• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

28
Sep

Álverðið hækkaði um 25,1% frá því í júní í fyrra

Norðurál á GrundartangaNorðurál á GrundartangaAð undanförnu hefur heimsmarkaðsverð á áli rokið upp og stendur nú í 2.315 dollurum fyrir tonnið miðað við þriggja mánaða framvirka samninga. Álverðið sveiflaðist dálítið til í fyrra og fór niður í 1.850 dollara um miðjan júnímánuð og hefur því núna hækkað um 25,1% síðan þá.

Þetta er afar jákvætt fyrir álverin hér á landi og styrkir til að mynda rekstrargrundvöll Norðuráls á Grundartanga verulega en framleiðslugeta Norðuráls á Grundartanga er í kringum 280 þúsund tonn á ári. Því þýðir þetta verð á ársgrundvelli um 75 milljarða í útflutningstekjur fyrir Norðurál á Grundartanga. Fyrir hvert áltonn í dag eru álverin því að fá 265 þúsund íslenskar krónur.

Það er engin launung að stóriðjan á Grundartanga skiptir okkur Akurnesinga sem og samfélagið allt gríðarlega miklu máli enda eru upp undir 3 þúsund manns sem vinna á svæðinu, þar með talin afleidd störf.

Kjarasamningar í stóriðjunum eru lausir um áramótin og eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er það skoðun Verkalýðsfélags Akraness að sækja eigi á útflutningsfyrirtækin sem hafa verið að gera góða hluti sökum gengisbreytinga á krónunni. Hækkun álverðs mun einnig hjálpa til við kjarasamningsgerðina núna um áramótin en launaliður samnings starfsmanna Norðuráls verður laus þá.

27
Sep

Verkalýðsfélag Akraness gerir samning við tryggingafélagið VÍS um afsláttarkjör handa félagsmönnum

Verkalýðsfélag Akraness leitar nú allra leiða til að létta greiðslubyrði sinna félagsmanna með öllum tiltækum ráðum. Að undanförnu hafa starfsmenn félagsins staðið í viðræðum við fyrirtæki hér á Akranesi og leitast eftir afsláttarkjörum fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness.

Þessi vinna hefur nú þegar borið umtalsverðan árangur, en á föstudaginn skrifaði félagið undir viðskiptasamning við tryggingafélagið VÍS um afsláttarkjör til handa sínum félagsmönnum.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá var undirritaður samningur við N1 um afslátt.  Afsláttarkjörin hjá N1 eru mjög víðtæk og sem dæmi munu félagsmenn njóta 6 króna afsláttar af dæluverði eldsneytis ásamt hinum ýmsu afsláttum af öðrum vörum hjá N1.

Hægt er að sjá samninginn hér og þau afsláttarkjör sem í boði eru hér.

Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu félagsins til að fá nánari upplýsingar um hvernig þeir virkja afsláttinn á viðskiptakorti eða greiðslulykli sínum.

Að auki hefur félagið náð samkomulagi við fleiri fyrirtæki hér á Akranesi, en þeirri vinnu er ekki endanlega lokið. Þau fyrirtæki sem nú þegar hafa ákveðið að veita félagsmönnum afslátt gegn framvísun félagsskírteinis eru:

  • Tryggingafélagið VÍS 5% óháð öðrum afsláttarkjörum sem félagsmenn kunna að hafa.
  • N1 umtalsverður afsláttur á vörum og þjónustu sjá nánar hér að ofan.
  • Apótek Vesturlands 10% afsláttur af vörum í búð (ekki lyfjum)
  • Ozone 10% afsáttur.
  • Omnis 15 % afsláttur af skólavörum, skrifstofuvörum og bleki, 5% afslátt af tölvum og öðrum vörum - 12 mánaða vaxtalaus lán á kreditkort (GSM símar undanskildir)
  • Bifreiðaverkstæðið Brautin  7% afsláttur af vinnu.

Eins og áður hefur komið fram vonast félagið til þátttöku mun fleiri fyrirtækja og að þetta átak muni verða til þess að lækka greiðslubyrði félagsmanna.

