• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

04
Sep

Árleg dagsferð eldri félagsmanna verður farin í næstu viku

Næstkomandi fimmtudag munu um 100 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness 70 ára og eldri halda í dagsferð sem félagið býður árlega upp á.  Lagt verður af stað kl. 9:00 frá Íþróttamiðstöðinni að Jaðarsbökkum.

Þetta árið verður farið um Snæfellsnes og Dali. Áætluð heimkoma er um kl. 18:30.

Áð verður á nokkrum stöðum í ferðinni og m.a. boðið uppá léttan hádegisverð á Hótel Stykkishólmi. Boðið verður upp á aðrar veitingar um kaffileytið. Leiðsögumaður í ferðinni verður Björn Finsen.

Boðsbréf hefur verið sent til félagsmanna og fer skráning fram á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13 eða í síma 430-9900 og stendur hún til kl. 12:00 á hádegi miðvikudaginn 9. september n.k.

Myndir og fréttir úr ferðinni verða settar inn hér á heimasíðunni við fyrsta tækifæri.

03
Sep

Var tilgangurinn að koma Sementsverksmiðjunni út af sementsmarkaðnum?

Ráðherrar í heimsókn í verksmiðjunni fyrir fáeinum dögum síðanRáðherrar í heimsókn í verksmiðjunni fyrir fáeinum dögum síðanEins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa starfsmenn Sementsverksmiðjunnar samþykkt að fallast á tillögur framkvæmdastjóra verksmiðjunnar um að minnka starfshlutfall tímabundið niður í 50%. Þetta gera starfsmenn vegna þeirra erfiðleika sem fyrirtækið á nú við að etja sökum mikils samdráttar á byggingarmarkaði og ekki síður vegna þeirra grunsemda um að Aalborg Portland hafi hér á landi stundað undirboð á sementsmarkaðnum.

Það er staðreynd studd gögnum að danska fyrirtækið hefur selt sement undir markaðsvirði þegar það var að koma undir sig fótunum hér á landi. Rétt er að rifja upp viðtal í Nordjyllands Stiftstidende við forstjóra Aalborg Portland í Danmörku, Sören Vinter, í september 2002 kom fram sú gífurlega áhersla sem fyrirtækið legði á íslenska markaðinn enda hefði það náð 25 prósenta hlutdeild á aðeins tveimur árum. Í viðtalinu segir forstjórinn að hann líti á Ísland sem heimamarkað Aalborg Portland. Hann gekk svo langt að segja að til langs tíma litið yrði ekki pláss fyrir bæði Aalborg Portland og Sementsverksmiðjuna á íslenska markaðnum og Aalborg Portland sæi ákveðin tækifæri í yfirtöku á rekstri Sementsverksmiðjunnar á Akranesi.

Það er margt sem bendir til þess að það hafi verið tilgangur Aalborg Portland að koma Sementsverksmiðjunni út af markaðnum ef mark er takandi á viðtalinu hér að ofan.

Að sjálfsögðu eigum við Íslendingar að styða íslenska framleiðslu, verja íslensk störf og tryggja það að erlendir aðilar komi ekki hér inn á íslenskan markað og drepi niður íslenska framleiðslu með undirboðum sem einungis yrðu tímabundin.

Hægt er að lesa bréf framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar til viðskiptaráðs með því að smella hér.

01
Sep

Einhugur hjá starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar

Guðjón Guðjónsson aðaltrúnaðarmaður og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherraGuðjón Guðjónsson aðaltrúnaðarmaður og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherraAllir 45 starfsmenn Sementsverksmiðjunnar á Akranesi samþykktu í atkvæðagreiðslu í gær að ganga að tilboði fyrirtækisins um að fara í hálft starf frá 1. nóvember til 1. febrúar næstkomandi. Allir sem einn starfsmenn fyrirtækisins fara í hálft stöðugildi þennan tíma og gildir það jafnt um framkvæmdastjóra sem alla aðra starfsmenn.

Stjórnendur og starfsmenn verksmiðjunnar funduðu síðastliðinn föstudag ásamt formanni Verkalýðsfélags Akraness og forstöðumanni Vinnumiðlunarinnar á Vesturlandi.

