• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

20
Jul

Stuðningsyfirlýsing við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur samþykkt ályktun þar sem lýst er yfir afdráttarlausum stuðningi við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í þeirri skelfilegu kjaradeilu sem þeir eiga í þessa daganna við Launanefnd sveitarfélaga. 

Í ályktunni kemur t.d fram eftirfarandi: "Stjórn VLFA  lýsir einnig yfir gríðarlegum vonbrigðum með það skilningsleysi sem Launanefnd sveitarfélaga sýnir Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í þessari deilu. 

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn gegna afar veigamiklum störfum er varða öryggi, líf og heilsu landsmanna og eru þessir aðilar að starfa við mjög erfiðar og jafnvel hættulegar aðstæður á degi hverjum.

Á þeirri forsendu krefst stjórn Verkalýðsfélags Akraness þess að Launanefnd sveitarfélaga komi verulega til móts við kröfur Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og gangi frá nýjum kjarasamningi tafarlaust".

Hægt að lesa stuðningsyfirlýsinguna í heild sinni með því að smella á meira.

 

Ályktun

 

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness  lýsir yfir afdráttarlausum  stuðningi við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í þeirri skelfilegu kjaradeilu sem þeir standa í um þessar mundir við Launanefnd sveitarfélaga. Stjórn VLFA  lýsir einnig yfir gríðarlegum vonbrigðum með það skilningsleysi sem Launanefnd sveitarfélaga sýnir Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í þessari deilu.

Það var dapurlegt að verða vitni að því þegar Launanefnd sveitarfélaganna lagði fram tilboð sem kvað einungis á um launahækkun uppá 1,4%. Sú launahækkun átti ekki að gilda afturvirkt frá 1. júlí 2009 þegar samningur slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna rann út heldur einungis frá undirritun nýs samnings. Með því átti að hafa launahækkun af þessari mikilvægu starfsstétt í heilt ár. Slíkt er til skammar.

Launanefnd sveitarfélaga skýlir sér á bakvið stöðugleikasáttmálann sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands stóðu m.a. annars að, en bæði Sa og ASÍ hafa nú sagt sig frá áðurnefndum sáttmála. Það er sorgleg staðreynd að umræddur stöðugleikasáttmáli hefur ekki gert neitt annað en að stórskaða íslenska launþega.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir undrun að einstaklingur sem hefur störf hjá slökkviliði eða sjúkraflutningum skuli hafa einungis hafa grunnlaun sem nema 169.827 kr.á mánuði. Slík grunnlaun eru til skammar fyrir þá sem á þeim bera ábyrgð.

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn gegna afar veigamiklum störfum er varða öryggi, líf og heilsu landsmanna og eru þessir aðilar að starfa við mjög erfiðar og jafnvel hættulegar aðstæður á degi hverjum.

Á þeirri forsendu krefst stjórn Verkalýðsfélags Akraness þess að Launanefnd sveitarfélaga komi verulega til móts við kröfur Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og gangi frá nýjum kjarasamningi tafarlaust.

Akranesi 20. júlí 2010


F.h. stjórnar Verkalýðsfélags Akraness,

________________________________
Vilhjálmur Birgisson
formaður

20
Jul

Laus íbúð á Akureyri 20. ágúst vegna forfalla

Vegna forfalla er íbúð félagsins á Akureyri laus vikuna 20.-27. ágúst. Einnig er laust vikuna 30. júlí-6. ágúst í orlofshúsi á Eiðum í nágrenni Egilsstaða.

Til að bóka þessar vikur er hægt að hafa samband við skrifstofu í s. 430-9900 eða bóka í gegnum félagavefinn. Fyrstur kemur, fyrstur fær!

14
Jul

Fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa lagt fram frumvörp og ályktanir um stórhækkun lágmarkslauna

Sú hugmynd sem formaður Verkalýðsfélags Akraness lagði fram vegna komandi kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði um hækkun lágmarkslauna úr 165 þúsund krónum í 200 þúsund krónur hefur vakið gríðarlega athygli. Aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Hannes G. Sigurðsson, gagnrýndi þessa hugmynd á Rúv þar sem hann taldi að þessi krafa væri afar óeðlileg og einnig gagnrýndi framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, Andrés Magnússon, tillöguna. Hann sagði í fréttum á Rúv að slík hækkun gæti þýtt fjölda gjaldþrota hjá fyrirtækjum sem og uppsagnir.