Þau fyrirtæki sem eru tilbúin til að veita afslætti fyrir Verkalýðsfélag Akraness eru eindregið hvött til að hafa samband við skrifstofu félagsins. Rétt er að geta þess að um 3.000 félagsmenn eru í VLFA og mun félagið sjá um að auglýsa þessi afsláttarkjör vel og rækilega fyrir sínum félagsmönnum.

23
Sep

1,4 milljónir innheimtar í síðustu viku fyrir 4 félagsmenn

Töluvert hefur verið að gera hjá skrifstofu félagsins við varðveislu á réttindum félagsmanna að undanförnu og sem dæmi þá gekk félagið nýlega frá sátt vegna brota á hvíldarákvæði kjarasamninga, en sáttin var unnin í samvinnu við lögmenn Samtaka atvinnulífsins og fékk félagsmaðurinn sem brotið sneri að greiðslu sem nam kr. 400.000.

Félagið var einnig að innheimta launakröfu í gegnum Ábyrgðasjóð launa og nam heildarkrafan tæpri milljón sem skiptist á milli þriggja starfsmanna. Voru umræddir félagsmenn að vonum ánægðir þegar félagið hafði samband við þá og lét vita að þeir fjármunir sem loksins hafði tekist að innheimta væru komnir. Munu þessar innheimtugreiðslur klárlega koma félagsmönnunum í góða í þeim efnahagsþrengingum sem nú herja á okkur Íslendinga.

Félagið er líka með fleiri mál inni hjá Ábyrgðasjóði launa sem vonandi kemst niðurstaða í innan nokkurra vikna eða mánaða. Stærsta málið varðar BM Vallá og er þar um að ræða umtalsverðar fjárhæðir vegna vangoldinna launa.

Síðan er félagið ásamt lögmanni sínum að vinna að stefnu fyrir hönd félagsmanns vegna brota á hvíldarákvæðistímum, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir skrifstofu félagsins til að ná sátt við fyrirtækið þá hefur það ekki borið árangur. Á þeirri forsendu mun félagið að sjálfsögðu innheimta umrætt brot í gegnum dómsstóla. Hér er um tæplega 300.000 kr. kröfu að ræða.

Þessi mál sýna svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er að hafa sterkt og öflugt stéttarfélag sér að baki. Því leikurinn milli launþega og atvinnurekanda getur verið afar ójafn í deilumálum sem þessum og er þar vægt til orða tekið. Því er gott að geta leitað til félagsins til að fá aðstoð við lausn á slíkum deilumálum.

23
Sep

Fundað með atvinnuleitendum

Í gær fundaði formaður með atvinnuleitendum í Þorpinu þar sem haldin eru hin ýmsu námskeið fyrir atvinnuleitendur á Akranesi. Fundurinn var afar gagnlegur, en fjölmargar spurningar bárust til formanns um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.

Fram kom í máli atvinnuleitenda að þeim finnist ósanngjarnt að þegar þeir eða börn þeirra lendi í veikindum þá missi þeir bætur sökum þess. Formaður tók undir þessa ábendingu, en benti á að þeir sem taka ákvörðun um að greiða félagsgjald til síns stéttarfélags eiga þar með rétt á sjúkradagpeningum fyrir þá daga sem þeir missa bætur. Hjá VLFA á viðkomandi atvinnuleitandi rétt á sjúkradagpeningum strax og er ekkert sem kveður á um að atvinnuleitandi þurfi að hafa vera frá í 10 daga eða lengur eins og tíðkast hjá sumum stéttarfélögum.

Formaður greindi einnig frá öllum þeim réttindum sem fólk hefur taki það ákvörðun um að greiða til félagsins og eru umtalsverðir hagsmunir þar í húfi fyrir atvinnuleitendur. Fram kom í máli nokkurra að þeir töldu afar brýnt að fundin yrði út svokölluð lágmarksframfærsla því þær grunnbætur sem fólki standa til boða duga engan veginn til þess að standa undir nauðsynlegri framfærslu. Formaður gerði þeim grein fyrir afstöðu VLFA til þessa máls og þeirri áskorun sem hann hefur lagt til forseta ASÍ um að hagdeild ASÍ finni þessa lágmarksframfærslu út enda er það skoðun formanns að lágmarkslaun og lágmarksbætur dugi engan veginn til að fólk geti látið enda ná saman og framfleytt sér og sínum.

