• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

05
Oct

Þingmenn og ráðherra boðaðir til fundar á Akranesi

Á að leggja styrkustu stoðir atvinnulífs Akurnesinga í rúst?Á að leggja styrkustu stoðir atvinnulífs Akurnesinga í rúst?Eins og fjallað hefur verið um hér á síðunni þá gert ráð fyrir nýjum skattalið í fjárlagafrumvarpinu sem ber beitið Orku-, umhverfis- og auðlindagjöld en áætlað er að þau komi til með að skila inn 16 milljörðum kr. á næsta ári.

Ef þessar hugmyndir ná fram að ganga þá myndi það þýða að Norðurál yrði gert að greiða um 6 milljarða króna í þennan nýja skatt, Elkem Ísland um 2 milljarða og Sementsverksmiðjan rúmar 203 milljónir.

Það er algjörlega ljóst að ef þessi nýi skattur verður að veruleika þá mun það stefna störfum í þessum fyrirtækjum í stórhættu. Sem dæmi þá hefur t.a.m. Elkem Ísland aldrei nokkurn tímann skilað 2 millljörðum í hagnað. Einnig má nefna að Sementsverksmiðjan berst fyrir lífi sínu þessi misserin. Á þessu sést hvers lags firring það er að ætla sér að fara að skattleggja þessi fyrirtæki sem í raun og veru eru að halda uppi atvinnustarfseminni á Akranesi og í nærsveitum.

Verkalýðsfélag Akraness og bæjaryfirvöld hafa boðað til fundar á föstudaginn kemur í bæjarþingsalnum þar sem Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls, Einar Þorsteinsson forstjóri Elkem Ísland og Gunnar Sigurðsson forstjóri Sementsverksmiðjunnar munu mæta. Einnig verður öllum þingmönnum Norðvesturlandskjördæmis boðið ásamt iðnaðarráðherra.

Hér er um grafalvarlegt mál að ræða þar sem atvinnuöryggi um 1.000 starfsmanna er í húfi, á þeirri forsendu er gríðarlega mikilvægt að gera þingmönnum og ráðherra grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem upp getur komið ef þessar hugmyndir verða að veruleika.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að hægt sé að fá auknar skatttekjur með því að hækka laun starfsmanna, en við hækkun launa starfsmanna þá fá ríki og sveitarfélög samtals rúm 37% til sín. Það má ekki gleyma því að stóriðjufyrirtækin eru með samninga við ríkið um kaup á raforku mörg ár fram í tímann og það gengur ekki upp að ætla sér að koma með auknar skattgreiðslur á þessi fyrirtæki þegar gengið hefur verið frá samningum fram í tímann. Slíkt gerir ekki annað en að fæla alla erlenda fjárfesta frá landinu.

Það eru lausir samningar hjá starfsmönnum Norðuráls nú um áramótin og með þessum tillögum er verið að setja þá kjarasamningsgerð í fullkomna upplausn.

02
Oct

Ríkisstjórnin ógnar framtíð starfa í stjóriðju

Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í gær er gert ráð fyrir að skattar sem lagðir verða á einstaklinga á næsta ári hækki um 36,8 milljarða kr. Skattar á vörur og þjónustu eiga að hækka um tæplega 31 milljarð kr. Þar af hækkar virðisaukaskattur um tæpa 10 milljarða kr. Það er alveg ljóst að heimili þessa lands munu á engan hátt þola þá auknu skattbyrði sem fyrirhuguð er á næsta ári og ljóst að ef ekki verður breyting á mun heimilum þessa lands blæða endanlega út.

Það er með ólíkindum að ekki skuli skoðuð gaumgæfilega sú hugmynd að skattleggja lífeyrissjóðsiðgjöld jafnóðum og þau eru greidd inn í sjóðina, og hætta þar af leiðandi núverandi kerfi sem byggist á því að sjóðsfélagar greiða skatt þegar kemur að lífeyristöku. Ef slíkt yrði gert yrði klárlega hægt að komast hjá þeim miklu skattahækkunum sem þegar hafa verið boðaðar.