Það er alltaf sami gráturinn sem upp kemur þegar verið er að tala um að hækka kjör þeirra lægst launuðu og sá söngur sem heyrist frá Hannesi og Andrési kemur formanni Verkalýðsfélags Akraness ekki á óvart enda er þetta sami söngurinn og þegar gengið var frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði 17. febrúar 2008. Þá var verkalýðshreyfingin hvött til að ganga frá hófstilltum samningum til að tryggja hér langtíma stöðugleika. Verkalýðshreyfingin gekk frá hófstilltum samningum 17. febrúar 2008 en þá var verðbólgan 5% en eins og allir vita þá rauk verðbólgan upp undir 20% í janúar 2009 með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenska launþega. Þetta gerðist þrátt fyrir að gengið hafi verið frá umræddum hófstilltum kjarasamningum.

Eins og flestir muna þá hafa verið lögð fram frumvörp um lögbindingu lágmarkslauna og var það gert síðast árið 2005 og flutningsmenn þess frumvarps voru meðal annars núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir og Kristján L. Möller, samgöngumálaráðherra, en þar lögðu þau til að lágmarkslaun myndu hækka upp í 138.500 krónur en lágmarkslaunin þá voru 103.500 kr. Þau voru því að leggja til að lágmarkslaun myndu hækka um 35 þúsund eða sem nemur 34%. 

Í ítarlegri greinargerð með frumvarpinu kemur meðal annars eftirfarandi fram::

  • Meginvandi íslensks þjóðfélags er fátækt og skuldir og stafar það af lágum launum og lág laun hafa leitt til margs konar vanda og jafnvel hrakið fólk af landi brott.  Um nokkra hríð hefur ekki verið hægt að framfleyta fjölskyldu með lægstu taxtalaunum. 
  • Alþjóðlegur samanburður sýnir að laun á Íslandi eru áberandi lægri en í helstu viðmiðunarlöndum okkar.  
  • Lág taxtalaun hér á landi eru efnahagslegt vandamál. Þau leiða til þess að ýmsir sem eru á þessum launum eiga vart fyrir mat, hvað þá að þeir geti nýtt sér þá þjónustu sem eðlilegt er að veitt sé í nútímaþjóðfélagi.
  • Tímakaup í dönskum iðnaði árið 1994 var 97% hærra en í íslenskum. Ekki eru nýjar tölur fyrirliggjandi. Tekjur hjóna í Danmörku árið 1993 voru um 39% hærri en á Íslandi. Danskur byggingaverkamaður hefur um 28% hærri ráðstöfunartekjur en íslenskur. Þessar tölur, sem komu fram í skýrslu forsætisráðherra um laun og lífskjör á Íslandi, í Danmörku og víðar, segja alla söguna.  
  • Flutningsmenn telja að allt sem viðkemur kjarasamningum eigi að vera á forræði samningsaðila. Þar sem ekki hefur tekist með samningum að knýja fram hækkun lægstu launa undanfarin ár ber Alþingi Íslendinga skylda til að grípa inn í þessi mál með lagasetningu.
  • Frumvarpinu er því fyrst og fremst ætlað að skapa vörn fyrir þá sem minnst mega sín. Rökin fyrir þessu eru augljós. Hækkun lægstu launa í 138.500 kr. á mánuði mun auka velferð þeirra fátækustu í íslensku þjóðfélagi, jafna laun og bæta afkomu margra einstaklinga.
  • Ef þessi leið verður ekki farin og taxtalaunin látin eiga sig eina ferðina enn í næstu kjarasamningum mun sífellt stærri hópur launamanna sitja eftir með lágmarkstaxta og ekki eiga sér viðreisnar von. Við megum ekki láta mál þróast á þann veg.

Allt sem kemur fram í þessari greinargerð með frumvarpinu á svo sannarlega við rök að styðjast og á einnig við í dag. Á þeirri forsendu er afar brýnt að lagfæra lágmarkslaun á Íslandi og hækka þau upp í 200 þúsund krónur að lágmarki og ég trúi ekki öðru heldur en að Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra, sem lagði þetta frumvarp fram, leggi fram fullan stuðning við að ná lágmarkslaununum upp í 200 þúsund krónur.

