• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

20
Dec

Kröfugerðir að líta dagsins ljós

Síldarverksmiðjan og AkraneshöfnSíldarverksmiðjan og AkraneshöfnÁ föstudaginn skilaði félagið kröfugerð vegna tveggja sérkjarasamninga. Annars vegar var það kjarasamningur fyrir starfsmenn Klafa og hins vegar fyrir starfsmenn Síldarbræðslunnar á Akranesi. Kröfugerðin vegna þessara tveggja samninga er með sambærilegum hækkunum og kröfugerðin hjá Elkem Ísland en heildarkostnaðarmat þess samings var um 28%.

Félagið var búið að skila inn kröfugerð vegna starfsmanna Elkem Íslands og nú er verið að vinna að kröfugerð vegna launaliðar í kjarasamningi Norðuráls en launaliður þess samnings rennur út nú um áramótin.

Það er alveg ljóst að kjarasamningsviðræður vegna allra þeirra samninga sem nú eru lausir munu ekki hefjast af neinum þunga fyrr en eftir áramót en gríðarlegt álag verður í kringum þær viðræður þar sem margir kjarasamningar eru að renna út eða eru það nú þegar. Kröfugerð félagsins tekur töluvert mið af atvinnugreinum og er alveg ljóst að félagið mun sækja nokkuð þungt á þau fyrirtæki sem eru með starfsemi tengda útflutningi, eins og til dæmis stóriðjurnar og fiskvinnslufyrirtækin.

17
Dec

Afsláttur fyrir félagsmenn hjá Reykjavíkurhótelum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hafa allir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness nú fengið sent afsláttarkort sem veitir þeim afslátt í ýmsum fyrirtækjum á Akranesi. Starfsmenn skrifstofu leitast við að bæta við afsláttarkjörum eftir fremsta megni og nú hefur félagið gert samning við Reykjavíkurhótel varðandi afslátt til handa félagsmanna.

Um er að ræða afslætti sem gilda á Grand Hótel, Hótel Reykjavík Centrum og á Fosshótelunum. Á þetta við bæði um gistingu og veitingar en einnig er hægt að leigja sali sem henta vel fyrir hvers konar fundi, ráðstefnur, námskeið og fleira. Hér má sjá nánari upplýsingar um afsláttarkjörin. Er það von félagsins að þessi kjör muni nýtast félagsmönnum vel, hvort sem þeir eru búsettir á Akranesi eða annars staðar á landinu.

15
Dec

Samningafundur vegna kjarasamnings Elkem Íslands var haldinn í gær

Í gær var fyrsti samningafundur vegna kjarasamnings starfsmanna Elkem Íslands haldinn á Grundartanga. Til fundarins mættu Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Sigrún Pálsdóttir, mannauðsstjóri fyrirtækisins og formenn Verkalýðsfélags Akraness og FIT. Einnig sátu fundinn aðaltrúnaðarmaður og einn af trúnaðartengiliðum starfsmanna.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness lagði fram kröfugerð starfsmanna Elkem Íslands og gerði grein fyrir henni en heildarkostnaðarmat kröfugerðarinnar er um 28%. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er það meginkrafa Verkalýðsfélags Akraness að sækja að þeim fyrirtækjum sem eru starfandi í útflutningi og hafa verið að njóta góðrar afkomu vegna gengisbreytinga á íslensku krónunni.

Í kröfugerðinni er lögð áhersla á hækkun grunnlauna hjá starfsmönnum Elkem Íslands. Það er mat félagsins að grunnlaun byrjanda upp á rétt rúmar 184 þúsund krónur séu skammarlega lág miðað við eðli þeirrar starfsemi sem unnin er í þessari verksmiðju enda eru starfsmenn að vinna við mjög krefjandi og jafnvel hættulegar aðstæður.

