• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Apr

13 tíma samningalotu lauk í gærkvöldi án samnings

Samningafundi sem stóð í nær 13 klukkustundir lauk hjá Ríkissáttasemjara á ellefta tímanum í gærkvöldi án þess að undirritaður væri nýr kjarasamningur við Norðurál.

Því miður náðist ekki að klára nýjan samning í gærkvöldi eins og vonir samninganefndarinnar stóðu til. Það sem út af stendur núna er launaliðurinn, en því miður ber enn töluvert á milli samningsaðila og það er dapurlegt að verða vitni að því að samningsvilji eigenda þessa fyrirtækis virðist því miður vera af skornum skammti.

Það liggur fyrir að launakjör starfsmanna Norðuráls eru mun lakari en hjá starfsbræðrum þeirra bæði hjá Elkem Ísland og Alcan og það er orðið tímabært að eigendur Norðuráls geri sér grein fyrir því að Verkalýðsfélag Akraness og samninganefndin í heild sinni mun ekki sætta sig við slíkan ójöfnuð.

Rétt er þó að geta þess að nokkur mikilvæg réttindamál áunnust í samningalotu gærdagsins, en aðalmálið sem er launaliðurinn virðist ætla að verða afskaplega þungur í skauti fyrir eigendur þessa fyrirtækis.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar á mánudaginn kl. 09:00 og það er öllum ljóst, bæði samninganefnd fyrirtækisins, samninganefnd stéttarfélaganna og Ríkissáttasemjara, að úrslitatilraun um hvort samningsaðilar leysa þessa deilu eður ei mun verða gerð á mánudaginn.

Því miður er formaður samninganefndar ekki bjartsýnn, miðað við viðbrögð eigenda fyrirtækisins í lok fundar í gær. En það er orðið tímabært að þeir menn sem ráða þessu ferli fari að opna augun fyrir því að það eru engar forsendur fyrir því að starfsmenn Norðuráls njóti lakari kjara en starfsmenn annarra sambærilegra verksmiðja.

Það mun aldrei líðast að rekinn verði einhver láglaunastefna í stóriðjum þessa lands. Álverðið í dag er 2.400 dollarar, gengi dollars gagnvart íslensku krónunni er útflutningsfyrirtækjum afar hagkvæmt og rekstur Norðuráls frá upphafi hefur skilað eigendum þessa fyrirtækis tugum milljarða í hagnað. Á þessum forsendum munu stéttarfélögin alls ekki hvika frá sinni sanngjörnu kröfu um jöfnun launa á við önnur stóriðjufyrirtæki.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image