• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Jan

Verkfall undirbúið

Verkalýðsfélag Akraness er nú byrjað af fullum krafti að undirbúa verkfall í fiskimjölsverksmiðjunni á Akranesi en félagið hefur átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna þessa sérkjarasamnings án árangurs. Í framhaldi af þeim áranguslausu viðræðum setti formaður sig í samband við forstjóra HB Granda, en HB Grandi á fiskimjölsverksmiðjuna.  Formaður félagsins lagði fram hugmynd að lausn á deilunni en því miður höfnuðu forsvarsmenn fyrirtækisins þessari tillögu eftir sólarhrings umhugsunarfrest. Á þeirri forsendu var haldinn fundur með starfsmönnum í morgun þar sem var ákveðið að láta kjósa um verkfall en sú kosning mun væntanlega fara fram í byrjun næstu viku.

Það er rétt að geta þess að gríðarlegur einhugur var á meðal starfsmanna að grípa til aðgerða vegna afstöðu Samtaka atvinnulífsins til gerð nýs sérkjarasamnings fyrir starfsmenn Síldarverksmiðjunnar.

Það er því fátt sem virðist geta komið í veg fyrir það á þessari stundu að verkfall skelli á í fiskimjölsverksmiðjunni á Akranesi í byrjun næsta mánaðar. Það er í raun og veru með hreinustu ólíkindum að Samtök atvinnulífsins og forsvarsmenn HB Granda skuli ekki hafa verið tilbúnir til að taka sáttartillögu félagsins sem hefði í huga formanns klárlega verið báðum deiluaðilum til mikilla hagsbóta. Formaður hefur gert ríkissáttasemjara grein fyrir þeirri grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í þessari deilu og mun hann fylgjast með framvindu mála eins og lög kveða á um.

Byrjunarlaun starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjunum eru í dag rúmar 224 þúsund krónur fyrir fullan dagvinnumánuð. Það er ljóst að starfsmenn síldarbræðslunnar hafa orðið fyrir umtalsverðri kjaraskerðingu frá janúar 2008 en eins og allir vita þá hafa ríki, sveitarfélög, orkufyrirtæki og nánast allir aðilar varpað sínum vanda viðstöðulaust yfir á íslenska launþega.  Einnig hafa skuldir heimilanna stökkbreyst í kjölfar bankahrunsins.  

Rétt er að geta þess að sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið að gera mjög góða hluti á grundvelli stöðu íslensku krónunnar og nægir að nefna í þessu samhengi að mjöl hefur hækkað frá árslokum 2007 til dagsins í dag um 141% og lýsið hefur hækkað frá sama tíma um 110%. Á grundvelli þessara staðreynda er ljóst að þessi fyrirtæki hafa fulla burði og getu til að hækka laun sinna starfsmanna umtalsvert enda eru störf í fiskimjölsverksmiðjunum afar sérhæfð.  Á þessum forsendum m.a. er morgunljóst að atvinnurekendum verður mætt af fullum þunga í komandi kjarasamningum þegar engan samningsvilja er að finna hjá þeim.

Það hefur margoft komið fram hér á heimsíðu félagsins og einnig kom það fram í máli formanns félagsins á ársfundi ASÍ að Verkalýðsfélag Akraness er ekki undir nokkrum kringumstæðum að fara að taka þátt í þessum sýndarleik er lítur að samræmdri launastefnu sem forseti Alþýðusambands Íslands vinnur nú að með félaga sínum Vilhjálmi Egilssyni. Staða atvinnufyrirtækja er afar mismunandi en það liggur fyrir að til dæmis á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness eru gríðarlega stór og mikil útflutningsfyrirtæki og á þeirri forsendu, með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, mun félagið ekki taka þátt í slíkri samræmdri launastefnu.

Þessi samræmda launastefna sem þeir félagar og kunningjar Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, vinna nú ötullega að, virðist byggjast á 3 ára kjarasamningi þar sem allir íslenskir launþegar eiga að fá sömu launahækkunina algjörlega óháð getu einstakra atvinnugreina.

Hvað þýðir þessi samræmda launastefna? Gefum okkur það sem að Samtök atvinnulífsins hafa ýjað að, það er hófstilltri prósentuhækkun með sambærilegum hætti og gerst hefur á Norðurlöndunum og eru þá menn væntanlega að tala um hækkun í kringum 3%. Það myndi þýða það að fiskvinnslukona eftir 15 ára starf fengi 6.700 kr. hækkun á mánuði eða að starfsmaður í fiskimjölsverksmiðju fengi um 7000 kr. hækkun miðað við þessar hugmyndir sem heyrst hafa. 

En hvað skyldu nú þeir félagar, Gylfi forseti ASÍ og Vilhjálmur Egilsson, fá ef þetta yrði hin samræmda launastefna upp á 3% launahækkun? Jú, Gylfi sem er með 1 milljón á mánuði fengi 30 þúsund króna hækkun á mánuði og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, fengi uppundir 60 þúsund króna hækkun en hann var með tæpa 1.9 milljón í mánaðarlaun samkvæmt Tekjublaði Mannlífs. Eða forstjórar þessara stóru fyrirtækja, eins og Norðuráls, Elkem, HB Granda og annarra stórfyrirtækja. Flestir þessara manna eru með vel á þriðju milljón á mánuði og þeir fengju á bilinu 70 - 90 þúsund króna hækkun á mánuði. Er þetta samræmda launastefnan sem að forystumenn ASÍ vilja sjá? Auka ójöfnuð hér á landi. Eru það þeir tekjuhæstu sem þurfa að fá mest? Svar Verkalýðsfélags Akraness við því er klárlega nei.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image