• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

17
Dec

Ágreiningur um kauptryggingu skipverja leystur

Verkalýðsfélag Akraness leysti ágreining við útgerðarfyrirtæki í gær en deilan stóð um hvort skipverjar á uppsjávarskipi ættu rétt á kauptryggingu í 20 daga stoppi. Útgerðin neitaði að greiða áðurnefndum skipverjum tryggingu á umræddu tímabili á þeirri forsendu að skipverjar hefðu ekki skilað vinnu um borð í skipinu.

Útgerðin vísaði málinu til lögmanns Landssambands íslenskra útvegsmanna sem átti að gæta hags útgerðarinnar í þessu máli. Verkalýðsfélag Akraness mótmælti harðlega þessari ákvörðun og færði rök fyrir sínu máli og í kjölfarið á þeirri ábendingu félagsins varð niðurstaðan sú að útgerðin og LÍÚ féllust á að skipverjarnir ættu rétt á kauptryggingunni. Nú hafa skipverjarnir fengið kauptrygginguna greidda og nemur heildarupphæðin tæplega einni og hálfri milljón króna.

15
Dec

Munu fyrirtæki standa við 2,5% hækkun um áramótin?

Eins og flestir muna var gengið frá kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði 17. febrúar 2008. Í þeim samningi var kveðið á um að launahækkanir skyldu verða með eftirfarandi hætti: 1. mars 2009 áttu þeir sem voru að vinna eftir töxtum að hækka um 13.500 kr. og þeir sem voru ekki að vinna eftir taxtakerfi áttu að fá 3,5% launahækkun. 1. janúar 2010 áttu laun síðan að hækka um 2,5%.

Eins og flesta rekur minni til þá gengu samninganefnd ASÍ og Samtök atvinnulífsins frá samkomulagi í tvígang, fyrst 25. febrúar og síðar 25. júní um frestun á þeim launahækkunum sem áttu að taka gildi samkvæmt samningnum 17. febrúar 2008. Fyrst var taxtahækkunum upp á 13.500 kr. frestað til 1. júlí og einnig 3,5% hækkun þeirra sem ekki voru að vinna á launatöxtum. 25. júní var gengið frá öðru samkomulagi og þá var ákveðið að þeir sem væru að vinna eftir töxtum fengju einungis 6.750 kr. launahækkun og aftur 6.750 kr. 1. nóvember síðastliðinn og þeir sem ekki væru að vinna eftir launatöxtum fengju 3,5% 1. nóvember. Hækkunin upp á 2,5% sem ætti að taka gildi núna 1. janúar næstkomandi var frestað til 1. júní 2010.

Þessu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega á sínum tíma, fyrst á formannafundi ASÍ sem haldinn var 16. febrúar og rök Verkalýðsfélags Akraness voru einfaldlega þau að klárlega væru til fyrirtæki sem gætu staðið við þann hófstillta samning sem gerður var 17. febrúar 2008. Nefndi formaður í því samhengi sérstaklega öll fyrirtæki sem að starfa í útflutningi, þar á meðal fiskvinnslufyrirtækin. Einnig nefndi formaður olíufyrirtækin sem hafa viðstöðulaust varpað sínum vanda út í verðlagið. 

Verkalýðsfélag Akraness lá undir hörðum ámælum fyrir að mótmæla því að fresta áður umsömdum launahækkunum. Sú gagnrýni kom bæði frá forystu ASÍ og einnig frá Samtökum Atvinnulífsins og nægir að nefna í því samhengi viðtal við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, sjá hér.

Allir muna eftir arðgreiðslum HB Granda en fyrirtækið skilaði góðri afkomu á árinu 2008 og tilkynnti í framhaldinu að það hyggðist greiða arðgreiðslur til hluthafa. Þessu fagnaði Verkalýðsfélag Akraness á sínum tíma en gerði skýlausa kröfu á hendur fyrirtækinu að það myndi greiða starfsmönnum sínum þær hækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars á þeim forsendum að fyrirtækið var að skila góðri afkomu. Við þessari beiðni varð fyrirtækið og allir starfsmenn HB Granda fengu þær hækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars 2009 og í kjölfarið fylgdi fjöldi annarra fiskvinnslufyrirtækja á eftir þrátt fyrir að samninganefnd ASÍ hafi verið búin að semja þessar launahækkanir frá sér.

