• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

19
Sep

Tillaga um stóraukið lýðræði við stjórnarkjör lífeyrissjóðanna

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á fundi sínum rétt í þessu tillögu sem lögð verður fyrir ársfund Alþýðusambands Íslands sem haldinn verður dagana 22. og 23. október nk.  Tillagan hefur nú þegar verið send forseta ASÍ en samkvæmt 24. grein laga ASÍ er kveðið á um að mál þau og tillögur sem einstök aðildarsamtök óska að tekin verði fyrir á fundinum, skuli send miðstjórn einum mánuði fyrir ársfund. Skal miðstjórn leggja mál þau og tillögur fyrir fundinn, ásamt umsögn sinni.

Tillaga Verkalýðsfélags Akraness gengur út á það að miðstjórn Alþýðusambands Íslands verði falið að vinna að því að atvinnurekendur hverfi úr stjórnum lífeyrissjóða og að unnið verði að breytingum á reglugerðum sjóðanna með þeim hætti að sjóðsfélagar kjósi sér stjórnarmenn með beinni kosningu. Hægt að lesa tillöguna með því smella hér.

Það er mjög mikilvægt að í þessari tillögu er verið að stórauka lýðræðið þannig að allir sjóðsfélagar, bæði greiðendur og lífeyrisþegar, hafi möguleika á því að bjóða sig fram til stjórnarsetu í lífeyrissjóðum innan ASÍ.

Það eru komin 40 ár frá því að Alþýðusamband Íslands gerði fyrst samning sem kveður á um að atvinnurekendur skuli eiga helming stjórnarmanna á móti stéttarfélögunum. Fyrsti samningurinn var gerður 1969, sá samningur var síðar endurnýjaður 12. desember 1995 og í honum er einnig kveðið á um jafna skiptingu stjórnarmanna.

Í greinargerð með tillögu stjórnar og trúnaðarráðs VLFA segir m.a.:

Það er öllum ljóst að traust og trúverðugleiki lífeyrissjóðanna hefur beðið gríðarlega hnekki á undanförnum misserum. Þetta traust verður verkalýðshreyfingin að byggja upp aftur og einn liður í því að byggja upp traustið og trúverðugleikann á ný er að atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóðanna,

Það eru engin haldbær rök fyrir því að atvinnurekendur skuli sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna. Það er t.a.m. afar óeðlilegt að atvinnurekendur séu að taka ákvörðun um fjárfestingarleiðir þegar liggur fyrir að krosseignatengsl og hagsmunaárekstrar fulltrúa atvinnurekenda í sjóðunum geta klárlega skarast á við hagsmuni sjóðsfélaga.

Það þarf einnig að stórauka lýðræði innan lífeyrissjóðanna, það þarf að tryggja að hinn almenni sjóðsfélagi hafi tækifæri til að bjóða sig fram til stjórnarsetu að uppfylltum hæfniskröfum skv. 31. grein laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða frá árinu 1997.

Það þarf að tryggja að stjórnarmenn verði kosnir beinni kosningu af sjóðsfélögum. Stóraukið lýðræði sjóðsfélaga er gríðarlega mikilvægur þáttur í að byggja upp traust og trúverðugleika lífeyrissjóðanna að nýju.

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það að atvinnurekendur hafa klárlega reynt að nýta sér lífeyrissjóðina í gegnum árin og nægir að nefna tilraun Baugs og FL Group til að stofna sér lífeyrissjóð fyrir sína starfsmenn vegna þess að þeir voru óánægðir með fjárfestingarstefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Í frétt á ruv.is frá árinu 2006 segir m.a. um það mál: “Þá ríkir mikil óánægja meðal stjórnenda Baugs og FL Group með fjárfestingastefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sem þeir telja beitt gegn sér og sínum félögum.” Sjá fréttina í heild sinni hér:

Í frétt á mbl.is um það mál frá árinu 2004 er haft eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs að hann telji “nauðsynlegt að ferskir vindar blási reglulega í stjórnum slíkra sjóða og þannig verði komið í veg fyrir að einstakir stjórnarmenn líti á sjóði sem þeirra eigin”.