Rekstur Elkem Íslands hefur gengið nokkuð vel að undanförnu og nægir að nefna að eigið fé fyrirtækisins er um 20 milljarðar króna. Fyrirtækið gerir upp í norskum krónum og hefur íslenska krónan veikst um 73% miðað við þá norsku frá 1. janúar 2008 fram til dagsins í dag. Á þessu sést að fyrirtækið hefur umtalsvert svigrúm til þess að hækka laun starfsmanna allverulega.

Það er alveg ljóst að umtalsverð kaupmáttarrýrnun hefur verið hjá starfsmönnum Elkem Íslands frá 1. janúar 2008 en formanni reiknast til að kaupmáttarskerðingin sé um 10% frá þeim tíma. Formaður gerði fulltrúa Samtaka atvinnulífsins það algjörlega ljóst að þessi samningur er sjálfstæður kjarasamningur og mun félagið ekki líða það að dráttur verði á kjarasamningsviðræðum vegna kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði. Staða stóriðjufyrirtækja og fyrirtækja í útflutningi er eðli málsins samkvæmt mun betri til launahækkana heldur en margra annarra atvinnugreina hér á landi um þessar mundir. Á þeirri forsendu mun félagið ekki sýna neina linkind í viðræðum við fyrirtæki sem eru starfandi í útflutningi.

10
Dec

Samningafundur vegna kjarasamnings Elkems Íslands

Boðað hefur verið til samningafundar vegna kjarasamning starfsmanna Elkem Íslands á þriðjudaginn næstkomandi og verður fundurinn haldinn í fundarsal fyrirtækisins á Grundartanga.

Trúnaðarmenn fyrirtækisins hafa útbúið kröfur vegna komandi kjarasamnings og er Verkalýðsfélag Akraness að setja þessar kröfur upp. Þær verða svo lagðar fram á fundinum á þriðjudaginn. Það er alveg ljóst að kröfugerðin endurspeglar það ástand sem er hjá fyrirtækjum sem eru starfandi í útflutningi eins og Elkem Ísland en fyrirtæki í útflutningi hafa verið að njóta góðs af þeim gengisbreytingum sem orðið hafa á íslensku krónunni. Þennan ávinning vilja starfsmenn Elkem Íslands fá að hluta til til sín í komandi kjarasamningum.

Það er alveg ljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun sýna fulla hörku hjá þeim fyrirtækjum sem eru starfandi í útflutningi og hafa burði til að láta starfsmenn sína njóta ávinnings af falli krónunnar.

10
Dec

Fréttablaðið kemur út í næstu viku

Verið er að leggja lokahönd á fréttablað félagsins og verður blaðið borið út í næstu viku. Blaðið er með sambærilegu sniði og undanfarin ár en félagið gefur út tvö fréttablöð á ári, annars vegar í maí og hins vegar í desember.

Meðal efnis í blaðinu núna verður stutt yfirferð á þeim kröfum sem félagið hefur gert á Samtök atvinnulífsins er lúta að verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði ásamt fjölmörgum öðrum stuttum fréttum af starfsemi félagsins.

08
Dec

Verkalýðsfélag Akraness styrkir góð málefni

Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði í sérstakan styrktarsjóð Verkalýðsfélags Akraness sem nota á til að styrkja góðgerðarmál á félagssvæði VLFA.

Á grundvelli þessa samnings við Landsbankann ákvað stjórn félagsins á fundi sínum í gær að styrkja Mæðrastyrksnefnd Akraness um 100.000 kr.  Einnig ákvað stjórn félagsins að styrkja styrktarsjóð Akraneskirkju um 150.000 kr. og mun séra Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur okkar Skagamanna sjá um að útdeila þeim fjármunum til fjölskyldna sem eiga í fjárhagsvandræðum. Einnig var ákveðið að styrkja SÁÁ um kr. 50.000 og síðast en ekki síst Björgunarfélag Akraness um kr. 300.000 vegna frábærra starfa á undanförnum árum og einstaks björgunarafreks á Langjökli síðastliðinn vetur.

Stjórn félagsins er afar ánægð með að geta komið þessum góðgerðarsamtökum til hjálpar með þessu framlagi. 