Það er ríkir mikill einhugur í röðum starfsmanna Sementsverksmiðjunnar að standa vörð um fyrirtækið í þeim þrengingum sem nú ríkja á byggingamarkaði og við atkvæðagreiðsluna kom það berlega í ljós.

Fjölmargir starfsmenn verksmiðjunnar hafa áratuga langan starfsaldur að baki og vilja þeir með þessu leggja sitt af mörkum til þess að fyrirtækið lifi af þær hremmingar sem nú ríða yfir byggingarmarkaðinn.

Í byrjun febrúar verður farið í ofnstoppsvinnu og gert ráð fyrir að hún taki um einn mánuð. Því má gera ráð fyrir að kveikt verði upp í ofni verksmiðjunnar í byrjun mars en sem fyrr verður ástandið á byggingamarkaðinum og eftirspurn eftir innlendu sementi sem ræður því.

01
Sep

Áskorun til N1 lögð fyrir stjórn VLFA í kvöld

Í kvöld mun stjórn Verkalýðsfélags Akraness koma saman til fundar og eitt af málefnum fundarins er sú staðreynd að N1 var að skila 500 milljónum í hagnað á fyrstu 6 mánuðum ársins. Fyrir fundinn verður lögð áskorun til stjórnar N1 þar sem þess verður farið á leit við fyrirtækið að það greiði sínum starfsmönnum þær launahækkanir sem um var samið 17. febrúar 2008.

Eins og fram hefur komið á heimasíðunni þá var verkafólk þvingað til að afsala sér áður umsömdum launahækkunum. Nemur tap almenns verkamanns sem starfar eftir lágmarkstaxta upp undir 100.000 kr. vegna þess samkomulags sem ASÍ og SA gerðu á sínum tíma.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð verið á móti áður nefndu samkomulagi með þeim rökum að til væru fyrirtæki sem klárlega hefðu fjárhagslega burði til að standa við þann hófstillta kjarasamning sem gerður var þann 17. febrúar 2008. Nægir að nefna fyrirtæki sem starfa í útflutningi og fyrirtæki sem hafa möguleika á að varpa sínum vanda beint út í verðlagið.

Ef stjórn félagsins samþykkir þá áskorun sem fyrir hana verður lögð á fundinum í kvöld þá verður áskorunin send til stjórnar N1 á morgun.

Félagið hefur áður sent út áskorun til fyrirtækja þar sem þau fyrirtæki sem hafa fjárhagslega burði til eru hvött til að standa við gerða samninga.

Í gær var rætt var við formann félagsins í Reykjavík síðdegis. Hægt er að hlusta hér.

31
Aug

Laun eða starfshlutfall hafa verið skert hjá 35% launafólks

Ríflega þriðjungur eða 35% þeirra sem eru í launaðri vinnu hafa lent í því að laun eða starfshlutfall hefur verið skert frá hruni bankanna í október.  Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir ASÍ í júní.

Flestir eða rúmlega 18% hafa lent í launalækkun, hjá 9% hefur vinnutími verið styttur og 8% hafa orðið fyrir annarskonar skerðingu.  Þetta er mikil aukning frá því í desember 2008 þegar 21% launafólks hafði orðið fyrir í slíkri skerðingu.

Mun fleiri karlar en konur hafa lent í skerðingu launa og/eða starfshlutfalls og þá vekur athygli að 40% iðnaðarmanna hafa orðið fyrir því að laun hafa verið lækkuð eða vinnutími styttur.  Þá hafa þeir sem eru með laun yfir 550 þúsund á mánuði frekar lent í launalækkun en þeir sem hafa lægri laun.  Nákvæmt niðurbrot svara við spurningu um skerðingu launa og starfshlutfalls má sjá hér.

