• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

25
Oct

Leggja niður vinnu

Starfskonur á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness munu leggja niður vinnu í dag kl 14:25 í tilefni af Kvennafrídeginum og um leið mótmæla því misrétti sem konur eru beittar víðsvegar í íslensku samfélagi. 

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á allar konur sem tök hafa á að leggja niður störf kl 14:25 í dag og mótmæla þessu misrétti gagnvart konum. 

23
Oct

Breyta þarf lögum ASÍ við kjör forseta ASÍ

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, gagnrýndi Gylfa Arnbjörnsson forseta Alþýðusambandsins harðlega í ræðu sem hann hélt á ársfundinum sem lauk í gær. Átaldi formaðurinn forsetann fyrir að vilja ekki taka verðtryggingu úr sambandi en Gylfi var haustið 2008 formaður starfshóp sem það skoðaði. Skoraði hann á Gylfa að íhuga alvarlega að gefa ekki kost á sér á nýjan leik í stöðu forseta ASÍ en forsetinn var ekki við því og var Gylfi endurkjörin forseti ASÍ til næstu tveggja ára.

Það er alveg ljóst að lögum ASÍ þarf að breyta þannig að forseti og varaforseti ASÍ verði kosnir í allsherjarkosningu á meðal allra félagsmanna ASÍ og með því er verið að auka lýðræðið við val á forsetakjöri sambandsins.

Það fyrirkomulag sem nú ríkir um kjör forseta er alls ekki til þess fallið að sátt geti verið um kjör hans.  Það þarf að ríkja full sátt og traust á milli forseta ASÍ og hins almenna félagsmanns innan sambandsins og það er morgunljóst í huga formanns VLFA að Gylfi nýtur ekki trausts hjá megin þorra sinna félagsmanna. 

Hægt að lesa ræðuna í heild sinni með því að smella á meira.

Fundarstjóri, forseti, ágætu ársfundarfulltrúar.

Þar sem ég hef ekki nema 10 mínútur þá ætla ég að bíða með að ræða komandi kjarasamninga þar til síðar á fundinum.

Það sem ég ætla að fjalla um eru skuldir heimilanna og sú skelfilega staða sem íslensk heimili þessa lands standa nú frammi fyrir í kjölfar efnahagshrunsins. Skuldir íslenskra heimila hafa aukist frá árinu 2004 úr 877 milljörðum í 2000 milljarða. Það eru 110 þúsund heimili á Íslandi þannig að meðalskuldir íslenskra heimila eru í kringum 18 milljónir króna.

Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á þann forsendubrest sem orðið hefur í íslensku samfélagi er lýtur að alþýðu þessa lands. Allir - ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, tryggingafélög, orkufyrirtæki, og í raun og veru öll þjónustufyrirtæki hafa varpað sínum vanda miskunnarlaust yfir á íslenska neytendur. Nægir að nefna í þessu samhengi að matarverð hefur hækkað upp undir 40% frá janúar 2008, bensínverð um 45%, Orkuveita Reykjavíkur hefur hækkað gjaldskrár sínar um 30%, og svona mætti í raun og veru lengi telja.  Þessu til viðbótar hefur kaupmáttur launa verið í frjálsu falli.

Skuldir vegna gengis- og verðtryggðra lána íslenskra heimila hafa hækkað samkvæmt gögnum frá Hagsmunasamtökum heimilanna um 417 milljarða í kjölfar bankahrunsins.  Þennan forsendubrest sem íslensk alþýða þessa lands gat ekki undir nokkrum kringumstæðum borið ábyrgð á, þarf að leiðrétta í formi almennra leiðréttinga.

Enda er það mín skoðun að þeir 8 þúsund mótmælendur sem voru á Austurvelli 4. október síðastliðinn, voru að krefjast sanngirni sem væri fólgin í almennri leiðréttingu á stökkbreyttum skuldum heimilanna.

Nú hafa Hagsmunasamtök heimilanna lagt fram tillögu um almenna leiðréttingu á verðtryggðum íbúðalánum. Kostnaðarmat á slíkri leiðréttingu nemur 220 milljörðum en samkvæmt fréttum er búið að slá þessa almennu leiðréttingu út af borðinu. Ástæðan er jú sú að hagsmunaaðilar, bankastofnanir og forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafa gagnrýnt þessa almennu leiðréttingu harkalega. Ég get tekið undir að það er afar erfitt að sætta sig við það að sjóðsfélagar þurfi að koma að þessari leiðréttingu.

