• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

08
Dec

Fundað hjá ríkissáttasemjara á morgun

Á morgun verður haldinn sjöundi fundur vegna endurnýjunar kjarasamnings starfsmanna Norðuráls og verður fundurinn haldinn eins og áður í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni gerir viðræðuáætlun samningsaðila ráð fyrir því að búið verði að ganga frá nýjum kjarasamningi 15. desember og er morgunljóst að það mun ekki takast. Formaður ber verulegan kvíðboga fyrir því að þessar viðræður geti dregist framyfir áramót en ef að það gerist þarf að sjálfsögðu að tryggja það að þær launahækkanir sem taka eiga gildi 1. mars gildi frá þeim tíma þó svo að samningurinn dragist eitthvað framyfir áramót.

Verkalýðsfélag Akraness vill undirstrika enn og aftur hvert markmið félagsins er í þessum viðræðum en það er að jafna launakjörin við stóriðjur í sambærilegum iðnaði.

07
Dec

Verkalýðsfélag Akraness styrkir góðgerðasamtök

Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði í sérstakan styrktarsjóð Verkalýðsfélags Akraness sem nota á til að styrkja góðgerðarmál á félagssvæði VLFA.

Á grundvelli þessa samnings við Landsbankann ákvað stjórn félagsins á fundi að styrkja Mæðrastyrksnefnd Akraness um 150.000 kr.  Einnig ákvað stjórn félagsins að styrkja styrktarsjóð Akraneskirkju um 150.000 kr. og mun séra Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur okkar skagamanna sjá um að útdeila þeim fjármunum til fjölskyldna sem eiga í fjárhagsvandræðum

Stjórn félagsins er afar ánægð með að geta komið þessum góðgerðarsamtökum til hjálpar með þessu framlagi. 

Það er alveg ljóst að gríðarlegur fjöldi fólks eiga um sárt að binda fjárhagslega um þessar  mundir sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.  Á þeirri forsendu er jákvætt að geta aðstoðað einhverja sem eiga í tímabundnum erfiðleikum fjárhagslega við að halda gleðilega jólahátíð.

04
Dec

Fundað hjá ríkissáttasemjara

Samninganefndir stéttarfélaganna áttu í morgun fund með forsvarsmönnum Norðuráls í húsakynnum ríkissáttasemjara. Fundurinn stóð stutt yfir þar sem samningsaðilar voru sammála um að lausn þyrfti að finnast á ágreiningi sem uppi er í einu máli og var því fundi frestað fram á miðvikudag í næstu viku.

Það er ljóst eins og staðan er í dag að ekki eru miklar líkur á að náist að vinna eftir þeirri viðræðuáætlun sem gerð var en í henni var kveðið á um að aðilar stefndu að því að nýr samningur yrði klár til undirritunar 15. desember. Formaður félagsins er því miður svartsýnn á að komin verði nýr samningur fyrir áramót en að sjálfsögðu munu samningsaðilar leita allra leiða til að svo geti orðið.  

03
Dec

Fundað á morgun um kjarasamning Norðuráls

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni er kjarasamningur starfsmanna Norðuráls laus nú um áramótin og hefur samninganefnd trúnaðarmanna og stéttarfélaganna átt nokkra fundi með forsvarsmönnum Norðuráls. Eins og einnig hefur komið fram á síðunni hefur sú vinna aðallega snúist um breytingar á textavinnu í kjarasamningnum.

Næsti fundur verður á morgun í húsakynnum ríkissáttasemjara og verður haldið áfram að vinna í textavinnunni en henni miðar sæmilega áfram þó svo að nokkur ágreiningsatriði séu að tefja fyrir. Samkvæmt viðræðuáætlun á milli samningsaðila var stefnt að því að kjarasamningsgerðinni yrði lokið 15. desember en eins og staðan er í dag verður að teljast afar ólíklegt að búið verði að undirbúa nýjan kjarasamning fyrir þann tíma.

Reyndar telur formaður félagsins að framundan séu nokkuð erfiðar viðræður en ber þá von í brjósti sér að samningsaðilar nái saman fyrir áramót þótt eins og áður hefur komið fram séu ekki miklar líkur á því eins og staðan er í dag. Markmið Verkalýðsfélags Akraness í þessum viðræðum er alveg hvellskýrt, það er að kjör starfsmanna Norðuráls verði með sambærilegum hætti og gerist í öðrum sambærilegum iðnfyrirtækjum.

