• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Aug

Fundur með forseta ASÍ stóð til miðnættis

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá fundaði stjórn Verkalýðsfélags Akraness með Gylfa Arnbjörnssyni, forseta Alþýðusambands Íslands í gærkvöldi, en Gylfi er um þessar mundir í fundaherferð þar sem hann mun hitta stjórnir allra 53 aðildarfélaga ASÍ. Með Gylfa í för var Magnús Norðdahl, yfirlögfræðingur ASÍ.

Tilefni fundaherferðarinnar er að kynna fyrir stjórnunum fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á ASÍ og einnig komandi kjarasamninga. Það er skemmst frá því að segja að fundurinn var afar fróðlegur og kraftmikill en fundurinn hófst kl. 20 og var ekki lokið fyrr en um miðnætti. Það voru fjölmörg mál sem voru rædd á þessum 4 tíma fundi fyrir utan skipulagsmálin, svo sem stöðugleikasáttmálinn, lífeyrissjóðirnir og stjórnarskipan þeirra, skuldastaða heimilanna, aðildarumsókn að ESB og síðast en ekki síst komandi kjarasamningar.

Forsetinn fór yfir stöðugleikasáttmálann og hvað hafði áunnist í honum og hvað hafði ekki gengið eftir. Fram kom í máli formanns Verkalýðsfélags Akraness að hann teldi það hafa verið stórkostleg mistök að ganga frá áðurnefndum sáttmála einfaldlega vegna þess að lítið sem ekkert gekk eftir í honum annað en að launafólk var þvingað til að afsala sér og fresta sínum launahækkunum.

Afstaða Verkalýðsfélags Akraness til stjórnarvals í lífeyrissjóðum hefur ætíð verið skýr og komu stjórnarmenn því vel á framfæri við forsetann að það er mat félagsins að það eigi að gjörbreyta stjórnarvali við kjör í lífeyrissjóðum með þeim hætti að stjórnarmenn verði kosnir allir af sjóðsfélögum sjálfum og hætt verði við þessi svokölluðu helmingaskipti á milli verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda. En eins og frægt varð þá lagði Verkalýðsfélag Akraness fram tillögu á ársfundi ASÍ árið 2009 um breytingu á stjórnarvali sem var kolfelld. Fram kom í máli Gylfa að hann teldi að það fyrirkomulag sem nú er ríkjandi sé heppilegt. Þessu er stjórn Verkalýðsfélags Akraness ósammála.

Formaður VLFA sagði við forsetann að hann harmaði þá afstöðu ASÍ að berjast ekki fyrir almennri leiðréttingu á stökkbreyttum skuldum íslenskra heimila og hvatti formaðurinn ASÍ til að berjast fyrir því að gripið verði til almennra leiðréttinga á skuldum heimilanna. Einnig gagnrýndi formaðurinn forsetann og forystu ASÍ fyrir að beita sér ekki af fullum þunga fyrir afnámi verðtryggingarinnar sem hefur leikið íslenska launþega skelfilega á undanförnum árum og áratugum. Það kom fram í máli Gylfa að hann telur nauðsynlegt að viðhalda verðtryggingunni til varnar lífeyrissjóðum þessa lands. Þessu er stjórn Verkalýðsfélags Akraness algjörlega ósammála og benti formaður forsetanum á að húseign okkar er líka lífeyrir.

Formaður skoraði á forsetann að beita sér fyrir því af fullum þunga að fundinn verði út hver hinn rétti lágmarks framfærslustuðull íslenskra heimila sé í dag. Með öðrum orðum, hvað þarf einstaklingur eða hjón með börn mikla framfærslu til að geta rekið sitt heimili og þarf að vera inni í slíkum framfærslustuðli allt sem lítur að rekstri heimilis. Það er mat formanns að þessa tölu þurfi að fá upp á yfirborðið einfaldlega vegna þess að í dag duga lágmarkslaun og -bætur á Íslandi alls ekki til að fólk geti látið enda ná saman. Formaður sagði einnig að hans tilfinning væri einfaldlega sú að ráðamenn vildu ekki fá þennan framfærslustuðul upp á yfirborðið því að þá kæmi sannleikurinn í ljós: Að lágmarkslaun og -bætur dugi ekki fyrir framfærslu. Á þeirri forsendu er brýnt að hagdeild ASÍ finni þennan framfærslustuðul út sem myndi klárlega geta gagnast hreyfingunni í sinni baráttu fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna.