28
Aug

Áskorun til forsvarsmanna N1

Í gær sendi N1 frá sér afkomutilkynningu fyrir fyrstu 6 mánuði ársins. Þar kemur fram að hagnaður af rekstri N1 var 474 milljónir króna á áðurnefndu tímabili en á sama tímabili á síðasta ári var 98 milljóna króna hagnaður af rekstrinum.  Einnig segir í tilkynningunni að kjarnastarfsemi félagsins hafi gengið vel á árinu og reiknað sé með að afkoma ársins verði betri en árið 2008.  Þetta verða að teljast mjög jákvæð tíðindi.

Hins vegar er rétt að rifja það upp að samninganefnd Alþýðusambands Íslands gekk í tvígang frá frestun við Samtök atvinnulífsins á þeim umsömdu launahækkunum sem kveðið var á um í kjarasamningi sem gerður var 17. febrúar 2008.   En í þeim kjarasamningum var kveðið á um að laun þeirra sem störfuðu eftir launatöxtum ættu að hækka um 13.500 kr. 1. mars sl. og þeir sem störfuðu eftir taxtakerfi áttu að hækka um 3,5%.

Eins og flestir muna þá gekk fyrri frestun út á það að launþegar fengu enga hækkun 1. mars sl. eins kjarasamningurinn kvað á um en til stóð að hún kæmi öll til framkvæmda 1. júlí.  Það var ekki heldur staðið við það samkomulag og gengu ASÍ og SA frá öðru samkomulagi í júní þar sem kveðið var á um 6.750 kr hækkun til þeirra sem störfuðu á berstrípuðum launatöxtum og hinn helmingurinn af 13.500 kr. á að koma 1. nóvember nk.

Ástæðan sem gefin var fyrir því að fresta áður umsömdum launahækkunum til verkafólks var bág staða fyrirtækja í kjölfar bankahrunsins og fyrirtæki hefðu ekki bolmagn til að standa við þær launahækkanir sem um hafði verið samið.

Eins og flestir muna þá voru sex landsbyggðafélög á móti því að fresta umsömdum launahækkunum og var Verkalýðsfélag Akraness eitt þeirra.  Formaður félagsins benti m.a. á að það væru klárlega til fyrirtæki sem hefðu fjárhagslega burði til að standa við gerða samninga og nefndi hann t.d. fyrirtæki sem starfa í útflutningi og einnig Olíufélögin sem hafa varpað sínum vanda beint útí verðlagið.  Því miður var samninganefnd Alþýðusambands Íslands ekki sammála Verkalýðsfélagi Akraness í þessu máli.

Rétt er að rifja einnig upp baráttu Verkalýðsfélags Akraness vegna arðgreiðslna HB Granda en þar gagnrýndi Verkalýðsfélag Akraness harðlega að fyrirtækið væri að greiða út arð á sama tíma og fiskvinnslu- og verkafólk var þvingað til að fresta sínum umsömdu launahækkunum.  Eins og flestir muna ákvað HB Grandi að standa að fullu við þær launahækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars sl. og það gerðu einnig fjölmörg önnur fiskvinnslufyrirtæki.  Barátta Verkalýðsfélags Akraness skilaði 13.500 kr. hækkun á mánuði til hundruða fólks sem starfar í fiskvinnslu.

Nú kemur í ljós að N1 er að skila um 500 milljónum í hagnað á fyrstu 6 mánuðum þessa árs og reikna forsvarsmenn N1 með að afkoman verði betri á þessu ári hjá fyrirtækinu en á árinu 2008. Til hvers á fyrirtæki sem er að skila slíkum hagnaði að fá afslátt á hóflega gerðum kjarasamningi frá 17. febrúar 2008? Það er engin ástæða til slíks.

Á þeirri forsendu skorar Verkalýðsfélag Akraness á stjórnendur og eigendur N1 að endurgreiða því góða starfsfólki sem hjá því starfar þær hækkanir sem ella hefðu komið til ef ASÍ og SA hefðu ekki gengið frá frestun á áður umsömdum launahækkunum.