Verkalýðsfélag Akraness skoraði einnig í dagblöðum á öll vel stæð fyrirtæki að standa við gerða samninga á sínum tíma. Sjá hér.  

Núna eru fiskvinnslufyrirtækin vítt og breitt um landið að greiða starfsmönnum bónusa vegna góðrar afkomu og á þeirri forsendu verður afar fróðlegt að fylgjast með því hvort fiskvinnslufyrirtæki sem og önnur vel stæð fyrirtæki komi ekki örugglega með þá hækkun sem á að taka gildi 1. janúar 2010 ef farið væri eftir þeim kjarasamningi sem gerður var 17. febrúar 2008. Verkalýðsfélag Akraness ber þá von í brjósti sér að fyrirtæki skýli sér ekki á bak við það ömurlega samkomulag sem samninganefnd ASÍ og SA gengu frá 25. júní síðastliðinn og bíði ekki með hækkanirnar til 1. júní 2010 eins og samkomulagið kveður á um. Formaður spyr sig hví í ósköpunum eigi að gefa vel stæðum fyrirtækjum afslátt á þeim samningi sem gerður var 17. febrúar 2008 enda eru engar forsendur fyrir slíku.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð sagt að það er samninganefnd Alþýðusambands Íslands og verkalýðshreyfingunni í heild sinni til skammar að hafa gefið vel stæðum fyrirtækjum afslátt á þeim kjarasamningi sem gerður var á árinu 2008 en með þeim afslætti hefur verið haft af verkafólki vel á annað hundrað þúsund krónur á umræddu tímabili.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á öll fyrirtæki sem eru starfandi í útflutningi og einnig þau fyrirtæki sem hafa fjárhagslega burði til að koma með þær hækkanir sem eiga að taka gildi 1. janúar 2010 eða sem nemur 2,5% launahækkun. Formaður Verkalýðsfélags Akraness gagnrýndi frestun kjarasamninga harðlega í ræðu sinni á ársfundi Alþýðusambands Íslands og skorar hann á fólk að hlusta á þá ræðu og þau rök sem Verkalýðsfélag Akraness hafði í þessu máli. Ræðurnar þar sem fjallað er um frestun á kjarasamningum eru í fyrsta, öðrum og sjötta hluta.

Hægt er að hlusta á ræðurnar hér.

14
Dec

Fundað með B og C vöktum Norðuráls

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni er búið að fresta viðræðum um nýjan kjarasamning starfsmanna Norðuráls þar til dómur fellur í máli er lítur að stefnu Félags vélstjóra og málmtæknimanna, VM, en þeir gera kröfu um að eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls. Formaður hefur áður gert grein fyrir sinni afstöðu í því máli og hægt er að lesa hér á heimasíðunni hver hún er.  En rétt er að ítreka það að VLFA harmar þessi vinnubrögð forsvarsmanna VM.

Formaður hefur að undanförnu fundað með starfsmönnum Norðuráls og á föstudaginn fundaði hann með dagvinnufólkinu og gerði þeim grein fyrir þeirri stöðu sem upp er komin og hvernig viðræðurnar hafa gengið fyrir sig. Í kvöld mun formaður síðan ljúka við að funda með restinni af starfsmönnum og það eru B og C vaktirnar sem hann mun hitta í kvöld. Það er töluvert mál að ná öllum starfsmönnum saman á svona fjölmennum vinnustað eins og Norðurál er og á þeirri forsendu getur það tekið nokkra daga að hitta alla starfsmennina.