Að sjálfsögðu var mikið rætt um komandi kjarasamninga. Sýn Verkalýðsfélags Akraness á komandi kjarasamninga byggist á því að sótt verði að þeim atvinnugreinum sem hafa borð fyrir báru til að hækka laun sinna starfsmanna. Þetta eru greinar eins og stóriðjan, fiskvinnslan, útgerðir, ferðaþjónustan og í raun öll fyrirtæki sem starfa í útflutningi. Verkalýðsfélag Akraness vill að verkalýðshreyfingin geri skýlausa kröfu og standi þétt saman í því að lágmarkslaun á Íslandi verði alls ekki undir 200 þúsund krónum á mánuði. Það kom fram í máli Gylfa að vissulega væri hægt að fara þessa leið en hann varaði við henni vegna þess að hann telur að þetta muni leiða til kaupmáttarrýrnunar en ekki til kaupmáttaraukningar hjá heildinni. Þennan málflutning skilur formaður Verkalýðsfélags Akraness alls ekki og sagði að það væri með ólíkindum að heyra forsetann reka sama hræðsluáróðurinn og ætíð heyrist þegar á að fara að gera kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði um að slíkt muni fara beina leið út í verðlagið og kaupmátturinn muni ekki koma til fólksins. Þetta eru sömu varnaðarorðin og heyrðust við kjarasamningsgerðina 2008 frá Seðlabankanum, frá ríkisstjórninni og frá forstöðumönnum greiningardeilda bankanna. Formaður spyr sig, hvar á að sækja launahækkanir til handa okkar félagsmönnum ef ekki hjá þeim fyrirtækjum sem starfa í útflutningi? Allavega er eitt morgunljóst að íslenskir launþegar geta ekki lengur látið ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, tryggingafélög og nánast alla aðila varpa sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið og setið aðgerðalausir hjá.

Það kom einnig skýrt fram frá stjórn Verkalýðsfélags Akraness að félagið mun ekki taka þátt í svokallaðri þjóðarsátt í anda þess sem gert var í áðurnefndum stöðugleikasáttmála. En þar gekk ekkert nema eitt eftir eins og áður hefur komið fram, að launafólk þurfti að fresta sínum launahækkunum.

Formaður sagði einnig við forsetann að gríðarleg gjá hafi myndast á milli hins almenna félagsmanns innan ASÍ og forystu hreyfingarinnar. Þessi gjá að mati formanns hafi myndast vegna þeirrar linkindar sem ríkt hefur í verkalýðshreyfingunni um alllanga hríð. Hreyfingin þarf að berjast af alefli fyrir bættum kjörum okkar félgsmanna og þarf að sýna tennurnar í samskiptum sínum við atvinnurekendur og ríkisvaldið. Sagði formaðurinn að því miður upplifði hann hreyfinguna eins og aldraða manneskju sem tæki tennurnar sínar út á kvöldin og setti þær í glas, slík manneskja er gjörsamlega bitlaus. Þannig upplifir formaðurinn íslenska verkalýðshreyfingu í dag. Það kom einnig fram hjá stjórnarmönnum að verkalýðshreyfingin þarf að vinna traust og trúnað sinna félagsmanna á nýjan leik og það verður ekki gert nema með því að hreyfingin sýni mátt sinn og kraft og berjist af fullum heilindum fyrir lagfæringu á kjörum okkar félagsmanna.

Það ber að þakka Gylfa og þeim félögum fyrir að koma og hitta stjórnir félaganna því það er mjög mikilvægt fyrir forsetann að fá að heyra skoðanir stjórna vítt og breitt um landið. Það er alveg hægt að segja að þessi fundur hafi verið góður og gagnlegur þótt menn hafi skipst hressilega á skoðunum inn á milli. Þannig á það líka að vera, menn eiga að geta fengið að tjá sínar skoðanir og sagt þær umbúðalaust.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image