• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Dec

Þurfum að sýna fulla festu í komandi kjarasamningum

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í júlí sl. þá var meginkrafa Verkalýðsfélags Akraness vegna komandi kjarasamninga að lágmarkslaun skyldu hækka í 200.000 kr. í komandi kjarasamningum. Þessi krafa félagsins vakti umtalsverð viðbrögð á sínum tíma og nægir að nefna í því samhengi viðbrögð Samtaka atvinnulífsins sem töldu þessa kröfu óeðlilega. Sjá frétt um málið hér

Nú hefur samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands afhent Samtökum atvinnulífsins kröfur sambandsins vegna komandi kjarasamninga og það er skemmst frá því að segja að aðalkrafa SGS er að lágmarkslaun hækki upp í 200.000 kr. frá 1. desember 2010. Auk þess er gert ráð fyrir tilfærslu á launaflokkum hjá hinum ýmsu starfshópum eins og t.d. fiskvinnslufólki enda er alveg ljóst að greinar tengdar útflutningi hafa fulla burði til þess að hækka laun sinna starfsmanna verulega. Þetta staðfesta þau jákvæðu tíðindi sem bárust um að Samherji hafi greitt landverkafólki sínu rúmar 260.000 kr. í eingreiðslu nú í desembermánuði.

Það er markmið samninganefndar SGS að endurheimta þann kaupmátt sem glatast hefur frá upphafi efnahagshrunsins haustið 2008, minnka atvinnuleysið og tryggja hinum lægst launuðu auknar kjarabætur. Það er alveg ljóst að það verður ekki liðið að íslensku verkafólki og öðru launafólki verði einu falið það verkefni að bera klafa efnahagshrunsins á jafngrimmilegan hátt og birtist þessa dagana í hinum skefjalausu verðlags-, skatta- og gjaldskrárhækkunum sem dynja nú á almenningi af fullum þunga.

Það er gríðarlega mikilvægt að Starfsgreinasambandið sýni fulla festu í sínum aðgerðum við að bæta kjör íslensks verkafólks því núna fyrst er tækifæri til að rétta hag þessa hóps frá hruni. Það tækifæri verðum við að nýta okkur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image