• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Nov

Formaður Verkalýðsfélags Akraness stoltur af forsetanum

Tíminn einn mun leiða það í ljós hversu mikla fjármuni forseti Íslands sparaði íslensku þjóðinni með þeirri ákvörðun sinni að synja Icesave lögunum á sínum tíma.

Nú berast af því fréttir að samningar séu að nást við Breta og Holllendinga í þessari Icesavedeilu.

Það er æði margt sem bendir til þess að okkur beri engin skylda til að ábyrgjast Icesave drápsklyfjarnar, ef marka má okkar færustu lögspekinga og nægir að nefna í því samhengi lagaprófessorana Sigurð Líndal, Stefán Má Stefánsson og lögfræðinginn Lárus Blöndal. Einnig segir Dr. Michael Waibel, sérfræðingur í alþjóðalögum, engar klárar lagalegar skyldur hvíla á herðum Íslendinga til þess að borga Icesave skuldina.

Meira að segja Fjármálaeftirlitið gerði ekki ráð fyrir að ríkisábyrgð væri á Icesave innistæðum í Bretlandi og Hollandi þegar útibú Landsbankans þar voru stofnuð. Eftirlitið benti á að hvergi í lögum um innistæðutryggingar sé talað um ríkisábyrgð.

Formaður félagsins spyr: hví vilja íslensk stjórnvöld leggja slíkar klyfjar á komandi kynslóðir ef engar lagalegar forsendur eru fyrir slíkri skuldbindingu? Við Íslendingar eigum að senda skýr skilaboð út til Breta og Hollendinga um að við viljum greiða það sem okkur ber samkvæmt lagalegum skyldum en við viljum að sjálfsögðu fá að vita hverjar þær lagalegu skuldbindingar eru.

Það blasir við hver ástæða Breta og Hollendinga er þegar þeir neita því að fara með málið fyrir dómstóla. Jú, okkur ber alls engin lagaleg skylda til að greiða þessa skuld.

Sá fantaskapur sem þessi ríki hafa sýnt okkur er ótrúlegur. Fyrst hryðjuverkalög, settir í flokk með Al Quaida og öðrum ribböldum og síðan krafist þess að við tökum á okkur alla ábyrgð í þessu máli.

Gríðarlegur kostnaður 

Hvað hefði það þýtt fyrir okkur Íslendinga ef forsetinn hefði ekki synjað staðfestingu á Icesavelögunum og samningurinn verið samþykktur eins og lá fyrir á sínum tíma? -Jú, við Íslendingar hefðum þurft að greiða 100 milljónir dag hvern bara í vaxtagreiðslur, eða sem nam á bilinu 36 – 45 milljörðum á hverju ári. Það hefði þurft 80.000 skattgreiðendur til að standa bara undir þessum vaxtagreiðslum og til að setja þetta frekar í samhengi, þá kostar 32 milljarða að reka Landspítalann – Háskólasjúkrahús árlega. Og til að sýna enn frekar fáránleikann sem fólginn er í þeim stjarnfræðilegu tölum sem um ræddi þá var verið ekki alls fyrir löngu að vígja hæstu byggingu heims í Dubai, en við gætum reist fyrir Breta einn slíkan turn fyrir helming þeirrar upphæðar sem við áttum að greiða í vexti af síðasta  Icesave-samningi.

Á þessu sést að íslensk þjóð gat ekki undir nokkrum kringumstæðum axlað þá ábyrgð vegna græðgisvæðingar örfárra einstaklinga og handónýts eftirlitskerfis.

Ragnar Reykás

Hvað sagði ekki Steingrímur J. Sigfússon í fréttum 23. október 2008? Hann sagði að það yrði gerð uppreisn hér á landi ef gengið yrði að kröfum Breta og Hollendinga um skuldbindingu vegna Icesave-reikninganna. Hann sagði einnig að Íslendingar hafi uppfyllt allar lagalega skyldur og tilskipanir Evrópusambandsins um innlánstryggingakerfið og Íslendingum bæri ekki að láta undan kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því okkur beri ekki skylda til að greiða tapið á Icesave-reikningunum.

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon í október 2008. En það kvað við nýjan tón hjá Steingrími eftir að hann var sestur í ríkisstjórn og hélt m.a uppi skefjalausum hræðsluáróðri um að allt færi hér til fjandans ef ekki yrði gengið frá Icesave-samningunum án tafar. Því segi ég: Ragnar Reykás er grátbroslegur í samanburði við þann viðsnúning sem hefur orðið hjá fjármálaráðherra í þessu máli.

Eins og fram kom áðan, þá á krafa Íslendinga að vera skýr: Borgum það sem okkur ber lagaleg skylda til og krefjumst þess að sú skylda verði kölluð fram af óháðum dómstólum. Enda er, eins og áður hefur komið fram, álit flestra fræðimanna að ekki sé kveðið á um ríkisábyrgð í Evrópureglugerð um innstæðutryggingar og Steingrímur J. er því sammála ef marka má ummæli hans frá því í október 2008.

Reiðir forsetanum

Það voru æði margir sem voru afar reiðir því þegar forsetinn neitaði að staðfesta lögin á sínum tíma.  Það er mér óskiljanlegt að meira að segja einstaka forystumenn í verkalýðshreyfingunni skuli hafa verið æfir yfir þessari ákvörðun forsetans  og nægir að nefna það sem fram kom á vef Starfsgreinasambandsins í því samhengi en þar segir m.a. Forseti lýðveldisins kemur fram af miklu ábyrgðarleysi gagnvart efnahagsvanda þjóðarinnar.

 Einnig er rétt að rifja upp þegar Össur Skarphéðinsson, sá ágæti ráðherra sagðist ekki vera tilbúinn til þess að bera töskur forsetansí Indlandsferðinni sem forsetinn fór í sínum tíma. Í þessu samhengi vil ég segja við Össur Skarphéðinsson: yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er ekki tilbúinn að bera þær drápsklyfjar sem stóð til að leggja á hana. En það er ljóst að það mun þurfa marga töskubera til að bera farangur fólks sem mun flýja þetta land ef þessi reikningur fellur á saklausan almenning þessarar þjóðar.

Ólafur Ragnar Grímsson segir í sjónvarpsviðtali við Bloombergfréttastofuna:  “Hversu langt er hægt að ganga og fara fram á að venjulegt fólk - bændur, sjómenn, læknar og hjúkrunarfræðingar - axli ábyrð á föllnu bönkunum? Sú spurning, sem er kjarninn í Icesave málinu.”

Formaður félagsins er stoltur af forsetanum mínum sem hafði kjark og þor til að taka þessa ákvörðun og hefur í þessu máli varið hagsmuni þjóðarinnar á alþjóðlegum vettvangi með kjafti og klóm. Einnig er fotrmaðurinn algjörlega sammála forsetanum þegar hann segist enn þeirrar skoðunar að kjósendur eigi að hafa lokaorðið á hverju því samkomulagi sem gert verður við Breta og Hollendinga og við Íslendingar eigum ekki undir nokkrum kringumstæðum að taka annað í mál en að þjóðin fái að hafa lokaorðið í þessu máli.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image