• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Nov

Lögbinda þarf lágmarkslaun ef...

Nú eru aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands hvert á fætur öðru að móta sínar kröfugerðir vegna komandi kjarasamninga. Það er ljóst að mörg aðildarfélög innan SGS vilja leggja ríka áherslu á að lagfæra lágmarkslaun og lágmarkstaxta enda er það skoðun margra að þau lágmarkslaun sem í gildi eru í dag dugi engan veginn fyrir lágmarksframfærslu. 

En nú er farinn að berast grátur frá atvinnurekendum um að hækkun launa sé vart til umræðu og nefna þeir að þeir geti einungis hækkað laun sem nemur frá 1-2%. Þetta er sami grátur og hefur svosem heyrst áður þegar kemur að því að kjarasamningar hjá verkafólki eru lausir. Þó vissulega séu ákveðnar greinar í íslensku samfélagi sem eiga erfitt um þessar mundir þá eru einnig klárlega til greinar sem eru að gera mjög góða hluti og nægir að nefna útflutningsgreinarnar í því samhengi.

Það er rétt að geta þess að stór hluti félagsmanna innan Starfsgreinasambandsins er að fá greidd laun eftir þeim launatöxtum sem í gildi eru en lægsti taxtinn sem hægt er að greiða eftir þar er 157.752 kr. Hæst getur fólk komist í 193.936 kr. samkvæmt launaflokki 17 eftir 7 ára starf. En langflestir eru í launaflokkum frá 1 til 7 þar sem eru laun frá 157 þúsund til 174 þúsund fyrir fulla dagvinnu.

Það er morgunljóst í huga formanns Verkalýðsfélags Akraness að þessa launataxta verður að lagfæra með afgerandi hætti í komandi kjarasamningum og tryggja verður að lágmarkslaun á Íslandi verði alls ekki undir 200 þúsund krónum þegar gengið hefur verið frá nýjum kjarasamningi. Það eru flestir sammála því að lágmarkslaun á Íslandi eru samfélagslegt mein sem verður að lagfæra. Nægir að nefna orð Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra, en fram kom í máli hans í fréttum ekki alls fyrir löngu að það sé staðreynd að lágmarkslaun séu mjög lág fyrir tekjulægstu hópana.

Einnig sagði Runólfur Ágústsson, stjórnarformaður Vinnumálastofnunar, að lágmarkslaun á Íslandi séu það lág að það sé enginn hvati fyrir einstaklinga að fara af til dæmis atvinnuleysisbótum yfir á þau lágmarkslaun sem nú er verið að greiða. Með þessu er ekki verið að segja það að örorku- og atvinnuleysisbætur séu of háar því það vita allir að þesar bætur eru einnig skammarlega lágar og það þarf að lagfæra.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að nú verði fulltrúar Starfsgreinasambands Íslands að standa fast í lappirnar hvað varðar lagfæringu á launatöxtum SGS því þeir launataxtar sem nú eru í gildi eru atvinnurekendum og okkur í Starfsgreinasambandinu til skammar. Það er einnig morgunljóst að ef verkalýðshreyfingunni ber ekki gæfa til að lagfæra lágmarkslaunin þannig að þau dugi fyrir lágmarksframfærslu þá verður Alþingi Íslendinga að lögbinda lágmarkslaun hér þannig að launþegar verði tryggðir fyrir því að lágmarkslaun dugi fyrir lágmarksframfærslu. Rétt er að rifja upp að núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, ásamt fleiri Samfylkingarþingmönnum, lögðu fram frumvarp um lögbindingu lágmarkslauna síðast 2005 og það er afar fróðlegt að lesa greinargerðina sem fylgdi með frumvarpinu. Það sem fram kom í þeirri greinargerð á svo fyllilega við í dag. Hér koma nokkur atriði sem fram komu í umræddri greinargerð:

"Lág taxtalaun hér á landi eru efnahagslegt vandamál. Þau leiða til þess að ýmsir sem eru á þessum launum eiga vart fyrir mat, hvað þá að þeir geti nýtt sér þá þjónustu sem eðlilegt er að veitt sé í nútímaþjóðfélagi".

Lægstu taxtalaunin eru svo lág að það er gjörsamlega óverjandi fyrir þjóðfélagið. Ekki má gleyma því að fjölmargir fá greitt samkvæmt þessum töxtum og má þar nefna ófaglært starfsfólk, ekki hvað síst á vegum hins opinbera".

Frumvarp þetta er liður í þeirri stefnumörkun jafnaðarmanna að skapa hér mannsæmandi umhverfi fyrir launafólk og stuðla jafnframt að heilbrigðu og þróttmiklu efnahagslífi. Ef þessi leið verður ekki farin og taxtalaunin látin eiga sig eina ferðina enn í næstu kjarasamningum mun sífellt stærri hópur launamanna sitja eftir með lágmarkstaxta og ekki eiga sér viðreisnar von. Við megum ekki láta mál þróast á þann veg".

Það sem kom fram í þessari greinargerð á svo sannarlega við enn þann dag í dag og vill formaður ítreka það að ef verkalýðshreyfingunni tekst ekki að lagfæra þessi skammarlegu lágmarkslaun þá er kjörið tækifæri fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, núverandi forsætisráðherra og flutningsmann þessa frumvarps, að leggja fram nýtt frumvarp um lögbindingu lágmarkslauna til hjálpar þeim sem minnst mega sín í íslensku samfélagi.

Eins og áður kom fram þá er stór hluti félagsmanna innan SGS að starfa eftir áðurnefndum launatöxtun en að sjálfsögðu þarf að tryggja það að þeir sem að taka ekki laun eftir þessum töxtum fái einnig launahækkanir í komandi kjarasamningum. Enda gengur það alls ekki upp að allir, ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, tryggingafélög, orkufyrirtæki og svo framvegis varpi sínum vanda stöðugt yfir á íslenska launþega. Nú er fyrsta tækifæri hjá íslenskum launþegum að bæta sinn hag en það er í gegnum sína kjarasamninga.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image