• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

09
Apr

Fundur að hefjast hjá Ríkissáttasemjara

Núna klukkan 10 er að hefjast samningafundur í húsakynnum Ríkissáttasemjara vegna kjaradeilunnar við Norðurál. Á síðasta fundi, sem haldinn var sl. miðvikudag, lagði samninganefnd stéttarfélaganna fram nýtt tilboð sem forsvarsmenn Norðuráls hafa haft til skoðunar síðan þá. Á fundinum í dag munu forsvarsmenn Norðuráls svara tilboði stéttarfélaganna efnislega.

Að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness er gríðarlega mikilvægt að á næstu dögum náist niðurstaða hjá samningsaðilum þar sem mikillar óþreyju gætir nú hjá starfsmönnum Norðuráls sem hafa verið með lausan kjarasamning síðan um áramót.

09
Apr

Góður rekstur Verkalýðsfélags Akraness

Á fundum allra stjórna Verkalýðsfélags Akraness í gærkvöldi kynntu endurskoðendur félagsins ársreikninga 2009. Það verður að segjast alveg eins og er að afkoma félagsins var afar góð á síðasta ári þrátt fyrir þær hremmingar sem gengið hafa yfir atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar.

Sem dæmi þá lækka iðgjaldatekjur ekki á milli ára, þrátt fyrir mikinn samdrátt á vinnumarkaðnum heilt yfir og sýnir það þann styrk sem félagið býr yfir og nokkuð stabílt atvinnuástand. Það er alveg ljóst að veiðar á hval höfðu töluverð áhrif, enda höfðu upp undir 100 manns atvinnu af hvalnum og voru meðaltekjur þeirra sem þar störfuðu yfir 500.000 krónur á mánuði.

Rekstrarafgangur var af öllum sjóðum félagsins, en heildarrekstrarafgangur samstæðunnar nam rúmum 95 milljónum króna. Það er gríðarlegur styrkur í því fyrir Verkalýðsfélag Akraness að afkoman skuli vera jafn góð og raun ber vitni enda hefur stjórn félagsins undanfarin ár aukið við hina ýmsu þjónustu til handa félagsmönnum í ljósi góðrar afkomu. Á það jafnt við um sjúkrasjóð félagsins sem og hina ýmsu möguleika í orlofsmálum, nægir þar að nefna Veiðikort, Útilegukort og gistingu á Edduhótelum. Þetta er ekki hægt að gera nema þegar rekstur félagsins er jafn góður og raun ber vitni um.

Það er allt í lagi að rifja það upp að þegar núverandi stjórn tók við í lok árs 2003, þá var félagið rekið á yfirdrætti. Á þessum rúmum 6 árum hefur núverandi stjórn tekist að snúa rekstri félagsins algerlega við, bæði félagslega og fjárhagslega. Á þessum tíma hefur félagsmönnum líka fjölgað umtalsvert eða um 87%. Þetta sýnir að fólk telur hag sínum vel borgið í sterku og öflugu stéttarfélagi.

Aðalfundur félagsins verður haldinn miðvikudaginn 21. apríl kl. 18:00  í Gamla kaupfélaginu, Kirkjubraut 11, Akranesi. Skorar stjórn félagsins á félagsmenn að mæta, en boðið verður upp á kvöldverð að loknum fundi.

07
Apr

Samningafundi var að ljúka

Rétt í þessu var að ljúka samningafundi vegna kjarasamnings Norðuráls og var fundurinn undir handleiðslu ríkissáttasemjara. Samninganefnd stéttarfélaganna lagði fram nýtt tilboð til handa forsvarsmönnum Norðuráls og byggist það tilboð algjörlega á þeim launasamanburði sem samninganefndin hefur unnið að að undanförnu. Í þeim samanburði kemur fram að launamunurinn getur numið nokkrum tugum þúsunda á mánuði í sumum tilfellum.

Forsvarsmenn Norðuráls tóku við tilboðinu og hafa það nú til skoðunar og lagði ríkissáttasemjari fram tillögu um að fresta fundi þar til á föstudaginn en þá munu forsvarsmenn Norðuráls svara tilboði stéttarfélaganna efnislega. Það er gríðarlega mikilvægt að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness að samningsaðilar fari að komast að niðurstöðu, einfaldlega vegna þeirrar óþreyju sem eðlilega er farið að gæta meðal starfsmanna fyrirtækisins. Það er einnig mat hans að deiluaðilar þurfi að komast samkomulagi eigi síðar en í byrjun næstu viku en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá eru nokkur atriði sem samninganefndin mun ekki hvika frá og eitt þeirra er jöfnun launa við sambærilegar verksmiðjur.

