• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Árás á sjómenn Sjómannsstarfið er ekki alltaf dans á rósum
27
Nov

Árás á sjómenn

Þær voru ekki glæsilegar fréttirnar sem sjómönnum bárust í dag því samkvæmt nýju skattafrumvarpi fjármálaráðherra verður sjómannaafslátturinn lagður af í þrepum á næstu fjórum árum.

Tugir sjómanna eru í sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness og á þeirri forsendu mótmælir Verkalýðsfélag Akraness þessari aðför ríkisstjórnarinnar að einni mikilvægustu stétt okkar landsmanna sem eru jú sjómenn þessa lands. En það verða einmitt þeir sem munu koma til með að leggja hvað mest af mörkum við að vinna íslenskt efnahagslíf úr þeim hremmingum sem það er nú í.

Sjómannaafslátturinn á sér áratuga langa sögu og er klárlega hluti af launakjörum sjómanna og það má ekki gleyma því að sjómenn vinna við afar erfiðar aðstæður á degi hverjum og eru fjarri sínum fjölskyldum svo vikum skiptir í mörgum tilfellum. Það er líka rétt að minna á að almennir launþegar njóta dagpeninga ef þeir þurfa að vera fjarri sínum heimilum um lengri eða skemmri tíma. Og að sjálfsögðu á slíkt að gilda um sjómenn einnig.

Sjómenn hafa þurft að taka á sig umtalsverða kjaraskerðingu á undanförnum árum sökum samdráttar í aflaheimildum þó vissulega sé gengisfall krónunnar að hjálpa þeim þessa stundina. Það er einnig rétt að minna fólk á að sjómenn þurfa að taka þátt í svokölluðu olíugjaldi og eru þeir ein af fáum stéttum þessa lands sem þurfa að borga sérstaklega fyrir að stunda sína vinnu. Það mætti líkja þessu við að strætóbílstjórar þyrftu að borga sérstakt olíugjald fyrir að aka strætó eða þá að starfsmenn í stóriðjum þyrftu að greiða með stóriðjufyrirtækjunum í raforkugjaldi. Með öðrum orðum þá er ekki allt sem sýnist varðandi launakjör sjómanna.

Það kom í fréttum í dag að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segi að sjómannsstarfið hafi breyst mikið á undanförnum árum. Vissulega er það rétt að starfið hefur breyst mikið og öryggi sjómanna hefur stóraukist á liðnum árum en Steingrímur hefði gott af því að fara og kynna sér störf sjómanna og þau vinnuskilyrði sem þeir þurfa oft á tíðum að vinna við í aftakaveðrum. Honum myndi þá væntanlega snúast hugur um afnám sjómannaafsláttar þegar hann sæi við hvaða aðstæður sjómenn þurfa oft að glíma við.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á ríkisstjórn Íslands að hlífa sjómönnum og hverfa frá þessum áformum án tafar því án íslenskra sjómanna er íslenskt þjóðfélag afskaplega illa statt.

Það er spurning hvort sjómenn íhugi ekki alvarlega að grípa til róttækra aðgerða vegna þessara aðgerða ríkisstjórnar og það ríkisstjórnar sem vill kenna sig við félagshyggju og jafnaðarstjórn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image