Fjárhaglegt tjón bensínafgreiðslumanns vegna þessarar frestunar og linkindar í forystu ASÍ mun nema um eitt hundrað þúsund krónum og munar um minna fyrir verkafólk sem starfar á berstrípuðum lágmarkstöxtum. Stjórn Verkalýðsfélag Akraness hefur lýst því yfir að félagið er tilbúið til að sýna fyrirtækjum sem eru í fjárhagslegum vandræðum skilning og umburðalyndi og þá sérstaklega fyrirtækjum í byggingariðnaði og honum tengdum.

En það er hins vegar alls engin ástæða til að fresta áður umsömdum launahækkunum hjá fyrirtækjum sem selja sínar afurðir erlendis og njóta góðs af þeim gengisbreytingum sem orðið hafa. Einnig olíufyrirtækjunum sem varpa öllum sínum vanda beint útí verðlagið sem síðan hefur áhrif á verðtryggðu lánin okkar. 

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness mun senda stjórn N1 áskorun eftir helgi þar sem þess verður farið á leit við fyrirtækið að það standi í einu og öllu við þann kjarasamning sem gerður var 17. febrúar 2008 í ljósi þess að afkoma fyrirtækisins er góð og stefnir í að verða betri á þessu ári en í fyrra.  Ef fyrirtækið verður við þessari áskorun félagsins þá munu starfsmenn í 100% starfi geta átt von á endurgreiðslu allt að 100.000 kr. og munar um minna fyrir lágtekjufólk sem hefur þurft að horfa uppá stóraukna greiðslubyrði.   

27
Aug

Tveir ráðherrar í heimsókn

Tveir ráðherrar ríkisstjórnar Íslands munu koma í heimsókn í Sementsverksmiðjuna hér á Akranesi í kl. 13:00 í dag.   Þeir ráðherrar sem um ræðir eru þær Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.

Heimsóknin byrjar á því að fundað verður með starfsmönnum og forsvarsmönnum verksmiðjunnar og að því loknu verður ráðherrunum sýnd verksmiðjan og þá starfsemi sem þar fer fram.

Væntanlega mun verða rætt á fundinum um samdráttinn í sementssölu og ósk forsvarsmanna Sementsverksmiðjunnar um að starfshlutfall starfsmanna verði lækkað tímabundið niður í 50% og að framleiðsla verði stöðvuð um nokkurra mánaða skeið. 

Einnig verður væntanlega rætt um þá gagnrýni Verkalýðsfélags Akraness að íslenska ríkið skuli stuðla að innflutningi á sementi á sama tíma og íslensk sementsframleiðsla á verulega undir högg að sækja. 

Það er Aalborg Portland Helguvík sem er íslenskt fyrirtæki í eigu Dana sem flytur inn sement frá Danmörku og hafa verið flutt inn rúm 20 þús tonn á þessu ári að verðmæti ca 240 milljóna í gjaldeyri.  Í fyrra var flutt inn um 111 þúsund tonn af dönsku sementi. Helsti kúnni Aalborg sem flytur inn danska sementið er Steypustöðin h.f sem er í eigu Íslandsbanka og eins og flestir vita er Íslandsbanki í eigu ríkisins.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tók málefni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi í fyrradag. Hann segir alvörumál verði Íslendingar háðir innflutningi á sementi. Mjög mikilvægt sé að grípa til aðgerða til að tryggja framtíð íslenskrar sementsframleiðslu.  Ráðherrann hefur leggið undir ámælum fyrir þessa afstöðu sína frá Samtökum verslunar og þjónustu sem er að mati formanns Verkalýðsfélags Akraness óskiljanlegt.

Eitt af hlutverkum stéttarfélaga er að verja störf sinna félagsmanna og á þeirri forsendu fagnar Verkalýðsfélag Akraness stuðningi Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessu máli.  Er hægt að gagnrýna ráðherrann fyrir að vilja standa vörð um íslenska framleiðslu sem hefur skilað íslensku þjóðarbúi gríðarlegum arði í gegnum árin og sparað íslensku þjóðinni umtalsverðan gjaldeyrir. 

