• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
31
Mar

Ágúst Hafberg veður villu vegar

Ágúst Hafberg, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli, fer mikinn á vefmiðli Víkurfrétta í dag. Þar segir Ágúst m.a. ummæli formanns VLFA og framsetning launasamanburðar vera mjög villandi. Einnig segir Ágúst: "Varðandi grunnlaunin verður að hafa í huga að vaktakerfi fyrirtækjanna eru gjörólík og samsetning launa ólík. Miðað við síðustu áramót eru byrjunarlaun starfsmanns hjá Norðuráli um 364.000 krónur sem er hærra en í öðrum álverum og stóriðjufyrirtækjum á Íslandi".

Það er rétt hjá Ágústi að byrjunarlaun vaktavinnumanns hjá Norðuráli með öllu eru 364.000 krónur. Hins vegar segir hann ekki frá því hversu margar vinnustundir liggja að baki þessari tölu, en þær eru 182 á mánuði. Hjá Alcan eru heildarlaun byrjanda með öllu, skv. samanburði sem Norðurál hefur sjálft gert, 350.000 krónur. En þar á bak við liggja 145,6 tímar. Þetta er mismunur upp á 36,4 tíma á mánuði og starfsmenn Norðuráls eru því með 14.000 krónum hærri laun fyrir þessar 36 klukkustundir á mánuði.

Þegar launasamanburður vaktavinnufólksins er settur niður á einingar, það er að segja sama vinnustundafjölda, þá liggur fyrir að munurinn á milli Alcan og Norðuráls er bilinu 40 til 50 þúsund krónur á mánuði, Alcan í vil.

Rétt er að minna á að fovarsmenn Norðuráls hafa sjálfir gert launasamanburð  þar sem kemur fram að launamunurinn sé umstalsverður  á milli áðurnefndra verksmiðja starfsmönnum Norðuráls í óhag.

Þegar fyrirtækið sakar nú formann Verkalýðsfélags Akranes fyrir villandi launasamanburð, þá er ekki annað hægt en að vísa því aftur til föðuhúsanna.

Ágúst gagnrýnir formann Verkalýðsfélags Akraness líka fyrir hafa "ítrekað komið með yfirlýsingar um rekstur Norðuráls sem sýna að hann hefur enga þekkingu á rekstri eða rekstrarumhverfi fyrirtækisins". Formaður Verkalýðsfélags Akraness skoðaði rekstur fyrirtækisins allt aftur til ársins 1998 og studdist þar við samantekt Frjálsrar Verslunar á 300 stærstu fyrirtækjunum á Íslandi. Þar fram kemur að Norðurál hafi skilað hagnaði árin frá 1998 til 2008 upp á samtals 36 milljarða króna og að fyrirtækið hafi skilað 16 milljörðum í hagnað árið 2008? Er þetta rangt? Þetta eru rök sem formaður hefur haldið á lofti.

Hvað sagði ekki Ágúst Hafberg sjálfur í Skessuhorni í fyrra þegar fyrirtækið skilaði 16 milljörðum í hagnað? Hann sagði að rekstur Norðuráls á Grundartanga væri á heimsmælikvarða. Núna segja forsvarsmenn Norðuráls að það hafi verið tap á síðasta ári. Formaður ætlar ekki að þræta fyrir það að svo hafi verið en finnst það reyndar skjóta skökku við ekki hafi dugað að reka verksmiðjuna með hagnaði á 1700 dollurum tonnið, sérstaklega í ljósi þess að fjármálastjóri móðurfélagsins Century sagði í nóvember á síðasta ári að mögulegt hafi verið að reka álverið á Grundartanga á sléttu á 1275 dollurum.

Að lokum vill formaður sýna með afgerandi hætti hver hinn raunverulegi launamunur er og þar af leiðandi hversu mikið laun starfsmanna Norðuráls þurfa að hækka til að jöfnun launa hafi átt sér stað á við hinar verksmiðjurnar. Þetta er hinn raunverulegi launamunur sem samninganefnd stéttarfélaganna hefur unnið í samráði við hagfræðing Alþýðusambands Íslands og þar kemur nákvæmlega fram hvað laun starfsmanna Norðuráls þurfa að hækka um til að jafna laun á við hinar verksmiðjurnar hjá Elkem og Alcan..

Formaður spyr sjálfan sig, hví í ósköpunum eiga starfsmenn Norðuráls að vera á lakari kjörum sem nemur tugum þúsunda króna á við mánaðarlaun starfsbræðra þeirra í öðrum sambærilegum verksmiðjum? Það er morgunljóst að við það mun Verkalýðsfélag Akraness alls ekki una.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image