• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

25
May

Áframhaldandi starfsemi Smellinn á Akranesi tryggð

Áframhaldandi starfsemi einingaverksmiðju Smellinn á Akranesi hefur nú verið tryggð með yfirtöku Arion banka á rekstri verksmiðjunnar.

Fyrir helgi var öllum starfsmönnum var sagt upp störfum, um 20 talsins. Nú hafa 15 starfsmenn verið endurráðnir, þannig að 5 manns misstu vinnuna við yfirtökuna. Samkvæmt þeim upplýsingum sem félagið hefur aflað sér þá hafa þeir 15 sem eftir eru þurft að taka á sig einhvers konar launaskerðingu.

Félagið á eftir að yfirfara þá ráðningasamninga sem starfsmenn hafa gert við hinn nýja eiganda.

21
May

Hvalafrumvarpinu frestað fram á haustþingið

Á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis í dag var ákveðið að taka hvalafrumvarpið, sem verið hefur mikið í umræðunni að undanförnu út af málaskrá vorþings, en þessi í stað endurflytja það á Alþingi næst haust. 

Ástæður sem nefndin tilgreinir vegna þessarar ákvörðunar eru tvær. Að umrætt hvalafrumvarp sé ekki forgangsmál ríkisstjórnarinnar og óheppilegt sé að skipta um veiðileyfi á miðri vertíð.

Atli Gíslason alþingismaður og formaður nefndarinnar tilgreindi á fundi nefndarinnar í dag að hann væri andvígur breytingum á fyrirkomulagi veiðileyfa á miðri vertíð eins og stefndi í ef frumvarpið hefði verið samþykkt nú á vorþinginu. 

Kristjáni Loftssyni framkvæmdastjóra Hvals hf. mun hafa verið tilkynnt um þessa ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Kristján hafði látið að því liggja að ef umrætt frumvarp yrði samþykkt á vorþinginu myndi hann ekki senda skipin til hvalveiða í vor. 

Samkvæmt þessu ætti frumvarpið sem slíkt ekki að verða fyrirstaða þess að hvalvertíð geti hafist innan tíðar, veiðarnar munu skapa um 150 störf þegar þær verða komnar á fulla ferð.

20
May

Formannafundur ASÍ á þriðjudaginn

Alþýðusamband Íslands hefur boðað til formannafundar nk. þriðjudag. Dagskrá fundarins er aðallega um skipulagsmál ASÍ og stefnumál þess í lífeyrismálum gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Það var haldinn fundur um stefnumótun ASÍ í málefnum lífeyrissjóðanna í febrúar og var sá fundur einmitt hugsaður til þess að móta stefnu ASÍ í samningnum við Samtök atvinnulífsins um lífeyrissjóðsmál.

Það kom fram hjá fjölmörgum fundarmanna á þessum stefnumótunarfundi í febrúar að vilji væri til að auka lýðræðið við stjórnarkjör í lífeyrissjóðum en eins og flestir muna þá hefur Verkalýðsfélag Akraness barist fyrir því að tekið verði upp sjóðsfélagalýðræði þar sem stjórnarmenn verði allir kosnir beinni kosningu af sjóðsfélögunum sjálfum. En núverandi fyrirkomulag er með þeim hætti að Samtök atvinnulífsnis fara með helming stjórnarsæta á móti verkalýðshreyfingunni. Nú hefur ASÍ lagt fram stefnumótunardrög og í þeim drögum kemur fram að ekki eigi að breyta neinu hvað varðar helmingaskipti Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar.

Það er að mati formanns VLFA með ólíkindum að ekki skuli vera hlustað á hinn almenna félagsmann og sjóðsfélaga þar sem krafan hefur verið að sjóðsfélagarnir sjálfir fari með stjórn sjóðanna og hætt verði með helmingaskiptin eins og þau eru í dag. Verkalýðsfélag Akraness lét Capacent Gallup gera könnun varðandi þetta mál og í niðurstöðum hennar kom fram að yfir 72% vildu að sjóðsfélagarnir kysu alla stjórnarmennina beinni kosningu.

