• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Skipuð verði rannsóknarnefnd um málefni Orkuveitunnar Orkuveita Reykjavíkur
30
Aug

Skipuð verði rannsóknarnefnd um málefni Orkuveitunnar

Verkalýðsfélag Akraness stendur agndofa yfir þeirri ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að hækka gjaldskrá sína um 28,5% 1. október næstkomandi. Tillaga þessa efnis var samþykkt á stjórnarfundi félagsins fyrir helgi.

Þessi ákvörðun stjórnar OR mun verða þess valdandi að greiðslubyrði hjá félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness og öðrum viðskiptavinum Orkuveitunnar mun hækka um tugi þúsunda á ársgrundvelli en í dag kostar rafmagn og hiti í 130 fermetra íbúð 117 þúsund krónur á ári en eftir hækkun verður þessi kostnaður kominn upp í 150 þúsund krónur sem er 33 þúsund króna hækkun. Það er ekki bara að greiðslubyrðin hækki vegna gjaldskrárhækkunarinnar heldur hefur hún umtalsverð áhrif á neysluverðsvísitöluna og sem dæmi þá hækkar 10 milljóna króna verðtryggt húsnæðislán um 56 þúsund krónur vegna þessarar ákvörðunar Orkuveitunnar.

Þessi ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar kemur til vegna þess að fyrirtækið er að mæta stóraukinni skuldastöðu, meðal annars vegna stökkbreyttra erlendra lána. Á þeirri forsendu er rétt að minna á að almennir launþegar hafa einnig orðið fyrir gríðarlegum búsifjum vegna hækkunar á sínum lánum, á það bæði við erlend lán sem og verðtryggð. Því er það morgunljóst að þessi ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar mun hafa umtalsverð áhrif á komandi kjarasamninga því það gengur ekki upp að Orkuveitan, ríki, sveitarfélög og önnur fyrirtæki ætli sér að seilast í vasa íslenskra launþega enn og aftur og ætlast til þess að þeir horfi aðgerðarlausir á. Eðlilegast væri að stéttarfélögin gerðu skýlausa kröfu á þau sveitarfélög sem eiga Orkuveituna, sem eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð, að þau hækki laun sinna starfsmanna um 28,5%.

Það er full ástæða til þess að skipuð verði rannsóknarnefnd sem fari yfir stjórnunarhætti Orkuveitunnar aftur í tímann því að sú gríðarlega skuldaukning sem orðið hefur hjá fyrirtækinu á undanförnum árum á sér vart hliðstæðu. Á sama tíma og þessi mikla skuldasöfnun hefur átt sér stað þá hafa eigendurnir tekið tugi milljarða út í arðgreiðslum og rétt er að rifja upp í fyrra þegar Verkalýðsfélag Akraness og fleiri stéttarfélög mótmæltu harðlega 800 milljóna króna arðgreiðslu til áðurnefndra eigenda á sama tíma og starfsmönnum Orkuveitunnar var gert að skerða laun sín um 400 milljónir.

Það er óhætt að segja að eignarhlutur Akraneskaupstaðar í Orkuveitunni sem menn litu á sem hálfgerðan gullkálf sé að breytast í skrímsli. Það er afar fróðlegt að skoða ársreikning Akraneskaupstaðar frá síðasta ári en þar kemur fram að eignarhlutur Akraneskaupstaðar í Orkuveitunni sé 5,528% og var hann metinn á tæpa 3,7 milljarða. Það undarlega við það mat var að það miðaðist við eigið fé Orkuveitu Reykjavíkur í árslok 2006 en þá var eigið fé Orkuveitunnar rétt rúmlega 66,5 milljarðar. Eigið fé Orkuveitunnar í árslok 2009 var hins vegar rétt rúmir 40 milljarðar. Þannig að ef Akraneskaupstaður hefði miðað við eigið fé Orkuveitunnar 2009 þá hefði eignarhluturinn verið rétt rúmir 2,2 milljarðar sem er 1,5 milljarði minna heldur en kveðið er um í ársreikingi Akraneskaupstaðar. Menn verða að fyrirgefa formanni félagsins en hann skilur ekki hvers vegna notast var við eigið fé frá árinu 2006 en ekki 2009. Getur verið að menn séu að fegra ársreikninga sveitarfélagsins með slíkum vinnubrögðum, spyr sá sem ekki veit.

Það kemur einnig fram í ársreikningnum að ekki sé búið að gera áhættumat vegna eignarhluts Akraneskaupstaðar í Orkuveitunni en eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá skuldar Orkuveitan í dag um 240 milljarða króna. Áhætta Akraneskaupstaðar er fólgin í því að Orkuveitan geti ekki staðið við sínar skuldbindingar og að eigendur þurfi því að koma með fjármagn sökum þess. Formanni er ekki fullkunnugt um hver ábyrgð okkar Akurnesinga er í 240 milljarða skuld en ef það er 5,528% af heildarskuldinni þá er það hvorki meira né minna en rúmir 13 milljarðar sem við Akurnesingar erum þá í ábyrgð fyrir. Þess vegna vill formaður ítreka það sem áður hefur komið fram að það er full ástæða til þess að skipuð verði rannsóknarnefnd sem fari yfir málefni Orkuveitunnar í hvívetna því það gengur ekki upp að þeir sem hafa verið þarna við stjórnvölinn axli enga ábyrgð og varpi síðan vandanum alfarið til neytenda. Það er komið nóg af slíkum vinnubrögðum í íslensku samfélagi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image