• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Aug

Nauðsynlegt að finna út lágmarksframfærslustuðul

Það er með hreinustu ólíkindum að ekki skuli vera til nein opinber viðmið um lágmarksframfærslu af hálfu hins opinbera. Það kom til dæmis fram í fyrirspurn á Alþingi í vetur til Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra, hvort ráðherrann telji að setja eigi opinber viðmið eða lög um lágmarksframfærslu. Í svari ráðherrans kom fram að miklar umræður hafi verið um hvort setja ætti slík viðmið en ekki hafi náðst samstaða um málið. Formaður spyr sig: Hverjir hafa verið að leggjast gegn því að svokölluð viðmið um lágmarksframfærslu verði fundin út hér á landi?

Það liggur fyrir að Ráðgjafastofa heimilanna hefur verið að reikna út hvað hinir ýmsu hópar þurfi til þess að framfleyta sér en inni í þeim viðmiðum er ekkert tekið tillit til kostnaðar vegna til dæmis síma, áskrifta, fasteignagjalda, húsaleigu eða lána vegna húsnæðiskaupa, trygginga, bifreiða, dagheimilisgjalda fleiri kostnaðarliða sem eru hjá hverri fjölskyldu. Það er einnig til svokallaður framfærslustuðull sveitarfélaganna og byggist hann á sama grunni, það er að segja einungis til þess að fólk geti dregið andann. Ekkert er tekið tillit til hinna ýmsu kostnaðarliða er lúta að því að reka heimili. Í framfærslustuðli sveitarfélaganna kemur fram að lágmarksframfærsla einstaklings sé 125.540 kr. á mánuði og tveggja manna fjölskylda þurfi 200.864 kr. á mánuði. Þessi framfærslustuðull byggist á því að viðkomandi aðilar búi nánast í tjaldi.

Það er gríðarlega mikilvægt að fundinn verði út nákvæmur framfærslustuðull með öllum hefðbundnum útgjaldaliðum venjulegs fólks en formaður tekur undir með Hörpu Njálsdóttur félagsfræðingi sem mikið hefur fjallað um fátækt á Íslandi. Hún hefur til dæmis sagt að stjórnvöld hafi alla tíð vitað að greiddur væri lífeyrir sem sé langt undir því að duga til framfærslu. Og hún segir einnig að á þeirri forsendu vilji stjórnvöld ekki fá upp á yfirborðið hver hin raunverulega lágmarks framfærsla er í þessu landi.

Hjá Ráðgjafastofu heimilanna kemur fram að hjón með tvö börn þurfi 155.600 kr. á mánuði til þess að framfleyta sér sem sundurliðast með eftirfarandi hætti. Matur 105.000, tómstundir 8.300, fatakaup 17.400, lækniskostnaður 6.600 og ýmislegt 8.300. Eins og sést á þessu er ekkert tekið á þessum hefðbundnu útgjaldaliðum sem vísitölufjölskyldan er með. Það er alls ekki óalgengt að heimilislína hjóna með tvö börn sé í kringum 150-200 þúsund krónur á mánuði þannig að ekkert er ólíklegt að lágmarksframfærsla hjóna með tvö börn sé í kringum 3-400 þúsund krónur á mánuði. Stjórnvöld verða að finna út þennan lágmarksframfærslustuðul því það er ekki hægt að bjóða upp á lágmarkslaun og lágmarksbætur sem duga ekki til að fólk geti séð sér farborða.

Viðtal var við formann Verkalýðsfélag Akraness um þetta mál í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni síðastliðinn föstudag og má hlusta á það hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image