22
Sep

Fiskvinnslukona með 20 ára starfsreynslu fær útborgaðar kr. 168.175

Eins og fram kom í fréttum á vef Skessuhorns þá er skortur á starfsfólki í fiskvinnslu í Grundarfirði þrátt fyrir að yfir 20 manns á svæðinu séu á atvinnuleysisskrá. Ástæðu þess að erfiðlega gengur að ráða í þessar stöður er að mati Guðmundar Smára Guðmundssonar frkv.stj. útgerðarfyrirtækisins Guðmundar Runólfssonar hf. sú staðreynd að atvinnuleysisbætur eru nú svipaðar og lágmarkslaun sem boðin eru í fiskvinnslunni.

Þetta hefur formaður margoft bent á og er í raun og veru engin nýlunda að erfiðlega hafi gengið að ráða í störf í fiskvinnslu. En það er afar athyglivert að þegar atvinnurekendur eru að kvarta yfir því að laun sem greidd eru í fiskvinnslunni séu það lág að erfiðlega gangi að fá fólk til starfa.

Það er hins vegar rétt að benda fiskvinnslufyrirtækjum á að þau hafa fulla heimild til að hækka laun sinna starfsmanna umfram þá taxta sem lágmarkskjarasamningar kveða á um.

Það verður að vera forgangsverkefni í komandi kjarasamningum að launakjör fiskvinnslufólks verði lagfærð með afgerandi hætti, enda eru allar forsendur í dag fyrir slíkri hækkun. Fiskvinnslan er að fá mun meira fyrir sínar afurðir sökum gengisfalls krónunnar í kjölfar bankahrunsins og í komandi kjarasamningum vill VLFA sjá að kjör fiskvinnslufólks verði löguð jafnvel um tugi prósenta.

Byrjandi í fiskvinnslu sem orðinn er tvítugur hefur í grunnlaun kr. 167.500. Meðtalsbónus í fiskvinnslu í dag er í kringum 200 kr. þannig að heildarlaun hans eru kr. 202.166. Að frádregnum sköttum og opinberum gjöldum eru þetta útborguð laun kr. 164.026.

Fiskvinnslukona sem starfaði hefur í 20 ár hefur í grunnlaun í dag kr. 174.500. Að viðbættum meðaltalsbónusi eru heildarlaun hennar kr. 209.166. Að frádregnum sköttum og opinberum gjöldum nema útborguð laun kr. 168.175.

Það að kona sem er búin að vinna í 20 ár í fiskvinnslu sé einungis með um 7.000 kr. meira í grunnlaun en byrjandi er algerlega óásættanlegt. Auk þess er grundvallaratriði að launakjör fiskvinnslufólks í þessari undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga verði lagfærð.  Þessi kjör fiskvinnslufólks er atvinnurekendum og okkur í verkalýðshreyfingunni til skammar.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá vill VLFA sækja hart að útflutningsfyrirtækjunum, þar með talið fiskvinnslufyrirtækjunum, sökum þeirra skilyrða sem skapast hafa hjá þessum atvinnugreinum vegna stöðu íslensku krónunnar.

Hins vegar eru ekki allir sammála því innan hreyfingarinnar eins og forseti ASÍ og einstaka formenn stærstu félaganna á höfuðborgarsvæðinu að sækja að útflutningsfyrirtækjunum. Og það er formanni óskiljanlegt einvörðungu vegna þeirrar bláköldu staðreyndar að albesta sóknarfærið í komandi kjarasamningum fyrir verkalýðshreyfinguna er á útflutningsfyrirtækin.

Ef kjör lágtekjufólks verða ekki leiðrétt í komandi kjarasamningum þá verður Alþingi Íslendinga að taka fram fyrir hendurnar á verkalýðshreyfingunni og lögbinda lágmarkslaun hér á landi og sú lögbinding lágmarkslauna mætti ekki vera undir kr. 200.000 á mánuði.