Í gær birtist afar athyglisverð grein í Morgunblaðinu eftir tryggingastærðfræðingana Benedikt Jóhannesson og Bjarna Guðmundsson þar sem þeir segja að með því að skattleggja lífeyrisgreiðslur strax geti ríkið náð allt að 30-35 milljörðum króna í ríkissjóð á ári. Þeir tala einnig um að hugsanlega sé þetta ein besta leiðin til að leysa hina brýnu þörf á skatttekjum án þess að valda heimilum búsefjum með hækkunum á álögum.

Nýr liður í skattahlið fjárlaga hefur verið kynntur og ber beitið Orku-, umhverfis- og auðlindagjöld en þeim er ætlað að skila inn 16 milljörðum kr. á næsta ári. Ef þessi skattur verður að veruleika er ljóst að starfsöryggi starfsmanna stóriðjufyrirtækjanna Norðurál, Elkem Ísland og Sementsverksmiðjunnar verður stefnt í stórhættu.

Viðtal var við formann félagsins á vef Skessuhorns í dag og birtist það í heild sinni hér að neðan:

 

“Þær tillögur sem nú liggja fyrir varðandi orku- og kolefnisskatta á stóriðjufyrirtæki gerir það að verkum að það er verið að leggja störf þeirra sem starfa við stóriðju hér á landi í stórhættu,” segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness í samtali við Skessuhorn. Eins og kunnugt er kynnti fjármálaráðherra í gær fjárlagafrumvarp næsta árs og er þar gert ráð fyrir verulegum skattaálögum á stóriðjuna sem ekki hefur verið til staðar hingað til. “Á okkar starfssvæði er þetta einkum Grundartangasvæðið þar sem þúsund störf eru nú sett í fullkomna hættu. Stóriðjan þar beinlínis heldur lífinu í samfélaginu á Akranesi og nágrannabyggðum. Ef þessar hugmyndir ná fram að ganga gæti þessi skattur á Norðurál á Grundartanga numið á sjötta milljarði króna, hjá Elkem Ísland vel á annan milljarð og á Sementsverksmiðjuna einhver hundruð milljóna. Það er morgunljóst að Sementsverksmiðjan og Elkem Ísland hafa enga burði til að taka slíka skattlagningu á sig og því er eins og ég sagði verið að ógna framtíð þessara fyrirtækja og störfum fólksins.”

Vilhjálmur segir að þessu til viðbótar séu kjarasamningur starfsmanna Norðuráls lausir um næstu áramót. “Ef þessi áform ríkisstjórnarinnar lenda á fyrirtækinu er verið að setja kjarasamningsgerðina í algjört uppnám.  Okkar tillaga er sú að það eigi að ná inn sköttum úr stóriðju í gegnum tekjuskatta starfsmanna. Þar fá ríkið og sveitarfélög 37% af laununum og ætti að sjá hag sinn í að svo verði áfram í stað þess að ógna tilveru fyrirtækjanna. Það er með ólíkindum að horfa upp á vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar þar sem er verið að ógna starfsöryggi allra sem starfa í stóriðju. Ég vil því skora á ríkisvaldið að endurskoða þessar tillögur strax.”

Vilhjálmur vill benda ríkisstjórn á skoða gaumgæfilega að skattleggja lífeyrisgreiðslur jafnóðum. “Það gæti skilað ríkissjóði 30-40 milljörðum á ári. Þetta myndu heimili landsins ekki finna fyrir á einn eða neinn hátt nú. Á þeirri forsendu á að skipa hóp sérfræðinga til að skoða það að skattleggja lífeyrisgreiðslurnar strax og hætta þessari endemis vitleysu. Stjórnvöld verða að átta sig á því að ofan á minni veltu og verkefni í þjóðfélaginu eru stjórnvöld að hækka skattaálögur svo mikið bæði á einstaklinga og fyrirtæki að fólki er einfaldlega að blæða út,” sagði Vilhjálmur að lokum.

30
Sep

Skipa þarf hóp sérfræðinga til að kanna kosti og galla á skattlagningu lífeyrissjóðsgjalda

Samkvæmt fréttum ekki alls fyrir löngu vinnur ríkisstjórnin nú að útfærslu fjárlagafrumvarpsins, en reiknað er með að niðurskurður í ríkisútgjöldum muni nema um 179 milljörðum til ársins 2013. Fram kemur í fréttinni að draga þurfi saman í ríkisútgjöldum um 63 milljarða á næsta ári.

