• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Jan

Skattahækkanir eins og enginn sé morgundagurinn

Nú um áramótin dundu enn og aftur skattahækkanir og gjaldskrárhækkanir á alþýðu þessa lands og er þetta til viðbótar þeim gríðarlegu skattahækkunum sem urðu á árinu 2010. Nýjustu skattahækkanirnar sem tóku gildi nú um áramótin voru að greiðsluþátttaka sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu hækkaði að jafnaði um tæp 3% og hlutur sjúklinga í lyfjakostnaði hækkaði einnig. Tóbak hækkaði um 3% og léttvín og bjór um 4%. Einnig hækkuðu vörugjöld á fjölmargar bifreiðar og síðast en ekki síst þá hækkaði bensínið umtalsvert en ef ég man þetta rétt þá er þetta fjórða skattahækkunin sem orðið hefur á bensíni á skömmum tíma. Ekki má heldur gleyma því að ríkisstjórnin er byrjuð að stíga það skref að afnema sjómannaafsláttinn í þrepum en hann lækkaði um 25% um áramótin. Og ríkisstjórnin heldur áfram með hugmyndir um miskunnarlausa skatta á almenning en nú eru uppi hugmyndir um að setja vegtolla allt í kringum höfuðborgarsvæðið. Með öðrum orðum, ríkisstjórn Íslands leggur álögur á íslenska launþega eins og enginn sé morgundagurinn.

Svíkja Stöðugleikasáttmálann

Þær skattahækkanir sem nú hafa litið dagsins ljós eru langt umfram það sem samið var um í hinum margfræga stöðugleikasáttmála sem er nú löngu dáinn drottni sínum. En það þykja nú svosem ekki stór tíðindi þó ríkisstjórn Íslands standi ekki við það sem um var samið í þeim sáttmála enda hefur þeim nánast tekist að svíkja hvert einasta atriði sem þar var um samið. Rétt er að rifja upp að ríkisstjórnin hefur svikið verkalýðshreyfinguna um verðtryggingu persónuafsláttar sem hefði komið þeim tekjulægstu hvað best.

Öllu varpað á launþega

Þessu til viðbótar eru hin ýmsu sveitarfélög í nákvæmlega sama gírnum og ríkisstjórn Íslands, það er, að varpa öllum sínum vanda viðstöðulaust yfir á neytendur, enda hafa gjaldskrár í mörgum sveitarfélögum hækkað gríðarlega á undanförnum tveimur árum. Ekki má gleyma orkufyrirtækjunum sem hafa verið að hækka sínar gjaldskrár og frægasta hækkunin er tæplega 30% hækkun hjá Orkuveitu Reykjavíkur á nýliðnu ári. Eins og allir vita þá hafa þessar skatta- og gjaldskrárhækkanir þau áhrif að verðtryggðar skuldir landsmanna hækka umtalsvert í gegnum hækkun á neysluvísitölunni. Eina verðbólgufóðrið sem heldur verðbólgunni gangandi þessa dagana eru þessar skelfilegu skatta- og gjaldskrárhækkanir hjá hinu opinbera.

Rök forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar, sveitarstjórnarmanna og forsvarsmanna orkufyrirtækjanna fyrir þessum skefjalausu hækkunum eru að engar aðrar leiðir séu færar til að mæta fjárhagsvanda þeirra. Með öðrum orðum, öllum vanda áðurnefndra aðila er varpað viðstöðulaust yfir á íslenska launþega en á sama tíma er ætlast til þess að þeir sýni stillingu í komandi kjarasamningum.

Þolinmæðin tæmd

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í áramótaávarpi sínu að þakka beri launafólki fyrir þolinmæði og þrautseigju, þrátt fyrir mikla og óhjákvæmilega kjaraskerðingu vegna hrunsins hefur þetta fólk haldið hjólum atvinnulífsins og opinberrar þjónustu gangandi. Hún sagði einnig að þetta væri ekki sjálfsagt eins og við sjáum víða í kringum okkur þar sem verkföll og mótmæli lama heilu samfélögin og sagði hún að það væri það sem við þyrftum síst á að halda núna.  Við Jóhönnu og hennar ríkisstjórn vill formaður félagsins segja að þolinmæði og þrautseigja íslenskra launþega er algjörlega tæmd með þessum síðustu skattaaðgerðum ríkisstjórnarinnar og því óréttlæti og úrræðaleysi er lítur að skuldavanda heimilanna.

Vissulega er það rétt hjá forsætisráðherranum að verkföll eru það sem við þurfum síst á að halda nú en það er morgunljóst að íslenskir launþegar munu af fullum þunga þurfa að mæta sínum vanda vegna þessara miskunnarlausu skatta- og gjaldskrárhækkana með hækkun launa. Að reka heimili er ekkert öðruvísi en að reka fyrirtæki.

Sótt af fullri hörku

Það er mat formanns að ef það tekst ekki með góðu að ná til baka þeirri kaupmáttarskerðingu sem launþegar hafa orðið fyrir þá er ekkert annað í stöðunni en að sækja þær launahækkanir af fullri hörku. En nú er að verða liðinn einn og hálfur mánuður frá því kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út og ljóst að það mun draga til tíðinda í viðræðum við Samtök atvinnulífsins fljótlega. Það er mat formanns félagsins að það komi ekki annað til greina en að íslenskum launþegum verði skilað til baka þeirri kaupmáttarskerðingu sem þeir hafa orðið fyrir frá hruni. Meira verður ekki lagt á herðar alþýðu þessa lands og nú er komið að öðrum að axla ábyrgð í þessu samfélagi, enda er þolinmæðin og þrautseigjan hjá alþýðunni algjörlega tæmd og það fyrir löngu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image