01
Dec

Nýtt hvalaskoðunarskip

Andrea, farþegaskip í eigu Gunnars Leifs Stefánssonar og Hilmars bróður hans, kom til heimahafnar á Akranesi í fyrsta sinn á sunnudaginn. Andrea var keypt frá Svíþjóð og sigldi fjögurra manna áhöfn henni til Akraness. Skipið mælist tæp tvö hundruð brúttótonn, er 34 metra langt og 9 metra breitt. Það er skráð fyrir 240 farþega. Gunnar Leifur segir að það verði aðallega gert út til hvalaskoðunarferða frá Reykjavík en auk þess í skemmti- og útsýnisferðir fyrir hópa og á sjóstangveiði. “Það eru tveir veitingasalir um borð í skipinu og sætapláss fyrir leyfilegan farþegafjölda. Við höfum pláss fyrir 25 sjóstangir um borð og aðstaðan er öll hin glæsilegasta,” segir Gunnar.

Nú er verið að gera hina nýju Andreu klára til útgerðar við bryggju á Akranesi. Meðal annars þurfti að rífa frá stálhlera sem settir voru til að loka opnum plássum á skipinu fyrir siglinguna yfir hafið. Gunnar Leifur segist reikna með að útgerð nýja skipsins hefjist í janúar eða febrúar. “Við eigum tvo minni báta fyrir og það er mjög gott útlit framundan og búið að bóka fjölda ferða,” segir Gunnar Leifur. Fjögurra manna áhöfn sigldi Andreu heim frá Svíþjóð. Skipstjórar voru þeir Jónas Hrólfsson og Guðmundur Hafsteinsson en vélstjórar þeir Gunnar Leifur Stefánsson og Karl Hreggviðsson.

Heimild Skessuhorn

30
Nov

Endurbætur á orlofshúsi félagsins í Húsafelli

Undanfarna daga hafa iðnaðarmenn verið að störfum í sumarbústað félagsins í Húsafelli. Unnið hefur verið að því að skipta um eldhúsinnréttingu og endurnýja tæki auk ýmiss viðhalds. Endurbættur bústaður verður klár til útleigu í lok vikunnar.

Það er Trésmiðjan Akur sem tók að sér verkið, en þar er um að ræða rótgróið fyrirtæki hér á Akranesi þar sem starfa á þriðja tug félagsmanna VLFA.

Viðhald orlofshúsa er eitt af hlutverkum Orlofssjóðs Verkalýðsfélags Akraness sem á og rekur fjóra sumarbústaði svo og þrjár íbúðir á Akureyri.

27
Nov

Árás á sjómenn

Þær voru ekki glæsilegar fréttirnar sem sjómönnum bárust í dag því samkvæmt nýju skattafrumvarpi fjármálaráðherra verður sjómannaafslátturinn lagður af í þrepum á næstu fjórum árum.

Tugir sjómanna eru í sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness og á þeirri forsendu mótmælir Verkalýðsfélag Akraness þessari aðför ríkisstjórnarinnar að einni mikilvægustu stétt okkar landsmanna sem eru jú sjómenn þessa lands. En það verða einmitt þeir sem munu koma til með að leggja hvað mest af mörkum við að vinna íslenskt efnahagslíf úr þeim hremmingum sem það er nú í.

Sjómannaafslátturinn á sér áratuga langa sögu og er klárlega hluti af launakjörum sjómanna og það má ekki gleyma því að sjómenn vinna við afar erfiðar aðstæður á degi hverjum og eru fjarri sínum fjölskyldum svo vikum skiptir í mörgum tilfellum. Það er líka rétt að minna á að almennir launþegar njóta dagpeninga ef þeir þurfa að vera fjarri sínum heimilum um lengri eða skemmri tíma. Og að sjálfsögðu á slíkt að gilda um sjómenn einnig.

Sjómenn hafa þurft að taka á sig umtalsverða kjaraskerðingu á undanförnum árum sökum samdráttar í aflaheimildum þó vissulega sé gengisfall krónunnar að hjálpa þeim þessa stundina. Það er einnig rétt að minna fólk á að sjómenn þurfa að taka þátt í svokölluðu olíugjaldi og eru þeir ein af fáum stéttum þessa lands sem þurfa að borga sérstaklega fyrir að stunda sína vinnu. Það mætti líkja þessu við að strætóbílstjórar þyrftu að borga sérstakt olíugjald fyrir að aka strætó eða þá að starfsmenn í stóriðjum þyrftu að greiða með stóriðjufyrirtækjunum í raforkugjaldi. Með öðrum orðum þá er ekki allt sem sýnist varðandi launakjör sjómanna.