Það er alveg ljóst að koma mun til töluverðra skattahækkana til að mæta þessum niðurskurði sem framundan er. Töluverðar líkur eru á hækkun á tekjuskatti og einnig hefur heyrst um hækkanir á öðrum sköttum ríkisins.

Meðal nýrra hugmynda sem skotið hafa upp kollinum er hvort framkvæmanlegt sé að skattleggja lífeyrissjóðsiðgjöld jafnóðum og þau eru greidd inn í sjóðina, og hætta þar af leiðandi núverandi kerfi sem byggist á því að sjóðsfélagar greiða skatt þegar kemur að lífeyristöku.

Í dag birtist afar athyglisverð grein í Morgunblaðinu eftir tryggingastærðfræðingana Benedikt Jóhannesson og Bjarna Guðmundsson þar sem þeir segja að með því að skattleggja lífeyrisgreiðslur strax geti ríkið náð allt að 30-35 milljörðum króna í ríkissjóð á ári. Þeir tala einnig um að hugsanlega sé þetta ein besta leiðin til að leysa hina brýnu þörf á skatttekjum án þess að valda heimilum búsefjum með hækkunum á álögum.

Þegar mætir menn eins og Benedikt Jóhannesson og Bjarni Guðmundsson, tryggingastærðfræðingar fjölmargra lífeyrissjóða, koma með slíkar tillögur ber ríkisstjórn Íslands að taka þær alvarlega. Skipa þarf færustu hagfræðinga til þess að vega kosti og galla þess að skattleggja lífeyrissjóðsgjöld jafnóðum. Ef hægt er að komast hjá því að stórhækka hér skatta á almenning með því að fara þessa leið þá er til mikils að vinna.

Í greininni er bent á að með þessari hugmynd vinnist eftirfarandi:

  • Ríkið og sveitarfélög þurfa ekki að taka jafnmikil lán og ella
  • Ekki þarf að hækka skattbyrði á almenning
  • Séð er fyrir fjórðungi halla fjárlaga
  • Ráðstöfunartekjur almennings skerðast ekki
  • Neysla dregst ekki meira saman og kreppan dýpkar því ekki
  • Skatturinn fer ekki út í verðlag

Það er gríðarlega mikilvægt eins og áður hefur komið fram að skipaður verði hópur sérfræðinga til að fara yfir þessar tillögur. Til mikils er að vinna til draga úr þeim mikla niðurskurði sem framundan er í ríkisrekstrinum, niðurskurði sem klárlega mun leiða af sér að opinberum störfum mun fækka. Með hækkun á sköttum mun neysla dragast saman sem mun leiða af sér að störf munu tapast við verslun og þjónustu og hækkun á neyslusköttum mun hafa áhrif til hækkunar á verðtryggðum lánum launþega.

Ef hægt er að komast hjá því að draga úr hækkun á sköttum með því að nýta þennan möguleika á skatttöku lífeyrissjóðsgjalda sem skilar ríkissjóði 35 milljörðum, þá er það eitthvað sem ríkisvaldinu ber skylda til að skoða gaumgæfilega.

29
Sep

85 ára afmælisblað Verkalýðsfélags Akraness í undirbúningi

Þann 14. október nk. verða liðin 85 ár frá því að Verkalýðsfélag Akraness var stofnað á framhaldsaðalfundi í Báruhúsinu á Akranesi. Þá skráðu 108 félagsmenn sig í félagið. Í dag eru félagsmennirnir tæplega 3.000 og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness telur það skyldu sína að varðveita þá miklu sögu sem félagið geymir og hefur því ákveðið að minnast þessara tímamóta með útgáfu afmælisblaðs. Ritstjóri blaðsins er Haraldur Bjarnason og hefur hann að undanförnu verið önnum kafinn við að safna efni, viðtölum og myndum í blaðið sem dreift verður í hús á afmælisdaginn.