Fundirnir hafa gengið mjög vel þar sem formaður hefur gert grein fyrir stöðu mála bæði hvað varðar þetta alvarlega mál er viðkemur stefnu VM manna og einnig hvernig viðræðurnar hafa gengið fram að þessu. Formaður hefur greint frá því á fundunum að Verkalýðsfélag Akraness muni ekki hvika frá þeirri kröfu í þessum viðræðum að launakjör starfsmanna Norðuráls verði með sambærilegum hætti og gerist í sambærilegum iðnaði. Frá þessari kröfu mun félagið ekki víkja enda eru engar forsendur fyrir slíku nú og hefur rekstur Norðuráls til að mynda gengið mjög vel á undanförnum árum og rétt er að benda á að álverðið í dag eru rúmir 2.200 dollarar pr. tonn.

11
Dec

Svik við lágtekjufólk

Nú hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið í nýjum skattatillögum að standa ekki við það samkomulag (sjá hér) sem gert var við verkalýðshreyfinguna árið 2006 um að persónuafslátturinn skyldi verða verðtryggður. Stefán Ólafsson, prófessor, hefur ef að formaður félagsins man rétt, margoft bent á það að eitt mikilvægasta réttindamál lágtekjufólks sé að persónuafslátturinn sé verðtryggður.

Það er í raun og veru með ólíkindum að ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, jöfnuð og velferð skuli taka ákvörðun um að hverfa frá þessu samkomulagi sem fyrri ríkisstjórn gerði um verðtryggingu persónuafsláttar. Þetta hefur verið eitt aðalbaráttumál verkalýðshreyfingarinnar í fjöldamörg ár að tryggja að persónuafslátturinn sé verðtryggður.

Persónuafslátturinn er í dag 42.205 kr. Samkvæmt samkomulagi sem gert var við ríkisstjórn Íslands 17. febrúar 2008 (sjá hér) þá ætti persónuafslátturinn að hækka úr 42.205 kr. upp í 47.581 kr. sé gert ráð fyrir því að verðbólgan síðustu 12 mánuði hafi verið í kringum 8%. Hins vegar hefur ríkisstjórnin tilkynnt að persónuafslátturinn muni hækka um 2000 kr. eða upp í 44.205 kr. Á árinu 2011 átti síðan að koma þriggja þúsund króna hækkun á persónuafsláttinn og einnig breytingar á hækkun á vísitölunni á árinu 2010.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að hér sé ríkisstjórn Íslands að svíkja íslenskt verkafólk illilega enda mun afnám verðtryggingar á persónuafslætti koma illa niður á lágtekjuhópunum eins og Stefán Ólafsson hefur margoft bent á. Eins og skattatillögurnar eru núna uppsettar þá bendir margt til þess að skattar muni hækka á öll heimili þessa lands og það einnig á þá tekjulægstu. 

10
Dec

Kjaraviðræðum Norðuráls frestað

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fundaði með starfsmönnum C og D vaktar Norðuráls í gærkvöldi vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem komin er upp vegna kjarasamningsgerðar við Norðurál. Samningsaðilar hafa fundað 7 sinnum á undanförnum mánuði og hafa viðræðurnar sem slíkar gengið ágætlega.

En á samningafundi í gærmorgun í húsakynnum ríkissáttasemjara ákváðu fulltrúar stéttarfélaganna og forsvarsmenn Norðuráls að fresta kjaraviðræðum vegna þeirrar grafalvarlegu stöðu sem upp er komin vegna stefnu Félags vélstjóra og málmtæknimanna á hendur Norðuráli. Stefnan gengur út á það að VM gerir kröfu um að eiga aðild að þeim kjarasamningi sem gildir fyrir starfsmenn Norðuráls. Sjá yfirlýsingu stéttarfélaganna og forsvarsmanna Norðuráls hér.

Í dag eiga aðild að þessum sérkjarasamningi Verkalýðsfélag Akraness, Stéttarfélag Vesturlands, Félag iðn- og tæknigreina, VR og Rafiðnaðarsambandið. Þannig hefur það verið alveg frá stofnun fyrirtækisins 1998 en núna ber svo við að eitt stéttarfélag krefst aðkomu að kjarasamningnum í óþökk flestra stéttarfélaganna sem eiga aðild að þessum samningi.

