• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Nov

Góður fundur í Alþingishúsinu í gær

Þingflokkur Hreyfingarinnar óskaði eftir að funda með formanni Verkalýðsfélags Akraness og að sjálfsögðu varð formaðurinn við þeirri beiðni. Fundurinn fór fram í þingflokksherbergi Hreyfingarinnar í Alþingishúsinu í gær.

Fundurinn var afar opinskár og málefnalegur en formaður VLFA lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðu þeirra sem starfa á lágmarkslaunum en eins og staðan er í dag þá duga lágmarkslaun ekki fyrir lágmarksframfærslu. Formaður nefndi við þingmenn Hreyfingarinnar að ef atvinnurekendum og verkalýðshreyfingunni muni ekki bera gæfa til að hækka hér lágmarkslaun verulega í komandi kjarasamningum þá verði Alþingi Íslendinga að grípa inn í og lögbinda hér lágmarkslaun svo sómi sé að.

Einnig bar lífeyrissjóðina á góma en það er skoðun formanns að aðkoma atvinnurekenda að stjórnun lífeyrissjóðanna sé afar óeðlileg enda liggur fyrir að krosseignatengsl og hagsmunaárekstrar atvinnurekenda í stjórnun sjóðanna séu klárlega til staðar. Formaðurinn kom þeirri skoðun sinni á framfæri að breyta þurfi lögum um starfsemi lífeyrissjóðanna með þeim hætti að sjóðsfélagarnir sjálfir skipi í stjórnir sjóðanna og það séu sjóðsfélagarnir sjálfir sem kjósi sér alla sína stjórnarmenn.

Það er afar ánægjulegt þegar þingflokkar kalla fulltrúa aðila vinnumarkaðarins til fundar við sig til að heyra sjónarmið og áherslur stéttarfélaganna, til dæmis vegna komandi kjarasamninga og annarra hagsmunamála er lúta að íslenskum launþegum. Formaður Verkalýðsfélags Akraness tilheyrir engum stjórnmálaflokki enda er það hans skoðun að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki að vera eyrnamerktir einhverjum einum ákveðnum stjórnmálaflokki heldur eigi þeir að styðja öll góð mál er lúta að hagsmunum sinna félagsmanna, óháð því frá hvaða stjórnmálaflokki slík mál koma.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image