Sjá þá frétt í heild sinni hér:

 

Á þessum fréttum sést að til eru atvinnurekendur sem klárlega gera allt til þess að verja sína hagsmuni með öllum tiltækum ráðum og er gríðarleg hætta á því að hagsmunir eigenda lífeyrissjóðanna, sem eru sjóðsfélagarnir, geti skaðast sökum þess. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi tillaga stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness fái ekki örugglega fullan stuðning á ársfundi Alþýðusambands Íslands. 

Þessi tillaga stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness hefur fengið gríðarlega umfjöllun enda er hér um afar viðkvæmt mál að ræða bæði fyrir atvinnurekendur og þá sem farið hafa með völdin í lífeyrissjóðum landsmanna til þessa.

Fjallað var um tillöguna á mbl.is sjá hér.  Einnig var fjallað tillöguna á ruv.is hlusta hér og einnig viðtal við formann félagsins í Reykjavík síðdegis hlusta hér.

Að lokum var rætt við fulltrúa frá Samtökum atvinnulífsins um tillöguna á ruv í dag. Hlusta hér.

15
Sep

Enn hækkar matvaran

Enn eru miklar hækkanir á matvörum í verslunum, að því er fram kemur í nýrri mælingu verðlagseftirlits á vörukörfu ASÍ sem gerð var um sl. mánaðarmót. Við samanburð á mælingu verðlagseftirlitsins frá því í maí, hækkar vörukarfan um 2-5% hjá öllum verslunarkeðjum nema Nóatúni, þar sem karfan lækkar um 1%.

Hægt er að skoða niðurstöður í heild sinni með því að smella hér.

Það er sorglegt fyrir verkafólk sem og aðra launþega að horfa upp á verslunareigendur, ríki, sveitarfélög, tryggingafélög og olíufélög varpa sínum vanda viðstöðulaust út í verðlagið á sama tíma og launþegar horfa fram á gríðarlegt tekjutap, stóraukna greiðslubyrði og skattahækkanir samhliða skerðingu á opinberri þjónustu.

Ekki er hægt að komast hjá því að minnast á það að almennir launþegar voru þvingaðir til að fresta sínum áður umsömdu launahækkunum. Svo tala menn um stöðugleikasáttmála, sáttmála sem einungis hefur byggst á því að launafólk hefur orðið af sínum áður umsömdu launahækkunum.

14
Sep

Öflugur starfskraftur óskast í 50% starf á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness

Vegna aukinna verkefna óskar Verkalýðsfélag Akraness eftir öflugum starfskrafti í 50% starf á skrifstofu félagsins. Vinnutími er frá kl. 12 til 16.

Í starfinu felst þjónusta við félagsmenn, símsvörun, iðgjaldaskráning og tilfallandi verkefni.

Leitað er að einstaklingi sem er jákvæður, lipur í mannlegum samskiptum, tekur frumkvæði og getur unnið sjálfstætt. Góð tölvu- og enskukunnátta er nauðsynleg. Viðkomandi þarf að geta hafið störf strax.

Um framtíðarstarf er að ræða á lifandi vinnustað.

Nánari upplýsingar veitir Vilhjálmur í símum 8651294 og 4309900.

Umsóknarfrestur er til kl. 16:00 fimmtudaginn 17. september. Umsóknum skal skilað á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13, 300 Akranes eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

11
Sep

Vel heppnuð ferð eldri félagsmanna

Í gær bauð Verkalýðsfélag Akraness eldri félagsmönnum sínum ásamt mökum í dagsferð undir dyggri leiðsögn Björns Finsen. Þessi ferð er árlegur viðburður í starfsemi félagsins og var að þessu sinni farið á Snæfellsnesið. 

Það voru 100 félagsmenn sem ásamt þremur fulltrúum félagsins og leiðsögumanni lögðu af stað í tveimur rútum frá Akranesi í ágætis veðri. Ekið var sem leið lá til Borgarness en fyrsti viðkomustaður var kirkjan á Borg á Mýrum.

Þaðan var ekið til Stykkishólms og byrjað á því að skoða kirkjuna undir leiðsögn kirkjuvarðar en kirkjan er afar björt og falleg.

