanefnd sveitarfélaga. Stjórn VLFA  lýsir einnig yfir gríðarlegum vonbrigðum með það skilningsleysi sem Launanefnd sveitarfélaga sýnir Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í þessari deilu.

Það var dapurlegt að verða vitni að því þegar Launanefnd sveitarfélaganna lagði fram tilboð sem kvað einungis á um launahækkun uppá 1,4%. Sú launahækkun átti ekki að gilda afturvirkt frá 1. júlí 2009 þegar samningur slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna rann út heldur einungis frá undirritun nýs samnings. Með því átti að hafa launahækkun af þessari mikilvægu starfsstétt í heilt ár. Slíkt er til skammar.

Launanefnd sveitarfélaga skýlir sér á bakvið stöðugleikasáttmálann sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands stóðu m.a. annars að, en bæði Sa og ASÍ hafa nú sagt sig frá áðurnefndum sáttmála. Það er sorgleg staðreynd að umræddur stöðugleikasáttmáli hefur ekki gert neitt annað en að stórskaða íslenska launþega.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir undrun að einstaklingur sem hefur störf hjá slökkviliði eða sjúkraflutningum skuli hafa einungis hafa grunnlaun sem nema 169.827 kr.á mánuði. Slík grunnlaun eru til skammar fyrir þá sem á þeim bera ábyrgð.

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn gegna afar veigamiklum störfum er varða öryggi, líf og heilsu landsmanna og eru þessir aðilar að starfa við mjög erfiðar og jafnvel hættulegar aðstæður á degi hverjum.

Á þeirri forsendu krefst stjórn Verkalýðsfélags Akraness þess að Launanefnd sveitarfélaga komi verulega til móts við kröfur Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og gangi frá nýjum kjarasamningi tafarlaust.

Akranesi 20. júlí 2010


F.h. stjórnar Verkalýðsfélags Akraness,

________________________________
Vilhjálmur Birgisson
formaður

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image