• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Nov

Vinnumálastofnun á Akranesi stendur sig vel

Vinnumarkaðsráð Vesturlands fundaði í gær og var meðal annars farið yfir atvinnuástandið á Vesturlandi og rýnt í atvinnuleysistölur. Það sem kom meðal annars fram á fundinum var að atvinnuleysi hefur verið að aukast á Akranesi á milli mánaða. Í september voru 197 einstaklingar á Akranesi án atvinnu eða sem nemur 5,6% atvinnuleysi en í október voru 242 án atvinnu sem nemur 6,8%.

Ástæðan fyrir þessari aukningu er fyrst og fremst sú að hvalveiðum lauk á þessu tímabili en um 150 manns víðsvegar af Vesturlandi og á höfuðborgarsvæðinu höfðu atvinnu af hvalveiðunum. Það kom skýrt fram á fundinum hversu gríðarlega mikilvægar hvalveiðarnar eru atvinnulífinu á þessu svæði enda sköpuðu þær eins og áður hefur komið fram um 150 störf frá júní til loka septembermánaðar.

Vinnumarkaðsráð lýsir yfir þungum áhyggjum af því atvinnuástandi sem nú er á Vesturlandi og vill að við því verði brugðist, til dæmis með aukningu á aflaheimildum. Einnig lýsti Vinnumarkaðsráð yfir áhyggjum sínum vegna þess mikla niðurskurðar sem boðaður hefur verið í heilbrigðiskerfinu.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem situr í Vinnumarkaðsráði, velti þeirri hugmynd upp í gær hver raunverulegur sparnaður heilbrigðiskerfisins væri af því að segja upp opinberum starfsmönnum en eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir því að rúmlega 600 opinberir starfsmenn muni missa vinnuna samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Sérstaklega má velta fyrir sér raunverulegum sparnaði með því í ljósi þeirra staðreynda að opinberir starfsmenn munu færast af launaskrá hjá heilbrigðisráðuneytinu yfir á félagsmálaráðuneytið sem hefur yfirumsjón með atvinnuleysistryggingasjóði. Með öðrum orðum er það mat formanns að sparnaðurinn sé óverulegur við að segja upp opinberum starfsmönnum og setja þá á atvinnuleysisbætur.

Það kom einnig fram hjá fulltrúum Vinnumálaráðs í gær að vinnumálastofnun á Vesturlandi sé að standa sig einstaklega vel í hinum ýmsu málum er lúta að atvinnuleitendum og nægir að nefna í því samhengi þá miklu vinnu sem starfsmenn Vinnumálastofnunnar leggja á sig við hin ýmsu vinnumarkaðsúrræði til handa atvinnuleitendum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image