25
Sep

Skiptir þjóðarbúið miklu máli

Hvalveiðbátarnir tveir sem veitt hafa langreyðar frá því í júní komu í gær með síðustu dýrin að landi í hvalstöðinni í Hvalfirði. Alls veiddust 125 langreyðar af 150 dýra kvóta sem Hvalur hf. fékk úthlutað í ár. Færast því 25 dýr yfir á næsta veiðisumar en heimilt er að færa allt að 20% á milli ára líkt og í kvótasettum fiski. Kristján Loftsson forstjóri Hvals segir í samtali við Skessuhorn að veiðarnar og vinnslan hafi gengið vel í sumar. “Við fórum aðeins seinna í gang en við ætluðum í vor en ljúkum þessu núna þar sem miðað við veðurspá megi búast við brælu. Það verður að hafa sæmilegt veður við þessar veiðar og gott skyggni. Reyndar er þetta mjög svipaður tími sem við hættum og var hér áður fyrr áður en hvalveiðistoppið tók gildi,” segir Kristján.

Kristján segir að nú taki við þrif og frágangur í hvalstöðinni. Þá verði vinnuflokkur ásamt iðnaðarmönnum að störfum fram undir áramót við að lagfæra og endurnýja það sem þarf í stöðinni. Aðspurður segir hann að um 160 hafi unnið við veiðarnar og vinnsluna í sumar. Þar af voru um 30 á bátunum tveimur, upp undir hundrað í hvalstöðinni, um 30 í vinnslunni á Akranesi og um tugur í Hafnarfirði. Þannig má segja að mikið hafi munað um að hafa hvalvinnsluna í sumar þegar atvinnuleysi var meira en um áraraðir.

150 milljón munnar

Aðspurður um horfur á sölu kjötsins segir Kristján þær vera góðar. “Við erum að fara yfir sölumálin, skoða efnagreiningar á kjötinu og erum að skoða með frystiskip til að flytja það til Japan. Megnið af þessu kjöti fer í útflutning en hluti þess er seldur hér heima. Japanir hafa sýnt þessu kjöti mikinn áhuga og hafa vinnslu- og söluaðilar þaðan komið í sumar til að kynna sér aðstæður.” Kristján segir að í Japan sé kjötið ýmist sneitt niður til sölu í verslunum eða selt í áframvinnslu, svo sem niðursuðu. “Við höfum engar áhyggjur af að kjötið seljist ekki. Þarna eru 150 milljónir munnar að metta. Japönum líkar vel við hvalkjötið og líta á það sem úrvalsvöru enda um hreint og ómengað sjávarfang að ræða, án lyfja eða hormóna,” sagði Kristján Loftsson.

Það er alveg ljóst að þessar hvalveiðar hafa haft gríðarlega jákvæð áhrif á atvinnulífið hér á Akranesi, enda liggur fyrir að útsvarstekjur Akraneskaupstaðar verða umtalsverðar vegna þessara veiða.  Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar því innilega að veiðar á hval hafi verið heimilaðar að nýju, enda er það skýlaus réttur okkar að nýta þær auðlindir sem við búum yfir bæði til sjávar og sveita.  Það er einnig ljóst að þessar veiðar skipta þjóðarbúið miklu máli í ljósi þess að veiðarnar skapa þjóðinni töluverðar gjaldeyristekjur og veitir ekki af um þessar mundir.

24
Sep

Hvaða veð og tryggingar liggja að baki 1.703 milljörðum til eignarhaldsfélaga

Rætt var við formann félagsins í fréttum Stöðvar 2 í gær vegna þeirrar firringar sem hefur átt sér stað í útlánum bankanna til eignarhaldsfélaga, en bankarnir hafa lánað eignarhaldsfélögum 1.703 milljarða, sem er litlu minna en hrein eign lífeyrissjóðanna í landinu, sem er 1.762 milljarðar.

Verkalýðsfélag Akraness krefst þess að fá upplýsingar um hvaða veð og tryggingar liggi að baki þessum útlánum, einfaldlega á þeirri forsendu að töluverðar líkur eru á því að þetta muni allt lenda á almenningi. Það liggur fyrir að þegar almennt launafólk getur ekki staðið við sínar skuldbindingar, þá er húsnæði þeirra gert upptækt og það er hundelt í áraraðir ef ekki áratugi. En snillingarnir sem standa á bak við eignarhaldsfélögin þeir virðast geta gengið hnarreistir frá sínum skuldum.