Næsti viðkomustaður var Hótel Stykkishólmur þar sem snæddur var hádegisverður. Boðið var upp á súpu og steiktan fisk og ríkti mikil ánægja með það sem á boðstólum var.

Frá Stykkishólmi var ekið um Skógarströnd sem leið lá til Eiríksstaða í Haukadal.  Þar var skoðað víkingasafnið að Eiríksstöðum í Haukadal sem var afar fróðlegt og gaman.

Umsjónarmaður staðarins segir fyrrverandi íbúa Eiríksstaða hafa verið einn af örfáum góðum útrásarvíkingum landsins.

Eiríksstaði byggði Eiríkur rauði og Þjóðhildur kona hans en á meðal sona þeirra var landkönnuðurinn Leifur heppni.

Eiríksstaðir voru vígðir árið 2000 í tilefni af því að þá voru þúsund ár liðin frá landafundum þeirra feðga. Af sama tilefni var þar opnað lifandi víkingasafn í svokölluðum Eiríksskála, sem byggður er að fyrirmynd fornra skálarústa á staðnum.

Að lokinni skoðun á víkingasafninu var ekið sem leið lá á Hótel Hamar þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti áður en haldið var heim á leið.

Þessi ferð þykir hafa heppnast ákaflega vel og kann félagið öllum þeim sem að ferðinni komu hinar bestu þakkir fyrir.

08
Sep

N1 hafnar áskorun Verkalýðsfélags Akraness

Verkalýðsfélagi Akraness barst rétt í þessu bréf frá Hermanni Guðmundssyni, forstjóra N1, þar sem áskorun félagsins um að fyrirtækið standi við áður umsamdar launahækkanir vegna góðrar afkomu er svarað.

Í svarbréfi til félagsins segir m.a. þetta: "Það er rétt sem fram kemur í áskorunarbréfinu að afkoma N1 á fyrri hluta ársins var viðunandi. Það er hins vegar mikil óvissa um framhaldið. Á síðasta starfsári N1 varð tap af rekstrinum uppá 1.200 milljónir króna."

Einnig segir: "Skuldir fyrirtækisins hafa hækkað mikið á s.l. einu og hálfu ári eins og hjá öllum fyrirtækjum og heimilum landsins. Fyrirsjáanlegt er að á næstunni verður það hörð barátta að greiða þær niður þannig að þær komist aftur í fyrra horf."

Að endingu kemur fram í svarbréfinu: "Við munum bæta við laun okkar starfsfólks í samræmi við samkomulag sem gert var þ. 25. júní sl. á milli ASÍ og SA."

Formaður félagsins harmar þessa afstöðu forsvarsmanna N1, sérstaklega í ljósi þess að afkoma fyrirtækisins var eins og áður hefur komið fram góð á fyrstu 6 mánuðum þessa árs. Vissulega er það eflaust rétt hjá forstjóra fyrirtækisins að skuldastaða fyrirtækisins hefur hækkað mikið undanfarið. Rétt er að minna forstjóra N1 á að greiðslubyrði almenns verkafólks hefur stórhækkað á undanförnum misserum og á þeirri forsendu hefði verið mjög mikilvægt að verkafólk sem starfar á berstrípuðum lágmarkstöxtum hefðu fengið sínar hóflegu launahækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars sl.

Hins vegar kemur það formanni Verkalýðsfélags Akraness ekki á óvart að fyrirtæki nýti sér þann afslátt sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands gengu frá og gerir það að verkum að almennt verkafólk hefur orðið af allt að 100.000 kr. launahækkun.

Það hefur komið fram hér á heimasíðunni að VLFA er alfarið tilbúið að aðstoða fyrirtæki sem klárlega eiga í vandræðum vegna þess ástands sem nú ríkir, en það er engin ástæða til að gefa fyrirtækjum sem skila hundruðum milljóna í hagnað tækifæri til að komast hjá því að standa við gerða samninga.

Það er því miður grátlegt fyrir almennt verkafólk að verða af upp undir 100.000 kr. vegna linkindar samninganefndar ASÍ við endurskoðun kjarasamninga að undanförnu. Það átti klárlega að tryggja að vel stæð fyrirtæki myndu standa við gerða samninga, fyrirtæki sem starfa í útflutningi og fyrirtæki sem hafa möglunarlaust varpað sínum vanda beint út í verðlagið eins og til að mynda olíufélögin.

