• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Jun

Brandaranum um stöðugleikasáttmálann lokið

Nú liggur fyrir að svokallaður stöðugleikasáttmáli sé endanlega úr sögunni eftir að miðstjórn Alþýðusambands Íslands sagði sig frá honum á fundi á miðvikudaginn var. Þar á undan höfðu Samtök atvinnulífsins sagt sig frá sáttmálanum vegna þess að sjávarútvegsráðherra hafði heimilað veiðar á 2000 tonnum af skötusel sem ekki var úthlutað beint til þeirra útgerðarfyrirtækja sem hafa aflaheimildir hér á landi.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð verið á móti þessum stöðugleikasáttmála og kom það fram strax í upphafi þegar verið var að gera þennan sáttmála enda hefur komið í ljós að það eina sem hefur gengið eftir í þessum sáttmála er að verkafólk og launþegar þessa lands voru þvingaðir til að fresta og afsala sér sínum launahækkunum sem um var samið 17. febrúar 2008. Verkafólk varð af vegna þessa sáttmála vel á annað hundrað þúsund króna og þess vegna er það afar ánægjulegt að sjá að Verkalýðsfélag Akraness hafði rétt fyrir sér þegar það gagnrýndi þennan sáttmála.

Það er mat formanns að þessi stöðugleikasáttmáli hafi verið einn brandari frá upphafi til enda því eins og áður hefur komið fram þá gekk ekkert eftir í samningnum annað heldur en að launafólk varð af hluta af sínum umsömdu launahækkunum. Á sama tíma vörpuðu ríki, sveitarfélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar allir sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið. Vandi áðurnefndra aðila var látinn falla af fullum þunga á íslenska neytendur.

Það er einnig grátbroslegt að verða vitni að því að Samtök atvinnulífsins segi sig frá sáttmálanum vegna þess að sægreifarnir fengu ekki úthlutað þeim skötuselskvóta sem úthlutað var og núna hefur miðstjórn ASÍ einnig sagt sig frá þessum sáttmála vegna þess að ríkið ætlar ekki að standa við sinn hluta er lýtur að greiðslum í starfsendurhæfingarsjóð. Hefði ekki verið nær að segja sig frá þessum sáttmála á grundvelli þess að atvinnurekendur ætluðu ekki að standa við þann hófstillta kjarasamning sem gerður var 17. febrúar 2008?

Formaður vill hins vegar að það komi skýrt fram að það er mjög mikilvægt að þessi nýi starfsendurhæfingarsjóður hafi burði til að starfa á þeim forsendum sem hann á að gera enda er hann liður í að efla og treysta stöðu launafólks á vinnumarkaði sem lendir á áföllum vegna veikinda og slysa. En hins vegar eins og áður sagði er það undarlegt að miðstjórn ASÍ skuli segja sig frá sáttmálanum á grundvelli þess að ríkið standi ekki við sinn hluta varðandi starfsendurhæfingarsjóðinn en fannst ekki ástæða til að segja sig frá honum þó svo að atvinnurekendur ætluðu ekki að standa við þann hófstillta samning sem gerður var 17. febrúar 2008.

Rætt var við formann Verkalýðsfélags Akraness um þetta mál í hádegisfréttum Rásar 1 og má hlusta á það hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image