• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Jan

Ávinningi útflutningsfyrirtækja verði skilað til starfsmanna

Um síðustu áramót rann launaliður kjarasamnings Norðuráls út. Á þeirri forsendu hefur Verkalýðsfélag Akraness fyrir hönd trúnaðarmanna verkamanna í verksmiðjunni, lagt fram kröfugerð fyrir verkamenn. Kröfugerðin var lögð fram rétt fyrir áramót og er heildarkostnaðarmat hennar um 27,5%. Hún er með sambærilegum hætti og kröfugerð vegna Elkem Ísland og starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjunni.

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni og í máli og riti formanns félagsins þá er það stefna félagsins að þau fyrirtæki sem starfa í útflutningi skili þeim gríðarlega ávinningi sem þau hafa notið vegna falls krónunnar með einum eða öðrum hætti til sinna starfsmanna. Á þessari forsendu hefur Verkalýðsfélag Akraness algjörlega hafnað samræmdri launastefnu sem nú er unnið að af hálfu Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Meðal annars gerði formaður grein fyrir þessari afstöðu sinni á ársfundi ASÍ í október síðastliðnum. Það er alveg morgunljóst að ef af þessari samræmdu launastefnu verður þá er búið að stórskemma og skaða möguleika starfsmanna sem starfa í útflutningsfyrirækjum til að sækja þann ávinning sem útflutningsfyrirtækin hafa fengið sökum falls íslensku krónunnar.

Það er ekki bara að álfyrirtækin séu að selja sínar afurðir í dollurum og borga laun í íslenskum krónum heldur hefur álverð hækkað umtalsvert á liðnum mánuðum og stendur álverð nú í 2500 dollurum pr. tonn. En ef formaður man rétt þá var meðalverð á álverði árið 2009 um 1700 dollarar. Þannig að þarna er nægt svigrúm til launahækkana og eigendur þessara fyrirtækja eiga að sjá sóma sinn í því að skila ávinningi sínum til starfsmanna.

Formaður á von á því að farið verði fram á að viðræður vegna launaliðar kjarasamningsins hefjist sem allra fyrst en félagið vill ítreka það að það mun sýna fulla hörku gagnvart þeim fyrirtækjum sem eru starfandi í útflutningi í þeim kjaraviðræðum sem nú eru framundan.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image