Hins vegar er ég sannfærður um það að það verður að finna leið til að leiðrétta þennan forsendubrest með öllum tiltækum ráðum. Það er hlutverk ríkisstjórnar Íslands að finna þá leið.

Það liggur til að mynda fyrir að bankarnir fengu, samkvæmt gögnum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, afslátt á skuldum heimilanna sem nemur 420 milljörðum. Þessa fjármuni þarf klárlega að nýta til almennra leiðréttinga á þeim forsendubresti sem varð hjá íslenskum heimilum.

Alþýða þessa lands getur ekki undir nokkrum kringumstæðum horft upp á það grímulausa óréttlæti sem birtist nánast vikulega í afskriftum auðmanna og einstakra fyrirtækja. Eða þegar að 200 milljörðum var dælt inn í peningamarkaðssjóðina til að verja fjármagnseigendur.

Með því að skoða helstu afskriftir sem ratað hafa í fjölmiðla til auðmanna og einstakra fyrirtækja þá nema þær vel á fjórða hundrað milljarða. Og þetta eru bara afskriftir sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Að laga forsendubrest upp á 18% kostar nánast jafnmikið og var sett inn í peningamarkaðssjóðina.  Það er þetta glórulausa óréttlæti sem íslenskur almenningur getur ekki sætt sig við.

Kæru félagar.

Það er sorglegt að vita til þess að það var gullið tækifæri í október 2008 til að koma í veg fyrir stórfellda hækkun á verðtryggðum íbúðarlánum landsmanna.

Það tækifæri sem ég er að tala um lá í þeim starfshópi sem Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra og fyrrverandi félags- og tryggingarmálaráðherra skipaði.

Þessi starfshópur undir forystu og formennsku Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, hafði það markmið að skoða hvaða leiðir væru færar til að bregðast við vanda lántakenda vegna verðtryggingar og að meta fjárhagsleg áhrif þess að fella tímabundið niður verðtryggingu á lánsfé og sparifé.

Enda höfðu komið fram frá hinum ýmsu aðilum í íslensku samfélagi, meðal annars þeim sem hér stendur, kröfur um að neysluvísitalan yrði tekin úr sambandi eða fryst á meðan flóðbylgjan myndi skella á skuldsettum heimilum.

Það lá nefnilega fyrir við hrun íslensku krónunnar að verðbólga hér myndi rjúka upp úr öllu valdi með skelfilegum afleiðingum fyrir íslensk heimili.

Þessi starfshópur skilaði minnisblaði til núverandi forsætisráðherra og það er skemmst frá því að segja að starfshópurinn lagði alls ekki til að frysta vísitöluna í kjölfar efnahagshrunsins til að hlífa verðtryggðum skuldum heimilanna.

Í áliti starfshópsins segir m.a. að gagnvart lánveitendum séu alvarleg formerki á því að afnema verðtryggingu lána.  Það kom einnig fram að ef verðtrygging á fasteignalánum til heimila væri felld niður tímabundið, til dæmis frá júní 2008 til júní 2009, mundu tekjur lánveitenda verða 180 milljörðum kr. minni á tímabilinu en ella, ef verðbólguspá Seðlabanka Íslands sé lögð til grundvallar. Þetta kom fram í minnisblaðinu.

Kæru félagar

Hvernig má það eiga sér stað að forseti Alþýðusambands Íslands sem var formaður þessa starfshóps skuli hafa lagt til að verðtryggingin leggðist af fullum þunga á skuldsett heimili og á sama tíma voru fjármagnseigendur varðir að fullu fyrir þeim hamförum sem gengu yfir í kjölfar hækkandi verðbólgu.

Þessi afstaða starfshópsins er tekin á sama tíma og er verið að dæla 200 milljörðum inn í peningamarkaðssjóðina til að verja fjármagnseigendur.

Ég spyr, í hvaða liði er forseti Alþýðusambands Íslands þegar hann hafði tækifæri til að taka stöðu með alþýðu þessa lands og leggja til að neysluverðsvísitalan yrði tekin úr sambandi til að hlífa skuldsettum heimilum?

Mitt mat er alveg hvellskýrt, hann var ekki að gæta að hag félagsmanna innan ASÍ með því að leggja til að hækkun neysluvísitölunnar skyldi skella af fullum þunga á skuldsett íslensk heimili.

