• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Oct

Skjaldborg fyrir fjármagnseigendur

Eftirfarandi pistill eftir formann félagsins var birtur á Pressunni í dag:

Skjaldborg fyrir fjármagnseigendur

 
Mánudaginn 4. október voru um 8.000 manns mætt á Austurvöll. Að mínu mati krafðist stór hluti þess fólks sem þar var mættur almennra leiðréttingu á þeim forsendubresti sem hefur orðið á skuldum íslenskra heimila. Samkvæmt útreikningi frá Hagsmunasamtökum heimilanna þá áætla þau að kostnaður íslenskra heimila vegna bankahrunsins nemi rúmum 400 milljörðum króna í formi hækkunar á gengis- og verðtryggðum lánum heimilanna.

Alþýða þessa lands hefur þurft að horfa upp á hvernig slegin hefur verið skjaldborg utan um fjármagnseigendur hér á landi og nægir að nefna í því samhengi 200 milljarða greiðslu inn í peningamarkaðssjóðina við hrun bankanna. Á sama tíma þegar koma tillögur um almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna vegna þess forsendubrests sem varð þá spretta fram varðmenn fjármagnseigenda og tala slíkar tillögur niður af fullum þunga.

Skuldsett heimili geta ekki sætt sig við að lesa um í fréttum nánast vikulega af stórfelldum afskriftum hjá auðmönnum og einstökum fyrirtækjum á sama tíma og erfitt virðist vera að finna lausn á skuldavanda heimilanna. Þessar afskriftir hafa ratað í fjölmiðla á undanförnum mánuðum:

•   54,7 milljarðar hjá 8 ótilteknum fyrirtækjum
•   Kjalar í eigu Ólafs Ólafssonar 88 milljarðar
•   Ólafur Ólafsson, Egla 25 milljarðar
•   1998 í eigu Jóns Ásgeirs 30 milljarðar
•   SÆ14 (áður Húsbygg) 400 milljónir
•   Bjarni Ármannsson 800 milljónir
•   Pálmi Haraldsson í Fons 30 milljarðar
•   Sigurður Bollason 11 milljarðar
•   Finnur Ingólfsson í Langflugi 14 milljarðar
•   Magnús Kristjánsson útgerðarmaður 50 milljarðar
•   Skinney Þinganes 2,6 milljarðar
•   Samtals 306,5 milljarðar

Ríkisstjórn Íslands talaði um að slá skjaldborg utan um íslensk heimili á sínum tíma. Ef marka má þessar afskriftir þá virðist skjaldborgin ekki hafa verið slegin utan um íslensk skuldsett heimili  heldur virðist skjaldborgin hafa verið reist fyrir auðmenn og fjármagnseigendur hér á landi. Slíkt mun alþýða þessa lands ekki sætta sig við og það er grundvallaratriði að íslensk stjórnvöld leiti að og finni leið til að leiðrétta skuldir heimilanna. Heimilin eru ekki að biðja um ölmusu heldur einungis um sanngjarna leiðréttingu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image