• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Sep

Lágmarkslaun eru lægri en örorkulífeyrir

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni er staða lágtekjufólks og öryrkja afar slæm og nánast útilokað fyrir fólk sem fær greitt einungis lágmarkslaun að upphæð kr. 165 000 að geta framfleytt sér.

Öryrki sem hefur engar aðrar tekjur og býr einn fær greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun Ríkisins að upphæð 180.000 kr. á mánuði. Frádreginn er skattur að upphæð kr. 22.791. Útborgaður lífeyrir er kr. 157.209.

Starfsmaður sem fær greitt einungis lágmarkslaun sem eru kr. 165.000 greiðir í skatt kr. 14.751, í lífeyrissjóð kr. 6.600 og í stéttarfélag kr. 1.650. Þessi starfsmaður fær útborgað kr. 141.999 sem er 15.210 krónum minna en sá sem fær greiddan örorkulífeyri.

Þannig að launþegi sem einungis fær greitt eftir lágmarkslaunum á Íslandi í dag er verr settur en öryrki sem fær 180.000 í heildarlífeyri á mánuði.

Vandi öryrkja er stórkostlegur og það má ekki misskilja þessa ábendingu þannig að tekjur þeirra teljist vera háar, enda er það mat formanns VLFA að þær dugi ekki fyrir lágmarksframfærslu og þær þurfi að hækka. Hins vegar tel ég brýnt að benda á að lágmarkslaun á Íslandi eru 15.000 krónum undir því sem Tryggingastofnun greiðir einstæðum öryrkjum sem ekki hafa aðrar tekjur.

Það er morgunljóst að vandi lágtekjufólks á Íslandi og þeirra sem starfa á berstrípuðum lágmarkslaunum verður að hafa forgang í komandi kjarasamningum enda verður að tryggja með öllum tiltækum ráðum að lágtekjufólk hafi möguleika á að framfleyta sér og sínum. Á þeirri forsendu þarf að hækka lágmarkslaun og lífeyrir upp í að lágmarki kr. 200.000 á mánuði þannig að möguleiki sé fyrir fólk að framfleyta sér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image