Hægt er að lesa bréf N1 sem Verkalýðsfélagi Akraness barst í dag með því að smella hér.

07
Sep

Beðið eftir svörum frá stjórn N1

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins sendi stjórn Verkalýðsfélags Akraness stjórn N1 áskorun um að fyrirtækið greiddi starfsmönnum sínum þær áður umsömdu launahækkanir sem hefðu átt að taka gildi 1. mars ef ekki hefði komið til samkomulags um frestun á milli samninganefndar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Áskorunin var send út sökum þess að N1 skilaði tæpum 500 milljónum í hagnað eftir skatta á fyrstu 6 mánuðum ársins. 

Það er skoðun stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að þau fyrirtæki sem hafi fjárhagslega burði til að standa við þann hóflega gerða kjarasamning frá 17. febrúar 2008 eigi að standa við hann.

Einnig kom einnig fram hér á heimasíðunni að fjárhaglegt tjón almenns verkamanns vegna þessarar frestunar og linkindar í forystu ASÍ mun nema um eitt hundrað þúsund krónum og munar um minna fyrir verkafólk sem starfar á berstrípuðum lágmarkstöxtum. 

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness væntir þess að fá skriflegt svar frá stjórn N1 um þá áskorun sem félagið sendi frá sér, um leið og stjórn N1 hefur fjallað um erindi Verkalýðsfélags Akraness.

Hægt er að lesa áskorun stjórnar VLFA til stjórnar N1 með því að smella hér.

04
Sep

Árleg dagsferð eldri félagsmanna verður farin í næstu viku

Næstkomandi fimmtudag munu um 100 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness 70 ára og eldri halda í dagsferð sem félagið býður árlega upp á.  Lagt verður af stað kl. 9:00 frá Íþróttamiðstöðinni að Jaðarsbökkum.

Þetta árið verður farið um Snæfellsnes og Dali. Áætluð heimkoma er um kl. 18:30.

Áð verður á nokkrum stöðum í ferðinni og m.a. boðið uppá léttan hádegisverð á Hótel Stykkishólmi. Boðið verður upp á aðrar veitingar um kaffileytið. Leiðsögumaður í ferðinni verður Björn Finsen.

Boðsbréf hefur verið sent til félagsmanna og fer skráning fram á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13 eða í síma 430-9900 og stendur hún til kl. 12:00 á hádegi miðvikudaginn 9. september n.k.

Myndir og fréttir úr ferðinni verða settar inn hér á heimasíðunni við fyrsta tækifæri.

03
Sep

Var tilgangurinn að koma Sementsverksmiðjunni út af sementsmarkaðnum?

Ráðherrar í heimsókn í verksmiðjunni fyrir fáeinum dögum síðanRáðherrar í heimsókn í verksmiðjunni fyrir fáeinum dögum síðanEins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa starfsmenn Sementsverksmiðjunnar samþykkt að fallast á tillögur framkvæmdastjóra verksmiðjunnar um að minnka starfshlutfall tímabundið niður í 50%. Þetta gera starfsmenn vegna þeirra erfiðleika sem fyrirtækið á nú við að etja sökum mikils samdráttar á byggingarmarkaði og ekki síður vegna þeirra grunsemda um að Aalborg Portland hafi hér á landi stundað undirboð á sementsmarkaðnum.

Það er staðreynd studd gögnum að danska fyrirtækið hefur selt sement undir markaðsvirði þegar það var að koma undir sig fótunum hér á landi. Rétt er að rifja upp viðtal í Nordjyllands Stiftstidende við forstjóra Aalborg Portland í Danmörku, Sören Vinter, í september 2002 kom fram sú gífurlega áhersla sem fyrirtækið legði á íslenska markaðinn enda hefði það náð 25 prósenta hlutdeild á aðeins tveimur árum. Í viðtalinu segir forstjórinn að hann líti á Ísland sem heimamarkað Aalborg Portland. Hann gekk svo langt að segja að til langs tíma litið yrði ekki pláss fyrir bæði Aalborg Portland og Sementsverksmiðjuna á íslenska markaðnum og Aalborg Portland sæi ákveðin tækifæri í yfirtöku á rekstri Sementsverksmiðjunnar á Akranesi.