Formaður félagsins ætlar að leyfa sér að vera hóflega bjartsýnn á að lausn á þessari erfiðu deilu finnist í næstu viku, alla vega er það von hans að svo verði.

06
Apr

Fundað á morgun hjá ríkissáttasemjara

Á morgun verður samningafundur hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls en hálfur mánuður er nú liðinn frá því að fundað var síðast. Það er ljóst að það er farið að gæta verulegrara órþeyju hjá starfsmönnum þannig að það mæðir mikið á samninganefndum deiluaðila að vinna af fullum krafti að lausn þessarar deilu. l

Krafa samningarnefndar stéttarfélaganna er hvellskýr það er að laun verði jöfnuð á við Elkem og Alcan í Straumsvík.  Frá þeirri sanngjörnu kröfu mun formaður Verkalýðsfélags Akraness alls ekki víkja.

03
Apr

Búnir að fá uppundir 12 tonn af grásleppuhrognum

Það er óhætt að segja að þeir félagar Eiður Ólafsson og Kristófer Jónsson á Ísak Ak 67 séu að gera ágætis hluti þessa dagana, en þeir komu í land í gær með 26 tunnur af grásleppuhrognum sem gera yfir þrjú tonn af hrognum.

Þeir félagar eru búnir að fá uppundir 12 tonn af hrognum síðan þeir byrjuðu á grásleppuvertíðinni þann 10. mars sl.  Þessi veiði hingað til verður að teljast mjög góð og ekki spillir fyrir að verðið á grásleppuhrognum er í sögulegu hámarki um þessar munir eða um 1000 kr. fyrir kílóið.

Þeir félagar á Ísak Ak kalla ekki allt ömmu sína enda þekktir fyrir harða sjósókn og að vera harðduglegir. Það er alveg morgunljóst að íslenskir sjómenn eru þeir aðilar sem munu hjálpa okkur Íslendingum hvað mest að vinna okkur úr þessum efnahagshremmingum sem nú steðjar að þjóðinni. Það eru jú þeir sem skapa hvað mestar gjaldeyristekjur fyrir þessa þjóð.

Þeir félagar á Ísak Ak tilheyra sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness og er félagið stolt af því að hafa slíka jaxla í félaginu.

31
Mar

Ágúst Hafberg veður villu vegar

Ágúst Hafberg, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli, fer mikinn á vefmiðli Víkurfrétta í dag. Þar segir Ágúst m.a. ummæli formanns VLFA og framsetning launasamanburðar vera mjög villandi. Einnig segir Ágúst: "Varðandi grunnlaunin verður að hafa í huga að vaktakerfi fyrirtækjanna eru gjörólík og samsetning launa ólík. Miðað við síðustu áramót eru byrjunarlaun starfsmanns hjá Norðuráli um 364.000 krónur sem er hærra en í öðrum álverum og stóriðjufyrirtækjum á Íslandi".

Það er rétt hjá Ágústi að byrjunarlaun vaktavinnumanns hjá Norðuráli með öllu eru 364.000 krónur. Hins vegar segir hann ekki frá því hversu margar vinnustundir liggja að baki þessari tölu, en þær eru 182 á mánuði. Hjá Alcan eru heildarlaun byrjanda með öllu, skv. samanburði sem Norðurál hefur sjálft gert, 350.000 krónur. En þar á bak við liggja 145,6 tímar. Þetta er mismunur upp á 36,4 tíma á mánuði og starfsmenn Norðuráls eru því með 14.000 krónum hærri laun fyrir þessar 36 klukkustundir á mánuði.

Þegar launasamanburður vaktavinnufólksins er settur niður á einingar, það er að segja sama vinnustundafjölda, þá liggur fyrir að munurinn á milli Alcan og Norðuráls er bilinu 40 til 50 þúsund krónur á mánuði, Alcan í vil.

Rétt er að minna á að fovarsmenn Norðuráls hafa sjálfir gert launasamanburð  þar sem kemur fram að launamunurinn sé umstalsverður  á milli áðurnefndra verksmiðja starfsmönnum Norðuráls í óhag.

Þegar fyrirtækið sakar nú formann Verkalýðsfélags Akranes fyrir villandi launasamanburð, þá er ekki annað hægt en að vísa því aftur til föðuhúsanna.

