• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Aug

Ingólfur Hjartarson, fyrrverandi lögmaður félagsins, er látinn

Ingólfur Hjartarson hrl. sem var lögmaður Verkalýðsfélags Akraness frá árinu 2003 til seinni hluta árs 2009 lést síðastliðinn fimmtudaginn.

Eins og flestir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness muna þá voru gríðarleg átök í félaginu frá árinu 2000 allt þar til ný stjórn tók við 19. nóvember 2003 og má segja að Ingólfur hafi komið mikið við sögu í þessum átökum. Núverandi formanni var á þessum tíma meinaður aðgangur að bókhaldsgögnum félagsins þegar hann var stjórnarmaður í félaginu af meirihluta fráfarandi stjórnar. En sterkar grunsemdir voru um mikla óráðsíu og vanrækslu fyrrverandi formanns félagsins og voru þær grunsemdir m.a. staðfestar í skýrslu sem Price Waterhouse Coopers gerði á sínum tíma.

Ingólfur stefndi Verkalýðsfélagi Akraness fyrir hönd núverandi formanns og fór málið fyrir Héraðsdóm og Hæstarétt. Málið vannst á báðum dómsstigum.

Á þessum árum stefndi hann einnig Alþýðusambandi Íslands vegna brota sambandsins á reglugerð ASÍ um allsherjarkosningar, en fram hafði farið kosning til nýrrar stjórnar félagsins. Ingólfur gerði alvarlegar athugasemdir við framkvæmd kosninganna og kærði kosningar m.a. til miðstjórnar ASÍ sem hafnaði rökum hans. Í kjölfarið stefndi hann ASÍ fyrir áðurnefnd brot og þegar búið var að birta stefnuna óskaði ASÍ eftir því að sátt næðist í málinu og kosið yrði á milli tveggja lista. Með öðrum orðum, ASÍ vissi algerlega upp á sig skömmina í þessum efnum.

Ingólfi var verulega misboðið yfir öllu þessu máli, bæði með að núverandi formanni skyldi meinaður aðgangur að bókhaldsgögnum en ekki síður framferði og aðgerðaleysi Alþýðusambands Íslands í þessum málum.

Ingólfur hafði afar sterka réttlætis- og siðferðiskennd sem gerði það að verkum að hann var á þessum árum tilbúinn að gefa okkur sem stóðum í þessari baráttu allt sitt vinnuframlag.

Fyrsta verk nýrrar stjórnar sem tók við 19. nóvember 2003 var að hafa samband við Ingólf og óska eftir því að hann yrði lögmaður félagsins. Varð hann við þeirri ósk og starfaði samfleytt fyrir félagið í tæp 7 ár. Óhætt að fullyrða að það hafi verið til mikilla hagsbóta fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness en mörg mál vann hann fyrir félagið sem skiluðu félagsmönnum umtalsverðum ávinningi. Nægir að nefna fyrsta málið sem hann tók að sér eftir að hann var ráðinn sem lögmaður félagsins, en það laut að hlutdeild starfsmanna Elkem Íslands í hagnaði. Samkvæmt samkomulagi við fyrrverandi eigendur Elkem Ísland var kveðið á um að starfsmenn ættu hlutdeild í hagnaði fyrirtækisins. Þessu höfnuðu nýir eigendur Elkem Ísland og fór Ingólfur af fullum þunga í málið. Sú barátta skilaði hverjum einasta starfsmanni fyrirtækisins tugum þúsunda króna.

Stjórn félagsins mun seint geta þakkað Ingólfi fyrir alla þá vinnu sem hann lagði á sig fyrir félagið, svo ekki sé talað um hans þátt í þeirri baráttu sem sá hópur sem tók við félaginu 2003 stóð í. Án Ingólfs hefði sú barátta aldrei unnist. Stjórn félagsins vill votta aðstandendum Ingólfs innilegrar samúðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image