• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Dec

Samningafundur vegna kjarasamnings Elkem Íslands var haldinn í gær

Í gær var fyrsti samningafundur vegna kjarasamnings starfsmanna Elkem Íslands haldinn á Grundartanga. Til fundarins mættu Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Sigrún Pálsdóttir, mannauðsstjóri fyrirtækisins og formenn Verkalýðsfélags Akraness og FIT. Einnig sátu fundinn aðaltrúnaðarmaður og einn af trúnaðartengiliðum starfsmanna.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness lagði fram kröfugerð starfsmanna Elkem Íslands og gerði grein fyrir henni en heildarkostnaðarmat kröfugerðarinnar er um 28%. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er það meginkrafa Verkalýðsfélags Akraness að sækja að þeim fyrirtækjum sem eru starfandi í útflutningi og hafa verið að njóta góðrar afkomu vegna gengisbreytinga á íslensku krónunni.

Í kröfugerðinni er lögð áhersla á hækkun grunnlauna hjá starfsmönnum Elkem Íslands. Það er mat félagsins að grunnlaun byrjanda upp á rétt rúmar 184 þúsund krónur séu skammarlega lág miðað við eðli þeirrar starfsemi sem unnin er í þessari verksmiðju enda eru starfsmenn að vinna við mjög krefjandi og jafnvel hættulegar aðstæður.

Rekstur Elkem Íslands hefur gengið nokkuð vel að undanförnu og nægir að nefna að eigið fé fyrirtækisins er um 20 milljarðar króna. Fyrirtækið gerir upp í norskum krónum og hefur íslenska krónan veikst um 73% miðað við þá norsku frá 1. janúar 2008 fram til dagsins í dag. Á þessu sést að fyrirtækið hefur umtalsvert svigrúm til þess að hækka laun starfsmanna allverulega.

Það er alveg ljóst að umtalsverð kaupmáttarrýrnun hefur verið hjá starfsmönnum Elkem Íslands frá 1. janúar 2008 en formanni reiknast til að kaupmáttarskerðingin sé um 10% frá þeim tíma. Formaður gerði fulltrúa Samtaka atvinnulífsins það algjörlega ljóst að þessi samningur er sjálfstæður kjarasamningur og mun félagið ekki líða það að dráttur verði á kjarasamningsviðræðum vegna kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði. Staða stóriðjufyrirtækja og fyrirtækja í útflutningi er eðli málsins samkvæmt mun betri til launahækkana heldur en margra annarra atvinnugreina hér á landi um þessar mundir. Á þeirri forsendu mun félagið ekki sýna neina linkind í viðræðum við fyrirtæki sem eru starfandi í útflutningi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image