Að sjálfsögðu eigum við Íslendingar að styðja íslenska framleiðslu og velja Íslenskt og verja íslensk störf.  Gunnar Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar sendi frá sér fréttatilkynningu í gær og sagði Gunnar meðal annars þetta:

Aalborg Portland í Danmörku hefur hins vegar frá upphafi lagt töluvert á sig til að bregða fæti fyrir rekstur Sementsverksmiðjunnar. Í þessu samhengi er vert að rifja upp þá staðreynd að danska fyrirtækið seldi sement undir markaðsvirði þegar það var að koma undir sig fótunum hér á landi. Í viðtali Nordjyllands Stiftstidende við forstjóra Aalborg Portland í Danmörku, Sören Vinter, í september 2002 kom fram sú gífurlega áhersla sem fyrirtækið legði á íslenska markaðinn enda hefði það náð 25 prósenta hlutdeild á aðeins tveimur árum. Í viðtalinu segir forstjórinn að hann líti á Ísland sem heimamarkað Aalborg Portland. Hann gekk svo langt að segja að til langs tíma litið yrði ekki pláss fyrir bæði Aalborg Portland og Sementsverksmiðjuna á íslenska markaðnum og Aalborg Portland sæi ákveðin tækifæri í yfirtöku á rekstri Sementsverksmiðjunnar á Akranesi

 

Gunnar sagði einnig í sinni fréttatilkynningu að á krepputímum eins og þeim sem íslenska þjóðin er að ganga í gegnum er nauðsynlegt að verja störf eins og kostur er og hamla gegn stöðnun í samfélaginu. Það verður best gert með því að halda áfram opinberum framkvæmdum eða auka þær ef kostur er, eins og stjórn og starfsmenn Sementsverksmiðjunnar hafa bent á. Einnig er mikilvægt að hið opinbera stuðli að uppbyggingu nýrra stórverkefna á sviði atvinnulífsins víða um land. Á þann hátt skapast fjöldi nýrra atvinnutækifæra sem styður við þá starfsemi sem fyrir er í landinu.

Framleiðsla Sementsverksmiðjunnar er fyllilega samkeppnisfær við sement Aalborg Portland, bæði hvað varðar verð og gæði. Það hlýtur því að teljast eðlilegt að Sementsverksmiðjan hafi sömu möguleika og Aalborg Portland á því að selja steypustöð í eigu ríkisins sement. Stjórnendur og starfsmenn Sementsverksmiðjunnar eru að biðja um jafnan rétt en ekki fyrirgreiðslu frá hinu opinbera.

Sementsverksmiðjan á Akranesi hefur frá upphafi skilað þjóðinni miklum arði. Hún hefur framleitt rúmlega 5,5 milljónir tonna af sementi úr innlendu hráefni og sparaði þjóðinni þann gjaldeyri sem annars hefði verið varið til innflutnings á sementi. Ljóst er að Sementsverksmiðjan mun ekki, frekar en mörg önnur íslensk fyrirtæki í byggingariðnaði, lifa af viðvarandi frostavetur á framkvæmdasviðinu. Núverandi staða mun  á endanum kippa stoðunum undan starfsemi hennar með alvarlegum afleiðingum. Vel á annað hundrað störf glatast, tækniþekking sem byggð hefur verið upp á síðustu áratugum verður að engu og sement, aðlagað að þörfum íslenska markaðarins víkur fyrir innfluttu sementi,"  segir í yfirlýsingu frá Gunnari Sigurðssyni framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar

25
Aug

Verður velferðabrúin byggð úr dönsku sementi?

Ríkisstjórn Íslands verður að standa vörð um SementsverksmiðjunnaRíkisstjórn Íslands verður að standa vörð um SementsverksmiðjunnaUmfjöllun Verkalýðsfélags Akraness um rekstrarerfiðleika Sementverksmiðjunnar sökum samdráttar á byggingarmarkaði og að ríkið og opinberir aðilar eru að nota innflutt danskt sement á sama tíma og verksmiðjan berst fyrir lífi sínu hefur vakið gríðarleg viðbrögð. 

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tók málefni Sementsverksmiðjunnar á Akranesi til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi í morgun. Hann segir alvörumál verði Íslendingar háðir innflutningi á sementi. Mjög mikilvægt sé að grípa til aðgerða til að tryggja framtíð íslenskrar sementsframleiðslu.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar innilega þessum jákvæðu viðbrögðum ráðherrans.