Nei, hann var að verja fjármagnseigendur eins og kemur fram í minnisblaðinu frá starfshópnum:  Takið eftir, lánveitendur hefðu misst af 180 milljörðum.  

Nei, forysta ASÍ hefur aldrei verið sammála almennri leiðréttingu á skuldum heimilanna. Þeir hafa ætíð talað fyrir sértækum aðgerðum, enda sýnir þessi afstaða forseta ASÍ í starfshópnum það rækilega.

Þarna var kjörið tækifæri þegar þessi starfshópur var settur á laggirnar undir forystu Gylfa að tryggja að sá gríðarlegi forsendubrestur sem varð á skuldum heimilanna myndi færast jafnt á alla Íslendinga, jafnt skuldara sem fjármagnseigendur.

Nei, niðurstaða starfshópsins var: verjum fjármagnseigendur á Íslandi. Og um leið voru verðtryggðar eignir lífeyrissjóðina tryggðar til að geta mætt þeim gríðarlega skaða sem sjóðirnir urðu fyrir vegna glórulausra fjárfestinga í skulda- og hlutabréfum  í fyrirtækjum útrásarvíkinga. En samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands töpuðu lífeyrissjóðirnir upp undir 500 milljörðum á þessum bréfum.

Að lokum, kæru félagar.

Haustið 2008 hafði Forseti ASÍ sem formaður starfshópsins tækifæri til að leggja fram tillögu fyrir ríksisstjórn Íslands til að mæta vanda heimila með verðtryggðlán.   Í október 2008 vissi þjóðin öll að flóðbylgja í formi hækkunar á neysluvísitölunni var að skella á fullum þunga á skuldsettan almenning.

Ef starfshópurinn undir forystu Gylfa hefði tekið stöðu með skuldsettum heimilum í október 2008 og lagt fram kröfu um að frysta neysluvísitöluna tímabundið þá væri ekkert verið að ræða eða rífst um almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna í dag.

Forseti ASÍ tók hinsvegar þá ákvörðun að rétta heldur fjármagnseigendum björgunarvestin, en um leið var skuldsettum heimilum fórnað á altari verðtryggingarinnar.

Á þeirri forsendu m.a. skora ég á forseta Alþýðusambands Íslands að íhuga það sterklega að gefa alls ekki kost á sér í embætti forseta ASÍ, því hann hefur tekið stöðu með fjármagnseigendum en ekki sínum félagsmönnum.

Takk fyrir.

21
Oct

Ársfundur ASÍ hefst í dag

Ársfundur ASÍ 2010 hefst í dag fimmtudaginn 21. október og verður framhaldið á morgun föstudaginn 22. október. Yfirskrift fundarins er Stop, hingað og ekki lengra og verður megináherslan lögð á efnahags- og kjaramál, velferðar- og vinnumarkaðsmál og atvinnu- og umhverfismál. Þá mun fundurinn fjalla um tillögur til breytinga á lögum Alþýðusambandsins.

Fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness á fundinum eru þau Vilhjálmur Birgisson, Skúlína Guðmundsdóttir, Guðrún Linda Helgadóttir, Jón Jónsson og Jóna Adolfsdóttir frá SGS og fyrir hönd sjómanna er Pétur Lárusson.

20
Oct

Skjaldborg fyrir fjármagnseigendur

Eftirfarandi pistill eftir formann félagsins var birtur á Pressunni í dag:

Skjaldborg fyrir fjármagnseigendur

 
Mánudaginn 4. október voru um 8.000 manns mætt á Austurvöll. Að mínu mati krafðist stór hluti þess fólks sem þar var mættur almennra leiðréttingu á þeim forsendubresti sem hefur orðið á skuldum íslenskra heimila. Samkvæmt útreikningi frá Hagsmunasamtökum heimilanna þá áætla þau að kostnaður íslenskra heimila vegna bankahrunsins nemi rúmum 400 milljörðum króna í formi hækkunar á gengis- og verðtryggðum lánum heimilanna.

Alþýða þessa lands hefur þurft að horfa upp á hvernig slegin hefur verið skjaldborg utan um fjármagnseigendur hér á landi og nægir að nefna í því samhengi 200 milljarða greiðslu inn í peningamarkaðssjóðina við hrun bankanna. Á sama tíma þegar koma tillögur um almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna vegna þess forsendubrests sem varð þá spretta fram varðmenn fjármagnseigenda og tala slíkar tillögur niður af fullum þunga.

