• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Nov

Varnaðarorðin farin að berast vegna komandi kjarasamninga

Af hverju eiga fiskvinnslufyrirtækin að komast hjá því að hækka laun sinna starfsmanna?Nú heyrast sömu varnaðarorðin og heyrðust fyrir kjarasamningana á hinum almenna vinnumarkaði árið 2008, það er að segja frá Samtökum atvinnulífsins og Seðlabankanum. Þessir aðilar kalla nú eftir að gengið verði frá hófstilltum kjarasamningum til að tryggja hér stöðugleika og flýta efnahagslegum bata.

Rétt er að geta þess að þetta eru sömu varnaðarorðin og heyrðust eins og áður sagði árið 2008. Verkalýðshreyfingin gekk frá hófstilltum kjarasamningum. Verðbólgan var einungis 5,6% þá og áttu samningarnir á hinum almenna vinnumarkaði að tryggja að verðbólgan yrði komin niður í 2,5% örfáum mánuðum síðar. Þrátt fyrir að gengið hafi verið frá hófstilltum kjarasamningum þá varð hér algjört efnahagshrun með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenskt verkafólk sem gat ekki borið nokkra ábyrgð á þessu hruni.

Nú á að biðja þessa sömu aðila sem eru búnir að taka á sig stórfelldar hækkanir frá sveitarfélögum, ríki, tryggingarfélögum, verslunareigendum, orkufyrirtækjum og svo framvegis, að sýna skynsemi í sínum kjarasamningum og ganga frá afar hófstilltum launahækkunum. Óréttlætinu ætlar með öðrum orðum ekkert að ljúka og það á að halda áfram að varpa öllum vandanum viðstöðulaust yfir á íslenska launþega.

Vissulega eru atvinnugreinar í okkar samfélagi sem eiga í erfiðleikum eins og til dæmis byggingariðnaðurinn og síkum greinum þarf eðli málsins samkvæmt að sýna skilning í komandi kjarasamningum. En að Samtök atvinnulífsins skuli gera kröfu um það að greinar sem hafa verið að hangast gríðarlega vegna gengishruns krónunnar komist hjá því að skila þeim ávinningi til sinna starfsmanna er algjörlega ólíðandi og verður ekki látið viðgangast. Af hverju eiga til dæmis fiskvinnslufyrirtækin að komast hjá því að hækka laun sinna starfsmanna umtalsvert eða til dæmis stóriðjufyrirtækin sem selja allar sínar afurðir í erlendri mynt en borga laun sín í íslenskum krónum. Það er alveg klárt mál að mati Verkalýðsfélags Akraness að þessi fyrirtæki hafa fulla burði og getu til að hækka laun sinna starfsmanna umtalsvert meira heldur en aðrar atvinnugreinar í íslensku samfélagi.

Það er einnig siðferðisleg skylda atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar að lagfæra lágmarkslaun á Íslandi. Það gengur ekki upp lengur að bjóða hér upp á launataxta þar sem útilokað er að framfleyta sér á. Ef verkalýðshreyfingunni mistekst að lagfæra þessi lágmarkslaun þá hvílir sú skylda á Alþingi Íslendinga að lögbinda hér lágmarkslaun með þeim hætti að það gefi þeim sem fá greitt eftir þeim tækifæri til að framfleyta sér og sínum.

Það vakti athygli formanns félagsins að í frétt inni á vef Samtaka atvinnulífsins kemur fram að viðræður við verkalýðshreyfinguna séu hafnar vegna komandi kjarasamninga. Þessi frétt vakti undrun mína, sérstaklega í ljósi þess að stærsta landssambandið innan Alþýðusambands Íslands er ekki einu sinni búið að móta sína kröfugerð endanlega og þaðan af síður að ganga frá samninganefnd. Því veltir formaður því fyrir sér við hverja forsvarsmenn SA eru að ræða vegna komandi kjarasamninga, varla getur það verið við forystumenn Alþýðusambandsins vegna þess að ASÍ fer ekki með samningsumboð vegna komandi kjarasamninga heldur liggur það hjá stéttarfélögunum sjálfum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image