• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Feb

Greiðsluþol almennings algjörlega sprungið

Það er óhætt að segja að greiðsluþol almennings sé löngu sprungið. Í gær hækkuðu olíufélögin bensín allverulega og er líterinn nú kominn yfir 200 krónur og hefur á einu ári hækkað um 60 krónur sem þýðir aukningu á meðalbíl um 120 þúsund krónur á ári.

Þessu til viðbótar hefur matvara hækkað gríðarlega á undanförnum tveimur árum eða sem nemur 38% frá ársbyrjun 2008. Það þýðir að 4 manna fjölskylda sem verslaði matvöru fyrir 100 þúsund krónur á mánuði í ársbyrjun 2008 þarf nú að greiða 138 þúsund krónur fyrir sömu matarkörfuna í dag. Þetta þýðir greiðsluaukningu fyrir 4 manna fjölskyldu á ársgrundvelli upp á 456 þúsund krónur og er þetta eingöngu það sem lýtur að matarinnkaupum.

Og það er ekki bara að bensín og matur hafi verið að hækka stórlega heldur hafa sveitarfélög verið að hækka sínar gjaldskrár töluvert að undanförnu og ríkið hefur aukið skattbyrði bæði í beinum og óbeinum sköttum umtalsvert. Og þessu til viðbótar hefur greiðslubyrði almennings vegna íbúða- og bílakaupa nánast stökkbreyst vegna gengishruns krónunnar og þess mikla verðbólguskots sem varð á síðasta ári. Í sumum tilfellum hafa gengistryggð íbúða- og bílalán hækkað yfir 100%.

Á sama tíma og þessar gríðarlegu hækkanir dynja á landsmönnum hafa laun lækkað töluvert og nægir að nefna í því samhengi þegar samninganefnd ASÍ gekk frá frestun á umsömdum launahækkunum á hinum almenna vinnumarkaði en með þeirri frestun voru hafðar af launafólki vel á annað hundrað þúsund krónur. Þessu hefur Verkalýðsfélag Akraness mótmælt frá upphafi enda gengur ekki upp að gera stöðugleikasáttmála sem einungis er fólginn í því að þvinga launafólk til að fresta og afsala sér sínum launum á meðan ríki, sveitarfélög, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar varpa sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið. Þetta getur vart talist stöðugleiki þegar öllum vandanum er varpað yfir á almenning.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að greiðsluþol almennings í þessu landi sé algjörlega búið og nú verði íslensk stjórnvöld, bankakerfið, verslunareigendur, sveitarfélög og aðrir þjónustuaðilar að axla sína ábyrgð.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image