• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Oct

Fundurinn um fátækt í gær heppnaðist vel

Fundur um fátækt sem Bót, félag aðgerðasinna um bætt samfélag, stóð fyrir í gærkvöldi heppnaðist mjög vel. Þónokkur fjöldi fólks var mætt á fundinn en fundurinn var haldinn í Salnum í Kópavogi og það var afar ánægjulegt að sjá að forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, þáði boð um að koma á fundinn. Það er alveg ljóst að það er gríðarlega mikilvægt að forseti Íslands skuli leggja þessu brýna málefni lið er lítur að fátækt á Íslandi.

Allri ríkisstjórn Íslands var boðið á fundinn en því miður var einungis einn ráðherra sem mætti en það var Ögmundur Jónasson. Einnig var hinum ýmsu hagsmunaaðilum úr meðal annars atvinnulífinu boðið að sitja fundinn. Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, flutti erindi er lítur að skyldu yfirvalda til að reikna út lágmarksframfærslu og einnig voru frummælendur talsmenn öryrkja, aldraðra, atvinnuleitenda og félagsbótaþega. 

Fjölmargar fyrirspurnir bárust úr sal og var alveg ljóst að mörgum var heitt í hamsi yfir því ástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi og krafa fólksins er alveg hvellskýr: Það er að reiknaður verði út lágmarksframfærslustuðull sem sýnir með afgerandi hætti hvað einstaklingar og hinar ýmsu fjölskyldustærðir þurfi mikla fjármuni til að geta staðið undir venjubundnum rekstri heimilis. Einnig er krafan skýr um að lágmarkslaun og aðrar opinberar bætur hækki umtalsvert enda er ekki nokkur vegur fyrir einstaklinga að lifa á þeim lágmarkslaunum og -bótum sem nú er boðið upp á í íslensku samfélagi.

Það var afar ánægjulegt að finna þann mikla stuðning sem hinn almenni fundarmaður bar til Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar á Húsavík en fram kom til dæmis í máli eins fundarmanna að þetta væru einu stéttarfélögin á landinu í dag sem væru að taka stöðu með sínum félagsmönnum. Formaður félagsins var fundarstjóri á þessum fundi og nýtti hann tækifæri sitt til að koma áherslum Verkalýðsfélags Akraness á framfæri. Fram kom hjá formanninum að það sé frumskylda í komandi kjarasamningum að hækka þau skammarlegu lágmarkslaun, sem nú eru einungis 165 þúsund krónur, umtalsvert í komandi kjarasamningum. Formaður sagði einnig að hann nánast fullyrti það að allir sem á fundinum væru gætu ekki framfleytt sér á þeim lágmarkslaunum sem boðið væri upp á í dag og það væri íslensku samfélagi, atvinnurekendum og okkur í verkalýðshreyfingunni til ævarandi skammar að lágmarkslaun skuli enn ekki duga fyrir lágmarksframfærslu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image