Skuldsett heimili geta ekki sætt sig við að lesa um í fréttum nánast vikulega af stórfelldum afskriftum hjá auðmönnum og einstökum fyrirtækjum á sama tíma og erfitt virðist vera að finna lausn á skuldavanda heimilanna. Þessar afskriftir hafa ratað í fjölmiðla á undanförnum mánuðum:

•   54,7 milljarðar hjá 8 ótilteknum fyrirtækjum
•   Kjalar í eigu Ólafs Ólafssonar 88 milljarðar
•   Ólafur Ólafsson, Egla 25 milljarðar
•   1998 í eigu Jóns Ásgeirs 30 milljarðar
•   SÆ14 (áður Húsbygg) 400 milljónir
•   Bjarni Ármannsson 800 milljónir
•   Pálmi Haraldsson í Fons 30 milljarðar
•   Sigurður Bollason 11 milljarðar
•   Finnur Ingólfsson í Langflugi 14 milljarðar
•   Magnús Kristjánsson útgerðarmaður 50 milljarðar
•   Skinney Þinganes 2,6 milljarðar
•   Samtals 306,5 milljarðar

Ríkisstjórn Íslands talaði um að slá skjaldborg utan um íslensk heimili á sínum tíma. Ef marka má þessar afskriftir þá virðist skjaldborgin ekki hafa verið slegin utan um íslensk skuldsett heimili  heldur virðist skjaldborgin hafa verið reist fyrir auðmenn og fjármagnseigendur hér á landi. Slíkt mun alþýða þessa lands ekki sætta sig við og það er grundvallaratriði að íslensk stjórnvöld leiti að og finni leið til að leiðrétta skuldir heimilanna. Heimilin eru ekki að biðja um ölmusu heldur einungis um sanngjarna leiðréttingu.

19
Oct

Opinn félagsfundur í kvöld

Skrifstofa Verkalýðsfélags Akraness vill minna félagsmenn á opinn félagsfund sem haldinn verður í kvöld á Gamla Kaupfélaginu. Fundurinn hefst kl. 19:30 og er dagskrá á þessa leið:

1. Kynning á afsláttarkjörum til félagsmanna VLFA

2. Stefnumótun  í kröfugerð vegna komandi kjarasamninga

3. Önnur mál

Stjórn félagsins hvetur alla félagsmenn til að mæta og taka virkan þátt í mótun kröfugerðar vegna komandi kjarasamninga, enda eru allir kjarasamningar félagsins lausir á næstu mánuðum. Kaffiveitingar verða í boði.

15
Oct

Formaður félagsins ósáttur með forystu Alþýðusambands Íslands

Eftirfarandi viðtal var tekið við formann Verkalýðsfélags Akraness á Pressan.is í morgun:

Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir verkalýðsforystuna hafa brugðist sínum umbjóðendum og íhugar hann að slíta samstarfi við ASÍ og Starfsgreinasambandið. Hann skýtur sömuleiðis föstum skotum á forystu lífeyrissjóðanna.

Vilhjálmur er verulega ósáttur við þær fullyrðingar formanna ASÍ og Starfsgreinasambandsins um að óráðlegt sé að fara í almennar leiðréttingar á skuldum heimilanna þar sem þeir telja að slíkar aðgerðir væru aðför að lífeyrissparnaði landsmanna.

Ég tel alveg ljóst að miðað við þennan málflutning tel ég að þeir séu að bregðast sínum umbjóðendum. Það hefur gríðarleg gjá myndast á milli forystu og launþega og þeir hafa ekki verið að taka afstöðu með sínu launafólki. Þetta er ekki eina dæmið, ég get nefnt stöðugleikasáttmálann en það eina sem gekk eftir í honum var að launafólk var þvingað til að fresta eða afsala sér launahækkunum.

Vilhjálmur segist velta því fyrir sér hvort Verkalýðsfélag Akraness eigi í raun samleið með ASÍ og Starfsgreinasambandinu og segir koma til að álita að afturkalla aðildina að þessum samtökum.

Það gerist ekki nema að leggja það undir félagsmenn og það þarf góður meirihluti að samþykkja slíkt.

Fjölmargir hagsmunaaðilar sem og sérfræðingar hafa stigið fram á undanförnum vikum og sagt að almennar niðurfærslur skulda séu ógerlegar sökum hás kostnaðar. Vilhjálmur spyr á móti hvað það kosti að gera ekki neitt.

