• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Nov

Græðgi og siðleysi

Í fréttum í gær kom fram að Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis, teldi að bankarnir væru ekki að fara að lögum og reglum hvað varðar afskriftir hjá fyrirtækjum. Ef þetta er rétt er þetta grafalvarlegt mál en það sem er enn alvarlegra er það að það er verið að afskrifa skuldir hjá fyrirtækjum og eignarhaldsfélögum svo milljörðum ef ekki tugum skiptir á meðan alþýða landsins er þvinguð til að greiða allar sínar skuldir upp í topp og helst meira til.

Nægir að nefna í því samhengi viðtal sem var við ung hjón á Bylgjunni í gær en á heimasíðu Bylgjunnar segir um efni viðtalsins: 

Samviskusamt, venjulegt fólk sem vildi gera allt til að greiða svimandi hækkandi skuldir sínar, þrátt fyrir að hafa ekki átt raunverulegan þátt í hækkun þeirra eftir hrun. Nýi Kaupþing banki (Arion banki) sýndi engan samstarfsvilja og kreisti allar eigur þeirra út úr þeim. Í dag standa þau eftir með engar eigur og að auki 16 milljón króna skuldabréf sem bankinn neyddi þau til að skrifa upp á. Hann íhugaði sjálfsmorðHlusta hér

Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á bankana afskrifa skuldir fyrirtækja og það jafnvel án þess að fara eftir lögum og reglum eins og formaður viðskiptanefndar Alþingis hefur haldið fram. Hvernig má það vera að ekki sé hægt að koma skuldsettum heimilum til hjálpar á sama tíma og slíkar afskriftir eiga sér stað?

Rétt er að rifja upp hver úrræði Ríkisstjórnarinnar eru gagnvart gengistryggðum bílalánum en þar stendur skuldaranum til boða að færa gengisvísitöluna aftur til 1. maí 2008 sem léttir á greiðslubyrðinni. Til boða stendur að lengja lánið um 3 ár og ef skuldin er ekki að fullu greidd þá á skuldarinn valmöguleika sem er fólginn í því að skila bifreiðinni og fá restina niðurfellda. Með öðrum orðum: Lánveitandinn fær allt sitt til baka og vel það. Þetta er svona í hnotskurn það sem er verið að bjóða almenningi upp á á meðan allt önnur lögmál gilda um skuldir fyrirtækja.

Hver skyldi hafa verið einn af þeim mönnum sem unnu að tillögum í félagsmálaráðuneytinu til hjálpar skuldsettum heimilum? Jú, það var Yngvi Örn Kristinsson, fyrrum forstöðumaður hagfræðisviðs Landsbanka Íslands, en hann hefur sett fram 229 milljóna kröfu í þrotabú Landsbankans.  Yngvi hefur látið hafa eftir sér að ekki sé grundvöllur til almennra leiðréttingar á skuldum heimilanna.  Þessi sami einstaklingur fer fram á 230 milljónir úr þrotabúi Landsbankans og þegar málið varð opinbert átti að reyna að klóra í bakkann með því að gefa út yfirlýsingu sem byggðist á því að ef krafan yrði viðurkennd myndi hún renna til góðgerðarmála.

Yngvi Örn var ráðinn af Árna Páli Árnasyni til ráðgjafarstarfa í félagsmálaráðuneytinu og verður sú ráðning að teljast stórundarleg í ljósi fyrri starfa viðkomandi einstaklings. Græðgin og siðleysið virðist einfaldlega engan enda ætla að taka og á sama tíma verður alþýða þessa lands að blæða illilega fyrir þá græðgi og siðleysi sem ríkt hefur í þessu samfélagi á liðnum árum og áratugum.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image