• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Dec

Kjaraviðræðum Norðuráls frestað

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fundaði með starfsmönnum C og D vaktar Norðuráls í gærkvöldi vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem komin er upp vegna kjarasamningsgerðar við Norðurál. Samningsaðilar hafa fundað 7 sinnum á undanförnum mánuði og hafa viðræðurnar sem slíkar gengið ágætlega.

En á samningafundi í gærmorgun í húsakynnum ríkissáttasemjara ákváðu fulltrúar stéttarfélaganna og forsvarsmenn Norðuráls að fresta kjaraviðræðum vegna þeirrar grafalvarlegu stöðu sem upp er komin vegna stefnu Félags vélstjóra og málmtæknimanna á hendur Norðuráli. Stefnan gengur út á það að VM gerir kröfu um að eiga aðild að þeim kjarasamningi sem gildir fyrir starfsmenn Norðuráls. Sjá yfirlýsingu stéttarfélaganna og forsvarsmanna Norðuráls hér.

Í dag eiga aðild að þessum sérkjarasamningi Verkalýðsfélag Akraness, Stéttarfélag Vesturlands, Félag iðn- og tæknigreina, VR og Rafiðnaðarsambandið. Þannig hefur það verið alveg frá stofnun fyrirtækisins 1998 en núna ber svo við að eitt stéttarfélag krefst aðkomu að kjarasamningnum í óþökk flestra stéttarfélaganna sem eiga aðild að þessum samningi.

Það hefur ríkt sátt innan verkalýðshreyfingarinnar um félagssvæði og sérkjarasamninga sem stéttarfélögin hafa gert og hafa stéttarfélögin ekki verið að slást um félagsmenn en með þessari stefnu VM er brotið blað hvað það varðar. Ljóst er að nái krafa VM fram að ganga fyrir félagsdómi sé búið að hrófla við grunnforsendum gildandi kjarasamnings, svo sem varðandi forgangsrétt til vinnu þeirra félagsmanna stéttarfélaganna sem eiga aðild að samningnum.

Formaður félagsins gagnrýnir þessi vinnubrögð forystu VM harðlega í ljósi þess að verið sé að rjúfa þá sátt sem ríkt hefur innan verkalýðshreyfingarinnar um félagssvæðin og aðild stéttarfélaga að kjarasamningum og einnig er þetta að skapa starfsmönnum umtalsverð vandræði í ljósi þess að samningsgerðin mun dragast um einn til tvo mánuði í það minnsta.

Það er alveg nóg í huga formanns Verkalýðsfélags Akraness að þurfa að slást af alefli við forsvarsmenn Norðuráls fyrir bættum kjörum starfsmanna Norðuráls svo stéttarfélögin séu ekki að berjast innbyrðis því slíkt er klárlega ekki til hagsbóta fyrir okkar félagsmenn.  Þessi stefna VM manna á hendur Norðuráli er að ógna þeim vinnustaða samningi sem áðurnefnd stéttarfélög hafa staðið sameiginlega að. Þessi vinnubrögð af hálfu VM manna getur einnig orðið verkalýðshreyfingunni í heild sinni til mikils skaða.

Aðalmeðferð málsins verður hjá félagsdómi þann 11. janúar næstkomandi og er dóms að vænta einhverjum dögum eða vikum eftir þann tíma.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image