Ágúst gagnrýnir formann Verkalýðsfélags Akraness líka fyrir hafa "ítrekað komið með yfirlýsingar um rekstur Norðuráls sem sýna að hann hefur enga þekkingu á rekstri eða rekstrarumhverfi fyrirtækisins". Formaður Verkalýðsfélags Akraness skoðaði rekstur fyrirtækisins allt aftur til ársins 1998 og studdist þar við samantekt Frjálsrar Verslunar á 300 stærstu fyrirtækjunum á Íslandi. Þar fram kemur að Norðurál hafi skilað hagnaði árin frá 1998 til 2008 upp á samtals 36 milljarða króna og að fyrirtækið hafi skilað 16 milljörðum í hagnað árið 2008? Er þetta rangt? Þetta eru rök sem formaður hefur haldið á lofti.

Hvað sagði ekki Ágúst Hafberg sjálfur í Skessuhorni í fyrra þegar fyrirtækið skilaði 16 milljörðum í hagnað? Hann sagði að rekstur Norðuráls á Grundartanga væri á heimsmælikvarða. Núna segja forsvarsmenn Norðuráls að það hafi verið tap á síðasta ári. Formaður ætlar ekki að þræta fyrir það að svo hafi verið en finnst það reyndar skjóta skökku við ekki hafi dugað að reka verksmiðjuna með hagnaði á 1700 dollurum tonnið, sérstaklega í ljósi þess að fjármálastjóri móðurfélagsins Century sagði í nóvember á síðasta ári að mögulegt hafi verið að reka álverið á Grundartanga á sléttu á 1275 dollurum.

Að lokum vill formaður sýna með afgerandi hætti hver hinn raunverulegi launamunur er og þar af leiðandi hversu mikið laun starfsmanna Norðuráls þurfa að hækka til að jöfnun launa hafi átt sér stað á við hinar verksmiðjurnar. Þetta er hinn raunverulegi launamunur sem samninganefnd stéttarfélaganna hefur unnið í samráði við hagfræðing Alþýðusambands Íslands og þar kemur nákvæmlega fram hvað laun starfsmanna Norðuráls þurfa að hækka um til að jafna laun á við hinar verksmiðjurnar hjá Elkem og Alcan..

Formaður spyr sjálfan sig, hví í ósköpunum eiga starfsmenn Norðuráls að vera á lakari kjörum sem nemur tugum þúsunda króna á við mánaðarlaun starfsbræðra þeirra í öðrum sambærilegum verksmiðjum? Það er morgunljóst að við það mun Verkalýðsfélag Akraness alls ekki una.

30
Mar

Starfsmenn Norðuráls vilja láta kjósa um verkfallsheimild

Samninganefnd stéttarfélaganna stóð fyrir fundi í gær með starfsmönnum Norðuráls þar sem þeim var kynnt staðan í kjaradeilu við forsvarsmenn Norðuráls.

Það er skemmst frá því að segja að frábær mæting var á fundinn en rúmlega tvö hundruð manns mættu og greinilegt var að það ríkir mikil samstaða á meðal starfsmanna að ná fram jöfnun launa á við sambærilegar verksmiðjur. Formaður samninganefndar fór yfir stöðuna lið fyrir lið, kynnti launasamanburð sem gerður hefur verið og þær meginkröfur sem samninganefnd heldur á lofti.

Það kom skýrt fram hjá formanni samninganefndar að það ber gríðarlega mikið á milli samningsaðila ennþá og á þeirri forsendu hafi ríkissáttasemjari tekið ákvörðun um að hvíla þessar viðræður til 6. apríl næstkomandi. En eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er krafa stéttarfélaganna einfaldlega sú að laun starfsmanna Norðuráls verði jöfnuð við laun Alcan í Straumsvík. Í þessum samanburði sem kynntur var í gær á fundinum kemur fram að í sumum tilfellum munar tugum þúsunda á mánuði þegar borið er saman einingaverð.

Það er ljóst að það var töluverður hiti í starfsmönnum og kom tillaga frá þeim að stéttarfélögin létu kjósa um verkfallsheimild á meðal starfsmanna. Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness sem jafnframt er formaður samninganefndar að stéttarfélögunum beri að fara eftir þessari kröfu starfsmanna og hefur hann nú þegar kallað samninganefnd saman til fundar í fyrramálið þar sem undirbúningur að verkfallsheimild verður hafinn.

29
Mar

Minnum á fundinn í kvöld

Samninganefnd stéttarfélaganna vill minna starfsmenn Norðuráls á áríðandi fund í kvöld vegna þeirrar grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu um nýjan kjarasamning. Á fundinum mun formaður samninganefndar gera grein fyrir stöðunni og í framhaldi af því munu starfsmenn geta spurt samninganefndina um það sem fram hefur farið í þessum erfiðu kjaraviðræðum.

