• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Jun

Grípa á til róttækra aðgerða vegna tilmæla Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gerir ekki athugasemdir við ákvörðun Seðlabankastjóra og FjármálaeftirlitsinsFramkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gerir ekki athugasemdir við ákvörðun Seðlabankastjóra og FjármálaeftirlitsinsSá ótrúlegi atburður er að gerast hér á landi að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafa sent fjármálafyrirtækjum þau tilmæli að þeim beri að endurreikna þau lán sem innihalda gengistryggingarákvæði sem eru óskuldbindandi samanber dóma hæstaréttar. Ekki verði miðað við upphaflega vexti lánanna sem í mörgum tilvikum voru í kringum þrjú prósent, heldur vexti sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum sem nú gilda á lánamarkaði. Með þessum tilmælum eru þau að hafa dóm hæstaréttar að engu.

Aðilar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og einnig einstaka ráðherrar hafa talað um að það þurfi að eyða óvissu varðandi vaxtakjör í þessum lánasamningum. Rétt er að geta þess að á borgarafundi í Iðnó kom það skýrt fram hjá Ragnari Baldurssyni lögmanni sem rak annað dómsmálið fyrir hæstarétti að dómur hæstaréttar væri hvellskýr og menn væru að búa til óvissu. Hann sagði að þeir vextir sem væru tilgreindir í lánasamningunum ættu skýlaust að standa óhaggaðir enda væri dómurinn afar afdráttarlaus.

Það er nöturlegt að verða vitni að því hvernig á að halda áfram að níðast á skuldsettum heimilum þessa lands og ekki undir nokkrum kringumstæðum getur alþýða þessa lands látið þetta átölulaust. Það var viðtal við Vilhjálm Egilsson framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins þar sem hann talar með sama hætti og fulltrúar Seðlabankans, fjármálaráðuneytisins og viðskiptaráðherra um að það þurfi að eyða óvissu um gengistryggðu lánin, einfaldlega vegna þess að þau eru hagstæð almenningi þessa lands. Það á að láta neytendur njóta vafans og það eru fjármálastofnanirnar sem eiga að sækja sinn rétt fyrir dómstólum ef þeir telja að vaxtakjörin sem tilgreind eru í samningunum sem eru flestir í kringum 3%, eigi ekki að standa. En í þessum tilmælum sem gefin voru út í morgun er verið að tala um að vextirnir verði 8,25% sem er umtalsvert hærra heldur en getið er um í þeim lánasamningum sem um ræðir.

Verkalýðshreyfingar um víða veröld myndu klárlega grípa til allsherjar aðgerða eins og til dæmis allsherjarverkfalla ef þau yrðu vitni að öðru eins óréttlæti eins og almenningur í þessu landi er að upplifa. Á þeirri forsendu er full ástæða fyrir Alþýðusamband Íslands að beina þeim tilmælum til aðildarfélaga sinna að grípa til róttækra aðgerða vegna þessarar ákvörðunar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins þar sem þau skilaboð eru send út að dómar hæstaréttar gildi ekki fyrir fjármálakerfið heldur einungis fyrir sauðsvartan almúgan.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hvetur alþýðu þessa lands til að standa saman og sýna íslenskum stjórnvöldum fulla hörku og það verði ekki liðið að dómar hæstaréttar gildi ekki fyrir alla í þessu landi. Oft hefur verið þörf fyrir samstöðu en nú er nauðsyn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image