Í fréttum DV.is í dag kemur fram að fjármálaeftirlitið hefur nú til rannsóknar mál þar sem talið er að kerfisbundið hafi verið reynt að halda verði hlutabréfa uppi fyrir bankahrunið með því að senda röng og misvísandi skilaboð til markaðarins. Í fréttinni segir m.a.:

"Dæmi er um lánveitingar hjá Kaupþingi til eignarhaldsfélaga þar sem lánið var nýtt til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi og einu veðin voru bréfin sjálf. Dæmi um það eru kaup Holt Investments Ltd. eignarhaldsfélags Skúla Þorvaldssonar þar sem eini tilgangurinn hafi verið hlutabréfakaup í Kaupþingi. DV.is greindi frá því þann fyrsta ágúst síðastliðinn að Skúli hafi verið stærsti lántakandi Kaupþings í Lúxemborg en samkvæmt gögnum sem lekið var á vefsíðuna Wikileaks í sumar námu heildarlán til félaga hans um 750 milljónum evra, eða rúmlega 220 milljörðum króna."

Það er mjög mikilvægt að það verði upplýst hversu góð og haldbær veð og tryggingar liggi að baki þessum 1.703 milljörðum, sérstaklega þegar liggur fyrir að dæmi séu um að eignarhaldsfélögum hafi verið lánaðir tugir ef ekki hundraðir milljarðar til hlutabréfakaupa, með einungis veði í bréfunum sjálfum.

Það er sorglegt fyrir almennt launafólk að hlusta nú á ráðamenn þjóðarinnar halda því fram að ekki sé svigrúm til almennra leiðréttinga á skuldum heimilanna, í ljósi þess gríðarlega forsendubrests sem orðið hefur. Það virðist ætíð vera þannig að grálúsugur almúginn þarf að standa skil á sínu, en hvítflibbarnir virðast geta gengið frá sínum skuldum og skýlt sér á bak við handónýt lög um eignarhaldsfélög. Það er algerlega ljóst að þessu þarf að breyta og það tafarlaust.

Hægt er að lesa fréttina á DV.is í heild sinni hér.

23
Sep

Nýr starfsmaður á skrifstofu félagsins

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var auglýst eftir nýjum starfskrafti í 50% starf vegna aukinna verkefna og það er skemmst frá því að segja að hvorki fleiri né færri en 25 umsóknir bárust. Það var gríðarlega erfitt að velja úr þeim góða hópi sem sótti um, en niðurstaða stjórnar félagsins var að ráða Dagbjörtu Guðmundsdóttur í starfið. Stjórn félagsins vill þakka öllum umsækjendum fyrir þann áhuga sem þeir sýndu starfinu með umsókn sinni.

Sl. mánudag hóf Dagbjört störf á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness og vill stjórn félagsins bjóða Dagbjörtu hjartanlega velkomna til starfa hjá félaginu og hlakkar til ánægjulegs samstarfs með henni í framtíðinni.

21
Sep

Lán til eignarhaldsfélaga jafn há og eign lífeyrissjóðanna

Það var afar athyglisverð frétt sem birtist á Stöð 2 og Vísi.is nú um helgina og varðaði lán bankanna til eignarhaldsfélaga. Hægt er að lesa fréttina hér.. Í fréttinni kom fram að bankarnir hafa lánað eignarhaldsfélögum 1.703 milljarða króna og þar kom einnig fram að allt sé á huldu hvað varðar veð og tryggingar á þessum lánum.

Til að almenningur átti sig á því um hverslags gríðarlegar upphæðir eru hér að ræða þá er hrein eign lífeyrissjóðanna í dag í kringum 1.762 milljarðar. Það lýsir því hvers lags firring hefur átt sér stað í útlánastarfsemi bankanna til eignarhaldsfélaganna þegar lánveitingar séu orðnar jafnháar og eignir lífeyrissjóðanna, en eignir lífeyrissjóðanna hafa verið byggðar upp af öllu launafólki á síðustu 40 árum.

Hvernig má slík skuldsetning hafa átt sér stað? Hvaða útlánareglum fóru bankanir eiginlega eftir?

Það kom einnig fram í fréttinni að búið er að afskrifa um 85 milljarða og eru eftirtaldir aðilar nefndir í því samhengi:

  • Eignarhaldsfélagið Milestone 
  • Eignarhaldsfélag í eigu Bjarna Ármannssonar
  • Eignarhaldsfélagið Langflug sem Finnur Ingólfsson fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins átti meirihluta í
  • Eignarhaldsfélagið Fons

Þessir 85 milljarðar sem þegar hafa verið afskrifaðir myndu duga til að greiða atvinnuleysisbætur í þrjú ár en áætlað er að greiddar verði út atvinnuleysisbætur fyrir 29 milljarða á næsta ári.