Rétt er einnig að geta þess að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og hans fólk, ályktaði um lágmarkslaun árið 2003 en þá voru lágmarkslaun á Íslandi einungis 93 þúsund krónur. Landsfundur Vinstri grænna árið 2003 lagði til að lágmarkslaun yrðu hækkuð upp í 150 þúsund krónur sem er hækkun um 57 þúsund krónur eða sem nemur 61%. Tillaga Verkalýðsfélags Akraness sem að aðilar atvinnurekenda telja afar óeðlilega, hljómar hins vegar einungis upp á 21% hækkun.

Á þessu sést að bæði Steingrímur fjármálaráðherra og Jóhanna forsætisráðherra hafa lagt fram frumvörp og ályktað um lágmarkslaun með það að markmiði að stórhækka lágmarkslaunin. Á þeirri forsendu hljóta áðurnefndir ráðherrar að leggja verkalýðshreyfingunni fram fullan stuðning við að lagfæra tekjur þeirra lægst launuðu í okkar samfélagi.

12
Jul

Krafa um að lágmarkslaun verði ekki undir 200 þúsund krónum í komandi kjarasamningum

Inni á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins var skrifað um komandi kjarasamninga á fimmtudaginn var og kom fram hjá framkvæmdastjóra SA að stefnt skuli að því að gerður verði langtímasamningur t.d. til þriggja ára með hóflegum hækkunum. Eins og flestir vita þá verða allflestir kjarasamningar lausir um næstu áramót, þar á meðal kjarasamningarnir á hinum almenna vinnumarkaði.

Vissulega er ekkert óeðlilegt við það að Samtök atvinnulífsins vilji gera langtímasamning með hófstilltum hækkunum, það er jú þeirra hlutverk að gæta hagsmuna fyrirtækja í landinu. Hins vegar liggur það hvellskýrt fyrir að krafa Verkalýðsfélags Akraness í komandi kjarasamningum verður að lágmarkslaun í þessu landi verði hækkuð allverulega, enda eru þau íslensku samfélagi, atvinnurekendum og síðast en ekki síst okkur í verkalýðshreyfingunni til skammar.

Í dag eru lágmarkslaun fyrir fulla vinnu, 173 tíma á mánuði, einungis 165.000 kr. Verkalýðsfélag Akraness vill sjá kröfu um að lágmarkslaun verði ekki undir 200 þúsund krónum í komandi kjarasamningum. Verkalýðsfélag Akraness mun aldrei taka þátt í neinu í anda þess stöðugleikasáttmála sem gerður var í júní 2009 en þar var verkafólk og aðrir launþegar þvingaðir til að fresta og afsala sér sínum hófstilltu launum sem um var samið 17. febrúar 2008. Verkalýðsfélag Akraness er stolt af því að hafa verið eitt fárra stéttarfélaga sem barðist af alefli fyrir því að umsamdar launahækkanir frá 17. febrúar skyldu standa.

Það þarf einnig að gera þá skýlausu kröfu til allra fyrirtækja sem hafa fjárhagslega burði til að þau komi með veglegar launahækkanir til handa sínu starfsfólki enda er fullt af fyrirtækjum sem hafa fulla burði til að gera slíkt. Nægir að nefna flestöll útflutningsfyrirtæki sem hafa verið að gera góða hluti vegna þeirra gengisbreytinga sem orðið hafa á undanförnum 18 mánuðum.

Það gengur ekki lengur að það sé íslenskt verkafólk eitt og sér sem sé látið líða fyrir það efnahagshrun sem hér hefur orðið enda liggur það morgunljóst fyrir að það er ekki íslenskt verkafólk sem ber ábyrgð á þeim hörmungum sem gengið hafa yfir íslenskt samfélag. Á sama tíma og verkafólk þurfti að afsala sér sínum umsömdu launahækkunum þá vörpuðu ríki, sveitarfélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið með skelfilegum afleiðingum fyrir alþýðu þessa lands.

Núna er kominn tími til að íslensk verkalýðshreyfing standi þétt saman og sýni tennurnar í því að bæta kjör sinna félagsmanna og eyða í eitt skipti fyrir öll þeim skelfilegu lágmarkslaunum sem eru eins og áður sagði öllum sem ábyrgð á þeim bera til háborinnar skammar. En til þess að þetta náist fram þarf hreyfingin að standa saman og nú er komið að því að Alþýðusamband Íslands beini þeim tilmælum til sinna aðildarfélaga að leggja áherslu á að lágmarkslaun á Íslandi verði ekki undir 200 þúsund krónum í komandi samningum. Formaður á sér þá von að forseti Alþýðusambandsins láti ekki samtök atvinnulífsins blekkja sig út í einhvers konar stöðugleikasáttmála þar sem launþegar einir verða látnir axla ábyrgðina.