Það er hárrétt, þetta kostar 220 milljarða samkvæmt útreikningum. En það hafa aldrei verið færð rök fyrir því hvað gerist ef ekkert verður gert. Það er ekkert mál að dúndra upp excel skjali og gefa sér upp forsendur. Hér er verið að tala um leiðréttingu á skuldum heimilanna og almenningur getur ekki horft upp á lengur að hundruð milljarða séu afskrifaðar hjá auðmönnum, einstaka fyrirtækjum og svo framvegis. Það var ekkert mál að leggja 200 milljarða inn í peningamarkaðssjóði á sínum tíma. Skattgreiðendur borguðu það.

Vilhjálmur er sömuleiðis harðorður í garð lífeyrissjóðanna sem hann segir hafa tapað „stjarnfræðilegum“ upphæðum í hruninu. Þar að auki hafi þeir einungis skilað 2 prósenta raunávöxtun síðustu 10 ár.  Þrátt fyrir það hafi engin endurnýjun orðið innan sjóðanna.

Í gær segir Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins sem er stærsta landsambandið innan ASÍ, að hugmyndir um almenna lækkun skulda sé aðför að lífeyrissparnaði. Hann var stjórnarmaður og að endingu stjórnarformaður Sparisjóðs Keflavíkur þar sem Festa lífeyrissjóður þurfti að afskrifa tvo milljarða vegna falls þess sparisjóðs. Það er á hreinu að fall Sparisjóðs Keflavíkur hefur bitnað á lífeyrisgreiðslum verkafólks. Hver ber ábyrgð á því?
14
Oct

4,8% félagsmanna VLFA fluttir af landi brott

Undanfarið hefur skrifstofa félagsins verið að skoða þróun félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness og kemur þá m.a. í ljós að félagsmenn eru í dag 2.731 og hefur fækkað milli áranna 2009 og 2010 um 43. Þetta verður að teljast afar lítil fækkun ef tekið er tillit til þess ástands sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði almennt.

Enda hefur atvinnuástandið á Akranesi verið almennt betra en gengur og gerist á landsvísu og nægir að nefna í því samhengi þær styrku stoðir sem við Akurnesingar búum við í okkar daglega lífi sem er stóriðjan á Grundartanga og einnig höfum við í sumar haft atvinnu af hvalveiðunum sem sköpuðu upp undir 150 manns atvinnu.

Hins vegar er rétt að geta þess að 130 manns, eða 4,8% félagsmanna VLFA hafa flutt af landi brott á síðustu 15 mánuðum. Þessi hópur skiptist þannig að 36% þeirra hafa íslenskt ríkisfang og 64% er með erlent ríkisfang. Til að setja þessa tölu í samhengi má benda á að þetta jafngildir því að allir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem búa á Vesturgötu, fjölmennustu götu Akraness, myndu flytja af landi brott.

Þetta kannski lýsir því ástandi sem ríkir í íslensku samfélagi, hversu margir sjá sér þann kost vænstan að fara af landi brott til að leita sér að nýju atvinnutækifæri og eru þessar tölur sláandi. Alls eru um 18.000 farnir af landi brott frá bankahruni skv. gögnum frá Hagsmunasamtökum heimilanna.

Eins og áður segir þá væri ástandið skelfilegt á Akranesi og í nærsveitum ef við ekki nytum þeirrar tryggu stoðar sem stóriðjan á Grundartanga er.

12
Oct

Opinn félagsfundur VLFA 19. október

Þriðjudaginn 19. október næstkomandi verður haldinn opinn félagsfundur hjá Verkalýðsfélagi Akraness. Fundurinn fer fram í Gamla kaupfélaginu og hefst hann kl. 19:30.

Dagskrá fundarins verður eftirfarandi:

1. Kynning á afsláttarkjörum til félagsmanna VLFA
2. Stefnumótun í kröfugerð vegna komandi kjarasamninga
3. Önnur mál
 
Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hvetur alla félagsmenn til að mæta og ræða kröfugerð vegna komandi kjarasamninga enda eru allir kjarasamningar félagsins lausir á næstu mánuðum.
 