Það ætlar allt um koll að keyra hjá hinum ýmsu aðilum í þjóðfélaginu þegar hugmyndir um almennar leiðréttingar á skuldum heimilanna eru ræddar.  Nei, almennar leiðréttingar á skuldum heimilanna eru alls ekki framkvæmanlegar að mati ráðamanna þjóðarinnar og fleiri áhrifamanna í íslensku þjóðfélagi.

Öðru máli virðist gegna um afskriftir hjá eignarhaldsfélögum til að mynda félögum tengdum Bjarna Ármannssyni upp á 800 milljónir og skuldir hjá eignarhaldsfélaginu Langflugi sem Finnur Ingólfsson fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins átti meirihluta í upp á 14 milljarða.  Ætlar einhver að halda því fram að Bjarni Ármannssson hafi ekki fjárhagslega burði til að standa skil á þessari skuld.  Nei, hann ætlar ásamt fleirum sér líkum að skýla sér á bakvið eignarhaldsfélögin sín og segir að það væri óábyrg meðferð fjármuna að greiða skuldina.  Ef hins vegar almennt launafólk stendur ekki við sínar skuldbindingar þá er það hundelt og getur sér hvergi um frjálst höfuð strokið í áraraðir.

Hvernig má það eiga sér stað að bankarnir hafi lánað 1.703 milljarða til eignarhaldsfélaga? Hvaða lánareglur giltu hjá bönkunum? Hvar voru eftirlitsaðilar, t.a.m. fjármálaeftirlitið? Getur verið að farið hafi verið eftir öllum lánareglum sem í gildi voru hjá bönkunum?

Það er eins og áður hefur komið fram með hreinustu ólíkindum að lánveiting til eignarhaldsfélaga hafi verið orðin jafnmikil og hrein eign lífeyrissjóðanna. Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að þetta mál verði að rannsaka og fá botn í.

19
Sep

Tillaga um stóraukið lýðræði við stjórnarkjör lífeyrissjóðanna

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á fundi sínum rétt í þessu tillögu sem lögð verður fyrir ársfund Alþýðusambands Íslands sem haldinn verður dagana 22. og 23. október nk.  Tillagan hefur nú þegar verið send forseta ASÍ en samkvæmt 24. grein laga ASÍ er kveðið á um að mál þau og tillögur sem einstök aðildarsamtök óska að tekin verði fyrir á fundinum, skuli send miðstjórn einum mánuði fyrir ársfund. Skal miðstjórn leggja mál þau og tillögur fyrir fundinn, ásamt umsögn sinni.

Tillaga Verkalýðsfélags Akraness gengur út á það að miðstjórn Alþýðusambands Íslands verði falið að vinna að því að atvinnurekendur hverfi úr stjórnum lífeyrissjóða og að unnið verði að breytingum á reglugerðum sjóðanna með þeim hætti að sjóðsfélagar kjósi sér stjórnarmenn með beinni kosningu. Hægt að lesa tillöguna með því smella hér.

Það er mjög mikilvægt að í þessari tillögu er verið að stórauka lýðræðið þannig að allir sjóðsfélagar, bæði greiðendur og lífeyrisþegar, hafi möguleika á því að bjóða sig fram til stjórnarsetu í lífeyrissjóðum innan ASÍ.

Það eru komin 40 ár frá því að Alþýðusamband Íslands gerði fyrst samning sem kveður á um að atvinnurekendur skuli eiga helming stjórnarmanna á móti stéttarfélögunum. Fyrsti samningurinn var gerður 1969, sá samningur var síðar endurnýjaður 12. desember 1995 og í honum er einnig kveðið á um jafna skiptingu stjórnarmanna.

