• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

02
Nov

Vistvæn stóriðja

Í lok september lauk hvalvertíðinni og eins og fram hefur komið í fréttum veiddust 125 langreyðar af 150 hvala kvóta sem Hvalur hf fékk úthlutað.

Það er óhætt að segja það að veiðar á stórhveli hafi haft gríðarlega jákvæð áhrif fyrir samfélagið hér á Akranesi og í nærsveitum enda voru upp undir 150 manns sem fengu störf veiðunum tengdum og voru upp undir 80 manns héðan frá Akranesi sem unnu á vertíðinni.

Meðallaun þeirra sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og störfuðu hjá Hval hf voru 561 þúsund krónur á mánuði, að teknu tilliti til þeirra þriggja mánaða sem hávertíðin stóð yfir. Á þessu sést að tekjumöguleikar starfsmanna voru nokkuð góðir sérstaklega í því árferði sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði. Það ber hins vegar að geta þess að mikið vinnuframlag liggur að baki þessum tekjum starfsmanna Hvals.

Það má alveg halda því fram að veiðar og vinnsla á hval hafi verið hálfgerð stóriðja, enda skilaði starfsemin umtalsverðum útsvarstekjum fyrir Akraneskaupstað og einnig fyrir sveitafélögin hér í kring. 

Þetta sýnir hversu gríðarlega mikilvægt er að við nýtum okkar sjávarauðlindir að fengnu áliti Hafrannsóknarstofnunar og við eigum ekki undir nokkrum kringumstæðum að láta fámenna öfgahópa úti í heimi kúga okkur til þess að afsala okkur nýtingu á okkar auðlindum.

Nú hefur komið í ljós að ferðamannastraumur til landsins hefur aldrei verið jafn blómlegur og í ár og nægir að nefna í því samhengi að aldrei hafa fleiri farið í hvalaskoðunarferðir frá Húsavík eins og í ár. Þetta sýnir einnig svo ekki verður um villst að veiðar á hvölum og hvalaskoðun geta klárlega farið saman án þess að skaða hvort annað.

Það ber að þakka Kristjáni Loftsyni forstjóra Hvals hf og öllu hans frábæra starfsfólki fyrir þeirra framlag til að skapa hér atvinnu og auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar því það er þannig sem við vinnum okkur út úr þeim efnahagshremmingum sem við Íslendingar erum nú í. 

Nú er bara að vona að veiðar og vinnsla á hval hefjist fyrr á næsta ári og skili okkur Íslendingum jafn miklum ávinningi og vertíðin gerði sem nú er nýlokið.

30
Oct

Kjarasamningsviðræður við Norðurál hafnar

Kjarasamningur starfsmanna Norðuráls rennur út um áramótin og var fyrsti formlegi samningafundurinn haldinn í morgun í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Á þessum fyrsta fundi var afgreidd viðræðuáætlun og kemur meðal annars fram í þessari áætlun að samningsaðilar hafi það markmið að búið verði að ganga frá nýjum kjarasamningi fyrir 15. desember næstkomandi. Nú verður tíminn einn að leiða það í ljós hvort að sú áætlun muni takast eður ei.

Ekki er ólíklegt að lögð verði mikil áhersla á launaliðinn í komandi viðræðum og mun Verkalýðsfélag Akraness leggja ofuráherslu á að launakjör Norðuráls verði með sambærilegum hætti og annarra fyrirtækja í samskonar iðnaði. Við annað er alls ekki hægt að una. 

Fram hefur komið í máli forsvarsmanna Norðuráls að erfitt verði að fara í launalið samningsins á meðan óvissa ríkir varðandi nýjan Orku-, auðlinda- og umhverfisskatt. Verkalýðsfélag Akraness getur ekki tekið þátt í því að þessi óvissa varðandi nýjan orkuskatt hafi áhrif á komandi kjaraviðræður, enda er ekki hægt að sætta sig við að aðgerðir Ríkisstjórnar Íslands í skattamálum hafi áhrif á kjarasamningsviðræður.