20
Sep

Galið fyrir launþega að taka þátt í þjóðarsátt

Eins og fram hefur komið í fréttum að undanförnu þá hafa Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld óskað eftir því að stöðugleikasáttmálinn frægi verði endurnýjaður. Afstaða Verkalýðsfélags Akraness til stöðugleikasáttmálans hefur ætíð verið skýr, í honum gekk nánast ekkert eftir annað en að launafólk var þvingað til að afsala sér og fresta sínum launahækkunum. Það var einnig ótrúlegt að verða vitni að því að forysta Alþýðusambands Íslands hunsaði ábendingar Verkalýðsfélags Akraness þegar sáttmálinn var gerður um að til væru fyrirtæki í útflutningsgeiranum sem hefðu fulla burði til að standa við þær launahækkanir sem um var samið 17. febrúar 2008. Á formannafundi þegar þessi sáttmáli var til umræðu nefndi formaður VLFA sérstaklega fiskvinnsluna í þeim efnum. Síðar kom í ljós að fjölmörg fyrirtæki, aðallega í fiskvinnslu, hækkuðu laun síns fólk í samræmi við kjarasamningana 2008 þrátt fyrir hafa haft möguleika á að skýla sér á bak við þennan stöðugleikasáttmála sem ASÍ hafði gert við Samtök atvinnulífsins. Starfsfólk þeirra fyrirtækja sem ekki hækkuðu launin varð hins vegar af vel á annað hundrað þúsund króna vegna þessa gjörnings Alþýðusambandsins.

Núna koma svo áðurnefndir aðilar, ríkisstjórnin og SA og óska eftir að umræddur stöðugleikasáttmáli verði endurnýjaður. Launafólk hefur þurft að afsala sér sínum hækkunum að hluta til, matarverð hefur hækkað um 40% frá janúar 2008, bensínverð um 45%, Orkuveitan hefur hækkað gjaldskrár sínar um 30%, sveitarfélög hafa skert starfshlutfall og hækkað gjaldskrár sínar, ríkið hefur komið með skattahækkanir, tryggingafélög hafa hækkað iðgjöld sín og svona mætti í raun og veru lengi telja. Þessir aðilar hafa allir sagt að þeir verði að mæta sínum vanda vegna versnandi rekstrarafkomu og hækkunar á skuldastöðu.

Núna þegar kemur að því að kjarasamningar eru lausir á hinum almenna vinnumarkaði og almennt launafólk hefur loksins tækifæri til þess að bæta hag sinn í formi launahækkana þá ætlast þessir aðilar til að þessi hópur sitji hjá með hófstilltum launahækkunum. Launþegar sem hafa þegar tekið á sig áðurnefndar hækkanir eiga með öðrum orðum að auki að sætta sig við litlar sem engar launahækkanir ef marka má ósk Samtaka atvinnulífsins um langtímasamning til 3 ára með 1-3% hækkun á ári.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness trúir því ekki að forysta Alþýðusambands Íslands sé svo mikið sem að íhuga að fara í samstarf við áðurnefnda aðila einvörðungu vegna þeirrar bláköldu staðreyndar að báðir þessir aðilar hafa varpað sínum vanda viðstöðulaust yfir á íslenskt launafólk. Á formannafundi ASÍ á fimmtudaginn sagði formaður VLFA að verkalýðshreyfingunni bæri að standa þétt saman í því að snarhækka hér lágmarkslaun og sækja af fullum þunga á útflutningsgreinarnar, enda hefur framkvæmdastjóri SA sjálfur sagt að útflutningsgreinarnar hafi fulla burði til að standa undir auknum launakostnaði. Það er dapurlegt að heyra málflutning forseta Alþýðusambands Íslands sem varar við þeirri leið að sækja að útflutningsgreinunum og reyndar taka fleiri forystumenn í verkalýðshreyfingunni undir þessi orð forsetans eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Formaður spyr sig, ef ekki á að sækja á útflutningsgreinarnar, hvaða leið vill forysta ASÍ þá eiginlega fara? Í umfjöllun um formannafundinn á heimasíðu ASÍ kemur fram að einungis einn hafi átt að hafa nefnt að sækja fast á útflutningsgreinarnar. Þetta er algjört kjaftæði því það voru mun fleiri sem nefndu það að við ættum að sækja fast á útflutningsgreinarnar í komandi kjarasamningum. Nægir að nefna fulltrúa Framsýnar á Húsavík, Afl frá Austurlandi og formann Samiðnar.