Í greinargerð með tillögu stjórnar og trúnaðarráðs VLFA segir m.a.:

Það er öllum ljóst að traust og trúverðugleiki lífeyrissjóðanna hefur beðið gríðarlega hnekki á undanförnum misserum. Þetta traust verður verkalýðshreyfingin að byggja upp aftur og einn liður í því að byggja upp traustið og trúverðugleikann á ný er að atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóðanna,

Það eru engin haldbær rök fyrir því að atvinnurekendur skuli sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna. Það er t.a.m. afar óeðlilegt að atvinnurekendur séu að taka ákvörðun um fjárfestingarleiðir þegar liggur fyrir að krosseignatengsl og hagsmunaárekstrar fulltrúa atvinnurekenda í sjóðunum geta klárlega skarast á við hagsmuni sjóðsfélaga.

Það þarf einnig að stórauka lýðræði innan lífeyrissjóðanna, það þarf að tryggja að hinn almenni sjóðsfélagi hafi tækifæri til að bjóða sig fram til stjórnarsetu að uppfylltum hæfniskröfum skv. 31. grein laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða frá árinu 1997.

Það þarf að tryggja að stjórnarmenn verði kosnir beinni kosningu af sjóðsfélögum. Stóraukið lýðræði sjóðsfélaga er gríðarlega mikilvægur þáttur í að byggja upp traust og trúverðugleika lífeyrissjóðanna að nýju.

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að atvinnurekendur hafa klárlega reynt að nýta sér lífeyrissjóðina í gegnum árin og nægir að nefna tilraun Baugs og FL Group til að stofna sér lífeyrissjóð fyrir sína starfsmenn vegna þess að þeir voru óánægðir með fjárfestingarstefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Í frétt á ruv.is frá árinu 2006 segir m.a. um það mál: “Þá ríkir mikil óánægja meðal stjórnenda Baugs og FL Group með fjárfestingastefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sem þeir telja beitt gegn sér og sínum félögum.” Sjá fréttina í heild sinni hér:

Í frétt á mbl.is um það mál frá árinu 2004 er haft eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs að hann telji “nauðsynlegt að ferskir vindar blási reglulega í stjórnum slíkra sjóða og þannig verði komið í veg fyrir að einstakir stjórnarmenn líti á sjóði sem þeirra eigin”.

Sjá þá frétt í heild sinni hér:

 

Á þessum fréttum sést að til eru atvinnurekendur sem klárlega gera allt til þess að verja sína hagsmuni með öllum tiltækum ráðum og er gríðarleg hætta á því að hagsmunir eigenda lífeyrissjóðanna, sem eru sjóðsfélagarnir, geti skaðast sökum þess. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi tillaga stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness fái ekki örugglega fullan stuðning á ársfundi Alþýðusambands Íslands. 

Þessi tillaga stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness hefur fengið gríðarlega umfjöllun enda er hér um afar viðkvæmt mál að ræða bæði fyrir atvinnurekendur og þá sem farið hafa með völdin í lífeyrissjóðum landsmanna til þessa.

Fjallað var um tillöguna á mbl.is sjá hér.  Einnig var fjallað tillöguna á ruv.is hlusta hér og einnig viðtal við formann félagsins í Reykjavík síðdegis hlusta hér.

Að lokum var rætt við fulltrúa frá Samtökum atvinnulífsins um tillöguna á ruv í dag. Hlusta hér.

15
Sep

Enn hækkar matvaran

Enn eru miklar hækkanir á matvörum í verslunum, að því er fram kemur í nýrri mælingu verðlagseftirlits á vörukörfu ASÍ sem gerð var um sl. mánaðarmót. Við samanburð á mælingu verðlagseftirlitsins frá því í maí, hækkar vörukarfan um 2-5% hjá öllum verslunarkeðjum nema Nóatúni, þar sem karfan lækkar um 1%.

Hægt er að skoða niðurstöður í heild sinni með því að smella hér.

Það er sorglegt fyrir verkafólk sem og aðra launþega að horfa upp á verslunareigendur, ríki, sveitarfélög, tryggingafélög og olíufélög varpa sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið á sama tíma og launþegar horfa fram á gríðarlegt tekjutap, stóraukna greiðslubyrði og skattahækkanir samhliða skerðingu á opinberri þjónustu.

Ekki er hægt að komast hjá því að minnast á það að almennir launþegar voru þvingaðir til að fresta sínum áður umsömdu launahækkunum. Svo tala menn um stöðugleikasáttmála, sáttmála sem einungis hefur byggst á því að launafólk hefur orðið af sínum áður umsömdu launahækkunum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image