Verkalýðsfélag Akraness mun halda áfram að berjast fyrir þessu máli enda er það vilji sjóðsfélaga að lýðræðið í lífeyrissjóðunum verði stóraukið og það er dapurlegt til þess að vita að ASÍ skuli ætla að hunsa vilja sjóðsfélaga hvað það varðar. Verkalýðsfélag Akraness vill líka beita sér af fullum þunga fyrir því að lífeyrisréttindi á hinum almenna vinnumarkaði verði jöfnuð við lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Það er algjörlega óásættanlegt að starfsmenn sem starfa hlið við hlið hafi mismunandi lífeyrisréttindi eftir því hvort þeir eru í opinberu félagi eða ASÍ og getur sá munur numið yfir 30%. Á þessu verður að taka. Verkalýðsfélag Akraness vill einnig beita sér fyrir því að lífeyrissjóðum verði fækkað umtalsvert og sér félagið fyrir sér að það verði einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. En fyrsta skrefið gæti hinsvegar verið það að lífeyrissjóðum innan Starfsgreinasambands Íslands, sem eru um sjö talsins í dag, verði fækkað niður í einn.

18
May

Fundað með starfsmönnum Smellinn

Eins og fram kom í fréttum  í gær þá ákvað Stjórn BM Vallár að leggja fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur beiðni um að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta.  BM Vallá á og rekur einingaframleiðslu Smellinn á Akranesi en hjá Smellinn starfa um 20 starfsmenn.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fór og fundaði með starfsmönnum til að upplýsa þá um þau réttindi sem þeir eiga og þá aðstoð sem félagið hefur uppá að bjóða. Félagið hefur haft samband við lögmann félagsins til að tryggja að réttindi starfsmanna verði tryggð í hvívetna.

Nú rétt fyrir hádegi í dag var skipaður skiptastjóri yfir þrotabúinu og er félagið og starfsmenn að bíða eftir að hann tilkynni hvort fyrirhugað sé að halda úti starfsemi í einingaverksmiðjunni áfram.  Það er alveg ljóst að þessi óvissa sem nú ríkir hjá starfsmönnum er eðlilega mjög óþægileg. 

Nú er bara að vona að starfsemin verði endurreist enda um að ræða mjög gott fyrirtæki sem hefur sannað sig rækilega á undarförnum árum. 

17
May

Framkvæmdum í Ölfusborgum lokið

Í síðustu viku lauk umfangsmiklum framkvæmdum í orlofshúsi félagsins í Ölfusborgum og er húsið nú klárt til útleigu. Miklar breytingar voru gerðar á innviðum hússins, eldhús og baðherbergi endurnýjað í hólf og gólf, hiti lagður í gólfin, milliveggur í stofunni færður til og svefnherbergjum fækkað úr þremur í tvö rúmgóð herbergi. Að auki var reist glæsileg sólstofa við húsið sem eykur notkunargildi hússins talsvert.

Eftir breytingarnar verður óneitanlega rýmra um dvalargesti sem munu vonandi eiga ánægjulega dvöl í Ölfusborgum.

17
May

Veiðikortin koma aftur í vikunni

Gríðarlega mikil aðsókn hefur verið í Veiðikortin sem félagsmenn geta keypt á skrifstofu félagsins. Ákveðið hefur verið að bjóða fleiri kort til sölu og eru þau væntanleg í vikunni. Eins og áður var auglýst er takmarkað magn í boði.

Enn er nóg til af Útilegukortum og Gistimiðum á Edduhótel.

14
May

Hásetahluturinn 5,3 milljónir fyrir 62 daga

Það er óhætt að segja að grásleppuvertíðin hér á Akranesi í ár sé ein sú besta í manna minnum.  Sem dæmi þá hafa þeir félagar Eiður Ólafsson og Kristófer Jónsson á Ísaki Ak 67 fiskað 29,3 tonn af grásleppuhrognum en þeir luku vertíðinni fyrir fáeinum dögum síðan. Þeir félagar á Keili Ak eru einnig að ljúka sinni vertíð en þeir klára sína 62 daga 16. maí og er afli hjá Keilismönnum einnig í kringum 30 tonn sem er frábært. Rétt er að geta þess að vertíðin hjá hverjum grásleppubát er einungis í 62 daga og að fá tæp 30 tonn á þeim dögum er glæsilegur árangur eins og áður sagði.