09
Jul

Óskar Stefánsson borinn til grafar í dag

Óskar StefánssonÓskar StefánssonÍ dag verður borinn til grafar Óskar Stefánsson en hann lést eftir hörmulegt vinnuslys í Elkem Ísland. Óskar var kjörinn aðaltrúnaðarmaður starfsmanna fyrir örfáum mánuðum síðan en hann var félagsmaður í Verkalýðsfélagi Akraness.

Formaður átti í örlitlum samskiptum við Óskar frá því hann tók við aðaltrúnaðarmannsstarfinu og voru öll þau samskipti til fyrirmyndar og greinilegt var að hann hafði mikinn áhuga á því verkefni sem starfsmenn höfðu trúað honum fyrir. Það er ánægjulegt að vita til þess að fyrirtækið ætlar að láta einskis ófreistað til að komast að því hvað varð þess valdandi að svo hörmuleg sprenging varð með þessum skelfilegu afleiðingum.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vottar aðstandendum Óskars innilegrar samúðar og öllum þeim sem eiga um sárt að binda sökum þessa skelfilega slyss.

07
Jul

Hvað hefur gerst hjá Steingrími J Sigfússyni eftir að hann varð ráðherra?

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var viðtal við Marinó G. Njálsson hjá Hagsmunasamtökum heimilanna en í viðtalinu sakar hann Steingrím J Sigfússon um afar villandi og hreinan skáldskap í málflutningi sínum varðandi gengistryggðu lánin.  Marinó vitnaði í gögn frá Seðlabankanum sem sýndu að lánasöfn gömlu bankanna voru færð niður um rúm 50% yfir í nýju bankana t.d. voru yfirdráttar lán færð niður um 40% verðtryggð lán um 51% og gengistryggð lán um 58% 

Svo talar fjármálaráðherra um að bankarnir muni vart þola þessa niðurfærslu sem dómur Hæstaréttar kveður á um.

Það hefur verið nöturlegt  að fylgjast með störfum fjármálaráðherra í hinum ýmsu málum að undanförnu og nægir að nefna t.d. ummæli hans í Ísland í bítið í gær en hann segir að með dómnum hafi ákveðinni réttaróvissu verið eytt þó að enn standi eftir réttaróvissa um það hvernig fara eigi með lánin, hvaða vextir eigi að gilda.  Hvaða réttaróvissu er Steingrímur eiginlega að tala um?   Í samningalögum er kveðið á um í 36. grein laganna eftirfarandi:

Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag".  Samkvæmt þessum lögum á óvissan að falla neytendum í hag.

Hvað sagði ekki Steingrímur J. Sigfússon í fréttum fyrir 19 mánuðum síðan, eða 23. október 2008? Hann sagði að það verði gerð uppreisn hér á landi verði gengið að kröfum Breta og Hollendinga um greiðslu á 600 milljarða króna skuldbindingu vegna Icesave-reikninganna. Hann sagði einnig að Íslendingar hafi uppfyllt allar lagalegar skyldur og tilskipanir Evrópusambandsins um innlánstryggingakerfið og Íslendingum bæri ekki að láta undan kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því okkur beri ekki skylda til að greiða tapið á Icesave-reikningunum.  Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon fyrir rétt rúmum 19 mánuðum síðan. En nú kveður við nýjan tón hjá Steingrími þar sem hann og hans ríkisstjórn hefur haldið uppi skefjalausum hræðsluáróðri um að allt sé hér á leið til fjandans verði ekki gengið frá Icesave-samningunum og að vextir Seðlabankans fái að gildi fyrir gengistryggðu lánin.

Hvað hefur eiginlega gerst hjá Steingrími eftir að hann varð fjármálaráðherra maður sem var froðufellandi í ræðustól Alþingis í hvert sinn sem honum fannst hallað á hagsmuni alþýðu þessa lands.  Í dag getur hann ekki einu sinni staðið með almenningi sem fer fram á að dómur Hæstaréttar fái að standa og óvissan sem fjármálaráðherra er afar tíðrætt um falla neytendum þessa lands í hag eins og lög kveða á um.  Það væri fróðlegt að sjá viðbrögð Steingríms J Sigfússonar ef hann væri í stjórnarandstöðu og önnur ríkisstjórn en hans myndi standa að því að hafa dóm Hæstaréttar að vettugi eins og hans ríkisstjórn stendur nú að og það ríkisstjórn sem kennir sig við norræna verðferð.

