• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Jul

Ríkisstjórnin virðist standa á bakvið tilmælin

Mótmæli voru við Seðlabankann í dagMótmæli voru við Seðlabankann í dagYfir 400 manns mættu við Seðlabanka Íslands til að mótmæla þeim tilmælum sem Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafa beint til fjármálafyrirtækja. Þar segir að þau skuli miða við lægstu vexti SÍ við endurútreikning lána í íslenskum krónum sem voru gengistryggð. Formaður Verkalýðsfélags Akraness styður þessi mótmæli heilshugar en því miður sá hann sér ekki fært að mæta vegna anna en mun klárlega mæta verði framhald á mótmælum vegna þess ofbeldis sem íslensk stjórnvöld hafa sýnt skuldsettum heimilum að undanförnu.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er það mat formanns að eðlilegra og réttara hefði verið að dómur hæstaréttar hefði staðið og fjármögnunarfyrirtækin hefðu sótt fyrir dómi önnur vaxtakjör heldur en getið er um í samningunum ef þau telja að brotið hafi verið á þeim. Það er nöturlegt að verða vitni að því hvernig íslensk stjórnvöld taka upp hanskann fyrir fjármögnunarfyrirtæki sem hafa mörg hver hagað sér með dólgslegum hætti gagnvart sínum viðskiptavinum og nú þegar dómur féll sem var hagstæður íslenskum heimilum þá virðist vera að ríkisstjórn Íslands hafi í reykfylltum bakherbergjum unnið að því að fá Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið til að senda út áðurnefnd tilmæli. 

Nú tala menn um að þessi dómur sé ekki sanngjarn fyrir fjármögnunarfyrirtækin og á þeirri forsendu hafi þurft að grípa til þessara ráðstafana. Hvað með sanngirnina þegar afskrifaðar voru skuldir til dæmis hjá Ólafi Ólafssyni í Samskip upp á 88 milljarða en eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá sagði Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra að kostnaður við dóm hæstaréttar væri í kringum 100 milljarðar. Bara þessi eini einstaklingur, Ólafur Ólafsson, hefur fengið afskriftir upp á tæpa 100 milljarða. Að ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, velferð, jöfnuð og síðast en ekki síst réttlæti, skuli standa á bakvið þessa herferð gegn íslenskum heimilum er ótrúlegt og í raun og veru lyginni líkast.

Það er gríðarlega mikilvægt að almenningur í þessu landi berjist með kjafti og klóm fyrir því að réttlætið í þessu máli nái fram að ganga og geri þá skýlausu kröfu á íslensk stjórnvöld að þessi tilmæli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins verði tafarlaust dregin til baka. Við annað verður ekki unað.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image