Það virðist fara óskaplega í taugarnar á sumum forystumönnum í verkalýðshreyfingunni að formaður Verkalýðsfélags Akraness skuli ekki styðja þá linkind sem einkennir forystu ASÍ um þessar mundir. Nægir að nefna alla pistlana frá formanni Rafiðnaðarsambands Íslands í því samhengi en hann virðist vera afar upptekinn af því að fjölmiðlar skuli yfir höfuð ræða við formann Verkalýðsfélags Akraness og formann Framsýnar á Húsavík.

Formaður hefur áður sagt honum finnist verkalýðshreyfingin vera gjörsamlega bitlaus í afar mörgum aðgerðum sínum og er hann síður en svo einn um þá skoðun ef marka má þá fjölmörgu félagsmenn VLFA og aðra sem gagnrýnt hafa hreyfinguna fyrir máttleysi og aðgerðaleysi í skuldastöðu heimilanna. Eins og margir vita þá hefur forseti ASÍ marglýst því yfir að hann styði verðtrygginguna. Það er að mati formanns með hreinustu ólíkindum að verkalýðshreyfingin í heild sinni skuli ekki berjast af alefli fyrir því að afnema verðtrygginguna og kalla eftir almennri leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstól verðtryggðra og gengistryggðra lána íslenskra heimila.

Hvað sagði ekki Ögmundur Jónasson, fyrrverandi formaður BSRB og núverandi ráðherra í setningarræðu á þingi BSRB í fyrra; eru aðilar vinnumarkaðar í fleirtölu að verða aðili í eintölu? Formaður tekur undir það sem Ögmundur gefur í skyn um forystu ASÍ, og finnst merkilegt hvernig forseti ASÍ hangir sífellt í pilsfaldi Samtaka atvinnulífsins. Það eru fleiri sem gagnrýna forystu ASÍ. Hvað sagði ekki Eiríkur Jónsson, formaður kennarasambandsins, þegar hann var spurður hvort það kæmi til greina að vera í samfloti með öðrum í komandi kjarasamningum. Hann sagði félög innan KÍ örugglega ekki taka því að fá upp í hendurnar uppskrift af kjarasamningum sem samin er af SA og ASÍ eins og raunin var síðast.

Það sama mun gilda með Verkalýðsfélag Akraness. En það virðist reyndar gleymast að samningsumboðið er alls ekki hjá forystu ASÍ eins og oft mætti halda þegar maður hlustar á fréttir. Samningsumboðið er hjá hverju stéttarfélagi fyrir sig en þessu virðast sumir aðilar algjörlega hafa gleymt. Að þessu öllu sögðu telur formaður Verkalýðsfélags Akraness það galið fyrir íslenska launþega að taka þátt í þjóðarsátt miðað við það sem á undan er gengið.

17
Sep

Hvers lags klúbbur er verkalýðshreyfingin?

Formannafundur Alþýðusambands Íslands var haldinn á Hótel Nordica í gær og voru tvö mál á dagskrá. Annars vegar tillögur að breytingum á skipulagi ASÍ sem teknar verða fyrir á ársfundinum og hins vegar efnahags- og kjaramál í aðdraganda komandi kjarasamninga.

Á fundinum tók formaður VLFA til máls undir liðnum kjaramál og talaði hann alveg tæpitungulaust hvað varðar áhersluatriði í komandi kjarasamningum. Hann sagði í ræðu sinni að gríðarlega mikilvægt væri að sækja af fullum þunga á þær atvinnugreinar sem klárlega hefðu borð fyrir báru hvað launahækkanir varðar og nægir að nefna í því samhengi allar útflutningsgreinarnar svo sem fiskvinnslurnar, útgerðir, stóriðjurnar og ferðaþjónustuna.

Formaður nefndi líka að þau lágmarkslaun sem væru í boði í dag væru til skammar, enda dygðu þau ekki á nokkurn hátt fyrir lágmarksframfærslu. Lágmarkslaunin verður að hækka í komandi kjarasamningum og mega þau alls ekki verða undir kr. 200.000 á mánuði.