Rétt er að geta þess enn og aftur að Sementsverksmiðjan á Akranesi hefur frá upphafi skilað þjóðinni miklum arði. Hún hefur framleitt rúmlega 5,5 milljónir tonna af sementi úr innlendu hráefni og sparað þjóðinni þann gjaldeyri sem annars hefði verið varið til innflutnings á sementi. Verði stoðunum kippt undan starfsemi verksmiðjunnar mun það hafa alvarlegar afleiðingar.  Um 50 manns og um 90 afleidd störf glatast, tækniþekking sem byggð hefur verið upp á síðustu áratugum verður að engu og sement sem er aðlagað að þörfum íslensks markaðar, víkur fyrir innfluttu sementi.  Rétt er að geta þess að íslenska sementið er um 95% íslenskt hráefni.

Það verður að standa vörð um þá framleiðslu og störf sem unnin er í Sementverksmiðjunni hér á Akranesi með öllum tiltækum ráðum enda hefur hún skilað íslensku samfélagi miklum arði og sparað gríðarlegan gjaldeyrir fyrir þjóðarbúið.  Íslenskt atvinnulíf má alls ekki við því að tapa fleiri störfum en orðið er og því verðum við að styðja íslenska framleiðslu.

Núverandi stjórnvöld hafa margítrekað bæði fyrir og eftir kosningar að slegin verði skjaldborg um fyrirtæki og heimili þessa lands og einnig að byggð verði svokölluð velferðarbrú.  Því miður stefnir allt í að VELFERÐARBRÚIN verði byggð úr dönsku sementi ef ríkið heldur áfram að stuðla að innflutningi á dönsku sementi.

Fjallað hefur verið um málið á vef rúv skoða hér.  Einnig var fjallað um málið í Fréttablaðinu í dag og á eyjunni.is skoða hér

24
Aug

Umhverfisráðherra fundar með starfsmönnum Sementverksmiðjunnar

Eins og fram kom hér á heimasíðunni fyrir helgi þá berst Sementsverksmiðjan fyrir lífi sínu sökum mikils samdráttar á byggingarmarkaðnum.

Hafa forsvarsmenn verksmiðjunnar óskað eftir því við starfsmenn að starfshlutfall starfsmanna verði lækkað tímabundið niður í 50% til að mæta þeim samdrætti sem nú blasir við.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness og fulltrúi frá Vinnumálastofnunar munu funda með starfsmönnum á föstudaginn kemur vegna þessar óskar forsvarsmanna Sementsverksmiðjunnar.

Það kom einnig fram hér á heimsíðunni að það hafi vakið upp mikla furðu hjá formanni Verkalýðsfélags Akraness og starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar að fyrirtæki sem er í eigu íslenska ríkisins skuli kaupa innflutt  sementi frá Danmörku á sama tíma verksmiðjan hér á Akranesi berst fyrir lífi sínu.

Það er Aalborg Portland Helguvík sem er íslenskt fyrirtæki í eigu Dana sem flytur inn sement frá Danmörku og hafa verið flutt inn rúm 20 þús tonn á þessu ári að verðmæti ca 240 milljóna í gjaldeyri.  Í fyrra var flutt inn um 111 þúsund tonn af dönsku sementi.

Helsti kúnni Aalborg sem flytur inn danska sementið er Steypustöðin h.f sem er í eigu Íslandsbanka og eins og flestir vita er Íslandsbanki í eigu ríkisins.

Það vekur einnig mikla furðu að verið er að nota innflutt danskt sement í Hellisheiðarvirkjun sem Orkuveitan er að gera en rétt er að geta þess að Akranesbær á 5 % í Orkuveitunni.  Það er einnig verið að nota danska steypu við brúarsmíði yfir Hvítá á vegum Vegagerðar ríkisins.