Kaffiveitingar verða í boði fyrir fundargesti.
07
Oct

Verkalýðsfélag Akraness styrkir Hagsmunasamtök heimilanna um 200 þúsund krónur

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á fundi sínum í gær að styrkja Hagsmunasamtök heimilanna um 200 þúsund krónur vegna frábærrar baráttu þeirra vegna skuldavanda íslenskra heimila. Verkalýðsfélag Akraness hefur frá upphafi stutt Hagsmunasamtökin af fullum hug í þeirri baráttu að bæta stöðu skuldsettra heimila, meðal annars með almennum leiðréttingum á skuldum. HH hafa lagt fram ítarlegar tillögur til að mæta skuldavanda heimilanna og eru þetta tillögur í anda þess sem Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð talað fyrir.

Það er með ólíkindum að grasrótarsamtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna sem hafa frá upphafi tekið stöðu með heimilunum skuli vera búin að ná jafnlangt í sinni vinnu eins og raun ber vitni og nægir að nefna fund samtakanna með ríkisstjórninni í gær þar sem farið var yfir áðurnefndar tillögur. Það er dapurlegt að verða vitni að því að forysta ASÍ hafi ekki lýst yfir fullum opinberum stuðningi við Hagsmunasamtök heimilanna heldur þvert á móti hafa þeir verið á móti þeirri hugmyndafræði sem Hagsmunasamtökin hafa boðað. Nægir að nefna í því samhengi orð forseta Alþýðusambands Íslands á aukaársfundi ASÍ þar sem hann var að fjalla um skuldavanda heimilanna og tillögur ASÍ í þeim efnum en orðrétt sagði forsetinn "Það er hins vegar mikið áhyggjuefni hvernig bæði stjórnmálaflokkar og sjálfskipaðir bjargvættir hafa afvegaleitt umræðuna um raunhæfar lausnir á vanda heimilanna. Yfirboð um almenna lækkun skulda sem fjármagna á með galdraþulum skapa auðvitað væntingar meðal almennings um það sem vitað er að ekki verður hægt að mæta". Einnig sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, orðrétt þegar ríkisstjórnin kynnti aðgerðapakka vegna skuldavanda heimilanna: "Mér finnst þetta mjög jákvætt skref sem þarna er tekið, mér sýnist að þær kröfur sem við höfum sett fram við stjórnvöld séu að flestu leyti ef ekki öllu til skila haldið."

Formanni er það óskiljanlegt af hverju forysta Alþýðusambands Íslands tekur ekki stöðu með sínum félagsmönnum en það hefur margoft komið fram að þeir eru á móti almennum leiðréttingum á skuldum heimilanna og hafa t.d. varið tilvist verðtryggingarinnar með hagsmuni lífeyrissjóðanna að leiðarljósi af fullum þunga. Formaður hefur spurt sig í hvaða liði forseti Alþýðusambands Íslands er í þessum efnum og hefur nánast komist að þeirri niðurstöðu að hann sé í hálfgerðu yfirliði þegar kemur að hagsmunagæslu fyrir sína félagsmenn.

Ríkisstjórn Íslands og forystu ASÍ hefur verið tíðrætt um það að kostnaður við almennar leiðréttingar sé svo mikill að þær séu ekki framkvæmanlegar. En samkvæmt fjölmiðlum hafa átt sér gríðarlegar afskriftir frá hruninu til útrásarvíkinga og fyrirtækja og nægir að nefna samkvæmt fréttum afskriftir eins og:

  • Ólafur Ólafsson í Samskip, 88 milljarðar
  • Baugsfeðgar, 30 milljarðar
  • Magnús Kristjánsson, útgerðarmaður, 50 milljarðar
  • Bjarni Ármannsson, 800 milljónir

Í fréttum í september 2009 kom fram að eignarhaldsfélög hefðu fengið nærri 85 milljarða afskrifaða sem eru meðal annars í eigu eftirfarandi aðila:

  • Langflug, Finnur Ingólfsson, 14 milljarðar
  • Pálmi Haraldsson, Fons, 30 milljarðar

Og í fréttinni segir að svona mætti lengi telja en þarna hafi fréttastofan tínt til helstu afskriftir bankanna að undanförnu til eignarhaldsfélaga en samtals voru afskriftir til eignarhaldsfélaga eins og áður hefur komið fram 85 milljarðar. Núna fyrir örfáum dögum kom fram að 8 fyrirtæki hefðu fengið afskrifaðar skuldir sínar upp á tæpa 55 milljarða. Samtals eru þetta ef marka má fréttir 309 milljarðar sem hafa verið afskrifaðir til eignarhaldsfélaga tengdum útrásarvíkingum og fyrirtækjum. Og hafa verður í huga að hér er einungis verið að tala um afskriftir sem ratað hafa í fjölmiðla.