Því segir formaður Verkalýðsfélags Akraness: Ragnar Reykás er grátbroslegur í samanburði við þann viðsnúning sem nú hefur orðið hjá Steingrími J Sigfússyni eftir að hann varð fjármálaráðherra.

05
Jul

Ríkisstjórnin virðist standa á bakvið tilmælin

Mótmæli voru við Seðlabankann í dagMótmæli voru við Seðlabankann í dagYfir 400 manns mættu við Seðlabanka Íslands til að mótmæla þeim tilmælum sem Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafa beint til fjármálafyrirtækja. Þar segir að þau skuli miða við lægstu vexti SÍ við endurútreikning lána í íslenskum krónum sem voru gengistryggð. Formaður Verkalýðsfélags Akraness styður þessi mótmæli heilshugar en því miður sá hann sér ekki fært að mæta vegna anna en mun klárlega mæta verði framhald á mótmælum vegna þess ofbeldis sem íslensk stjórnvöld hafa sýnt skuldsettum heimilum að undanförnu.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er það mat formanns að eðlilegra og réttara hefði verið að dómur hæstaréttar hefði staðið og fjármögnunarfyrirtækin hefðu sótt fyrir dómi önnur vaxtakjör heldur en getið er um í samningunum ef þau telja að brotið hafi verið á þeim. Það er nöturlegt að verða vitni að því hvernig íslensk stjórnvöld taka upp hanskann fyrir fjármögnunarfyrirtæki sem hafa mörg hver hagað sér með dólgslegum hætti gagnvart sínum viðskiptavinum og nú þegar dómur féll sem var hagstæður íslenskum heimilum þá virðist vera að ríkisstjórn Íslands hafi í reykfylltum bakherbergjum unnið að því að fá Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið til að senda út áðurnefnd tilmæli. 

Nú tala menn um að þessi dómur sé ekki sanngjarn fyrir fjármögnunarfyrirtækin og á þeirri forsendu hafi þurft að grípa til þessara ráðstafana. Hvað með sanngirnina þegar afskrifaðar voru skuldir til dæmis hjá Ólafi Ólafssyni í Samskip upp á 88 milljarða en eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá sagði Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra að kostnaður við dóm hæstaréttar væri í kringum 100 milljarðar. Bara þessi eini einstaklingur, Ólafur Ólafsson, hefur fengið afskriftir upp á tæpa 100 milljarða. Að ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, velferð, jöfnuð og síðast en ekki síst réttlæti, skuli standa á bakvið þessa herferð gegn íslenskum heimilum er ótrúlegt og í raun og veru lyginni líkast.

Það er gríðarlega mikilvægt að almenningur í þessu landi berjist með kjafti og klóm fyrir því að réttlætið í þessu máli nái fram að ganga og geri þá skýlausu kröfu á íslensk stjórnvöld að þessi tilmæli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins verði tafarlaust dregin til baka. Við annað verður ekki unað.

02
Jul

Glæsileg dagskrá á Írskum dögum

Í gær hófust svokallaðir Írskir dagar hér á Akranesi en þeir munu standa yfir alla helgina og verður boðið upp á glæsilega dagskrá eins og undanfarin ár. Það er afar ánægjulegt að fólk hafi nú möguleika á því að skemmta sér á þessum viðburði og gleyma þeim áhyggjum sem mörg heimili glíma nú við sökum þess efnahagsástands sem nú ríkir. Og það er einnig ánægjulegt að fólk geti gleymt þeirri gríðarlegu reiði sem kraumar í æði mörgum sökum þess ofbeldis sem Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og íslenska ríkisstjórnin hafa sýnt almenningi í kjölfar dóms hæstaréttar vegna gengistryggða lána. Nú er ekkert annað fyrir fólk en að skemmta sér vel um helgina og taka síðan slaginn af fullum þunga við íslensk stjórnvöld vegna áðurnefnds ofbeldis á íslenskum almenningi.