Það er alveg ljóst að gríðarlegur fjöldi fólks á um sárt að binda fjárhagslega um þessar mundir sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Á þeirri forsendu er jákvætt að geta aðstoðað einhverja sem eiga í tímabundnum erfiðleikum fjárhagslega við að halda gleðilega jólahátíð.

07
Dec

Þurfum að sýna fulla festu í komandi kjarasamningum

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í júlí sl. þá var meginkrafa Verkalýðsfélags Akraness vegna komandi kjarasamninga að lágmarkslaun skyldu hækka í 200.000 kr. í komandi kjarasamningum. Þessi krafa félagsins vakti umtalsverð viðbrögð á sínum tíma og nægir að nefna í því samhengi viðbrögð Samtaka atvinnulífsins sem töldu þessa kröfu óeðlilega. Sjá frétt um málið hér

Nú hefur samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands afhent Samtökum atvinnulífsins kröfur sambandsins vegna komandi kjarasamninga og það er skemmst frá því að segja að aðalkrafa SGS er að lágmarkslaun hækki upp í 200.000 kr. frá 1. desember 2010. Auk þess er gert ráð fyrir tilfærslu á launaflokkum hjá hinum ýmsu starfshópum eins og t.d. fiskvinnslufólki enda er alveg ljóst að greinar tengdar útflutningi hafa fulla burði til þess að hækka laun sinna starfsmanna verulega. Þetta staðfesta þau jákvæðu tíðindi sem bárust um að Samherji hafi greitt landverkafólki sínu rúmar 260.000 kr. í eingreiðslu nú í desembermánuði.

Það er markmið samninganefndar SGS að endurheimta þann kaupmátt sem glatast hefur frá upphafi efnahagshrunsins haustið 2008, minnka atvinnuleysið og tryggja hinum lægst launuðu auknar kjarabætur. Það er alveg ljóst að það verður ekki liðið að íslensku verkafólki og öðru launafólki verði einu falið það verkefni að bera klafa efnahagshrunsins á jafngrimmilegan hátt og birtist þessa dagana í hinum skefjalausu verðlags-, skatta- og gjaldskrárhækkunum sem dynja nú á almenningi af fullum þunga.

Það er gríðarlega mikilvægt að Starfsgreinasambandið sýni fulla festu í sínum aðgerðum við að bæta kjör íslensks verkafólks því núna fyrst er tækifæri til að rétta hag þessa hóps frá hruni. Það tækifæri verðum við að nýta okkur.

02
Dec

Fundað með ungum atvinnuleitendum

Í fyrradag fundaði formaður með ungum atvinnuleitendum á Akranesi sem eru í vinnumarkaðsúrræði sem nefnist Skagastaðir. Á fundinum fór formaður yfir hin ýmsu réttindi og skyldur sem hvíla á atvinnuleitendum eins og til dæmis þá skyldu að sækja þau úrræði sem Vinnumálastofnun býður upp á hverju sinni.

Þetta var afar ánægjulegur fundur en fjölmargar spurningar komu frá hinum ungu atvinnuleitendum, bæði varðandi þau réttindi sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og einnig atvinnuástandið almennt. Einnig var töluvert spurt um þau réttindi sem stéttarfélögin bjóða fullgildum félagsmönnum sínumm upp á.

Það er alveg ljóst að Vinnumálastofnun hér á Akranesi heldur afar vel utan um atvinnuleitendur og þetta framtak þeirra, Skagastaðir, er til mikillar fyrirmyndar enda er boðið upp á fjölmörg erindi og námskeið því samhliða.

01
Dec

Afskriftir í reykfylltum bakherbergjum fjármálastofnana

Nú hafa bankar og sparisjóðir sent frá sér frétt þar sem þeir lýsa því hversu ofboðslega sanngjarnir þeir eru gagnvart skuldsettum heimilum. En þeir segja að þeir hafi samtals afskrifað um 22 milljarða króna hjá einstaklingum og fjölskyldum í tengslum við þau úrræði sem skuldugum heimilum standa til boða. Segja Samtök fjármálafyrirtækja að þetta sýni að mikill vilji hafi verið hjá bönkum og sparisjóðum að aðstoða viðskiptavini í greiðsluerfiðleikum.