Rekstrarskilyrði álfyrirtækja hafa skánað töluvert á liðnum mánuðum og nægir að nefna í því samhengi að í febrúar 2009 var álverð pr. tonn 1260 dollarar en í dag er álverðið komið upp í 1900 dollara og hefur hækkað um rúm 50% á áðurnefndu tímabili. Það er alveg ljóst að jákvæð þróun á álverði að undanförnu mun gefa stéttarfélögunum byr undir báða vængi með að ná ásættanlegum kjarasamningi fyrir starfsmenn Norðuráls.

Næsti fundur er fyrirhugaður á næsta föstudag hjá ríkissáttasemjara.

29
Oct

Launahækkanir koma til framkvæmda 1. nóvember

Þann 1. nóvember nk. munu kauptaxtar verkafólks almennt hækka um 6.750 kr. og taxtar iðnaðarmanna um 8.750 kr. Þá er einnig gert ráð fyrir grunnhækkun launa um 3,5% en frá henni dragast launahækkanir frá og með 1. janúar 2009 til og með 1. nóvember, þ.m.t. vegna hækkunar kauptaxta. Hinn 1. júní 2010 skulu laun hækka um 2,5% en hækki laun meira vegna sérstakrar hækkunar kauptaxta, gildir sú hækkun.

28
Oct

Kemur hækkun persónuafsláttar til framkvæmda eða ekki?

Nú hefur komið í ljós að launafólk mun fá launahækkun 1. nóvember nk. þannig að launatjón launþega vegna afsals og frestunar á launahækkunum verður ekki meira en orðið er.

Það hefur áður komið fram hér á heimasíðunni að verkafólk sem starfar á berstrípuðum lágmarkstöxtum hefur verið þvingað til að afsala sér launahækkunum sem nema allt að 100.000 kr. á umræddu tímabili.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness veltir því fyrir sér á hvaða forsendum atvinnurekendur sjá sér fært núna að standa við þær launahækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars sl. Sérstaklega í ljósi þess að fátt virðist hafa orðið að veruleika í margumtöluðum stöðugleikasáttmála og VLFA veltir því líka fyrir sér hvort ekki sé öruggt að gengið hafi verið frá því við ríkisstjórn Íslands að persónuafsláttur hækki í samræmi við það sem yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008 segir til um.

Það væri með ólíkindum ef stjórn sem gefur sig út fyrir að vera félagshyggju- jafnaðar og velferðarstjórn ætli sér ekki að standa við hækkun persónuafsláttar eins og um var samið. Á þeirri forsendu þurfa aðilar vinnumarkaðarins að upplýsa almenning um hvort búið sé að ganga frá því hvort persónuafsláttur komi til framkvæmda um áramótin eða ekki.

Formaður félagsins er þeirrar skoðunar að afsal og frestun kjarasamninga hafi verið stórkostleg mistök í ljósi þess að verkafólk var þvingað til að afsala sér þessum hækkunum og það hjá fyrirtækjum sem klárlega hafa fulla burði til að standa við gerða samninga. Nægir að nefna í því samhengi öll fyrirtæki sem starfa í útflutningi.

Samkvæmt Hagstofu Íslands eru rúmlega 1.600 fyrirtæki sem hafa á síðustu 12 mánuðum starfað í útflutningi. Þetta er ekki nákvæm tala, en þetta er nálgun eins og Hagstofan tjáði formanni Verkalýðsfélags Akraness. Það væri því fróðlegt að vita hversu margir einstaklingar starfa hjá þessum fyrirtækjum, en ljóst er að um tugi þúsunda einstaklinga er að ræða. Fyrirtæki sem notið hafa góðs af þeirri gengislækkun sem orðið hefur á undanförnum misserum.

27
Oct

Helgi Seljan svarar Guðmundi Gunnarssyni formanni RSÍ

Guðmundur Gunnarsson formaður RSÍ skrifar inná blogg sitt á eyjan.is í dag um aðdraganda að Kastljósþætti sem formanni Verkalýðsfélags Akraness var boðið í gær til að ræða hin ýmsu málefni verkalýðshreyfingarinnar.  Guðmundur gagnrýnir þáttastjórnandann Helga Seljan harkalega í umræddu bloggi.

Það kom einnig fram í skrifum formanns RSÍ að hann hafi ekki minnstu hugmynd hvaða tillögur formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur sett fram um  lífeyrissjóðina, Guðmundur segir orðrétt ,"hef aldrei heyrt þær og færi vart að mæta í viðtal um það, enda ekki mitt að dæma þær tillögur". 