Það hefur ríkt sátt innan verkalýðshreyfingarinnar um félagssvæði og sérkjarasamninga sem stéttarfélögin hafa gert og hafa stéttarfélögin ekki verið að slást um félagsmenn en með þessari stefnu VM er brotið blað hvað það varðar. Ljóst er að nái krafa VM fram að ganga fyrir félagsdómi sé búið að hrófla við grunnforsendum gildandi kjarasamnings, svo sem varðandi forgangsrétt til vinnu þeirra félagsmanna stéttarfélaganna sem eiga aðild að samningnum.

Formaður félagsins gagnrýnir þessi vinnubrögð forystu VM harðlega í ljósi þess að verið sé að rjúfa þá sátt sem ríkt hefur innan verkalýðshreyfingarinnar um félagssvæðin og aðild stéttarfélaga að kjarasamningum og einnig er þetta að skapa starfsmönnum umtalsverð vandræði í ljósi þess að samningsgerðin mun dragast um einn til tvo mánuði í það minnsta.

Það er alveg nóg í huga formanns Verkalýðsfélags Akraness að þurfa að slást af alefli við forsvarsmenn Norðuráls fyrir bættum kjörum starfsmanna Norðuráls svo stéttarfélögin séu ekki að berjast innbyrðis því slíkt er klárlega ekki til hagsbóta fyrir okkar félagsmenn.  Þessi stefna VM manna á hendur Norðuráli er að ógna þeim vinnustaða samningi sem áðurnefnd stéttarfélög hafa staðið sameiginlega að. Þessi vinnubrögð af hálfu VM manna getur einnig orðið verkalýðshreyfingunni í heild sinni til mikils skaða.

Aðalmeðferð málsins verður hjá félagsdómi þann 11. janúar næstkomandi og er dóms að vænta einhverjum dögum eða vikum eftir þann tíma.

09
Dec

Vinnumálastofnun vantar aukinn mannskap

Í gær var formaður félagsins í viðtali í þættinum Reykjavík síðdegis þar sem fjallað var um hversu langan tíma það getur tekið að afgreiða umsóknir þeirra sem atvinnulausir eru orðnir. Þess eru dæmi að það geti tekið allt að 4-6 vikur fyrir einstaklinga sem misst hafa atvinnu að fá greiðslu úr atvinnuleysistryggingasjóði.

Það er með öllu óásættanlegt að þetta skuli taka svona langan tíma en ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst vegna undirmönnunar hjá Vinnumálastofnun vítt og breitt um landið. Sem dæmi eru í dag á Vinnumálastofnun hér á Akranesi starfandi jafnmargir starfsmenn og fyrir 3 árum síðan þegar það voru rúmlega 80 manns á atvinnuleysisskrá en í dag eru tæplega 600 manns skráðir atvinnulausir. Á þessu sést að álagið sem er á starfsfólki Vinnumálastofnunnar er gríðarlegt og það er skylda ríkisstjórnar Íslands að skapa Vinnumálastofnun það rekstrarumhverfi sem til þarf.

Það er einnig óþolandi og ólíðandi að fólk sem að missir atvinnu sína skuli þurfa að bíða jafnlengi eftir sínum rétti hjá atvinnuleysistryggingasjóði eins og raun ber vitni. Því er krafan sú að starfsfólki Vinnumálastofnunnar verði fjölgað án tafar þannig að atvinnuleitendur þurfi ekki að lenda í því að bíða eftir sínum greiðslum lengur en þörf er á.

Formanni er fullkunnugt um að starfsfólkið hér á Vinnumálastofnun á Akranesi er að sinna sínu starfi af eins mikilli kostgæfni og mögulegt er en sökum undirmönnunar komast þau ekki yfir þau verkefni sem fyrir þeim liggja sökum mikils álags.

