• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Jan

Eru kaldar kjaraviðræður framundan í vetur?

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands mun funda með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins í húsakynnum Ríkissáttasemjara á morgun. Er þetta fyrsti fundurinn á þessu ári, en ljóst er að nú munu kjaraviðræðurnar hefjast að fullu.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur samninganefndin þegar lagt fram kröfugerð og byggist hún á hækkun lágmarkslauna úr 165.000 kr. í 200.000 kr. frá 1. desember sl. auk töluverðra tilfærslna starfa á milli launaflokka.

Félagið er einnig að hefja viðræður á fullu vegna kjarasamninga Elkem Ísland, Klafa og Síldarbræðslunnar á Akranesi auk þess sem launaliður kjarasamnings Norðuráls er laus frá síðustu áramótum. Félagið hefur skilað inn kröfugerð vegna þessara samninga, en þess er krafist að laun hækki um rúm 27%.

Þessa stundina ríkir vetrarveður hér á landi og er það tilfinning formanns félagsins að þær kjaraviðræður sem nú fara í hönd geti orðið jafn stormasamar og kaldar og það veður sem nú geisar. Það er á forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins að skilja að samningsvilji þeirra er lítill, ef marka má áherslur þeirra. En þeir leggja áherslu á langtímasamning til þriggja ára án þess að umframhækkun komi á umsamda kauptaxta kjarasamninga.

Það er algjörlega morgunljóst að félagið mun sækja fram af fullum þunga gagnvart þeim útflutningsfyrirtækjum sem félagið er með samninga við eins og t.d. Elkem Ísland og Norðurál auk þeirra fiskvinnslufyrirtækja sem selja sínar afurðir í erlendri mynt. Þessi fyrirtæki hafa fulla burði og getu til að hækka laun sinna starfsmanna umtalsvert.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image