Þessi skrif formanns RSÍ eru stórfurðuleg og er þar vægt að orði kveðið, var hann ekki á ársfundinum þar sem tillaga VLFA um lífeyrissjóðina var til umfjöllunar?  Jú, formaður RSÍ var á ársfundi ASÍ og tók meira segja til máls um tillöguna og því til viðbótar hefur formaður RSÍ skrifað grein um tillögu VLFA á heimsíðu RSÍ sjá hér.  Þessi skrif formanns RSÍ eru því með öllu óskiljanleg.

Hann gagnrýndi Helga Seljan umsjónarmann Kastljós harðlega í umræddu bloggi.  Helgi Seljan svarði Guðmundi Gunnarssyni í dag á Pressunni sjá HÉR .

 Svar Helga Seljan umsjónarmanns Kastljós er hér að neðan í heild sinni

"Ég finn mig knúinn til að svara og í leiðinni leiðrétta stóryrtar stílæfingar Guðmundar Gunnarssonar, formanns Rafiðnaðarsambands Íslands, á vefsvæði Guðmundar á Eyjunni, sem seinna birtust á Kaffistofu Pressunar:

Guðmundur fer um víðan völl í Eyjupistli sínum varðandi það hvernig staðið var að bókun í Kastljós gærkvöldsins.   

Eftir að hafa lesið greinina í morgun fórum við í ritstjórninni aftur yfir atburði gærdagsins. Í framhaldinu töldum við einsýnt að í seinna samtali okkar við Guðmund, sem reyndar fór fram með milligöngu upplýsingafulltrúa ASÍ, hefði átt sér stað einhver misskilningur sem fælist í því að við hefðum talið skýrt að Guðmundur hefði ekki viljað mæta Vilhjálmi Birgissyni í umræðum um deilumál Alþýðusambandsins og gagnrýni þess síðarnefnda. Hann hefði hins vegar ekki talið svo vera. Í kjölfarið var Guðmundi gerð grein fyrir þessu og hann í leiðinni beðin afsökunar á því sem við héldum að væri misskilningur. Eðlilega.

Hins vegar kom fram í samskiptum okkar í kjölfarið staðfesting Guðmundar á því að Upplýsingafulltrúinn hefði beint þeirri spurningu til Guðmundur hvort hann vildi vera gestur þáttarins ásamt Vilhjálmi. Þessu boði hafnaði Guðmundur hins vegar líkt og því fyrra, sem snerist um að fá hann í urmæður um Stöðugleikasáttmálann, sem fyrst stóð til að yrði umfjöllunarefni í þættinum. Þar með var ljóst að Guðmundur hafði þvert ofan í fyrri stílfærðar yfirlýsingar neitað að mæta Vilhjálmi.

Því var ekki rangt farið með að segja í upphafi þáttarins í gær að hann hefði ekki viljað mæta Vilhjálmi í umrætt sinn. Guðmundur var reyndar aldrei tekin sérstaklega út úr þessum hópi þremenninganna þegar viðmælandi þáttarins var spurður hvers vegna hann teldi að enginn vildi mæta honum, líkt og Guðmundur heldur fram. Látum það skraut í skrifum Guðmundar þó liggja milli hluta.

Hvað varðar fullyrðingar Guðmundar um að félagar hans, Kristján Gunnarsson og Sigurður Bessason, hafi tjáð okkur að þeir gætu ekki komið vegna fundarhalda, er það ekki rétt. Þeir gáfu báðir mjög skýrt til kynna að þeir kysu ekki að ræða gagnrýni Vilhjálms með honum. Svo einfalt var það. Guðmundur verður að eiga túlkun á þessu símtali við þessa samstarfsmenn sína. Ekki mig.

Og svo það sé líka leiðrétt hér þá var Guðmundi aldrei tjáð í samtali okkar í gær, sem Guðmundur fer reyndar rétt með að hafi átti sér stað að ganga fjögur í gærdag, að hann yrði einn í fyrirhuguðum umræðum um stöðugleikasáttmálann. Svo því sé líka haldið til haga.

