• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Aug

Þjóðarsátt um hvað?

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍGylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍÁ morgun mun Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ funda með stjórn Verkalýðsfélagi Akraness en þessi fundur er einn liður í fundaherferð forsetans um landið en hann mun hitta að máli stjórnir allra 53 aðildarfélaga Alþýðusambandsins.

Umræðuefni fundanna verða annars vegar afmarkaðar tillögur að breytingum á skipulagi ASÍ og hins vegar mun forsetinn gera grein fyrir samskiptum Alþýðusambandsins við ríkisstjórn og SA á samningstímanum sem nú er að líða. Einnig má búast við að kröfugerð vegna komandi kjarasamninga komi til tals auk Evrópumála.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá mun Verkalýðsfélag Akraness alls ekki taka þátt neinu í anda þess stöðuleikasáttmála sem gerður var í júní 2009.  Í þeim sáttmála gekk nánast ekkert eftir nema eitt, það var að launafólk var þvingað til að fresta og afsala sér sínum umsömdu launahækkunum.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ekki mótað sínar kröfur fyrir komandi kjarasamninga en formaður félagsins hefur nefnt opinberlega að verkalýðshreyfingin eigi að gera skýlausa kröfu um að lágmarkslaun verði alls ekki undir 200.000 kr á mánuði, en þau eru 165.000 kr í dag.

Í grein í fréttablaðinu í dag eftir Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra kemur fram að hann vonast til þess að samstarfsáætlun eða þjóðarsátt ríkis, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka verði í gildi næstu misseri. 

Hvaða þjóðarsátt er Steingrímur J. að ætlast til að íslenskt verkafólk taki þátt í? Getur verið að hann sé að ætlast til þess að verkafólk fái litlar sem engar launahækkanir og haldi áfram að horfa upp á að ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, tryggingafélög og aðrir þjónustuaðilar varpi sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið til að mæta sínum erfiðleikum á meðan að launafólk horfir upp á stórfellda kjaraskerðingu. Það nýjasta sem nú liggur fyrir er fyrirhuguð hækkun á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur upp á 10-20% og er sú hækkun fyrirhuguð vegna stökkbreyttra höfuðstóla erlendra lána hjá fyrirtækinu.

Það er eins og ráðamenn átti sig ekki á því að skuldir íslenskra heimila hafa líka margfaldast með sama hætti og gerst hefur hjá ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum. Þessir aðilar vilja leggja þyngri byrðar á almenning og ætlast til þess að íslenskir launþegar horfi aðgerðarlausir á. Það er líka rétt að rifja það upp að núverandi ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, jöfnuð og réttlæti hefur svikið verkalýðshreyfinguna um verðtryggingu persónuafsláttar sem um var samið samhliða kjarasamningum 2006 og 2008.  Verðtrygging persónuafsláttar hefur verið eitt af aðalbaráttumálum hreyfingarinnar um alllangt skeið og hefði komið lágtekjufólki afar vel.

Formaður félagsins trúir því ekki fyrr en á reynir að Alþýðusamband Íslands ætli að fara að taka þátt í þjóðarsátt með sambærilegum hætti og gert var í áðurnefndum stöðugleikasáttmála þar sem einungis einn aðili samkomulagsins þurfti að láta eitthvað af hendi rakna en það voru íslenskir launþegar sem þurftu að fresta og afsala sér sínum umsömdu launahækkunum. Slíkri þjóðarsátt mun Verkalýðsfélag Akraness ekki taka þátt í.  Rétt er að geta þess að samningsumboðið liggur hjá stéttarfélögunum sjálfum en ekki ASÍ.

Formaður félagsins á von á gagnlegum fundi með forsetanum þar sem félagið mun koma sínum skoðunum vel á framfæri.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image