• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Aug

Ykkur grálúsugum almúganum kemur þetta ekki við

Geirmundur Kristinsson, fyrrv. sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í KeflavíkGeirmundur Kristinsson, fyrrv. sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í KeflavíkEins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá tapaði lífeyrissjóðurinn Festa sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að 1,6 milljörðum vegna falls Sparisjóðs Keflavíkur.  Á þeirri forsendu hefur m.a þurft að skerða lífeyrisgreiðslur til handa sjóðsfélögum Verkalýðsfélags Akraness og öðrum sjóðsfélögum sem tilheyra lífeyrissjóðnum vítt og breitt um landið.  Á árinu 2009 voru áunninn réttindi sjóðsfélaga Festu lækkuð um 2,5 % og aftur um 5% 2010 og einnig var framtíðarávinnsla lækkuð um 2,5% 2009.

Á sama tíma og þessar skerðingar dynja á þeim sem síst skyldi þ.e.a.s öryrkjum og lífeyrisþegum Festu og einnig lífeyrisþegum annarra lífeyrissjóða, þá upplýsist samkvæmt tekjublaði Mannlífs að Geirmundur Kristinsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri Keflavíkur var með rúma 21 milljón á mánuði á síðasta ári eða sem nemur 255 miljónum á ársgrundvelli.  Rétt er að geta þess að hluti af þessum launum hjá Geirmundi var úttekt úr séreignarsjóði.

Það er nöturlegt, dapurlegt og í raun ógeðfellt að verða vitni að slíkum ofurlaunum hjá einstaklingi sem stjórnaði banka sem fór jafn rækilega í þrot og raun bar vitni. Það er ekki bara að Sparisjóður Keflavíkur hafi verið rekinn með 17 milljarða tapi 2008 og 19 milljarða tapi 2009 heldur töpuðu lífeyrissjóðirnir gríðarlegum upphæðum við fall Sparisjóðsins. Eins og fram kom í fréttum þá kom ríkið inn með 12 milljarða króna í sjóðinn á grundvelli neyðarlaganna. Reikna má með að ríkið leggi á annan tug milljarða í yfirtöku sína á sjóðnum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr: Hvernig má það vera að fyrrverandi sparisjóðsstjóri Keflavíkur gangi út með 255 milljónir eftir að hafa lagt sparisjóðinn í rúst sem einnig hefur gert það að verkum að skerða þurfti lífeyrisgreiðslur til elli- og örorkuþega lífeyrissjóða þessa lands? Því til viðbótar þurftu íslenskir skattgreiðendur að leggja til um 20 milljarða vegna yfirtöku ríksins á sparisjóðnum eins og áður hefur komið fram.  Hver er ábyrgð þessara manna sem stjórnuðu bönkunum?  Er ábyrgðin fólgin í því að ganga út með 255 milljónir?

Þessir snillingar sem stjórnuðu bönkunum sögðu alltaf að ábyrgðin sem þeir bæru væri svo gríðarleg og okkur grálúsugum almúganum kæmi ekkert við hver laun þeir væru.  Nú hefur hins vegar komið í ljós að okkur kom þetta svo sannarlega við því reikingurinn vegna afglapa þessara manna í starfi er sendur á alþýðu þessa lands.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image