• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Nov

Frábær afkoma Norðuráls

Fundað var í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Norðuráls. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur sú vinna fram að þessu aðallega farið í textabreytingar í kjarasamningnum og miðar þeirri vinnu ágætlega áfram. Samt sem áður eru nokkrar greinar sem ágreiningur er um og vonandi leysist hann von bráðar. Ekkert er farið að ræða um launalið samningsins sem skiptir jú starfsmenn hvað mestu máli.

Formaður hefur verið að kynna sér hvernig fyrirtækinu gekk rekstrarlega á síðasta ári og það er skemmst frá því að segja að afkoma Norðuráls á síðasta ári var glæsileg. Hagnaður fyrirtækisins nam rétt rúmum 16 milljörðum króna. Heildarvelta fyrirtækisins voru rúmir 47 milljarðar þannig að hagnaður nemur 34% af heildarveltu sem verður að teljast frábær árangur.

Heildarlaunakostnaður var rétt tæpir 3 milljarðar sem að gera 6,23% af heildarveltu fyrirtækisins sem verður að teljast afar lág tala. Í ljósi þeirrar staðreyndar að rekstur Norðuráls hefur verið afburðagóður, ekki bara á síðasta ári heldur nánast frá upphafi, er ljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun standa fast á því að launakjör starfsmanna verði bætt allverulega í þeim viðræðum sem nú standa yfir.

Það er einnig rétt að minna á að í febrúar fór álverðið niður í 1266 dollara pr. tonn en í dag er álverðið komið upp í 2000 dollara pr. tonn. Allt þetta og einnig það sem áður hefur komið fram mun hjálpa samninganefndinni að standa fast á sínum kröfum þegar kemur að launaliðunum.

Eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness mun sýna tennurnar í þessum viðræðum enda er komið að því að starfsfólkinu verði umbunað fyrir þann frábæra árangur sem náðst hefur á liðnum árum og þessi árangur næst alls ekki nema með góðu og hæfu starfsfólki.

Það er gríðarlega ánægjulegt að afkoma fyrirtækisins skuli hafa verið þetta jákvæð á síðasta ári, enda er stóriðjan á Grundartanga það sem heldur lífinu í öllu samfélaginu hér á Akranesi og nærsveitum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image