• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Nov

Verkafólk þvingað til að afsala sér sínum launum á sama tíma og stjórnendur taka sér tugmilljón króna bónusa

Í byrjun september sl. sendi Verkalýðsfélag Akraness áskorun á stjórn N1. Í áskoruninni krafðist VLFA, í ljósi þess að N1 skilaði tæpum hálfum milljarði í hagnað fyrstu 6 mánuði ársins, að fyrirtækið stæði við þær launahækkanir sem áttu að koma til framkvæmda 1. mars sl. Samninganefnd ASÍ og Samtök atvinnulífsins höfðu þá samið um að fresta þeim hækkunum vegna bágrar stöðu fyrirtækja í landinu.

Bensínafgreiðslumaður og aðrir starfsmenn olíufyrirtækja hafa nú þegar orðið fyrir launatjóni sem nemur á annað hundrað þúsunda króna vegna þess samkomulags sem ASÍ og SA gengu frá.

Nú kom fram í fréttum fyrir fáeinum dögum síðan að framkvæmdastjórar og aðrir yfirmenn N1 hafa síðustu daga innleyst afkomutengd laun sem þeir eiga hjá fyrirtækinu vegna góðrar afkomu þess á síðasta ári. Samkvæmt fréttum nema þessar upphæðir tugum milljóna króna.

Þetta gerist á sama tíma og áskorun Verkalýðsfélags Akraness var hafnað af stjórn fyrirtækisins og var vísað í samkomulag ASÍ og SA í því samhengi.

Í svari sem Verkalýðsfélagi Akranesi barst 8. september sl. frá forstjóra N1 segir m.a. þetta: "Það er rétt sem fram kemur í áskorunarbréfinu að afkoma N1 á fyrri hluta ársins var viðunandi. Það er hins vegar mikil óvissa um framhaldið. Á síðasta starfsári N1 varð tap af rekstrinum uppá 1.200 milljónir króna."

Einnig segir: "Skuldir fyrirtækisins hafa hækkað mikið á s.l. einu og hálfu ári eins og hjá öllum fyrirtækjum og heimilum landsins. Fyrirsjáanlegt er að á næstunni verður það hörð barátta að greiða þær niður þannig að þær komist aftur í fyrra horf."

Að endingu kemur fram í svarbréfinu: "Við munum bæta við laun okkar starfsfólks í samræmi við samkomulag sem gert var þ. 25. júní sl. á milli ASÍ og SA."

Það er grátlegt til þess að vita að almennt verkafólk sem starfar hjá þessu fyrirtæki skuli hafa verið þvingað til að afsala sér sínum launum á sama tíma og græðgisvæðing stjórnenda fyrirtækja heldur áfram þar sem menn taka tugi milljóna í bónusgreiðslur og ætlast til þess að almennt verkafólk horfi aðgerðalaust á.

Það er ennþá grætilegra að verkafólk skuli hafa verið þvingað til að fresta sínum launahækkunum ogt það með fullu samþykki samninganefndar ASÍ.

Krafa Verkalýðsfélags Akraness er enn til staðar, það er að launafólki verði greitt það fjárhagslega tjón sem það hefur orðið fyrir vegna þess gjörnings sem gerður var við frestun á þeim launahækkunum sem taka áttu gildi 1. mars sl. skv. kjarasamningum frá 17. febrúar 2008.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr: ætlar siðblinda og græðgi í íslenskum fyrirtækjum engan enda að taka?  Eitt er ljóst að verkafólki vítt og breitt um landið er gjörsamlega misboðið yfir þessum gjörningi.

Sjá fréttir um málið hér og hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image