• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Góður rekstur Verkalýðsfélags Akraness Elí, Skúlína og Linda á Aðalfundi 2009
09
Apr

Góður rekstur Verkalýðsfélags Akraness

Á fundum allra stjórna Verkalýðsfélags Akraness í gærkvöldi kynntu endurskoðendur félagsins ársreikninga 2009. Það verður að segjast alveg eins og er að afkoma félagsins var afar góð á síðasta ári þrátt fyrir þær hremmingar sem gengið hafa yfir atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar.

Sem dæmi þá lækka iðgjaldatekjur ekki á milli ára, þrátt fyrir mikinn samdrátt á vinnumarkaðnum heilt yfir og sýnir það þann styrk sem félagið býr yfir og nokkuð stabílt atvinnuástand. Það er alveg ljóst að veiðar á hval höfðu töluverð áhrif, enda höfðu upp undir 100 manns atvinnu af hvalnum og voru meðaltekjur þeirra sem þar störfuðu yfir 500.000 krónur á mánuði.

Rekstrarafgangur var af öllum sjóðum félagsins, en heildarrekstrarafgangur samstæðunnar nam rúmum 95 milljónum króna. Það er gríðarlegur styrkur í því fyrir Verkalýðsfélag Akraness að afkoman skuli vera jafn góð og raun ber vitni enda hefur stjórn félagsins undanfarin ár aukið við hina ýmsu þjónustu til handa félagsmönnum í ljósi góðrar afkomu. Á það jafnt við um sjúkrasjóð félagsins sem og hina ýmsu möguleika í orlofsmálum, nægir þar að nefna Veiðikort, Útilegukort og gistingu á Edduhótelum. Þetta er ekki hægt að gera nema þegar rekstur félagsins er jafn góður og raun ber vitni um.

Það er allt í lagi að rifja það upp að þegar núverandi stjórn tók við í lok árs 2003, þá var félagið rekið á yfirdrætti. Á þessum rúmum 6 árum hefur núverandi stjórn tekist að snúa rekstri félagsins algerlega við, bæði félagslega og fjárhagslega. Á þessum tíma hefur félagsmönnum líka fjölgað umtalsvert eða um 87%. Þetta sýnir að fólk telur hag sínum vel borgið í sterku og öflugu stéttarfélagi.

Aðalfundur félagsins verður haldinn miðvikudaginn 21. apríl kl. 18:00  í Gamla kaupfélaginu, Kirkjubraut 11, Akranesi. Skorar stjórn félagsins á félagsmenn að mæta, en boðið verður upp á kvöldverð að loknum fundi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image