Það er ekki bara að veiðin hafi verið góð heldur var verðið á grásleppuhrognum í sögulegu hámarki í ár en um 1000 kr. fengust fyrir kílóið upp úr sjó.  Því má áætla að aflaverðmetið sé um 30 milljónir hjá þeim félögum á Ísaki og hásetahluturinn því nálægt 5,3 milljónum fyrir vertíðina sem stóð í 62 daga.  Það hefur áður komið fram hér á heimasíðunni að hér eru á ferðinni miklir jaxlar til sjós og það liggur mikil vinna að baki þessum tekjum.

Þeir félagar á Keili og Ísaki Ak eru félagsmenn í sjómannadeild Verklýðsfélags Akraness og vill félagið óska þeim til hamingju með glæsilega vertíð og að skapa um leið umtalsverðar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið sem ekki veitir af um þessar mundir. 

11
May

Ríkisstjórn Íslands setur 150 störf í óvissu

Ríkisstjórn Íslands hefur nú lagt fram lagafrumvarp um hvalveiðar og er frumvarpið þess valdandi að verið er að setja veiðarnar í fullkomið uppnám ef marka má orð Kristjáns Loftsonar forstjóra Hvals í Morgunblaðinu í morgun.  

Kristján segir í viðtalinu að verði frumvarpið að lögum þá falli niður þau leyfi sem nú séu til staðar og í framhaldinu af samþykkt frumvarpsins færi af stað kerfisvinna sem gæti tekið uppundir 2 mánuði að ganga frá þar til veiðar mættu hefjast að nýju en þá er vertíðinni í raun lokið.  Á Þessari forsendu treystir forstjóri Hvals sér ekki til að ráða 150 manns í vinnu á meðan þetta óvissuástans ríkir.

Formaður veltir fyrir sér hvað sé í gangi hjá þessari Ríkisstjórn, það að stefna 150 störfum í stórhættu í því ástandi sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði er hreint ótrúlegt og er þar vægt til orða tekið.  Það eru um 16.000 þúsund manns án atvinnu í dag þar af eru um 300 manns á Akranesi og að leggja fram frumvarp sem getur leitt til þess að 150 störf glatist er ámælisvert.

Rétt er að geta þess að meðallaun þeirra sem störfuðu hjá Hval í fyrra og voru félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness voru um 570.000 kr.  Vissulega var gríðarleg vinna að baki þessum launum en þessi mikla vinna og tekjumöguleikar standa almennt ekki verkafólki til boða í dag.  Því er það grátlegt að verða vitni að því að ríkistjórnin sé að ógna 150 störfum með þessu frumvarpi sínu.

Verkalýðsfélag Akraness krefst þess að Ríkisstjórn Íslands gangi þannig frá þessu lagafrumvarpi að það ógni á engan hátt komandi hvalavertíð og stefni ekki 150 störfum í óþarfa hættu.  Við Íslendingar eigum að sjálfsögðu að nýta alla okkar nytjastofna, þar með talið hvali að fengnu áliti frá Hafrannsóknarstofnun.