Fundurinn hefst klukkan 20:30 í Gamla kaupfélaginu og eru starfsmenn eindregið hvattir til að mæta.

26
Mar

Rúmar 6 milljónir greiddar í námsstyrki árið 2009

Endurskoðendur félagsins hafa að undanförnu verið að vinna í ársreikningi félagsins og liggja nú fyrir fyrstu drög sem sýna afkomu félagsins síðasta starfsár. Það er afar ánægjulegt að rekstur félagsins heldur áfram að ganga vel og er til að mynda rekstrarafgangur af öllum sjóðum félagsins þrátt fyrir erfiðleika á atvinnumarkaðnum.

Greiddar voru út úr sjúkrasjóði félagsins um 24 milljónir króna í formi sjúkradagpeninga og annarra styrkja, til dæmis heilsueflingarstyrks og gleraugnastyrks svo eitthvað sé nefnt af þeim styrkjum sem félagið býður upp á. Greiddar voru út úr þeim starfsmenntasjóðum sem félagið er aðili að rúmar 6 milljónir króna sem er töluverð aukning á milli ára en það er greinilegt að félagsmenn hafa verið mjög duglegir við að sækja hin ýmsu námskeið og endurmenntunarúrræði sem að í boði eru.

Aðalfundur félagsins verður einhvers staðar í kringum 20. apríl og verður haldinn í Gamla kaupfélaginu en fundurinn verður auglýstur fljótlega í staðarblöðum og hér á heimasíðunni.

25
Mar

Áríðandi fundur með starfsmönnum Norðuráls

Samninganefnd stéttarfélaganna boðar til áríðandi fundar vegna grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu við forsvarsmenn Norðuráls.

Fundurinn verður haldinn mánudaginn 29. mars kl. 20:30 í Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11, Akranesi.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem jafnframt er formaður samninganefndar, mun gera starfsmönnum ítarlega grein fyrir stöðunni og munu starfsmenn geta spurt samninganefndina um hin ýmsu atriði sem lúta að kjarasamningsgerðinni.

Eins og áður hefur komið fram er staðan grafalvarleg og er það mat samninganefndar að það hafi gætt afskaplega lítils samningsvilja af hálfu forsvarsmanna Norðuráls og við slíka framkomu ætlar samninganefndin ekki að sætta sig við.

Krafan er, eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins, það er að launakjör starfsmanna Norðuráls verði með sambærilegum hætti og gerist hjá starfsmönnum Alcan í Straumsvík.

Þessi krafa byggist á mjög sanngjörnum hætti enda hefur Verkalýðsfélag Akraness bent á að rekstur Norðuráls hefur gengið frábærlega þau 12 ár sem fyrirtækið hefur verið með starfsemi á Grundartanga en heildarhagnaður fyrirtækisins á umræddu tímabili eru um 36 milljarðar króna. Og það er ekki bara að reksturinn hafi gengið þetta vel heldur hafa gengisbreytingar á gjaldmiðlinum okkar verið útflutningsfyrirtækjum afar hagstæð frá árinu 2008.

Til að sýna fram á hvernig gengisbreytingarnar hafa unnið Norðuráli í hag, þá selur Norðurál sínar afurðir í dollurum en greiðir laun í íslenskum krónum.

Árið 2006 greiddi Norðurál 1,8 milljarð íslenskra króna í laun. Á gengi þess tíma gerir þessi upphæð í dollurum talið 26 milljónir USD í launakostnað. Árið 2009 eru greiddir í íslenskum krónum rúmir 3 milljarðar í laun enda fjölgaði starfsmönnum um tæpa 170 og einnig komu kjarasamningsbundnar launahækkanir fram á tímabilinu. Hins vegar var launakostnaðurinn árið 2009 í dollurum talið samt sem áður 26 milljónir Bandaríkjadala. Eða sem sagt nánast sama upphæð í dollurum talið og greidd var árið 2006 þrátt fyrir að starfsmönnum hafi fjölgað um 170 og kjarasamningsbundnar launahækkanir hafi komið til framkvæmda.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst hvernig gengið hefur verið að hjálpa Norðuráli, sem og öðrum útflutningsfyrirtækjum gríðarlega. Á þeirri forsendu er grátlegt og dapurlegt að verða vitni að því að þetta fyrirtæki skuli ekki sýna þann sóma að ganga að þeirri sanngjörnu kröfu að greidd séu sömu laun og í annarri sambærilegri álverksmiðju.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image