Svo talar ríkisstjórnin og forysta ASÍ um kostnað vegna almennra leiðréttinga á skuldum heimilanna. Slíkan málflutning í ljósi þessara staðreynda er ekki annað hægt en að fordæma. Séstaklega í ljósi þeirra ummæla að slá hafi átt skjaldborg um heimili landsmanna. Það er ljóst að forysta ASÍ og ríkisstjórnin hafa misskilið hlutverk sitt og ekki slegið skjaldborg utan um heimilin heldur fjármögnungarfyrirtækin. 

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að Alþingi Íslendinga verði að skipa óháða rannsóknarnefnd þar sem kallað verður eftir öllum afskriftum til fyrirtækja og einstaklinga og það upplýst fyrir alþjóð hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig í reykfylltum bakherbergjum fjármálastofnanna. 

Alþýða þessa lands getur ekki horft upp á þetta grímulausa óréttlæti sem birtist í afskriftum á skuldum til útrásarvíkinga og einstakra fyrirtækja eins og birst hefur í fjölmiðlum. Það er grundvallaratriði samt sem áður að skuldsett heimili eru ekki að fara fram á neina ölmusu heldur einungis sanngjarna leiðréttingu á stökkbreyttum skuldum sínum sem það gat ekki undir nokkrum kringumstæðum borið neina ábyrgð á.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á verkalýðshreyfinguna í heild sinni að styðja tillögu Hagsmunasamtaka heimilanna af fullum þunga enda eru tillögur þeirra klárlega til hagsbóta fyrir heimili landsins.

06
Oct

Formaður félagsins ræddi um verkalýðshreyfinguna í Háskóla Íslands

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands, sem kennir námskeið í mannauðsstjórnun sem heitir Samskipti á vinnumarkaði, bauð formanni Verkalýðsfélags Akraness að koma og hitta nemendur á meistarastigi í mannauðsstjórnun til að ræða um verkalýðshreyfinguna.

Að sjálfsögðu þáði formaður þetta góða boð og mætti í Háskóla Íslands í gær til að fara yfir málefni er lúta að verkalýðshreyfingunni og stöðu hennar í dag. Fram kom í máli formanns félagsins í háskólanum í gær að hann telur gríðarlega gjá hafa myndast á milli hins almenna félagsmanns og verkalýðshreyfingarinnar. Það kom einnig fram hjá honum að hann telur að verkalýðshreyfingin hafi misst traust og trúnað sinna félagsmanna enda er það mat formanns að forystan hafi ekki tekið stöðu með launafólki í því skelfingarástandi sem nú ríkir hjá íslenskum heimilum.

Sem dæmi þá hefur forysta ASÍ barist fyrir því að verðtryggingin fái að halda sér eins og margoft hefur komið fram í fjölmiðlum og nægir að nefna í því samhengi að forseti ASÍ var ekki sammála tillögum sem voru fólgnar í því að taka neysluvísitöluna úr sambandi í janúar 2009 og festa hana við verðbólgumarkmið Seðlabankans en slík aðgerð hefði klárlega hjálpað skuldsettum heimilum umtalsvert. Einnig kom fram í máli formanns að honum finnst vanta allan kraft í verkalýðshreyfinguna er lítur að kjarabaráttu almennt og nægir að nefna í því samhengi að lágmarkslaun á Íslandi eru einungis 165 þúsund krónur í dag sem er útilokað fyrir nokkurn mann að framfleyta sér á.

Formaður nefndi einnig á námskeiðinu í gær að verkalýðshreyfingin verði að taka stöðu með launþegum, berjast af alefli fyrir almennum leiðréttingum á stökkbreyttum skuldum heimilanna og beita sér af fullum þunga fyrir bættum kjörum sinna félagsmanna í komandi kjarasamningum. Formaður nefndi það einnig að aðkoma verkalýðshreyfingarinnar að lífeyrissjóðunum hafi klárlega skaðað hreyfinguna enda hefur forysta ASÍ því miður tekið stöðu með lífeyrissjóðunum sem síðan hefur leitt til þess að skuldsett heimili hafa fengið það illilega í bakið. Nægir að nefna varðstöðu ASÍ við verðtrygginguna í því samhengi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image