Það kom í fréttum í dag að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segi að sjómannsstarfið hafi breyst mikið á undanförnum árum. Vissulega er það rétt að starfið hefur breyst mikið og öryggi sjómanna hefur stóraukist á liðnum árum en Steingrímur hefði gott af því að fara og kynna sér störf sjómanna og þau vinnuskilyrði sem þeir þurfa oft á tíðum að vinna við í aftakaveðrum. Honum myndi þá væntanlega snúast hugur um afnám sjómannaafsláttar þegar hann sæi við hvaða aðstæður sjómenn þurfa oft að glíma við.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á ríkisstjórn Íslands að hlífa sjómönnum og hverfa frá þessum áformum án tafar því án íslenskra sjómanna er íslenskt þjóðfélag afskaplega illa statt.

Það er spurning hvort sjómenn íhugi ekki alvarlega að grípa til róttækra aðgerða vegna þessara aðgerða ríkisstjórnar og það ríkisstjórnar sem vill kenna sig við félagshyggju og jafnaðarstjórn.

26
Nov

Græðgi og siðleysi

Í fréttum í gær kom fram að Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis, teldi að bankarnir væru ekki að fara að lögum og reglum hvað varðar afskriftir hjá fyrirtækjum. Ef þetta er rétt er þetta grafalvarlegt mál en það sem er enn alvarlegra er það að það er verið að afskrifa skuldir hjá fyrirtækjum og eignarhaldsfélögum svo milljörðum ef ekki tugum skiptir á meðan alþýða landsins er þvinguð til að greiða allar sínar skuldir upp í topp og helst meira til.

Nægir að nefna í því samhengi viðtal sem var við ung hjón á Bylgjunni í gær en á heimasíðu Bylgjunnar segir um efni viðtalsins: 

Samviskusamt, venjulegt fólk sem vildi gera allt til að greiða svimandi hækkandi skuldir sínar, þrátt fyrir að hafa ekki átt raunverulegan þátt í hækkun þeirra eftir hrun. Nýi Kaupþing banki (Arion banki) sýndi engan samstarfsvilja og kreisti allar eigur þeirra út úr þeim. Í dag standa þau eftir með engar eigur og að auki 16 milljón króna skuldabréf sem bankinn neyddi þau til að skrifa upp á. Hann íhugaði sjálfsmorðHlusta hér

Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á bankana afskrifa skuldir fyrirtækja og það jafnvel án þess að fara eftir lögum og reglum eins og formaður viðskiptanefndar Alþingis hefur haldið fram. Hvernig má það vera að ekki sé hægt að koma skuldsettum heimilum til hjálpar á sama tíma og slíkar afskriftir eiga sér stað?

Rétt er að rifja upp hver úrræði Ríkisstjórnarinnar eru gagnvart gengistryggðum bílalánum en þar stendur skuldaranum til boða að færa gengisvísitöluna aftur til 1. maí 2008 sem léttir á greiðslubyrðinni. Til boða stendur að lengja lánið um 3 ár og ef skuldin er ekki að fullu greidd þá á skuldarinn valmöguleika sem er fólginn í því að skila bifreiðinni og fá restina niðurfellda. Með öðrum orðum: Lánveitandinn fær allt sitt til baka og vel það. Þetta er svona í hnotskurn það sem er verið að bjóða almenningi upp á á meðan allt önnur lögmál gilda um skuldir fyrirtækja.

Hver skyldi hafa verið einn af þeim mönnum sem unnu að tillögum í félagsmálaráðuneytinu til hjálpar skuldsettum heimilum? Jú, það var Yngvi Örn Kristinsson, fyrrum forstöðumaður hagfræðisviðs Landsbanka Íslands, en hann hefur sett fram 229 milljóna kröfu í þrotabú Landsbankans.  Yngvi hefur látið hafa eftir sér að ekki sé grundvöllur til almennra leiðréttingar á skuldum heimilanna.  Þessi sami einstaklingur fer fram á 230 milljónir úr þrotabúi Landsbankans og þegar málið varð opinbert átti að reyna að klóra í bakkann með því að gefa út yfirlýsingu sem byggðist á því að ef krafan yrði viðurkennd myndi hún renna til góðgerðarmála.