Það er afar athyglisvert að sjá að bankar og fjármálastofnanir eru búnir að reikna nákvæmlega út afskriftir er lúta að skuldsettum heimilum en að sama skapi sjá þeir sér ekki fært að upplýsa almenning í þessu landi um afskriftir til auðmanna og einstakra fyrirtækja. Það er skýlaus krafa að fjármálastofnanir upplýsi nákvæmlega um allar afskriftir til auðmanna og fyrirtækja með nákvæmlega sama hætti og þau hafa upplýst um afskriftir á skuldum heimilanna. Fyrst þau gátu gert það þá hljóta fjármálastofnanirnar að geta gert slíkt hið sama um áðurnefnda aðila.
 
Rétt er að rifja upp þær afskriftir sem ratað hafa í fjölmiðla til þeirra manna sem sumir hverjir voru valdir að efnahagshruninu. Nægir að benda á fréttir sem ratað hafa í fjölmiðla um afskriftir á undanförnum mánuðum en þessar eru þær helstar:
 
•   Samtals 306,5 milljarðar
 
Á þessu sést að þær afskriftir og leiðréttingar sem átt hafa sér stað hjá skuldsettum heimilum eru grátbroslegar í ljósi þessara gríðarlegu afskrifta sem átt hafa sér stað hjá mönnum sem voru arkitektar að því efnahagshruni sem hér varð, rétt er að minna en og aftur á að þetta eru einungis afskriftir sem ratað hafa í fjölmiðla.
 
Hvar er loforð ríkisstjórnar Íslands um algjört gegnsæi í öllum málum hér á landi og að allt skuli vera uppi á borðum? Málið er einfalt, það hefur aldrei verið eins mikill leyndarhjúpur yfir starfsemi bankanna eins og núna og á þeirri forsendu á það að vera skýlaus krafa að bankarnir upplýsi almenning alfarið um allar þær afskriftir sem átt hafa sér stað en hætti tafarlaust að afgreiða þessi mál inni í reykfylltum bakherbergjum fjármálastofnana. 
 
Ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, velferð og síðast en ekki síst réttlæti getur ekki látið það átölulaust að horfa upp á að leiðrétting á skuldum heimilanna nemi einungis 22 milljörðum á sama tíma og auðmenn og einstaka fyrirtæki hafa fengið samtals hundruð milljarða í afskriftir. Slíkt mun almenningur í þessu landi ekki geta sætt sig við enda eru heimilin ekki að fara framá ölmusu heldur einungis sanngjarna og réttláta leiðréttingu á þeim forsendubresti sem hér varð.
29
Nov

Samninganefnd SGS fundaði í dag

Rétt í þessu lauk fundi samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Á fundinum var lögð lokahönd á kröfugerð Starfsgreinasambands Íslands gagnvart Samtökum atvinnulífsins.

Kröfugerðin verður ekki gerð opinber fyrr en hún hefur verið afhent fulltrúum Samtaka atvinnulífsins, en það verður gert 6. desember nk.

Það eina sem formaður getur sagt er að hann er nokkur sáttur við áherslur þeirrar kröfugerðar sem Starfsgreinasambandið hefur nú mótað. En eins og flestir vita þá hafa ýmsir aðilar í íslensku samfélagi eins og t.d. Guðbjartur Hannesson félagsmálaráðherra, Runólfur Ágústson stjórnarformaður Vinnumálastofnunar og Björk Vilhelmsdóttir formaður Velferðasviðs Reykjavíkurborgar bent á að stórlega þurfi að hækka lágmarkslaun og lágmarkstaxta á Íslandi. 

Það er alveg ljóst að framundan eru afar erfiðar kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins, ríki og sveitarfélög og er því mjög mikilvægt að verkalýðshreyfingin standi þétt saman við að ná sínum áherslum fram.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image