Starfsmenn Sementsverksmiðjunnar hafa boðið Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra í heimsókn þar sem umhverfisráðherranum verður sýnd verksmiðjan og einnig munu starfsmenn ræða þann vanda sem verksmiðjan stendur frami fyrir í kjölfarið á samdrættinum á byggingarmarkaðnum.  Nú liggur fyrir að umhverfisráðherra hefur þegið boðið og mun heimsókin eiga sér stað á fimmtudaginn nk. 

21
Aug

Sementsverksmiðjan berst fyrir lífi sínu

Störf í hættuStörf í hættuÞað er óhætt að segja að sá mikli samdráttur sem nú er að eiga sér stað á byggingarmarkaðnum í kjölfar bankahrunsins sé að gera starfssemi Sementsverksmiðjunnar erfitt fyrir en töluverður samdráttur hefur verið á sölu sements á þessu ári.

Viðræður standa nú yfir við forsvarsmenn Sementsverksmiðjunnar um að lækka starfshlutfall starfsmanna tímabundið niður í 50% vegna þess samdráttar sem nú á sér stað í sölu á sementi.

Það vekur upp mikla furðu hjá formanni Verkalýðsfélags Akraness og starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar að fyrirtæki sem er í eigu íslenska ríkisins skuli kaupa innflutt  sementi frá Danmörku á sama tíma verksmiðjan hér á Akranesi berst fyrir lífi sínu.

Það er Aalborg Portland Helguvík sem er íslenskt fyrirtæki í eigu Dana sem flytur inn sement frá Danmörku og hafa verið flutt inn rúm 20 þús tonn á þessu ári að verðmæti ca 240 milljóna í gjaldeyri.  Í fyrra var flutt inn um 111 þúsund tonn af dönsku sementi.

Helsti kúnni Aalborg sem flytur inn danska sementið er Steypustöðin h.f sem er í eigu Íslandsbanka og eins og flestir vita er Íslandsbanki í eigu ríkisins.

Það vekur einnig um mikla furðu að verið er að nota innflutt dansk sement í Hellisheiðarvirkjun sem Orkuveitan er að gera en rétt er að geta þess að Akranesbær á 5 % í Orkuveitunni.  Það er einnig verið að nota danska steypu við brúarsmíði yfir Hvítá á vegum Vegagerðar ríkisins. 

Það er ámælisvert að opinberir aðilar eins og ríkið og Orkuveita Reykjavíkur skuli ekki styðja íslenska framleiðslu og um leið leggja grunn að trygggari starfsemi Sementsverksmiðjunnar sem hefur þjónað okkur Íslendingum allt frá árinu 1958 eða í rúm 50 ár.

Sementsverksmiðjan á Akranesi hefur frá upphafi skilað þjóðinni miklum arði. Hún hefur framleitt rúmlega 5,5 milljónir tonna af sementi úr innlendu hráefni og sparað þjóðinni þann gjaldeyri sem annars hefði verið varið til innflutnings á sementi. Verði stoðunum kippt undan starfsemi verksmiðjunnar mun það hafa alvarlegar afleiðingar.  Um 50 manns og um 90 afleidd störf glatast, tækniþekking sem byggð hefur verið upp á síðustu áratugum verður að engu og sement sem er aðlagað að þörfum íslensks markaðar, víkur fyrir innfluttu sementi.  Rétt er að geta þess að íslenska sementið er um 95% íslenskt hráefni.

Það verður að standa vörð um þá framleiðslu og störf sem unnin er í Sementverksmiðjunni hér á Akranesi með öllum tiltækum ráðum enda hefur hún skilað íslensku samfélagi miklum arði og sparað gríðarlegan gjaldeyrir fyrir þjóðarbúið.  Íslenskt atvinnulíf má alls ekki við því að tapa fleirum störfum en orðið er og því verðum við að styðja íslenska framleiðslu.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hvetur ríkisstjórn Íslands til að standa vörð um Sementsverksmiðjunna og sjá til þess að fyrirtæki í eigu ríksins styðji íslenska framleiðslu og um leið noti íslenskt sement.  Veljum Íslenskt.

Rætt var við formann félagsins í Reykjavík síðdegis í gær um málefni Sementsverksmiðjunnar. Hlusta hér

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image