Það er mat formanns að sýna eigi fulla hörku í þessum samningum, því það er dapurlegt að verða vitni að því hvernig aðilar eins og ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, orkufyrirtæki, tryggingafélög ætla að láta launþega greiða úr sínum vanda á meðan launþegar eiga að sitja aðgerðalausir hjá og sætta sig við litlar kjarabætur. Slíkt kemur ekki til greina í komandi kjarasamningum.

Það kom einnig fram hjá formanni að ótækt sé að launanefnd sveitarfélaga setji öll sveitarfélög undir einn og sama hatt hvað varðar burði til að hækka laun. Það hefur t.a.m. komið fram að staða Akraneskaupstaðar sé nokkuð sterk, bæði hvað varðar tekjur og skuldastöðu. Á þeirri forsendu er alls ekki hægt að setja Akraneskaupstað undir sama hatt og t.d. Reykjanesbæ þar sem nú ríkir skelfingarástand í fjármálum.

Formaður sagði einnig í ræðu sinni að það væri hlutverk ASÍ að krefja verslunina um lækkun á vöruverði í ljósi þeirrar staðreyndar að gengi krónunnar hefur styrkst töluvert á undanförnum vikum. Enda hefur gengi evru gagnvart krónunni lækkað um 18,4% frá því gengi gjaldmiðilsins var sem hæst og gengi dollarans hefur að sama skapi lækkað um 21%. Þessi lækkun hefur ekki birst í lækkun á matarverði.

Það er gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin standi þétt saman að því að sækja að þeim atvinnugreinum sem starfa í útflutningi því án samtakamáttar hreyfingarinnar er líklegt að árangurinn verði lakari en ella. Því er það dapurlegt að hafa lesið um það í fréttum að forseti ASÍ og einstaka formenn stærstu félaganna hafa varað við þeirri aðferðafræði að sækja á útflutningsgreinarnar. Það er hlutverk samninganefndar stéttarfélaganna að geta fært rök fyrir því af hverju laun eiga að hækka og hvergi nokkurs staðar eru rökin sterkari en gagnvart útflutningsfyrirtækjunum sem hafa verið að hagnast umtalsvert vegna veikingar íslensku krónunnar. Þetta eigum við að nýta okkur í komandi kjarasamningum.

Að lokum sagði formaður í ræðu sinni að ef við nýtum okkur ekki þessa stöðu þá verði hann að segja það sama og forseti Íslands sagði í viðtali við Bloomberg fréttastofuna varðandi Evrópusambandið: hvers lags klúbbur er verkalýðshreyfingin?

13
Sep

Formannafundur á fimmtudaginn

Formannafundur aðildarfélaga ASÍ verður haldinn fimmtudaginn 16. september næstkomandi. Á fundinum verður fjallað um hugmyndir um breytingar á skipulagi ASÍ og einnig verður að sjálfsögðu fjallað um stöðu efnahags- og atvinnumála í aðdraganda kjarasamninganna.

Þó svo að samningsumboð vegna komandi kjarasamninga liggi alfarið hjá stéttarfélögunum sjálfum þá er líklegt að töluverður tími fari í að ræða hvaða stefnu skuli taka í þeim kjarasamningum. Verkalýðsfélag Akraness hefur þá sýn á komandi kjarasamninga að sótt verði að þeim atvinnugreinum sem hafi borð fyrir báru til að hækka verulega laun sinna starfsmanna og nægir að nefna útflutningsgreinarnar eins og fiskvinnsluna, ferðaþjónustuna og stóriðjurnar í því samhengi. Einnig telur félagið það afar brýnt að lágmarkslaun verði hækkuð í það minnsta upp í 200 þúsund krónur í næstu samningum vegna þess að ógerningur er fyrir fólk að láta enda ná saman á launum undir því.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að forysta ASÍ sé ekki hlynnt því að sótt verði á útflutningsgreinarnar og vill þar af leiðandi fara einhverja aðra leið sem ekki liggur endanlega fyrir hver er. Þessi afstaða er formanni óskiljanleg því það er skylda okkar sem erum að semja við Samtök atvinnulífsins að geta fært góð og gild rök fyrir launahækkunum og á þeirri forsendu liggur fyrir að útflutningsfyrirtækin hafa verið að fá mun meira fyrir sínar afurðir á grundvelli veikingu krónunnar. Á þeirri forsendu á að sjálfsögðu að láta þann ávinning skila sér til starfsmanna umræddra atvinnugreina.

