• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Vel heppnuð ferð eldri félagsmanna Það er alltaf mikið um bros þegar þessi hópur kemur saman
03
Sep

Vel heppnuð ferð eldri félagsmanna

Í gær gerðu eldri félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness ásamt mökum víðreist í dagsferð á vegum félagsins. Þessi ferð er árlegur liður í starfsemi félagsins og að þessu sinni var ferðinni heitið til Vestamannaeyja undir dyggri leiðsögn Björns Inga Finsen.

Í ár lögðu um 110 félagsmenn auk fulltrúa félagsins og leiðsögumanni af stað í tveimur rútum frá Akranesi í ágætis veðri. Veðurspá hafði ekki verið ferðafólki í hag, en sem betur fer rættist úr því í tæka tíð.

Ekið var sem leið lá frá Akranesi í gegnum Mosfellsbæ, um veginn við Hafravatn, yfir Hellisheiði og í Hveragerði. Þar var stutt áning í Eden. Áfram var haldið til Selfoss og komið við í Laugardælum þar sem kirkjan var skoðuð og fólk gat augum litið leiði Bobbys Fisher.

Frá Laugardælum var ekið áfram til austurs í gegnum Hellu og til Hvolsvallar þar sem ferðafólk teygði aðeins úr sér við hið sögufræga hús Ömmubæ. Frá Ömmubæ var ekið rakleiðis að Markarfljóti og suður að hinni nýju Landeyjahöfn þar sem Herjólfur beið eftir ferðafólki.

Sjóferðin gekk mjög vel þótt dálítill veltingur hafi verið við hina þröngu innsiglingu Landeyjahafnar, en það lagaðist fljótlega eftir að út á rúmsjó var komið. Siglingin sjálf tekur ekki nema um 30 mínútur og fyrr en varði hafði ferðafólk fast land undir fótum á ný í Vestmannaeyjum.

Í Vestmannaeyjum beið ferðafólks léttur hádegisverður í boði félagsins. Að snæðingi loknum var haldið af stað í rútum í útsýnisferð um eyjuna með leiðsögn frá Unni og Simma hjá Viking Tours. Ýmsir staðir voru skoðaðir, t.d. Herjólfsdalur, Fjósaklettur, Stórhöfði, Ræningjatangi, Eldheimar (Pompei du Nord), Gaujulundur og Skansinn.

Að útsýnisferð lokinni var ferðafólki ekið aftur að Herjólfi þar sem við tók sigling upp á land. Boðið var upp á hressingu um borð. Í Landeyjum tók Björn aftur við leiðsögunni og var ekið til baka að Selfossi, upp með Ingólfsfjalli og í Þrastarlund þar sem áð var. Þar las Garðar Halldórsson upp ljóð fyrir hópinn í dásamlegu veðri undir berum himni. Ljóðið samdi hann árið 1974 í tilefni af 50 ára afmæli Verkalýðsfélags Akraness. Var gerður góður rómur að flutningi Garðars.

Frá Þrastarlundi var ekið vestanmegin við Þingvallavatn, framhjá Nesjavöllum um Grafninginn, yfir Mosfellsheiði og komið niður í Mosfellsdal þaðan sem ekið var sem leið lá til Akraness.

Þessi ferð var afskaplega vel heppnuð í alla staði og kann skrifstofa félagsins þeim sem komu að undirbúningi hennar hinar bestu þakkir fyrir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image