• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Jul

Krafa um að lágmarkslaun verði ekki undir 200 þúsund krónum í komandi kjarasamningum

Inni á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins var skrifað um komandi kjarasamninga á fimmtudaginn var og kom fram hjá framkvæmdastjóra SA að stefnt skuli að því að gerður verði langtímasamningur t.d. til þriggja ára með hóflegum hækkunum. Eins og flestir vita þá verða allflestir kjarasamningar lausir um næstu áramót, þar á meðal kjarasamningarnir á hinum almenna vinnumarkaði.

Vissulega er ekkert óeðlilegt við það að Samtök atvinnulífsins vilji gera langtímasamning með hófstilltum hækkunum, það er jú þeirra hlutverk að gæta hagsmuna fyrirtækja í landinu. Hins vegar liggur það hvellskýrt fyrir að krafa Verkalýðsfélags Akraness í komandi kjarasamningum verður að lágmarkslaun í þessu landi verði hækkuð allverulega, enda eru þau íslensku samfélagi, atvinnurekendum og síðast en ekki síst okkur í verkalýðshreyfingunni til skammar.

Í dag eru lágmarkslaun fyrir fulla vinnu, 173 tíma á mánuði, einungis 165.000 kr. Verkalýðsfélag Akraness vill sjá kröfu um að lágmarkslaun verði ekki undir 200 þúsund krónum í komandi kjarasamningum. Verkalýðsfélag Akraness mun aldrei taka þátt í neinu í anda þess stöðugleikasáttmála sem gerður var í júní 2009 en þar var verkafólk og aðrir launþegar þvingaðir til að fresta og afsala sér sínum hófstilltu launum sem um var samið 17. febrúar 2008. Verkalýðsfélag Akraness er stolt af því að hafa verið eitt fárra stéttarfélaga sem barðist af alefli fyrir því að umsamdar launahækkanir frá 17. febrúar skyldu standa.

Það þarf einnig að gera þá skýlausu kröfu til allra fyrirtækja sem hafa fjárhagslega burði til að þau komi með veglegar launahækkanir til handa sínu starfsfólki enda er fullt af fyrirtækjum sem hafa fulla burði til að gera slíkt. Nægir að nefna flestöll útflutningsfyrirtæki sem hafa verið að gera góða hluti vegna þeirra gengisbreytinga sem orðið hafa á undanförnum 18 mánuðum.

Það gengur ekki lengur að það sé íslenskt verkafólk eitt og sér sem sé látið líða fyrir það efnahagshrun sem hér hefur orðið enda liggur það morgunljóst fyrir að það er ekki íslenskt verkafólk sem ber ábyrgð á þeim hörmungum sem gengið hafa yfir íslenskt samfélag. Á sama tíma og verkafólk þurfti að afsala sér sínum umsömdu launahækkunum þá vörpuðu ríki, sveitarfélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið með skelfilegum afleiðingum fyrir alþýðu þessa lands.

Núna er kominn tími til að íslensk verkalýðshreyfing standi þétt saman og sýni tennurnar í því að bæta kjör sinna félagsmanna og eyða í eitt skipti fyrir öll þeim skelfilegu lágmarkslaunum sem eru eins og áður sagði öllum sem ábyrgð á þeim bera til háborinnar skammar. En til þess að þetta náist fram þarf hreyfingin að standa saman og nú er komið að því að Alþýðusamband Íslands beini þeim tilmælum til sinna aðildarfélaga að leggja áherslu á að lágmarkslaun á Íslandi verði ekki undir 200 þúsund krónum í komandi samningum. Formaður á sér þá von að forseti Alþýðusambandsins láti ekki samtök atvinnulífsins blekkja sig út í einhvers konar stöðugleikasáttmála þar sem launþegar einir verða látnir axla ábyrgðina.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image