08
Dec

Fundað hjá ríkissáttasemjara á morgun

Á morgun verður haldinn sjöundi fundur vegna endurnýjunar kjarasamnings starfsmanna Norðuráls og verður fundurinn haldinn eins og áður í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni gerir viðræðuáætlun samningsaðila ráð fyrir því að búið verði að ganga frá nýjum kjarasamningi 15. desember og er morgunljóst að það mun ekki takast. Formaður ber verulegan kvíðboga fyrir því að þessar viðræður geti dregist framyfir áramót en ef að það gerist þarf að sjálfsögðu að tryggja það að þær launahækkanir sem taka eiga gildi 1. mars gildi frá þeim tíma þó svo að samningurinn dragist eitthvað framyfir áramót.

Verkalýðsfélag Akraness vill undirstrika enn og aftur hvert markmið félagsins er í þessum viðræðum en það er að jafna launakjörin við stóriðjur í sambærilegum iðnaði.

07
Dec

Verkalýðsfélag Akraness styrkir góðgerðasamtök

Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði í sérstakan styrktarsjóð Verkalýðsfélags Akraness sem nota á til að styrkja góðgerðarmál á félagssvæði VLFA.

Á grundvelli þessa samnings við Landsbankann ákvað stjórn félagsins á fundi að styrkja Mæðrastyrksnefnd Akraness um 150.000 kr.  Einnig ákvað stjórn félagsins að styrkja styrktarsjóð Akraneskirkju um 150.000 kr. og mun séra Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur okkar skagamanna sjá um að útdeila þeim fjármunum til fjölskyldna sem eiga í fjárhagsvandræðum

Stjórn félagsins er afar ánægð með að geta komið þessum góðgerðarsamtökum til hjálpar með þessu framlagi. 

Það er alveg ljóst að gríðarlegur fjöldi fólks eiga um sárt að binda fjárhagslega um þessar  mundir sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.  Á þeirri forsendu er jákvætt að geta aðstoðað einhverja sem eiga í tímabundnum erfiðleikum fjárhagslega við að halda gleðilega jólahátíð.

04
Dec

Fundað hjá ríkissáttasemjara

Samninganefndir stéttarfélaganna áttu í morgun fund með forsvarsmönnum Norðuráls í húsakynnum ríkissáttasemjara. Fundurinn stóð stutt yfir þar sem samningsaðilar voru sammála um að lausn þyrfti að finnast á ágreiningi sem uppi er í einu máli og var því fundi frestað fram á miðvikudag í næstu viku.

Það er ljóst eins og staðan er í dag að ekki eru miklar líkur á að náist að vinna eftir þeirri viðræðuáætlun sem gerð var en í henni var kveðið á um að aðilar stefndu að því að nýr samningur yrði klár til undirritunar 15. desember. Formaður félagsins er því miður svartsýnn á að komin verði nýr samningur fyrir áramót en að sjálfsögðu munu samningsaðilar leita allra leiða til að svo geti orðið.  

03
Dec

Fundað á morgun um kjarasamning Norðuráls

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni er kjarasamningur starfsmanna Norðuráls laus nú um áramótin og hefur samninganefnd trúnaðarmanna og stéttarfélaganna átt nokkra fundi með forsvarsmönnum Norðuráls. Eins og einnig hefur komið fram á síðunni hefur sú vinna aðallega snúist um breytingar á textavinnu í kjarasamningnum.

Næsti fundur verður á morgun í húsakynnum ríkissáttasemjara og verður haldið áfram að vinna í textavinnunni en henni miðar sæmilega áfram þó svo að nokkur ágreiningsatriði séu að tefja fyrir. Samkvæmt viðræðuáætlun á milli samningsaðila var stefnt að því að kjarasamningsgerðinni yrði lokið 15. desember en eins og staðan er í dag verður að teljast afar ólíklegt að búið verði að undirbúa nýjan kjarasamning fyrir þann tíma.

Reyndar telur formaður félagsins að framundan séu nokkuð erfiðar viðræður en ber þá von í brjósti sér að samningsaðilar nái saman fyrir áramót þótt eins og áður hefur komið fram séu ekki miklar líkur á því eins og staðan er í dag. Markmið Verkalýðsfélags Akraness í þessum viðræðum er alveg hvellskýrt, það er að kjör starfsmanna Norðuráls verði með sambærilegum hætti og gerist í öðrum sambærilegum iðnfyrirtækjum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image