• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Nov

Verkalýðshreyfingin og flokkspólitískir hagsmunir

Niðurstöður könnunar sem framkvæmd var í Reykjavík síðdegis þann 21. október síðastliðinnNiðurstöður könnunar sem framkvæmd var í Reykjavík síðdegis þann 21. október síðastliðinnÞað fer vart framhjá neinum að forysta Alþýðusambands Íslands nýtur afar lítils traust á meðal hins almenna félagsmanns um þessar mundir. Nægir í því samhengi að vitna í skoðanakannanir sem gerðar hafa verið að undanförnu. Í könnun sem umsjónarmenn útvarpsþáttarins Reykjavík síðdegis gerðu kemur fram að 91% þeirra sem tók þátt bera lítið sem ekkert traust til verkalýðshreyfingarinnar og í könnun sem útvarp Saga gerði er þetta enn verra en þar kemur fram að tæplega 95% bera lítið traust til forystunnar. 

Þetta vantraust á forystu ASÍ kemur formanni Verkalýðsfélags Akraness alls ekki á óvart enda er hinum almenna félagsmanni m.a. tíðrætt um þá linkind sem forystan sýnir í verkum sínum er lítur að hagsmunagæslu fyrir sína félagsmenn.

Ugglaust eru mjög margar skýringar á þessu vantrausti sem félagsmenn ASÍ bera til forystunnar, en þetta vantraust er grafalvarlegt fyrir verkalýðshreyfinguna í heild sinni, því það er grundvallaratriði að verkalýðshreyfingin njóti trausts og trúverðugleika á meðal sinna félagsmanna. 

Eitt af því sem formaður telur að hafi grafið undan trausti almennings á forystu ASÍ er að margir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar eru yfirlýstir stuðningsmenn ákveðinna stjórnmálaflokka. Nægir að nefna í því samhengi ummæli núverandi forseta ASÍ, Gylfa Arnbjörssonar, þegar formannskjör fór fram í Samfylkingunni árið 2005 á milli Össurar Skarphéðinssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þar sagði forsetinn orðrétt: 

"Verkalýðshreyfingin mun fylkja sér að baki nýjum formanni Samfylkingarinnar, hver sem hann verður, en stuðningur hennar við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur er ótvíræður."

Það er mat formanns að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum stjórnmálaflokki, enda eru forystumenn í stéttarfélögum að vinna fyrir félagsmenn sem koma úr öllum stjórnmálaflokkum. Einnig þurfa forystumenn að vera hafnir yfir allan vafa að þeir séu að vinna af fullum heilindum að hagsmunum sinna félagsmanna en ekki flokkspólitískum hagsmunum síns flokks.

Forystumenn í verkalýðshreyfingunni eiga að styðja öll mál sem þeir telja að séu til hagsbóta fyrir sína félagsmenn algjörlega óháð því frá hvaða stjórnamálaflokki slík mál kunna að koma. 

Trúverðugleiki einstakra forystumanna ASÍ er eðlilega dreginn í efa í hinum ýmsu málum er lúta að flokkspólitískum málum í ljósi þeirra staðreynda að einstaka forystumenn ASÍ hafa marglýst yfir opinberum stuðningi við annan stjórnarflokkinn. Formaður spyr sig: Af hverju lagði ASÍ svona mikla áherslu á að forseti Íslands myndi staðfesta samning um Icesave og málinu yrði ekki vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu, getur verið að flokkspóltískir hagsmunir hafi ráðið þar för? Hvað kom ekki fram á heimasíðu Starfsgreinasambands Íslands þegar ljóst var að forseti íslands var búinn að tilkynna að hann ætlaði að vísa málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, en þar komu meðal annars fram þessi ummæli:  "Forseti lýðveldisins kemur fram af miklu ábyrgðarleysi gagnvart efnahagsvanda þjóðarinnar". 

Rétt er að rifja það upp að 98% þjóðarinnar hafnaði Icesavesamningunum í þessari kosningu. Reyndar hefur formaður aldrei skilið það af hverju forysta ASÍ hefur lagt svona mikla áherslu á að samþykkja ábyrgð okkar Íslendinga á innistæðum í erlendum bönkum, sérstaklega í ljósi þess að allir lögspekingar landsins telja að engin lagaleg rök séu fyrir slíkri ábyrgð. Á sama tíma hefur forysta ASÍ ekki talað fyrir almennri leiðréttingu á þeim forsendubresti sem að hér varð á skuldum heimilanna og hefur ætíð talað fyrir sértækum aðgerðum hvað það varðar.

Formaður óttast það að verkalýðshreyfingin hafi því miður í gegnum árin og áratugina alltof oft verið misnotuð í flokkspólitískum tilgangi en slíkt grefur eðli málsins samkvæmt undan trausti og trúverðugleika hreyfingarinnar í heild sinni.

Eins og áður sagði er það mín bjargfasta skoðun að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi alls ekki að vera yfirlýstir stuðningsmenn einhverra ákveðinna stjónmálaflokka heldur eiga þeir að vinna að einni pólitík og það er að sjálfsögðu verkalýðspólitík.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image