• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Sep

Fátækt er þjóðarskömm

Fjölmennur fundur var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur í gærkvöldi undir yfirskriftinni Fátækt á Íslandi. Formanni VLFA var boðið að sitja í pallborði og svara fyrirspurnum. Auk formanns sátu í pallborði ráðherrarnir Guðbjartur Hannesson og Ögmundur Jónasson, Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, Ásta Sigrún Helgadóttir umboðsmaður skuldara, Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB og Stella Kristín Víðisdóttir og Björk Vilhelmsdóttir frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Framsögu á fundinum höfðu atvinnuleitandi, ellilífeyrisþegi og öryrkjar sem sögðu sögu sína og það var átakanlegt að heyra um baráttu þeirra við að láta enda ná saman á þeirri framfærslu sem þeim býðst úr þeim bótasjóðum sem þeim standa til boða.

Fjölmargar fyrirspurnir bárust til formanns félagsins úr salnum. M.a. um hvort hann teldi að brýnt væri að hið opinbera léti reikna út nákvæman lágmarksframfærslustuðul. Í svari formanns kom skýrt fram að hann telur þetta afar brýnt eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins. Hann upplýsti fundarmenn um að hann hafi skorað á forseta ASÍ að láta hagdeild sambandsins reikna út nákvæman lágmarksframfærslustuðul sem klárlega myndi nýtast verkalýðshreyfingunni vel í baráttunni um að hækkun lágmarkslauna. Reyndar kom einnig fram hjá formanni að hann óttast að hið opinbera vilji alls ekki fá þennan lágmarksframfærslustuðul upp á yfirborðið og hugsanlega myndi það líka koma verkalýðshreyfingunni illa ef þessi stuðull yrði fundinn út því það er mat formanns að lágmarkslaun og bætur duga alls engan veginn fyrir þeirri lágmarksframfærslu sem þarf til að reka heimili hér á landi. Formaður sagði að öll Norðurlöndin að undanskildum Noregi væru með opinber lágmarksframfærsluviðmið. Á þeirri forsendu væri óskiljanlegt að slíkt væri ekki búið að gera hér á landi.

Formaður fékk einnig spurningu um stöðugleikasáttmálann sem gerður var á síðasta ári þar sem megininntak hans var fólgið í því að þvinga launþega til að fresta og afsala sér hluta af sínum umsömdu launahækkunum frá 17. febrúar 2008. Spurningin gekk út á það hvort eðlilegt hafi verið að þeir tekjulægstu hafi þurft að taka á sig frestun á sínum launahækkunum. Formaður rakti afstöðu VLFA til stöðugleikasáttmálans en félagið barðist af alefli fyrir því að þessi sáttmáli yrði ekki gerður og rök félagsins voru þau að klárlega væru til fyrirtæki og sérstaklega í útflutningnum sem gætu staðið við þær launahækkanir sem um hafði verið samið. Enda kom það á daginn að VLFA hafði rétt fyrir sér því fjölmörg fiskvinnslufyrirtæki komu með þær hækkanir sem samningurinn kvað á um þrátt fyrir að ASÍ hafði verið búið að gera samkomulag við SA um að þeim bæri ekki að gera slíkt.

Formaður fékk einnig fyrirspurn um lögbindingu lágmarkslauna og fram kom í svari formanns að árið 2005 hafi síðast verið lagt fram frumvarp um lögbindingu lágmarkslauna og einn af flutningsmönnum þeirrar tillögu hafi einmitt verið núverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir. Í áðurnefndu frumvarpi var gert ráð fyrir því að lágmarkslaun myndu hækka úr kr. 103.500 í kr. 138.500 sem var hækkun upp á 33,8%. Ef þetta frumvarp hefði orðið að lögum og laun hefðu auk þess tekið kjarasamningsbundnum hækkunum þá væru lágmarkslaun í dag í kringum kr. 200.000 á mánuði. Formaður sagði einnig í svari sínu að ef verkalýðshreyfingunni bæri ekki gæfa til að lagfæra lágmarkslaun hér á landi þannig að þau dygðu fyrir lágmarksframfærslu þá væri ekkert annað í stöðunni fyrir Alþingi Íslendinga en að taka fram fyrir hendur verkalýðshreyfingarinnar og lögbinda lágmarkslaun hér á landi yfir kr. 200.000 á mánuði.

Í dag er einstaklingur sem er á lágmarkstaxta með kr. 165.000 á mánuði. Hann fær útborgað einungis kr. 141.999 og er gert að greiða í skatt kr. 14.751. Meira að segja atvinnuleitandinn sem er á grunnatvinnuleysisbótum er með í tekjur kr. 149.523 og fær útborgað kr. 132.825. Meira að segja þessi einstaklingur er skattskyldur upp á tæpar 10.000 krónur. Formaður spyr sig, hversu langt er hægt að teygja sig í að skattpína lágtekjufólk.

Eitt atriði kom ekki fram á fundinum í gær, en er bráðnauðsynlegt að rifja upp sérstaklega í ljósi fundarefnisins um fátækt á Íslandi. Þann 1. janúar 1997 sagði núverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir að fátækt á Íslandi væri þjóðarskömm. Hún sagði einnig orðrétt: "Það er vissulega mjög alvarlegt ef sá maður sem öðrum fremur hefur fjöregg þjóðarinnar í hendi sér, sjálfur forsætisráðherrann neitar að horfast í augu við þá staðreynd að tugir þúsunda heimila í landinu búa við kjör nálægt sultarmörkum. Þetta er smánarblettur á þjóðinni.".

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir núverandi forsætisráðherra árið 1997. Þá var ástandið afar slæmt en óhætt er að fullyrða að það er mun verra núna. Því spyr formaður, hvað ætlar forsætisráðherra að gera við þessari þjóðarskömm? Spyr sá sem ekki veit.

Það var afar ánægjulegt að heyra í fundarmönnum að loknum fundinum hversu ánægðir þeir eru með baráttu Verkalýðsfélags Akraness fyrir bættum kjörum lágtekjufólks. Mörg falleg orð féllu um félagið sem gerir ekkert annað en að efla okkur enn frekar í því að berjast fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image