10
Sep

Lágmarkslaun eru lægri en örorkulífeyrir

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni er staða lágtekjufólks og öryrkja afar slæm og nánast útilokað fyrir fólk sem fær greitt einungis lágmarkslaun að upphæð kr. 165 000 að geta framfleytt sér.

Öryrki sem hefur engar aðrar tekjur og býr einn fær greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun Ríkisins að upphæð 180.000 kr. á mánuði. Frádreginn er skattur að upphæð kr. 22.791. Útborgaður lífeyrir er kr. 157.209.

Starfsmaður sem fær greitt einungis lágmarkslaun sem eru kr. 165.000 greiðir í skatt kr. 14.751, í lífeyrissjóð kr. 6.600 og í stéttarfélag kr. 1.650. Þessi starfsmaður fær útborgað kr. 141.999 sem er 15.210 krónum minna en sá sem fær greiddan örorkulífeyri.

Þannig að launþegi sem einungis fær greitt eftir lágmarkslaunum á Íslandi í dag er verr settur en öryrki sem fær 180.000 í heildarlífeyri á mánuði.

Vandi öryrkja er stórkostlegur og það má ekki misskilja þessa ábendingu þannig að tekjur þeirra teljist vera háar, enda er það mat formanns VLFA að þær dugi ekki fyrir lágmarksframfærslu og þær þurfi að hækka. Hins vegar tel ég brýnt að benda á að lágmarkslaun á Íslandi eru 15.000 krónum undir því sem Tryggingastofnun greiðir einstæðum öryrkjum sem ekki hafa aðrar tekjur.

Það er morgunljóst að vandi lágtekjufólks á Íslandi og þeirra sem starfa á berstrípuðum lágmarkslaunum verður að hafa forgang í komandi kjarasamningum enda verður að tryggja með öllum tiltækum ráðum að lágtekjufólk hafi möguleika á að framfleyta sér og sínum. Á þeirri forsendu þarf að hækka lágmarkslaun og lífeyrir upp í að lágmarki kr. 200.000 á mánuði þannig að möguleiki sé fyrir fólk að framfleyta sér.

09
Sep

Fátækt er þjóðarskömm

Fjölmennur fundur var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur í gærkvöldi undir yfirskriftinni Fátækt á Íslandi. Formanni VLFA var boðið að sitja í pallborði og svara fyrirspurnum. Auk formanns sátu í pallborði ráðherrarnir Guðbjartur Hannesson og Ögmundur Jónasson, Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, Ásta Sigrún Helgadóttir umboðsmaður skuldara, Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB og Stella Kristín Víðisdóttir og Björk Vilhelmsdóttir frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Framsögu á fundinum höfðu atvinnuleitandi, ellilífeyrisþegi og öryrkjar sem sögðu sögu sína og það var átakanlegt að heyra um baráttu þeirra við að láta enda ná saman á þeirri framfærslu sem þeim býðst úr þeim bótasjóðum sem þeim standa til boða.

Fjölmargar fyrirspurnir bárust til formanns félagsins úr salnum. M.a. um hvort hann teldi að brýnt væri að hið opinbera léti reikna út nákvæman lágmarksframfærslustuðul. Í svari formanns kom skýrt fram að hann telur þetta afar brýnt eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins. Hann upplýsti fundarmenn um að hann hafi skorað á forseta ASÍ að láta hagdeild sambandsins reikna út nákvæman lágmarksframfærslustuðul sem klárlega myndi nýtast verkalýðshreyfingunni vel í baráttunni um að hækkun lágmarkslauna. Reyndar kom einnig fram hjá formanni að hann óttast að hið opinbera vilji alls ekki fá þennan lágmarksframfærslustuðul upp á yfirborðið og hugsanlega myndi það líka koma verkalýðshreyfingunni illa ef þessi stuðull yrði fundinn út því það er mat formanns að lágmarkslaun og bætur duga alls engan veginn fyrir þeirri lágmarksframfærslu sem þarf til að reka heimili hér á landi. Formaður sagði að öll Norðurlöndin að undanskildum Noregi væru með opinber lágmarksframfærsluviðmið. Á þeirri forsendu væri óskiljanlegt að slíkt væri ekki búið að gera hér á landi.