07
May

Stendur ekki til að breyta stjórnarfyrirkomulagi í lífeyrissjóðunum af hálfu ASÍ

Það er greinilegt að það ríkir mikil reiði á meðal hins almenna sjóðsfélaga í lífeyrissjóðunum vítt og breitt um landið. Á ársfundi lífeyrissjóðsins Gildi var töluverð uppákoma þar sem reiðir sjóðsfélagar kröfðust afsagnar stjórnar vegna mikils taps sjóðsins og nú síðast í gær var töluverð reiði hjá sjóðsfélögum á ársfundi lífeyrissjóðsins Stapa en þar var krafist afsagnar framkvæmdastjórans vegna þess að gleymst hafði að lýsa 4 milljarða króna kröfu sem sjóðurinn átti.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skilur þessa gríðarlegu reiði á meðal hins almenna sjóðsfélaga fyllilega enda er það mat hans að stjórnir lífeyrissjóða og stjórnendur þeirra eigi að axla ábyrgð og segja af sér. Í gær birtist grein eftir Vilhjálm Egilsson þar sem hann fer yfir lífeyrissjóðina og þá gagnrýni sem á þeim hefur dunið og kom fram í hans máli að oft væri þetta ómálefnaleg gagnrýni. Hann segir til að mynda á einum stað að sér í lagi hafi sjóðir á vegum Samtaka Atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar orðið fyrir gagnrýni sem oft hafi verið ómálefnalegt gaspur eða beinlínis rógburður. Samkvæmt Viðskiptablaðinu þá kemur fram að Gildi lífeyrissjóður hefur tapað 23 milljörðum króna frá bankahruninu og því spyr formaður sig: Er óeðlilegt að sjóðsfélagar geri alvarlegar athugsemdir við slíkt tap? Rétt er að minna á að sjómenn í Verkalýðsfélagi Akraness eru að greiða í lífeyrissjóðinn Gildi.

Verkalýðsfélag Akraness hefur barist fyrir stórauknu lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og lagði eins og frægt varð fram tillögu á ársfundi ASÍ, tillögu sem gekk út á það að allir stjórnarmenn yrðu kosnir beinni kosningu af sjóðsfélögum og hætt yrði með helmingaskipti verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka Atvinnulífsins. Þessi tillaga var eins og áður hefur komið fram kolfelld á ársfundinum en samþykkt var að efna til stefnumótunarfundar um lífeyrissjóðsmál. Nú liggja fyrir drög frá Alþýðusambandi Íslands um stjórnkerfi lífeyrissjóðanna og það er dapurlegt til þess að vita að í þeim drögum er gert ráð fyrir svokölluðum helmingaskiptum stjórnarmanna áfram. Með öðrum orðum, það á ekki að auka lýðræði við stjórnarval í lílfeyrissjóðunum.

Það er alveg klárt mál að Verkalýðsfélag Akraness mun halda áfram að berjast fyrir því að það verði sjóðsfélagarnir sjálfir sem kjósi stjórnarmennina og stýri sjóðunum sjálfir. Enda eru sjóðirnir eign sjóðsfélaganna og greiðslur í sjóðina eru kjarasamningsbundin réttindi sem áunnist hafa á liðnum árum og áratugum.

06
May

Veiðileyfi og tjaldstæði

Tjaldsvæðið á Þórisstöðum í SvínadalTjaldsvæðið á Þórisstöðum í SvínadalEins og undanfarin ár hefur orlofssjóður Verkalýðsfélags Akraness nú gengið frá samningi við staðarhaldara Þórisstaða í Svínadal um að félagsmenn í VLFA, makar þeirra og börn innan 16 ára geta fengið frítt veiðileyfi í Eyrarvatni, Þórisstaðavatni og Geitabergsvatni í Svínadal. Einnig eiga félagsmenn frían aðgang að tjaldsvæðinu á Þórisstöðum gegn framvísun félagagaskírteinis.

Þessi möguleiki hefur verið vel nýttur af félagsmönnum undanfarin ár, enda aðstaða til útivistar og veiði afskaplega góð í Svínadal. Er vonast til að félagsmenn njóti áfram góðs af þessum samningi eins og undanfarin ár.

Af öðrum verkefnum orlofssjóðs er það helst að frétta að framkvæmdum við hús félagsins í Ölfusborgum fer senn að ljúka. Framkvæmdirnar hafa verið gríðarlega umfangsmiklar þar sem milliveggir voru færðir til, hiti lagður í gólf, skipt um innréttingar og tæki í eldhúsi og baði og ný sólstofa reist við húsið, svo eitthvað sé nefnt.

Hús félagsins í Ölfusborgum verður tilbúið til útleigu 21. maí þegar sumarorlofstíminn hefst, og er stjórn orlofssjóðs fullviss um að betur muni nú fara um félagsmenn í nýuppgerðu húsinu. Þess má geta að húsið var upphaflega byggt árið 1962. Þrátt fyrir sæmilegt viðhald kallaði ástand hússins á endurbætur, ekki síst eftir skjálftann sem reið yfir svæðið í maí 2008 og olli talsverðum skemmdum á húsinu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image