• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Jul

Fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa lagt fram frumvörp og ályktanir um stórhækkun lágmarkslauna

Sú hugmynd sem formaður Verkalýðsfélags Akraness lagði fram vegna komandi kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði um hækkun lágmarkslauna úr 165 þúsund krónum í 200 þúsund krónur hefur vakið gríðarlega athygli. Aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Hannes G. Sigurðsson, gagnrýndi þessa hugmynd á Rúv þar sem hann taldi að þessi krafa væri afar óeðlileg og einnig gagnrýndi framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, Andrés Magnússon, tillöguna. Hann sagði í fréttum á Rúv að slík hækkun gæti þýtt fjölda gjaldþrota hjá fyrirtækjum sem og uppsagnir.

Það er alltaf sami gráturinn sem upp kemur þegar verið er að tala um að hækka kjör þeirra lægst launuðu og sá söngur sem heyrist frá Hannesi og Andrési kemur formanni Verkalýðsfélags Akraness ekki á óvart enda er þetta sami söngurinn og þegar gengið var frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði 17. febrúar 2008. Þá var verkalýðshreyfingin hvött til að ganga frá hófstilltum samningum til að tryggja hér langtíma stöðugleika. Verkalýðshreyfingin gekk frá hófstilltum samningum 17. febrúar 2008 en þá var verðbólgan 5% en eins og allir vita þá rauk verðbólgan upp undir 20% í janúar 2009 með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenska launþega. Þetta gerðist þrátt fyrir að gengið hafi verið frá umræddum hófstilltum kjarasamningum.

Eins og flestir muna þá hafa verið lögð fram frumvörp um lögbindingu lágmarkslauna og var það gert síðast árið 2005 og flutningsmenn þess frumvarps voru meðal annars núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir og Kristján L. Möller, samgöngumálaráðherra, en þar lögðu þau til að lágmarkslaun myndu hækka upp í 138.500 krónur en lágmarkslaunin þá voru 103.500 kr. Þau voru því að leggja til að lágmarkslaun myndu hækka um 35 þúsund eða sem nemur 34%. 

Í ítarlegri greinargerð með frumvarpinu kemur meðal annars eftirfarandi fram::

  • Meginvandi íslensks þjóðfélags er fátækt og skuldir og stafar það af lágum launum og lág laun hafa leitt til margs konar vanda og jafnvel hrakið fólk af landi brott.  Um nokkra hríð hefur ekki verið hægt að framfleyta fjölskyldu með lægstu taxtalaunum. 
  • Alþjóðlegur samanburður sýnir að laun á Íslandi eru áberandi lægri en í helstu viðmiðunarlöndum okkar.  
  • Lág taxtalaun hér á landi eru efnahagslegt vandamál. Þau leiða til þess að ýmsir sem eru á þessum launum eiga vart fyrir mat, hvað þá að þeir geti nýtt sér þá þjónustu sem eðlilegt er að veitt sé í nútímaþjóðfélagi.
  • Tímakaup í dönskum iðnaði árið 1994 var 97% hærra en í íslenskum. Ekki eru nýjar tölur fyrirliggjandi. Tekjur hjóna í Danmörku árið 1993 voru um 39% hærri en á Íslandi. Danskur byggingaverkamaður hefur um 28% hærri ráðstöfunartekjur en íslenskur. Þessar tölur, sem komu fram í skýrslu forsætisráðherra um laun og lífskjör á Íslandi, í Danmörku og víðar, segja alla söguna.  
  • Flutningsmenn telja að allt sem viðkemur kjarasamningum eigi að vera á forræði samningsaðila. Þar sem ekki hefur tekist með samningum að knýja fram hækkun lægstu launa undanfarin ár ber Alþingi Íslendinga skylda til að grípa inn í þessi mál með lagasetningu.
  • Frumvarpinu er því fyrst og fremst ætlað að skapa vörn fyrir þá sem minnst mega sín. Rökin fyrir þessu eru augljós. Hækkun lægstu launa í 138.500 kr. á mánuði mun auka velferð þeirra fátækustu í íslensku þjóðfélagi, jafna laun og bæta afkomu margra einstaklinga.
  • Ef þessi leið verður ekki farin og taxtalaunin látin eiga sig eina ferðina enn í næstu kjarasamningum mun sífellt stærri hópur launamanna sitja eftir með lágmarkstaxta og ekki eiga sér viðreisnar von. Við megum ekki láta mál þróast á þann veg.

Allt sem kemur fram í þessari greinargerð með frumvarpinu á svo sannarlega við rök að styðjast og á einnig við í dag. Á þeirri forsendu er afar brýnt að lagfæra lágmarkslaun á Íslandi og hækka þau upp í 200 þúsund krónur að lágmarki og ég trúi ekki öðru heldur en að Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra, sem lagði þetta frumvarp fram, leggi fram fullan stuðning við að ná lágmarkslaununum upp í 200 þúsund krónur.

Rétt er einnig að geta þess að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og hans fólk, ályktaði um lágmarkslaun árið 2003 en þá voru lágmarkslaun á Íslandi einungis 93 þúsund krónur. Landsfundur Vinstri grænna árið 2003 lagði til að lágmarkslaun yrðu hækkuð upp í 150 þúsund krónur sem er hækkun um 57 þúsund krónur eða sem nemur 61%. Tillaga Verkalýðsfélags Akraness sem að aðilar atvinnurekenda telja afar óeðlilega, hljómar hins vegar einungis upp á 21% hækkun.

Á þessu sést að bæði Steingrímur fjármálaráðherra og Jóhanna forsætisráðherra hafa lagt fram frumvörp og ályktað um lágmarkslaun með það að markmiði að stórhækka lágmarkslaunin. Á þeirri forsendu hljóta áðurnefndir ráðherrar að leggja verkalýðshreyfingunni fram fullan stuðning við að lagfæra tekjur þeirra lægst launuðu í okkar samfélagi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image