Formaður félagsins hvetur alla til að koma og taka þátt í þeirri dagskrá sem hér er í boði og til að mynda verður hið margrómaða götugrill út um allan bæ í kvöld og á laugardagskvöldið verður stærsta ball sem haldið er á Íslandi ár hvert, svokallað Lopapeysuball, en undanfarin ár hafa fleiri þúsund manns komið á þann viðburð.  

Hægt er að sjá þessa glæsilegu dagskrá sem boðið verður upp á hér.

30
Jun

Grípa á til róttækra aðgerða vegna tilmæla Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gerir ekki athugasemdir við ákvörðun Seðlabankastjóra og FjármálaeftirlitsinsFramkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gerir ekki athugasemdir við ákvörðun Seðlabankastjóra og FjármálaeftirlitsinsSá ótrúlegi atburður er að gerast hér á landi að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafa sent fjármálafyrirtækjum þau tilmæli að þeim beri að endurreikna þau lán sem innihalda gengistryggingarákvæði sem eru óskuldbindandi samanber dóma hæstaréttar. Ekki verði miðað við upphaflega vexti lánanna sem í mörgum tilvikum voru í kringum þrjú prósent, heldur vexti sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum sem nú gilda á lánamarkaði. Með þessum tilmælum eru þau að hafa dóm hæstaréttar að engu.

Aðilar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og einnig einstaka ráðherrar hafa talað um að það þurfi að eyða óvissu varðandi vaxtakjör í þessum lánasamningum. Rétt er að geta þess að á borgarafundi í Iðnó kom það skýrt fram hjá Ragnari Baldurssyni lögmanni sem rak annað dómsmálið fyrir hæstarétti að dómur hæstaréttar væri hvellskýr og menn væru að búa til óvissu. Hann sagði að þeir vextir sem væru tilgreindir í lánasamningunum ættu skýlaust að standa óhaggaðir enda væri dómurinn afar afdráttarlaus.

Það er nöturlegt að verða vitni að því hvernig á að halda áfram að níðast á skuldsettum heimilum þessa lands og ekki undir nokkrum kringumstæðum getur alþýða þessa lands látið þetta átölulaust. Það var viðtal við Vilhjálm Egilsson framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins þar sem hann talar með sama hætti og fulltrúar Seðlabankans, fjármálaráðuneytisins og viðskiptaráðherra um að það þurfi að eyða óvissu um gengistryggðu lánin, einfaldlega vegna þess að þau eru hagstæð almenningi þessa lands. Það á að láta neytendur njóta vafans og það eru fjármálastofnanirnar sem eiga að sækja sinn rétt fyrir dómstólum ef þeir telja að vaxtakjörin sem tilgreind eru í samningunum sem eru flestir í kringum 3%, eigi ekki að standa. En í þessum tilmælum sem gefin voru út í morgun er verið að tala um að vextirnir verði 8,25% sem er umtalsvert hærra heldur en getið er um í þeim lánasamningum sem um ræðir.

Verkalýðshreyfingar um víða veröld myndu klárlega grípa til allsherjar aðgerða eins og til dæmis allsherjarverkfalla ef þau yrðu vitni að öðru eins óréttlæti eins og almenningur í þessu landi er að upplifa. Á þeirri forsendu er full ástæða fyrir Alþýðusamband Íslands að beina þeim tilmælum til aðildarfélaga sinna að grípa til róttækra aðgerða vegna þessarar ákvörðunar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins þar sem þau skilaboð eru send út að dómar hæstaréttar gildi ekki fyrir fjármálakerfið heldur einungis fyrir sauðsvartan almúgan.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hvetur alþýðu þessa lands til að standa saman og sýna íslenskum stjórnvöldum fulla hörku og það verði ekki liðið að dómar hæstaréttar gildi ekki fyrir alla í þessu landi. Oft hefur verið þörf fyrir samstöðu en nú er nauðsyn.

30
Jun

Maður sem slasaðist í Járnblendiverksmiðjunni er látinn

Starfsmaður sem varð fyrir sprengingu í einum af þremur ofnum Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga í gærkvöldi og brenndist mikið, lést undir morgun á gjörgæsludeild Landsspítalans. Vinnueftirlitið og lögregla rannsaka málið og starfssemi verksmiðjunnar liggur niðri.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness sendir fjölskyldu mannsins og þeim sem eiga um sárt að binda sökum þessa skelfilega slyss innilegar samúðarkveðjur.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image