Það að umsjónarmenn Kastljóssins taki fram í upphafi viðtala ef tilteknir einstaklingar hafi ekki getað eða kosið að mæta í umræður eða viðtöl vegna þess sem til umfjöllunar er, er ekki óalgengt. Slíkt felur ekkert í sér annað en útskýringar fyrir áhorfendur þáttarins á fjarveru einstaklinga eða tiltekinna sjónarmiða, eftir atvikum.

Vanstillt og vonandi vaníhuguð gífuryrði Guðmundar Gunnarssonar um sóðagryfjur, leikfléttur og aðrar annarlegar hvatir mínar í hans garð eru vart svaraverðar. Rétt er þó, svo það liggi kristaltært fyrir, að þeim er vísað rakleitt í garðinn til Guðmundar sjálfs".
Helgi Seljan.
27
Oct

Ætlar félagshyggju-, jafnaðar- og velferðarstjórn að svíkja þá tekjulægstu?

Eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að persónuafsláttur hækki á næsta ári eins og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008 segir til um. Persónuafslátturinn er í dag 42.250 krónur, en ef staðið yrði við það loforð sem verkalýðshreyfingin fékk við gerð síðasta samnings þá ætti persónuafslátturinn að fara í rétt rúmar 49.000 krónur sem er hækkun upp á rétt tæpar 7000 krónur á mánuði.  Hægt að lesa yfirlýsingu ríkissjórnar frá 17. febrúar 2008 hér

Formaður félagsins gerði alvarlegar athugasemdir við það á ársfundi Alþýðusambands Íslands að ekki skuli hafa verið gengið frá því í stöðugleikasáttmálanum margumtalaða að hækkun persónuafsláttar kæmi til framkvæmda. Það liggur fyrir að hækkun persónuafsláttar nýtist þeim tekjulægstu hvað best. Við erum eins og áður hefur komið fram að tala um 7000 króna hækkun sem er örlítið meira heldur en launataxtar eiga að hækka um 1. nóvember samkvæmt kjarasamningi frá 17. febrúar 2008.

Það er með ólíkindum að það skuli vera ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju-, jafnaðar- og velferðarstjórn sem ætli ekki að standa við það samkomulag sem gengið var frá í febrúar 2008 sem var grunnurinn að því að gengið var frá hófstilltum kjarasamningum á sínum tíma.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að það sé ekki hægt undir nokkrum kringumstæðum að sætta sig við það að persónuafslátturinn komi ekki til framkvæmda um næstu áramót eins og um hefur verið samið enda er verðtrygging persónuafsláttar eitt af aðalbaráttumálum verkalýðshreyfingarinnar og við slíkt er ekki hægt að una.

Formaður félagsins var í Kastljósi í gærkveldi þar sem málefni verkalýðshreyfingarinnar voru til umfjöllunar.  Horfa hér

26
Oct

Formaður gagnrýndi forystu ASÍ á ársfundi sambandsins

Ársfundi Alþýðusambands Íslands lauk á föstudaginn og það er alveg óhætt að segja að hart hafi verið tekist á um hin ýmsu mál á fundinum. Formaður félagsins hélt ræðu á fimmtudeginum þar sem hann gagnrýndi forystu ASÍ harðlega. Byggðist sú gagnrýni fyrst og fremst á endurskoðun kjarasamninga, stöðugleikasáttmálanum og þeirri skoðun formannsins að verkalýðshreyfingin hafi fjarlægst grasrótina ískyggilega á undanförnum misserum.

Formaður gagnrýndi það í sinni ræðu að verið væri að gefa fyrirtækjum sem hefðu fjárhagslega burði til að standa við gerða samninga afslátt á þeim launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars sl. Nefndi hann í sinni ræðu sérstaklega útflutningsfyrirtækin, en það liggur fyrir að fyrirtæki í útflutningi hafa aldrei haft jafngóð rekstrarskilyrði og nú. Hann nefndi líka þá staðreynd að olíufyrirtækið N1 hafi skilað hálfum milljarði í hagnað en fyrirtækið hafi skýlt sér á bak við þá staðreynd að ASÍ væri búið að ganga frá samkomulagið við Samtök atvinnulífsins um frestun launahækkana.

Formaður sagði einnig að það eina sem væri búið að rætast hvað varðaði stöðugleikasáttmálann væri sú blákalda staðreynd að launafólk hafi verið þvingað til að afsala sér og fresta sínum launahækkunum. Annað hafi ekki orðið að veruleika í þessum sáttmála sem öllu átti að redda fyrir launþega þessa lands.

