• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Oct

Formaður félagsins ósáttur með forystu Alþýðusambands Íslands

Eftirfarandi viðtal var tekið við formann Verkalýðsfélags Akraness á Pressan.is í morgun:

Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir verkalýðsforystuna hafa brugðist sínum umbjóðendum og íhugar hann að slíta samstarfi við ASÍ og Starfsgreinasambandið. Hann skýtur sömuleiðis föstum skotum á forystu lífeyrissjóðanna.

Vilhjálmur er verulega ósáttur við þær fullyrðingar formanna ASÍ og Starfsgreinasambandsins um að óráðlegt sé að fara í almennar leiðréttingar á skuldum heimilanna þar sem þeir telja að slíkar aðgerðir væru aðför að lífeyrissparnaði landsmanna.

Ég tel alveg ljóst að miðað við þennan málflutning tel ég að þeir séu að bregðast sínum umbjóðendum. Það hefur gríðarleg gjá myndast á milli forystu og launþega og þeir hafa ekki verið að taka afstöðu með sínu launafólki. Þetta er ekki eina dæmið, ég get nefnt stöðugleikasáttmálann en það eina sem gekk eftir í honum var að launafólk var þvingað til að fresta eða afsala sér launahækkunum.

Vilhjálmur segist velta því fyrir sér hvort Verkalýðsfélag Akraness eigi í raun samleið með ASÍ og Starfsgreinasambandinu og segir koma til að álita að afturkalla aðildina að þessum samtökum.

Það gerist ekki nema að leggja það undir félagsmenn og það þarf góður meirihluti að samþykkja slíkt.

Fjölmargir hagsmunaaðilar sem og sérfræðingar hafa stigið fram á undanförnum vikum og sagt að almennar niðurfærslur skulda séu ógerlegar sökum hás kostnaðar. Vilhjálmur spyr á móti hvað það kosti að gera ekki neitt.

Það er hárrétt, þetta kostar 220 milljarða samkvæmt útreikningum. En það hafa aldrei verið færð rök fyrir því hvað gerist ef ekkert verður gert. Það er ekkert mál að dúndra upp excel skjali og gefa sér upp forsendur. Hér er verið að tala um leiðréttingu á skuldum heimilanna og almenningur getur ekki horft upp á lengur að hundruð milljarða séu afskrifaðar hjá auðmönnum, einstaka fyrirtækjum og svo framvegis. Það var ekkert mál að leggja 200 milljarða inn í peningamarkaðssjóði á sínum tíma. Skattgreiðendur borguðu það.

Vilhjálmur er sömuleiðis harðorður í garð lífeyrissjóðanna sem hann segir hafa tapað „stjarnfræðilegum“ upphæðum í hruninu. Þar að auki hafi þeir einungis skilað 2 prósenta raunávöxtun síðustu 10 ár.  Þrátt fyrir það hafi engin endurnýjun orðið innan sjóðanna.

Í gær segir Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins sem er stærsta landsambandið innan ASÍ, að hugmyndir um almenna lækkun skulda sé aðför að lífeyrissparnaði. Hann var stjórnarmaður og að endingu stjórnarformaður Sparisjóðs Keflavíkur þar sem Festa lífeyrissjóður þurfti að afskrifa tvo milljarða vegna falls þess sparisjóðs. Það er á hreinu að fall Sparisjóðs Keflavíkur hefur bitnað á lífeyrisgreiðslum verkafólks. Hver ber ábyrgð á því?

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image