Yngvi Örn var ráðinn af Árna Páli Árnasyni til ráðgjafarstarfa í félagsmálaráðuneytinu og verður sú ráðning að teljast stórundarleg í ljósi fyrri starfa viðkomandi einstaklings. Græðgin og siðleysið virðist einfaldlega engan enda ætla að taka og á sama tíma verður alþýða þessa lands að blæða illilega fyrir þá græðgi og siðleysi sem ríkt hefur í þessu samfélagi á liðnum árum og áratugum.  

25
Nov

Bónuskerfið hjá Elkem Ísland að svínvirka

Verkalýðsfélag Akraness gekk frá kjarasamningi fyrir starfsmenn Elkem Ísland í desember á síðasta ári og var sá samningur mjög hagstæður fyrir starfsmenn fyrirtækisins enda hækkuðu laun þeirra umtalsvert.

Eitt af þeim atriðum sem tekið var á í þessum nýja samningi var bónuskerfi starfsmanna en gamla bónuskerfið hafði því miður ekki virkað sem skyldi og á þeirri forsendu ákváðu samningsaðilar að taka inn ný viðmið í nýju bónuskerfi.

Nú hefur komið í ljós að þetta nýja bónuskerfi er að svínvirka. Í upphafi gerðu menn ráð fyrir að bónus starfsmanna myndi að meðaltali gefa í kringum 7% en nú hefur komið í ljós að á síðustu þremur mánuðum hefur bónusinn verið að meðaltali 8,5% sem er mjög jákvætt.

Það er meira jákvætt að frétta af Elkem Ísland en á síðasta ári gekk rekstur fyrirtækisins mjög vel en hagnaður þess nam rúmum 1,1 milljarði króna sem er um 8% af heildarveltu fyrirtækisins en heildarveltan var rúmir 13 milljarðar króna.

Það er morgunljóst að það skiptir gríðarlega miklu máli hversu vel stóriðjunni á Grundartanga gengur enda byggjum við Skagamenn okkar afkomu að þónokkuð stórum hluta á rekstri þessara fyrirtækja.

En eins og áður hefur komið fram á heimasíðunni skilaði Norðurál rúmum 16 milljörðum í hagnað á síðasta ári og Elkem skilaði 1,1 milljarði í hagnað eins og fram kom hér að ofan. Þetta sýnir að okkar styrkustu stoðir sem eru stóriðjan, virðast standa á sterkum grunni um þessar mundir öllu samfélaginu til heilla.

24
Nov

Sátt hefur náðst við Akraneskaupstað

Formaður félagsins ásamt Magnúsi Norðdahl, lögmanni ASÍ, funduðu í morgun með lögmanni Sambands íslenskra sveitarfélaga og Jóni Pálma Pálmasyni bæjarritara Akraneskaupstaðar.

Tilefni fundarins var það að bæjaryfirvöld á Akranesi höfðu í sparnaðarskyni stytt opnunartíma íþróttamannvirkja Akraneskaupstaðar umtalsvert með töluverðri tekjuskerðingu fyrir starfsmenn. Í framhaldi af þessari styttingu tóku yfirvöld ákvörðun um að heimila íþróttaiðkun í íþróttahúsinu á Vestugötu tvisvar sinnum í viku klukkutíma í senn án þess að starfsmenn bæjarins væru til staðar.

Bæjaryfirvöld ætluðu sér með öðrum orðum að láta sjálfboðaliða ganga í störf starfsmanna íþróttamannvirkja, störf sem þeir hafa sinnt undanfarin ár og áratugi.  Þessu mótmælti Verkalýðsfélag Akraness harðlega í bréfi til bæjaryfirvalda (sjá hér).

Niðurstaða fundarins var afar jákvæð, en bæjaryfirvöld hafa ákveðið að frá og með miðjum desember verði horfið frá þessari opnun þar sem starfsmenn bæjarins eru ekki til staðar. Hér var um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar. Það var ekki hægt að láta það átölulaust að sjálfboðaliðar gengju í störf starfsmanna enda hefði málið klárlega getað orðið fordæmisgefandi. Því ákvað Verkalýðsfélag Akraness að fara í málið af fullri hörku með hagsmuni félagsmanna sinna að leiðarljósi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image