• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Jun

Ætlar ríkisstjórnin virkilega að virða dóm hæstaréttar að vettugi?

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, kallar eftir víðtækri samstöðu ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu um það að eyða óvissu um hvernig skuli fara með gengistryggðu lánin. Formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr: Hvað er forsætisráðherrann að fara með slíkum málflutningi? Er ekki búið að kveða upp dóm í hæstarétti sem kveður skýrt á um hvernig taka eigi á gengistryggðu lánunum? Ætlar þessi ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, velferð og jöfnuð að virða dóm hæstaréttar að vettugi?

Það liggur fyrir að hæstiréttur dæmdi gengisbundin lán í íslenskum krónum ólögmæt. Hæstiréttur var ekki að dæma að þeir vextir sem tilgreindir voru í samningunum væru ólöglegir og á þeirri forsendu eiga umræddir vextir að standa. Það er ótrúlegt að verða vitni að því að þegar dómur fellur sem er hagstæður fyrir skuldsett heimili þá ætlar allt um koll að keyra hjá íslenskum stjórnvöldum. Að menn eins og Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra byrji að reka skefjalausan hræðsluáróður um að allt fari fjandans til ef fjármálastofnanir sem brutu lög þurfi að fara eftir dómi hæstaréttar. Íslensk alþýða er ekki búin að gleyma hvernig ríkisstjórn Íslands hjálpaði fjármagnseigendum þegar bankakerfið hrundi en eins og allir vita þá settu íslensk stjórnvöld 200 milljarða inn í peningamarkaðssjóðina og tryggðu einnig allar innistæður í bönkum. Á þessu sést að íslensk stjórnvöld eru tilbúin til að verja fjármagnseigendur með kjafti og klóm á meðan skuldsettum heimilum er gert að greiða allar sínar skuldir og jafnvel þó umrædd lán standist ekki íslensk lög. En þegar kemur að því að fjármálastofnanir þurfi að fara eftir dómi hæstaréttar þá er það mat stjórnvalda að það gangi ekki upp.

Eru menn búnir að gleyma því sem fram kom í rannsóknarskýrslu alþingis en þar kemur fram að bankarnir hafi tekið stöðu gegn íslensku krónunni með skelfilegum afleiðingum fyrir samfélagið allt. Þetta samfélag okkar er orðið endanlega sjúkt ef stjórnvöld ætla að hunsa dóma frá hæstarétti. Það er í raun grátbroslegt að verða vitni að viðbrögðum ríkisstjórnarinnar í hinum ýmsu málum er lúta að verkafólki og skuldsettum heimilum í ljósi þess að stjórnin segist hafi félagshyggju, velferð og jöfnuð að leiðarljósi í sínum störfum. Eitt er víst að formaður VLFA hefur ekki orðið var við slík vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnar Íslands, svo mikið er víst.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á alþýðu þess lands að standa nú saman og láta stjórnvöld ekki komast upp með að níðast áfram á skuldsettum heimilum.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image