• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Sep

Hvers lags klúbbur er verkalýðshreyfingin?

Formannafundur Alþýðusambands Íslands var haldinn á Hótel Nordica í gær og voru tvö mál á dagskrá. Annars vegar tillögur að breytingum á skipulagi ASÍ sem teknar verða fyrir á ársfundinum og hins vegar efnahags- og kjaramál í aðdraganda komandi kjarasamninga.

Á fundinum tók formaður VLFA til máls undir liðnum kjaramál og talaði hann alveg tæpitungulaust hvað varðar áhersluatriði í komandi kjarasamningum. Hann sagði í ræðu sinni að gríðarlega mikilvægt væri að sækja af fullum þunga á þær atvinnugreinar sem klárlega hefðu borð fyrir báru hvað launahækkanir varðar og nægir að nefna í því samhengi allar útflutningsgreinarnar svo sem fiskvinnslurnar, útgerðir, stóriðjurnar og ferðaþjónustuna.

Formaður nefndi líka að þau lágmarkslaun sem væru í boði í dag væru til skammar, enda dygðu þau ekki á nokkurn hátt fyrir lágmarksframfærslu. Lágmarkslaunin verður að hækka í komandi kjarasamningum og mega þau alls ekki verða undir kr. 200.000 á mánuði.

Það er mat formanns að sýna eigi fulla hörku í þessum samningum, því það er dapurlegt að verða vitni að því hvernig aðilar eins og ríki, sveitarfélög, verslunareigendur, orkufyrirtæki, tryggingafélög ætla að láta launþega greiða úr sínum vanda á meðan launþegar eiga að sitja aðgerðalausir hjá og sætta sig við litlar kjarabætur. Slíkt kemur ekki til greina í komandi kjarasamningum.

Það kom einnig fram hjá formanni að ótækt sé að launanefnd sveitarfélaga setji öll sveitarfélög undir einn og sama hatt hvað varðar burði til að hækka laun. Það hefur t.a.m. komið fram að staða Akraneskaupstaðar sé nokkuð sterk, bæði hvað varðar tekjur og skuldastöðu. Á þeirri forsendu er alls ekki hægt að setja Akraneskaupstað undir sama hatt og t.d. Reykjanesbæ þar sem nú ríkir skelfingarástand í fjármálum.

Formaður sagði einnig í ræðu sinni að það væri hlutverk ASÍ að krefja verslunina um lækkun á vöruverði í ljósi þeirrar staðreyndar að gengi krónunnar hefur styrkst töluvert á undanförnum vikum. Enda hefur gengi evru gagnvart krónunni lækkað um 18,4% frá því gengi gjaldmiðilsins var sem hæst og gengi dollarans hefur að sama skapi lækkað um 21%. Þessi lækkun hefur ekki birst í lækkun á matarverði.

Það er gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin standi þétt saman að því að sækja að þeim atvinnugreinum sem starfa í útflutningi því án samtakamáttar hreyfingarinnar er líklegt að árangurinn verði lakari en ella. Því er það dapurlegt að hafa lesið um það í fréttum að forseti ASÍ og einstaka formenn stærstu félaganna hafa varað við þeirri aðferðafræði að sækja á útflutningsgreinarnar. Það er hlutverk samninganefndar stéttarfélaganna að geta fært rök fyrir því af hverju laun eiga að hækka og hvergi nokkurs staðar eru rökin sterkari en gagnvart útflutningsfyrirtækjunum sem hafa verið að hagnast umtalsvert vegna veikingar íslensku krónunnar. Þetta eigum við að nýta okkur í komandi kjarasamningum.

Að lokum sagði formaður í ræðu sinni að ef við nýtum okkur ekki þessa stöðu þá verði hann að segja það sama og forseti Íslands sagði í viðtali við Bloomberg fréttastofuna varðandi Evrópusambandið: hvers lags klúbbur er verkalýðshreyfingin?

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image