Hægt er að lesa ræðu formanns Verkalýðsfélags Akraness hér.

22
Oct

Ársfundur Alþýðusambands Íslands hefst í dag

Ársfundur Alþýðusambands Íslands hefst í dag. Fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness á ársfundinn eru Þórarinn Helgason, Jóna Adolfsdóttir, Sigurður Guðjónsson, Bryndís Guðjónsdóttir, Jón Jónsson og Vilhjálmur Birgisson.

Yfirskrift fundarins er: byggjum réttlátt þjóðfélag þar sem áherslan verður á hag heimilanna, efnahags- og kjaramál og atvinnumál og samfélagslega ábyrgð. Auk þess er viðbúið að til umræðu á ársfundinum verði stöðugleikasáttmálinn, endurskoðun kjarasamninga og tillaga stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness um breytingar á samningi um lífeyrismál.

Tillaga Verkalýðsfélags Akraness gengur út á það að miðstjórn Alþýðusambands Íslands verði falið að vinna að því að atvinnurekendur hverfi úr stjórnum lífeyrissjóða og að unnið verði að breytingum á reglugerðum sjóðanna með þeim hætti að sjóðsfélagar kjósi sér stjórnarmenn með beinni kosningu. 

Hægt að lesa tillöguna með því smella hér.

Nánari upplýsingar um ársfundinn má finna hér.

19
Oct

Hluti stjórnarmanna VR styður tillögu Verkalýðsfélags Akraness sem lögð verður fyrir ársfund ASÍ

Skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness barst rétt í þessu stuðningsyfirlýsing vegna tillögu VLFA um stóraukið lýðræði við val á stjórnarmönnum lífeyrissjóðanna. Yfirlýsingin er frá hluta af stjórnarmönnum VR, sem er eitt stærsta félagið innan Alþýðusambands Íslands.

Það er afar ánægjulegt að fá þessa stuðningsyfirlýsingu nú þegar einungis þrír dagar eru þar til ársfundur Alþýðusambands Íslands hefst. Þar mun tillaga VLFA einmitt verða tekin til umfjöllunar og afgreiðslu.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur tekið tillögu VLFA til umsagnar og samþykkir því miður einungis fyrri hluta tillögunnar og leggur til að staðið verði fyrir almennri umræðu aðildarfélaga ASÍ með það að markmiði að leggja drög að endurskoðaðri stefnu ASÍ í lífeyrismálum.

Seinni hluta tillögu VLFA, sem skiptir hvað mestu máli og lýtur að breytingu á reglugerðum sjóðanna þannig að sjóðsfélagar kjósi stjórnarmenn beinni kosningu, er miðstjórn ASÍ ekki tilbúin til að samþykkja. Þessi afstaða miðstjórnar er stjórn VLFA óskiljanleg. Í umsögn miðstjórnar ASÍ er lagt til að seinni hluti tillögu VLFA verði ekki tekinn fyrir sérstaklega á ársfundinum en tillagan verði hins vegar til umfjöllunar í almennri umræðu meðal aðildarfélaga ASÍ um lífeyrismál. Miðstjórn telur hins vegar ekki ástæðu til að gefa sér fyrirfram neina niðurstöðu í þeirri vinnu er lýtur að breytingum á stjórnarskipun lífeyrissjóðanna.

Hægt er að lesa tillögu stjórnar og trúnaðarráðs VLFA hér.

Hægt er að lesa umsögn ASÍ hér.

Hægt er að lesa stuðningsyfirlýsingu fulltrúa VR hér.

14
Oct

Formaður VLFA í þættinum Hrafnaþingi

Formaður félagsins var gestur í þættinum Hrafnaþingi á sjónvarpsstöðinni Inn hjá Ingva Hrafni Jónssyni í gær.

Formaðurinn kom víða við í viðtalinu m.a endurskoðun kjarasamninga frá því vor, fyrirhugaðan Orku- umhverfs og auðlindaskatt sem mun stofna störfum í stóriðju í hættu ef af honum verður.  Einnig kom formaðurinn inn á lífeyrissjóðina og hugmyndina að stórauknu lýðræði við stjórnarval sjóðanna.  Hægt að sjá þáttinn því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image