• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Dec

Réttindabarátta félagsins hefur skilað félagsmönnum yfir 100 milljónum á 7 árum

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hélt sinn árlega jólatrúnaðarráðsfund í gærkvöldi. Formaður félagsins fór yfir kröfugerðir vegna komandi kjarasamninga og gerði grein fyrir því helsta sem gerst hefur á starfsárinu sem nú er að líða. Það kom fram í máli formanns að framundan séu afar erfiðar kjaraviðræður en eins og áður hefur komið fram þá liggur fyrir að það eru atvinnugreinar í okkar samfélagi sem eru mun betur í stakk búnar en aðrar til að mæta umtalsverðum hækkunum á launakjörum sinna starfsmanna og átti formaður þar við allar útflutningsgreinarnar. Það kom skýrt fram í máli hans að sótt verði af fullum þunga á þessar greinar, það er að segja, stóriðjurnar og fiskvinnslufyrirtækin.

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa fjölmörg fiskvinnslufyrirtæki greitt sínum starfsmönnum jólabónus og hefur sá jólabónus numið allt að 260 þúsund krónum umfram gildandi kjarasamninga og ber því að sjálfsögðu að fagna. Hins vegar hörmuðu fundargestir að HB Grandi, sem er eitt af stærstu fiskvinnslufyrirtækjum á Íslandi, skildi hafa hafnað því að greiða sambærilegan jólabónus og önnur fiskvinnslufyrirtæki höfðu gert til handa sínu starfsfólki. Þessi jólabónus sem greiddur hefur verið út af hinum ýmsu fiskvinnslufyrirtækjum sýnir svo ekki verður um villst að afkoma þessara fyrirtækja er nægilega góð til að mæta kröfum verkalýðshreyfingarinnar um stórhækkun launa til handa fiskvinnslufólki.

Formaður fór einnig yfir að nú eru 7 ár liðin frá því að ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness eftir gríðarleg átök sem átt höfðu sér stað í félaginu um langa hríð. Árangurinn sem núverandi stjórn hefur náð á þessum 7 árum er einstakur. Þegar ný stjórn tók við þann 19. nóvember 2003 var félagið nánast fjárvana. Félagssjóður var rekinn á yfirdrætti og peningalegar innistæður félagsins voru af afar skornum skammti. Í dag hefur stjórninni tekist að byggja alla sjóði félagsins vel upp og heildar innistæður félagsins hafa aukist gríðarlega á þessum 7 árum enda verður stéttarfélag að vera fjárhagslega sterkt til að geta þjónað sínum félagsmönnum eins og kostur er.

Það kom fram í máli formanns að það er ekki bara að félaginu hafi tekist að byggja sjóði félagsins upp á þessum 7 árum heldur hefur félagið einnig bætt við sjö nýjum styrkjum til handa félagsmönnum og hefur sjúkrasjóður félagsins greitt út tæpar 200 milljónir á þessum 7 árum. Einnig hefur félagið greitt út milljónir króna í fræðslustyrki.

En það sem vakti mikla athygli fundarmanna var hvað réttindabarátta félagsins hefur skilað félagsmönnum gríðarlegum ávinningi. Á þessum 7 árum hefur félagið innheimt yfir 100 milljónir króna vegna brota á kjarasamningum og með innheimtu í gegnum Ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota fyrirtækja. Það gera að meðaltali rúmar 14 milljónir á ári hverju frá því ný stjórn tók við.

Helstu dæmin um mál sem félagið hefur náð að vinna fyrir sína félagsmenn er til dæmis hlutdeild í arðgreiðslum hjá Elkem Ísland en sú barátta skilaði starfsmönnum tæpum 8 milljónum króna. Nýjasta dæmið sem félagið náði að knýja fram var eingreiðsla til handa sérkjaramönnum Norðuráls og nam sú heildarupphæð um 10 milljónum króna. Hæsta einstaka greiðslan til handa félagsmanni eru 3 milljónir vegna sjómanns sem var afleysingamaður í sínum fyrsta túr og slasaðist en honum hafði verið tjáð að hann ætti ekki rétt á launum þar sem hann hefði verið í afleysingum. Félagið fór í málið og að sjálfsögðu átti hann fullan rétt til launa enda hafði maðurinn slasast um borð í skipinu. Eitt af stóru málunum sem félagið fór í var til dæmis þegar stjórn HB Granda greiddi arðgreiðslur til eigenda á sama tíma og launafólk hafði verið þvingað til að afsala sér og fresta sínum launahækkunum. Þessi barátta skilaði því að allir starfsmenn HB Granda fengu sínar umsömdu launahækkanir og fjölmörg fiskvinnslufyrirtæki vítt og breitt um landið fylgdu í kjölfarið og stóðu við þá samninga sem höfðu verið gerðir á sínum tíma. Þessi vinna skilaði hverjum og einum starfsmanni nálægt 150 þúsund krónum.

Verkalýðsfélag Akraness tók félagsleg undirboð á erlendum verkamönnum á árunum 2005, 2006 og 2007 mjög föstum tökum enda var í mörgum tilfellum verið að brjóta á þessum mönnum með skelfilegum hætti. Félagið innheimti á þessum árum um 7 milljónir króna vegna hinna ýmsu brota er lutu að réttindum erlendra starfsmanna.

Á þessu sést að Verkalýðsfélag Akraness hefur kjark og þor til að taka á öllum málum sem upp koma og vílar ekki fyrir sér að fara í málin af fullum þunga með hagsmuni sinna félagsmanna ávallt að leiðarljósi. Þetta hefur farið misjafnlega í þá atvinnurekendur sem félagið hefur þurft að hjóla í og hefur félaginu nokkrum sinnum verið hótað málsókn vegna meiðyrða. Frægasta dæmið er þegar verið var að brjóta á starfsmönnum Glyms í Hvalfirði með skelfilegum hætti. En ekki hafa þessi fyrirtæki haft kjark né þor til að fara í mál við félagið enda hafði félagið ávallt rétt fyrir sér í þessum málum.

Það er stefna Verkalýðsfélags Akraness að verja hagsmuni sinna félagsmanna ávallt með kjafti og klóm þegar grunur er um brot á kjarasamningum og þannig verður það áfram.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image