Það er margt sem bendir til þess að það hafi verið tilgangur Aalborg Portland að koma Sementsverksmiðjunni út af markaðnum ef mark er takandi á viðtalinu hér að ofan.

Að sjálfsögðu eigum við Íslendingar að styða íslenska framleiðslu, verja íslensk störf og tryggja það að erlendir aðilar komi ekki hér inn á íslenskan markað og drepi niður íslenska framleiðslu með undirboðum sem einungis yrðu tímabundin.

Hægt er að lesa bréf framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar til viðskiptaráðs með því að smella hér.

01
Sep

Einhugur hjá starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar

Guðjón Guðjónsson aðaltrúnaðarmaður og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherraGuðjón Guðjónsson aðaltrúnaðarmaður og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherraAllir 45 starfsmenn Sementsverksmiðjunnar á Akranesi samþykktu í atkvæðagreiðslu í gær að ganga að tilboði fyrirtækisins um að fara í hálft starf frá 1. nóvember til 1. febrúar næstkomandi. Allir sem einn starfsmenn fyrirtækisins fara í hálft stöðugildi þennan tíma og gildir það jafnt um framkvæmdastjóra sem alla aðra starfsmenn.

Stjórnendur og starfsmenn verksmiðjunnar funduðu síðastliðinn föstudag ásamt formanni Verkalýðsfélags Akraness og forstöðumanni Vinnumiðlunarinnar á Vesturlandi.

Það er ríkir mikill einhugur í röðum starfsmanna Sementsverksmiðjunnar að standa vörð um fyrirtækið í þeim þrengingum sem nú ríkja á byggingamarkaði og við atkvæðagreiðsluna kom það berlega í ljós.

Fjölmargir starfsmenn verksmiðjunnar hafa áratuga langan starfsaldur að baki og vilja þeir með þessu leggja sitt af mörkum til þess að fyrirtækið lifi af þær hremmingar sem nú ríða yfir byggingarmarkaðinn.

Í byrjun febrúar verður farið í ofnstoppsvinnu og gert ráð fyrir að hún taki um einn mánuð. Því má gera ráð fyrir að kveikt verði upp í ofni verksmiðjunnar í byrjun mars en sem fyrr verður ástandið á byggingamarkaðinum og eftirspurn eftir innlendu sementi sem ræður því.

01
Sep

Áskorun til N1 lögð fyrir stjórn VLFA í kvöld

Í kvöld mun stjórn Verkalýðsfélags Akraness koma saman til fundar og eitt af málefnum fundarins er sú staðreynd að N1 var að skila 500 milljónum í hagnað á fyrstu 6 mánuðum ársins. Fyrir fundinn verður lögð áskorun til stjórnar N1 þar sem þess verður farið á leit við fyrirtækið að það greiði sínum starfsmönnum þær launahækkanir sem um var samið 17. febrúar 2008.

Eins og fram hefur komið á heimasíðunni þá var verkafólk þvingað til að afsala sér áður umsömdum launahækkunum. Nemur tap almenns verkamanns sem starfar eftir lágmarkstaxta upp undir 100.000 kr. vegna þess samkomulags sem ASÍ og SA gerðu á sínum tíma.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð verið á móti áður nefndu samkomulagi með þeim rökum að til væru fyrirtæki sem klárlega hefðu fjárhagslega burði til að standa við þann hófstillta kjarasamning sem gerður var þann 17. febrúar 2008. Nægir að nefna fyrirtæki sem starfa í útflutningi og fyrirtæki sem hafa möguleika á að varpa sínum vanda beint út í verðlagið.

Ef stjórn félagsins samþykkir þá áskorun sem fyrir hana verður lögð á fundinum í kvöld þá verður áskorunin send til stjórnar N1 á morgun.

Félagið hefur áður sent út áskorun til fyrirtækja þar sem þau fyrirtæki sem hafa fjárhagslega burði til eru hvött til að standa við gerða samninga.

Í gær var rætt var við formann félagsins í Reykjavík síðdegis. Hægt er að hlusta hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image