Formaður fékk einnig spurningu um stöðugleikasáttmálann sem gerður var á síðasta ári þar sem megininntak hans var fólgið í því að þvinga launþega til að fresta og afsala sér hluta af sínum umsömdu launahækkunum frá 17. febrúar 2008. Spurningin gekk út á það hvort eðlilegt hafi verið að þeir tekjulægstu hafi þurft að taka á sig frestun á sínum launahækkunum. Formaður rakti afstöðu VLFA til stöðugleikasáttmálans en félagið barðist af alefli fyrir því að þessi sáttmáli yrði ekki gerður og rök félagsins voru þau að klárlega væru til fyrirtæki og sérstaklega í útflutningnum sem gætu staðið við þær launahækkanir sem um hafði verið samið. Enda kom það á daginn að VLFA hafði rétt fyrir sér því fjölmörg fiskvinnslufyrirtæki komu með þær hækkanir sem samningurinn kvað á um þrátt fyrir að ASÍ hafði verið búið að gera samkomulag við SA um að þeim bæri ekki að gera slíkt.

Formaður fékk einnig fyrirspurn um lögbindingu lágmarkslauna og fram kom í svari formanns að árið 2005 hafi síðast verið lagt fram frumvarp um lögbindingu lágmarkslauna og einn af flutningsmönnum þeirrar tillögu hafi einmitt verið núverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir. Í áðurnefndu frumvarpi var gert ráð fyrir því að lágmarkslaun myndu hækka úr kr. 103.500 í kr. 138.500 sem var hækkun upp á 33,8%. Ef þetta frumvarp hefði orðið að lögum og laun hefðu auk þess tekið kjarasamningsbundnum hækkunum þá væru lágmarkslaun í dag í kringum kr. 200.000 á mánuði. Formaður sagði einnig í svari sínu að ef verkalýðshreyfingunni bæri ekki gæfa til að lagfæra lágmarkslaun hér á landi þannig að þau dygðu fyrir lágmarksframfærslu þá væri ekkert annað í stöðunni fyrir Alþingi Íslendinga en að taka fram fyrir hendur verkalýðshreyfingarinnar og lögbinda lágmarkslaun hér á landi yfir kr. 200.000 á mánuði.

Í dag er einstaklingur sem er á lágmarkstaxta með kr. 165.000 á mánuði. Hann fær útborgað einungis kr. 141.999 og er gert að greiða í skatt kr. 14.751. Meira að segja atvinnuleitandinn sem er á grunnatvinnuleysisbótum er með í tekjur kr. 149.523 og fær útborgað kr. 132.825. Meira að segja þessi einstaklingur er skattskyldur upp á tæpar 10.000 krónur. Formaður spyr sig, hversu langt er hægt að teygja sig í að skattpína lágtekjufólk.

Eitt atriði kom ekki fram á fundinum í gær, en er bráðnauðsynlegt að rifja upp sérstaklega í ljósi fundarefnisins um fátækt á Íslandi. Þann 1. janúar 1997 sagði núverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir að fátækt á Íslandi væri þjóðarskömm. Hún sagði einnig orðrétt: "Það er vissulega mjög alvarlegt ef sá maður sem öðrum fremur hefur fjöregg þjóðarinnar í hendi sér, sjálfur forsætisráðherrann neitar að horfast í augu við þá staðreynd að tugir þúsunda heimila í landinu búa við kjör nálægt sultarmörkum. Þetta er smánarblettur á þjóðinni.".

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir núverandi forsætisráðherra árið 1997. Þá var ástandið afar slæmt en óhætt er að fullyrða að það er mun verra núna. Því spyr formaður, hvað ætlar forsætisráðherra að gera við þessari þjóðarskömm? Spyr sá sem ekki veit.

Það var afar ánægjulegt að heyra í fundarmönnum að loknum fundinum hversu ánægðir þeir eru með baráttu Verkalýðsfélags Akraness fyrir bættum kjörum lágtekjufólks. Mörg falleg orð féllu um félagið sem gerir ekkert annað en að efla okkur enn frekar í því að berjast fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image